Færsluflokkur: Sauðfjárrækt

Sérhæfður sauðfjárræktarfróðleikur

Fékk áhugaverða fyrirspurn frá einum lesenda þessarar síðu um hvort ég vissi hvar upplýsingar um flokkun sláturlamba í Noregi væri að finna. Þar sem mun skemmtilegra er að grúska í svoleiðis gögnum en námsefninu sendi ég fyrirspurn á NSG. Þeir voru ekki lengi að benda mér á þetta og gerði ég því lauslegan samanburð á flokkun íslenskra og norskra lamba síðasta haust, ekki nema á valdi sérstakra sauðfjárræktarmanna að lesa útúr meðfylgjandi töflu. Njótið, þeir sem hafa áhuga á þessu.
 
Samanburður

Ráðstefna um sauðfjárrækt í Noregi

Fyrir þá lesendur síðunnar sem ekki hafa séð Bændablaðið fyrir viku síðan, þá er hér grein sem birtist eftir mig þar og skjalið sem vísað var í.

Helgina 13. og 14. febrúar sl. sótti undirritaður fyrir hönd Landssamtaka sauðfjárbænda, ráðstefnu um norska sauðfjárrækt og hvernig talið er að hún þróist á næstu árum. Rúmlega 250 manns frá flestum stöðum/héruðum í Noregi sátu ráðstefnuna.

Alls voru flutt 22 erindi á ráðstefnunni og má segja að efni þeirra hafi skipst í eftirfarandi meginflokka. a) skyldleikarækt og mál tengd henni; b) hvað kröfur á að gera til lambakjöts á komandi árum; c) ærnar, nýir eiginleikar í kynbótastarfi/betra kynbótamat? og d) hvers er að vænta á allra næstu árum.

Fyrst ræddu menn um skyldleikarækt, var almennt farið yfir fræðin bak við skyldleikarækt og hvaða afleiðingar hún getur haft í för með sér. Ekki kom fram hverjar afleiðingar hennar hafa verið á norskt sauðfé en alkunna er að skyldleikaræktarhnignun getur komið fram í ýmsum myndum, t.d. lakari frjósemi. Á undanförnum árum hafa sæðingar aukist mikið í Noregi og munu aukast meira á næstu árum, líkt og á Íslandi fá bestu hrútarnir mesta notkun en aðrir litla sem enga. Af þeim sökum horfa norskir sauðfjárræktarmenn til þess að setja þurfi einhverjar reglur svo skyldleikarækt aukist ekki of hratt í stofninum með hættu á skyldleikaræktarhnignun. Voru ýmsar leiðir til þess ræddar á ráðstefnunni og mun tíminn leiða í ljós hvað Norðmenn gera í þeim efnum.

Þegar kom að því að ræða hvaða kröfur eigi að gera til lambakjöts í framtíðinni var fyrst farið yfir kjötmarkaðinn hér í Noregi. En Norðmenn borða rétt um 330.000 tonn af kjöti á ári, tæp 3% þess eru flutt til landsins (9.200 tonn). Lambakjöt er með rúmlega 7% markaðshlutdeild (24.550 tonn) en 5% þess eru flutt til landsins (1.200 tonn). Var rætt hvað ætti að gera til að auka söluna og m.a. reynt að svara þeirri spurningu hvort ætti að bjóða uppá ferskt kjöt yfir lengra sölutímabil. Sú umræða hefur oft verið til umfjöllunar á Íslandi og á ráðstefnunni var svarið bæði já og nei. Even Nordal sem flutti erindið taldi réttara að leggja áherslu á gæði afurðanna, með því að bjóða frosið eða þýtt kjöt utan hefðbundinnar sláturtíðar frekar en bjóða uppá lambakjöt í misjöfnum gæðaflokkum á óhefðbundnum sláturtíma.

Við lok fyrri dags ráðstefnunnar var flutt erindi um skýrsluhaldskerfi Norðmanna sem er orðið veflægt og ekki ósvipað íslenska Fjárvís kerfinu. Það sem helst vakti athygli mína í erindinu var að 90% lamba síðasta vor, var merkt með rafrænu eyrnamerki. Einnig hið öfluga heilsuskráningarkerfi sem Norðmenn hafa komið sér upp, t.d. varðandi lyfjaskráningu.

Seinni ráðstefnudagurinn byrjaði síðan á umfjöllun um ærnar og hvaða kosti þær þurfi að hafa í framtíðinni. Ærnar þurfa jú að vera afurðasamar og heilsuhraustar til að hámarka tekjurnar sem þær gefa af sér, ýmsa þessa afurðaeiginleika er hægt að bæta með kynbótum en það krefst umfangsmeira skráningarforms sem er óvíst að bændur séu tilbúnir að vinna eftir. Einnig voru flutt nokkur erindi um rannsóknir á afurðaeiginleikum, t.d. hvort um erfðafræðileg tengsl væri að ræða varðandi vanhöld lamba, svo reyndist ekki vera.

Að lokum var síðan rætt um hvernig sauðfjárræktin myndi þróast á allra næstu árum, inntakið þar var að skýrsluhaldið sé aldrei mikilvægara en nú og kynbótamarkmið þurfi að vera vel hugsuð og skilgreind, einnig séu bændur með staðfasta stefnu í kynbótastarfinu mikilvægir.

 

Ráðstefnan var mjög áhugaverð og fékk mig til að hugsa um ýmis álitamál tengd sauðfjárræktinni. Ýtarlegri greinargerð um ráðstefnuna verður að finna á vef LS (www.saudfe.is) en jafnframt eiga erindin sem flutt voru að vera aðgengilega á vef Norsk Sau og Geit (www.nsg.no),  innan tíðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tímarit punktur is

Á www.timarit.is kennir ýmissa grasa. Þar sem ég nennti ekki að læra í dag ákvað ég að prenta upp framhald af þessari bloggfærslu um val á brundhrútum.
 

Úr ritinu Bóndi 3. blað 28. dag febrúarmánaðar 1851

FÁEINAR RELGUR UM FJÁRHÚSABYGGINU OG SAUÐFJÁRRÆKT

~3. grein um uppeldi og meðferð á hrútum~

Húsnæði skulu menn vanda sem best handa brundhrútum; og á það að vera rúmgott, þurrt og rakalaust, og heldur kalt en heitt. Brundhrúta skulu menn taka snemma inn á haustin og ekki seinna, þótt fullorðnir séu, en í 3. viku vetrar, og séu þeir ekki látnir út úr því, þá þarf ekki að sauma fyrir þá. Þegar saumað er fyrir hrúta og þeir svo látnir ganga með ánum langt fram á jólaföstu, eða fram undir jól, þá verða þeir kviðlausir, og geta svo ekki tekið eldinu, þegar farið er að gefa þeim, því þegar ærnar fara að beiða, stendur hvað yfir öðru allan daginn, en heldur sér ekki að jörðunni, og kemur svo hungrað heim að kvöldi, og er það auðsjáanlega illt bæði fyrir hrútana og ærnar, og þegar svo er farið að með brundhrútana, má nærri geta, hversu þeir verði ónýtir til undaneldis. Brundhrútum skal velja kjarngott hey, grænt og snemmslegið, og ætti það að vera taða, eða þá töðugæft úthey; ekki má gefa þeim sjaldnar en kvöld og morgna, og brynna skal þeim á degi hverjum, og er betra að brynna þeim tvisvar á dag, því þá drekka þeir minna í hvert skipti, en éta betur. Svo þeir verði hirtir sem best, þá væri gott að byggja þeim annaðhvort kofa út af fyrir sig nálægt bæ, eða þá, þar sem bæjarhús eru rúmgóð og rakalaus, að króa þá í einhverju þeirra, þar sem ekki er ónæði eða umgangur af mönnum; þess skulu menn gæta, að ætíð sé bjart á þeim, því allur peningur þrífst betur í birtu en myrkri. Sé lambhrútur vel alinn, þá má brúka hann handa 8 eða 10 ám, en þó ekki nema handa einni á dag. Það hafa menn fyrir satt, að stærri lömb komi undan lambhrútum en fullorðnum hrútum, en hitt er líka sannreynt, að undan fullorðnum hrútum kemur harðara fé en undan lambhrútum; og þótt lömbin kunni að vera nokkuð minni borin undan þeim fullorðnu, þá ná þau fullkomnum vexti með aldrinum, ef þau fá gott uppeldi. Til þess að varast alla ættgenga kvilla, væri óhættast að brúka ekki hrút til undaneldis fyrr en hann er á þriðja vetur, því þá eru líkindi til að kvillar séu komnir fram í honum, ef nokkrir eru, svo menn geti þá varast að hafa hann til undaneldis. Ekki má hafa hrút til undaneldis lengur en þangað til hann er 5 vetra. Fullorðnum hrút má ætla 50 ær, sé hann vel alinn, en þó ekki fleiri en 6 á dag. Ekki mega hrútar ganga úti með ánum á daginn um brundtímann, heldur skal hleypa þeim til ánna einu sinni á dag, helst á morgnana. Það er nóg að hleypa til hverri á einu sinni. Margir gefa ánum inni þann daginn, sem þær eru blæsma, og er það bæði betra fyrir ærnar sjálfar, því sjaldan halda þær sér að jörð þann dag, og séu þær úti, koma þær oft óeirð í hitt féð, svo það stendur verr á, og sé ekki staðið yfir ánum, hlaupa þær oft heim að húsi um miðjan dag, og hitt féð eltir þær. Það er líka ætlan manna, að lömbin verði vænni, ef ánum er gefið vel um brundtímann. Þegar brundtíminn er úti, þá má láta fullorðna hrúta ganga úti með ánum á daginn, en gefa skal þeim vel á hverju kvöldi, og hirða þá að öllu eins vel og áður. Þegar svo er farið með fjársauði, sem hér er gjört ráð fyrir, þá má ætla að þeir séu bæði feitir og kviðmiklir, svo að jafnvel fullorðnum ám að konungsnefi. Þess verða menn að gæta vandlega áður en til er hleypt, hvort ekki sé brundmaðkur á hrútum, og sé svo, þá verða menn að nema hann burtu með beittum knífi.

Margt af þessu á við enn þann dag í dag þó sumt þarna samræmist ekki alveg kynbótafræðinni sem slíkri, allavega væri gaman að vita hvort það sé rétt að stærri lömb fæðist undan lambhrútum en öðrum eða þá að komi harðara fé undan fullorðnum hrútum en lambhrútum. Held að hvoru tveggja yrði erfitt að sanna með vísindalegum rökum í dag. 


Af kreppu

Ætli sé ekki kominn tími á bjartsýnisblogg um fjármál þar sem allir blogga neikvætt um efnahagsmál og peningamál þessa dagana, ég nenni því ekki enda er ég búin að loka á þessar leiðindafréttir um að þjóðarskútan sé strönduð og allt sé að fara til fjandans og þar fram eftir götunum. Það er vitað mál að meðan maður hugsar jákvætt þá kemur betri tíð með blóm í haga, mun allavega gera það í sveitinni.
 
Annars er það helst að frétta að skólinn gengur bara sinn vanagang, styttist í próf og þá er víst best að taka fram lærdómsgírinn og standa sig svo maður klári nú þennan skóla í vor, 4 próf í desember og reyndar 3 annarverkefnum enn ólokið en þetta reddast allt fyrir 18. desember og þá ætla ég líka að njóta þess að halda íslensk jól og jafnvel dvelja eitthvað fjárhúsinu og ráðskast með erfðaefni eigin fjár á fjórum fótum.
 
Þó svo að væri nú gott að vera í Kívílandi þá jafnast ekkert á við íslenskan vetur með tilheyrandi myrkri og kulda, sumarhitinn var fínn en bara í temmilegu magni. Næstkomandi mánudag á ég heimboð ásamt nokkrum vel völdum Hvanneyringum á Bessastaði þar sem Ólafur og Dorrit langar að hitta okkur. Þó að ég sé frá stórasta landi í heimi vona ég að ég sé ekki stórasti maður stórasta lands í heimi en hvað um það.
 
Niðurstöður í skýrsluhaldinu eru komnar í hús og er ég bara nokkuð sáttur með þær þó svo að frjósemin síðasta vor hafi verið með sú lakasta frá því ég man eftir mér en allavega 29,6 kg eftir hverja kind og vanhöld með því lægsta sem sést eða 1,75 lömb fædd og 1,72 lömb til nytja. Þeir hrútar sem voru að toppa sem lambafeður í haust eru þeir sömu og gerðu það gott í afkvæmarannsókninni eða Skugga-Sveinn Gránason og Stormur Catson. Hvað mæðraeiginleika varðar er enginn sérstakur toppur en þó standa dætur Hrings alltaf fyrir sínu en hann er einmitt afi Skugga-Sveins svo ég bind vonir við hann sem ærföður eftir nokkur ár.
 
Af erfðaefni kynbótabankans sem fer seint í þrot eða verður þjóðnýttur ætla ég að nýta mér kosti tveggja hrúta þeirra Púka og Prjóns en til að dreifa áhættunni meira hef ég hugsað mér að nota kannski Bramla og Kveik líka, jafnvel Kalda ef ærnar heima sýna viðskiptum við þennan banka áhuga rétt fyrir jól.
 
En best að hætta þessari þvælu í bil og þangað til næst hafið það sem best og munið ... hugsa jákvætt ... það bætir sál og líkama.

Ætli ...

... lesendur Viðskiptablaðsins sé mikið að velta þessu hér fyrir sér. En ætli umhverfismál sé rétt flokkun á sauðfjárrækt.

Ég þarf síðan endilega að senda Viðskiptablaðinu uppfærslu á myndagagnagrunni sínum, merkilegt hvað fjölmiðlar finna alltaf ljótar myndir af sauðfé til að setja með fréttum sínum.


Að velja brundhrút

Fyrir 157 árum og einum mánuði betur uppá dag birtist grein í ritinu Bóndi, læt hana fljóta hér.

FÁEINAR RELGUR UM FJÁRHÚSABYGGINU OG SAUÐFJÁRRÆKT

~2. grein um að velja brundhrút~
Hver sá, sem vill koma sér upp vænu og kyngóðu fé, verður með mikilli alúð og nákvæmni að velja sér brundhrút; þarf hann þá að þekkja grant allar ær sínar, svo hann getið valið hrútana undan þeim vænstu; ekki má hrútsmóðir vera eldri en 5 vetra þegar hrút skal velja, nema hún sé afbragð að öllu leiti, og ekki yngri en 3 vetur. Hrútamæður eiga að vera stórar og vel vaxnar, holdsamar og kviðgóðar, vel ullaðar og góðar mjólkurær, af kvillalausu kyni, þær skulu og vera stórspenar. Þegar ær fara að bera á vorin, skal fjármaður skoða nákvæmlega öll hrútlömbin. Þau, sem finnast vera brúnslétt, eða hafa slétta og skarðalausa bringu, þegar þau eru nýborin, munu verða holdsöm við aldurinn, ef þau fá gott uppeldi. Þessi einkenni eiga að vera á fallegum brundhrút; hann á að hafa stórt höfuð, nokkuð langa snoppu, breitt enni, þykkar nasir, stór, svört og fjörleg augu, langan og digran háls, sívalan búk og mikinn kvið, hann skal vera framhár og söðulbakaður, með digrar fætur, stóran, síðan og loðinn pung, ekki hokinn í mjöðmum; hann á eftir útliti að dæma, að vera hraustlegur og svara sér sem best á allan vöxt. Alvarlega skulu menn gæta þess, að brundhrútur sé af kvillalausu kyni í báðar ættir, því það eru ýmsir sjúkleikar, sem leggjast í ættir, t.a.m. höfuðsótt, sem svo er mjög ættgeng, að þótt ekki beri á henni í fyrsta og öðrum lið, þá getur hún komið fram í þriðja og fjórða lið; sama er að segja um bólgusótt (þvagteppu), lungnabólgu, sullaveiki og margar algenga fjárkvilla. Ekki skal heldur velja fjársauð (brundhrút) undan einspena á, eða þeirri, sem undir hefur hlaupið, því júgurmein eða undirhlaup getur orðið ættgengur kvilli. Þegar lömbin fara að stálpast, verða menn oft að skoða þau nákvæmlega, taka á þeim og líta eftir vaxtarlagi þeirra og bringulögun; bringan á að vera næstum jafnbreið fram í gegn, slétt með skarðalausar brúnir, útslegnum geislungum og fremur stutt aftur. Líka eiga menn vandlega að taka eftir ullalaginu; þau lömb, sem hafa stóran hrokkinn lagð, þá þau eru nýborin, verða oftast ullmikil með aldrinum; þegar hrútlömb hafa mjúka og smáflókna ull (er kiðlar) í hnakka og vöngum og sé kviðurinn, allir nárar og pungurinn vel loðinn með þykkri og mjúkri ull þá verða það eflaust ullgóðir sauðir. Vilji menn stuðla til að féð verði hvítt, þá verður brudhrútur að vera hvítur og af hvítu kyni í báðar ættir; má hann hvorki hafa svarta dropa á snoppu eða eyrum, né heldur svarta geira í hornum eða klaufum; því hafi hann eitthvað af þessu þá er hætt við að undan honum komi mislitt. Lömb þau, sem hafa stríhærða og heldur litla ull á mölum, þótt þau séu all ullgóð að framan, verða ekki ullgóð með aldrinum; séu lömb skjallhvít og geithærð í framan, þá mun búkurinn líka verða hríshærður. Það er órækt merki á ullgóðu fé, að þegar það er rúið, hafi það annars gengið vel undan, þá er nýja ullin vel þétt og eintómt þel; en sé mikið af illhærum og löngu ljótu togi, er menn kalla hortog, út úr nýju ullinni á fé því, sem er í góðum holdum og vel fyllt, þá er það merki um vonda ull. Það er gerandi að lára 2 eða 3 afbragðsvænar ær fá svo sem rúmri viku fyrir venjulega fengitíð, en þá þurfa þær að eiga vel gott þegar kemur fram á útmánuði; fái maður nú fallegan hrút undan einhverri þeirra, þá ætti hún að ganga með dilk, ætli maður sér hann fyrir brundhrút; en þó er það varasamt þar sem hrútum og sauðum er hætt við bólgusótt, því dilkum þykir öllu hættara við henni en öðrum lömbum.
 
Úr ritinu Bóndi 1. blað 13. dag febrúarmánaðar 1851
 
Margt af þessu á við enn þann dag í dag þó þetta sé nú kannski ekki sú forgangsröðun sem maður lærir í kynbótafræði í dag. Finnst samt að taka mætti eitthvað þessum lýsingum aftur upp í hrútaskrá því þarna er fjölbreytt úrval góðra lýsingarorða. 
 

Sauðfjárrækt "auðlind eða ekki auðlind"

Þessi pistill byggist að mestu leiti á verkefni sem ég gerði í áfanganum Maður og náttúra fyrir rúmu ári síðan, held að flest af því sem kemur fram hér eigi jafnvel við í dag sem þá.

Þessi pistill mun fjalla um sauðfjárrækt á Íslandi með tilliti til auðlindanýtingar en að mínu mati er sauðfjárrækt ein af stærstu auðlindunum sem íslenskar sveitir eiga um þessar stundir. Af hverju? Jú það væri nú ekki mjög búsældarlegt um að lítast í hinum dreifðu byggðum landsins ef engin nýting færi fram á henni þar og er sauðkindin lífæðin í því að sumar byggðir á jaðarsvæðum þessa lands eru í byggð enn þann dag í dag. Sauðkindin hefur verið partur af þjóðinni frá örófi alda, hún kom til landsins með landnámsmönnunum er þeir námu hér land fyrir ca. 1150 árum. Að uppruna til er þetta norður evrópskt stuttrófukyn, reyndur hefur verði flutningur annarra kynja til blöndunar í gegnum árin en það hefur alltaf haft einhverja sjúkdóma í för með sér hér á landi.

En hvernig hefur hún nýst þjóðinni, í upphafi landnáms var meiri áhersla lögð á nautgriparækt í landinu en með versnandi hag og kólnandi veðurfari á miðöldum varð áherslan meiri á sauðfjárrækt og þá aðallega til að framleiða hið hvíta gull sem var mjög mikilvægt á miðöldum. Hvíta gullið? kann einhver að spyrja en mjólk og mjólkurafurðir voru gríðarlega mikilvægar til að framfleyta heilu fjölskyldunum. Voru lömbin þá færð frá ánum um mitt sumar og mjólkaðar fram á haust til að birgja heimilin upp að smjöri og ýmsum öðrum mjólkurmat fyrir veturinn. Fráfærur eins og þetta kallaðist voru stundaðar hér á landi fram til aldamótanna 1900 og á stöku stað héldust þær til 1950.

Aðrar afurðir sem sauðkind gaf af sér var kjöt og ull, en vaðmál sem unnið var úr ull var ein helsta útflutningsvara þjóðarinnar á miðöldum auk þess sem ullin var notuð í allar þær flíkur sem landsmenn klæddust á þessum árum. Og ég segi það satt að sé maður í ullarfatnaði út í slæmum veðrum þá er maður mun betur settur en að vera í einhverjum nýmóðins gerviefnum, ullin heldur alltaf á manni hita, sama hvernig viðrar. Skinnið af kindinni var einnig nýtt og var aðalskóggerðaefni Íslendinga fram á 20. öld. Nú á tímum er nýting sauðkindarinnar aðallega fólgin í því að framleiða kjöt og hefur fjárfjöldinn verið nokkuð breytilegur í gegnum aldirnar, t.d. var stofninn ekki stór eftir móðuharðindin og hann minnkaði mikið við alla þá niðurskurði sem framkvæmdir voru á sauðfé til að reyna útrýma sjúkdómum, t.d mæðuveiki og fjárkláða. Fjárfjöldi varð flestur á landinu á áttuna áratug síðustu aldar en þá voru um 900.000 kindur ásettar í landinu, þær höfðu gríðarleg áhrif á landið með beit sinni og á sumum stöðum var um mikla ofbeit og landtjón að ræða.

Það fer hins vegar fyrir brjóstið á mér sú umræða sem skýtur öðru hvoru upp í fjölmiðlum um að sauðfjárbændur séu líti á þjóðinni, þeir séu styrktir af ríkinu til að eyðileggja landið og þar fram eftir götunum. Vissulega get ég fallist á það að landgæðum hnignaði víða mjög mikið við beit sauðfjár og ekki síst á hálendi landsins. En það að sauðfjárbændur séu að eyðileggja landið get ég ekki fallist á, vissulega er ég hlutdrægur í skoðun minni en satt best að segja þá held ég að sauðfjárbændur séu þeir sem þekkja landið hvað best allra landsmanna, ekki nýmóðins menntamenn sem státa af einhverjum gráðum frá erlendum háskólum. En hvernig þekkja þeir landið svona vel? Svarið er, þeir fara um landið þegar þeir smala kindum og þeir þekkja bestu leiðirnar um landið á aldagamalli hefð og einnig þekkja þeir örnefni síns svæðis betur en aðrir og þannig varðveitast þau kynslóð fram af kynslóð en falla ekki í gleymsku.

Það að sauðfjárbændur sé í áskrift af peningum hjá ríkinu með styrkjum er ég ekki sammála, en vissulega má endurskoða styrkjakerfið og fyrirkomulag þess, en þessir styrkir hjálpa til með að bændur hafi viðunandi tekjur til að lifa af, ef þeirra nyti ekki væri þeir sennilega mun færri og mun eyðilegra um að litast í sveitum landsins. Sem dæmi má nefna er partur af ríkisstuðningi núna greiddur í formi gæðastýringarálags, gæðastýring felst í því að yfirlit yfir búreksturinn sé í góðu lagi og meðal annars þarf búið að uppfylla kröfur um landnýtingu, þ.e. búið þarf að hafa land fyrir allan þann bústofn sem er á jörðinni, annars falla greiðslur fyrir gæðastýringu niður. Til að halda landgæðum í sem bestum horfum þarf að beita fé meira á heimalönd og er það svo víða um land og á sumum svæðum í mínu heimahéraði Dölunum hefur fé fækkað það mikið að gróður hefur aukist það mikið að erfitt er að komast um svæðin. Hljómar einkennilega en er satt.

Á árabilinu 1980 til 2005, fækkaði ásettu sauðfé í landinu um 40% en framleiðsla sauðfjárafurða minnkaði hins vegar um rúm 30% sem segir manni að gripirnir eru að framleiða meira núna en þá og núna held ég að ofbeit sauðfjár sé varla til nokkurs staðar á landinu í dag, ég held frekar að hrossabeit sé of mikil á sumum svæðum og það hraki landgæðum en einnig er umgegni ferðamanna mjög slæleg á sumum svæðum sérstaklega á hálendinu.

Það skemmtilegasta við sauðfjárræktina er ræktunarstarfið, að para saman gripi og vita hver útkoman verður, þeir sem eru í sauðfjárrækt af líf og sál eru út í fjárhúsum öllum stundum til að spá og spekúlera um ræktun, hvernig fæ ég mest kjötgæði, hversu vel gerð er kindin, þetta eru allt hlutir sem sauðfjárbændur sjá fljótt en auðvita sýnist sitt hverjum. Þetta er sumum hulin ráðgáta að skilja en fyrir mér er sauðfjárrækt ekkert öðruvísi en nútímaborgarbúinn með knattspyrnu sem áhugamál og þurfa öllum stundum að spila fótbolta, horfa á hann í sjónvarpinu eða spila fótboltaleiki í tölvunni.

Hver og einn gripur hefur sinn karakter og sumir þeir sem umgangast þekkja hvern og einn einstakling annað hvort með nafni eða númeri og er ég einn þeirra. Það að hafa alist upp við að þekkja kindurnar svona hefur síðan hjálpað mér út á við í lífinu, t.d. man ég nöfn á fólki mjög vel og get sett það í samband við eitthvað annað tengt það við útlit eða mynd ef ég hef séð það. Þetta er hæfileiki sem er sumum hulinn en fyrir mér er þetta auðvelt og hefði ég ekki byrjað að þekkja kindurnar heima sem lítill polli væri ég sennilega ekki eins góður mannþekkjari og ég er í dag.

Ég ætla hér að láta staðar numið í umfjöllun minni um sauðfjárrækt í landinu sem auðlindanýtingu, það er margt meira hægt að skrifa en sauðfjárræktin tekur á svo mörgum atriðum en lykilatriði til að geta verið sauðfjárbóndi í dag og haft gaman af því er að vera svolítið "kindarlegur" í hugsun eins og einn viðmælenda Gísla Einarssonar orðaði það í Út&suður þætti.


Getraun

Ekki get ég nú sagt að það sé mjög gaman að lesa undir próf í plöntulífeðlisfræði er þó búinn að hafa mig í gegnum námsefnið einu sinni sem er nú afrek út af fyrir sig þar ég held að þetta sé mest óspennandi fag sem ég hef komist í, á átján ára skólagöngu minni.

Hvað um það, ég hef ákveðið að skjóta hér öðru hvoru inn fróðleik um íslenska sauðfjárrækt sem finna má mikið um í ýmsum gömlum ritum, s.s. Búnaðarritun, mun skemmtilegra að grúska í því út á bókasafni í prófaundirbúningi en nokkurn tíma því sem maður á að vera lesa það sinnið. Í fyrsta skiptið ætla ég að standa fyrir smá getraun og er þetta í raun stofn úr spurningu í Viskukúnni fyrir þremur árum. Þannig var að fyrir rúmum hundrað árum ferðuðust tveir bræður um Ísland og skoðuðu sauðfé og lýstu því, annar hét Hallgrímur Þorbergsson og mig minnir að hinn hafi heitið Jón og voru þeir úr Suður-Þingeyjarsýslu.

Getraunin að þessu sinn er hins hvar á landinu lýstu þeir sérstökum stofni með eftirfarandi orðum:

"langt og grant beinalag og ósamræmi í sköpulagi, hryggur kryppuvaxinn og sterkur, brjóstholið stutt og þröngt, ullin stutt og á mörgu gróf; andlitslitir: svardropótt, hvítt og gult."


Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband