27.10.2009 | 17:34
Gúmmímjólk
Í Svíþjóðarferð minni í síðustu viku sagði Ragnar við mig: Þú verður að prufa þetta" og benti á Långfil fernu í mjólkurkælinum. Ég spurði hvað þetta væri og hann sagðist ekki geta lýst því, ég yrði bara að prufa þetta sem ég og gerði.
Daginn eftir prufaði ég réttinn og opnaði fernuna og byrjaði að hella á disk en ekkert gerðist, ekki fyrr en fernan var komin á hvolf og ég kreisti fernuna þá kom smá slurkur úr fernunni og rann mjög hægt niður, hálfpartinn eins og mjög þykkt síróp eða ég veit ekki hvaða vöru ég að bera saman við þetta. Síðan bragðaðist þetta ágætlega nema áferðin var mjög spes, hálfpartinn eins og loftkennt jógúrt og þetta hélst alveg í skeiðinni þó maður snéri henni á hvolf. Mjög spes allt saman eins og Ragnar sagði.
Skv. upplýsingum Arla er Långfil eins konar hleypt mjólk sem þarf sérstaka sýringu og langan þroska. Hún hefur vægt sýrustig og örlítið beiskt bragð og áferðin er sterk og samhangandi - löng. Seigfljótandi áferð.
Fann þetta myndband fyrir þá sem vilja sjá Långfil á mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2009 | 09:13
Norræn velferð ...
... veit ekki alveg útá hvað hún gengur, en hluti af henni hlýtur að vera eftirlits/skráningarkerfið í hverju landi fyrir sig. Reynsla mín af því að flytja aðsetur milli landa er nú sú að þetta er gríðarleg skriffinnska sem tekur dágóðan tíma að koma sér í gegnum. Spurning hvort það taki jafn langan tíma að komast inní íslenska kerfið aftur að loknu námi hér í Noregi.
Fyrst af öllu varð að tilkynna flutning til Noregs á skattstofu í SKI í byrjun september til að fá norska kennitölu. Úrvinnsla þeirrar umsóknar tók 4 vikur og beið mín ný kennitala þegar ég kom aftur til Noregs eftir Íslandsferð í byrjun október. Þá gat ég sótt um bankareikning og ýmislegt fleira.
Fór ég því í DnB bankann hér í Ási og stofnaði bankareikning. Það tók um 20 mínútur í bankanum en síðan liðu 2 dagar, þá kom PIN númer reikningsins í pósti, daginn eftir leiðbeiningar um símabanka og grunnnúmer til að komast í heimabankann. Þriðja daginn kom síðan bankakortið sjálft í pósti og fjórða daginn kom tilkynning um að ég ætti einkennislykil að heimabankanum á pósthúsinu. Stormaði ég því næsta dag á pósthúsið og fékk heimabankann minn. Þurfti að framvísa vegabréfi til að fá sendinguna afhenda. Þá fyrst treysti ég á að senda pening af stað frá Íslandi á nýja reikninginn, það tók 2 daga. Og bæði Kaupþing á Íslandi og DnBNor hér í Noregi tóku ágæta þóknun fyrir að senda peningana af stað og taka við þeim hér.
En það er víst ekki nóg að vera með bankareikning, einnig fékk ég sent bréf frá heilsugæslunni um að ég þyrfti að velja mér heimilislækni. Opnaði ég þá heimasíðu og þar þurfti ég enn eitt lykilorðið til að stofna aðgang þar. Í raun ekki hægt að kalla það eitt LYKILORÐ heldur þurfti ég að sækja um sérstakt skjal hjá skattinum með 20 PIN númerum fyrir mína kennitölu, við innskráningar er ég síðan beðinn tilviljanakennt um 1, 2 eða 3 af þessum PIN númerum.
Þegar þetta skjal barst í hús gat ég opnað mitt svæði hjá lækninum og valið lækni. Á síðan eftir að fá staðfestingu í bréfpósti að sú skráning hafi verið í lagi. En svo maður haldi nú áfram þá er ekki nóg að vera kominn með lækni hér heldur þarf maður að sækja um evrópskt sjúkratryggingarkort þannig að ég sé sjúkratryggður á Íslandi þegar ég fer í jólafrí þangað gegnum Noreg, sambærilegt og ég sótti um slíkt kort á Íslandi áður en ég fór út. Vona bara að ég þurfi ekki að leita til læknis þann tíma sem ég á eftir að dvelja hér úti.
En eins og sjá má af þessu er býsna margt sem þarf að gera til að verða löglegur þegn í nýju samfélagi jafnvel þó maður stundi bara nám í einn vetur, kannski tvo. En pappírsreynsla sem þessi er víst einnig skóli og vistast einhversstaðar inní reynslubankann. Sjálfsagt á einhver pappírsvinna eftir að bætast við ef einhver umsókn hefur gleymst, mér finnst ég nú samt vera búinn að gera nóg.
Annars gengur lífið sinn vanagang ... lítið var um lærdóm um helgina, eldaði íslenska kjötsúpu hann Íslendingunum hér í Ási á laugardaginn. Skrapp til Svíþjóðar í verslunarleiðangur á miðvikudag, alltaf gott að komast þangað, fór í keilu á föstudagskvöldið, þar sem ég átti stórleik í að hitta ekki. Og svo var klukkunni breytt hér um helgina þannig að tímamunurinn á Íslandi og Noregi er ekki nema klukkustund núna.
Þar til næst .... hafið það gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.10.2009 | 09:07
Ætli heimurinn sé að hrynja ...
... veit ekki, ætla svosem ekki að velta mér mikið uppúr því í þessari færslu, vil sem minnst hugsa um ísþræla og gengismál. Langt liðið síðan ég bloggaði síðasta og lítið markvert skeð annað en lærdómur. Hef svosem verið í ýmsu pappírsstússi til að verða nokkurn veginn fullgildur þegn í norsku samfélagi, það eitt og sér er efni í sér bloggfærslu seinna.
Skemmtilegasta atvik síðustu viku var í tíma hjá Odd Vangan þegar hann gat ekki hægri klikkað á skjalið sem hann ætlaði að sýna okkur. Var ekki með mús á fartölvunni sinni og veit ekki hvort snertimúsin virkaði ekki nógu vel. Upphófst þá leit að mús en þá kom uppúr dúrnum að aðeins eitt USB tengi var á tölvunni og þar var minnislykillinn. Hann vissi hins vegar af annarri lausri kennslustofu með alvöru tölvu og fór þangað og þá loksins gat kennslan hafist áfallalaust fyrir sig.
Til að halda aðeins í íslenskar hefðir sauð ég hangikjötsbita um helgina og um næstu helgi er stefnan sett á íslenska kjötsúpu til að gleyma aðeins stund og stað, en um helgina væri sérstaklega gaman að vera staðsettur í Dalasýslu. Mikil dagskrá í boði þar í tengslum við haustfagnað sauðfjárbænda og stofnfund félags ungbænda.
Á leiðinni út um daginn greip ég einn kvartaldargamlan Stikluþátt í Leifsstöð. Þar ræðir Ómar Ragnarsson m.a. við eldri konu Ólínu Magnúsdóttur bónda og f.v kennara um þær breytingarnar sem þá voru að verða á íslensku samfélagi. Langar aðeins að vitna í þetta samtal:
Hver er þín skoðun á uppeldi barna nú á tímum? Það hefur geysilega breyst þó ekki sé farið lengra aftur en 10 ár. Mig undrar bara að börnin skuli vera með heilum sönsum í öllum þessum glundroða. Það eru blöðin, útvarpið, sjónvarpið og þessar þokkalegu barnabókmenntir. Öllu þurfa þau að fylgjast með og þetta alveg ruglar þau. Venur þau frá þessu þjóðlega." Þetta er allt saman rétt, en ég fór að hugsa hvað hefur bæst við á síðustu 25 árum, mjög mikið enda held ég að maður verið hálf ruglaður ef maður ætlar að fylgjast með öllu, að minnsta kosti stelur þetta heilmiklum tíma frá mér daglega. (Internetið, Facebook, MSN, blöðin o.s.frv.)
Hvað finnst þér um að börn séu mikið ein heima? Get ekki hugsað það til enda, segi það alveg satt. Villingslegt uppeldi. Ég er ekki hrifinn af þessum barnastofnunum þó þær séu betri en börnin séu að flækjast á götunni. Svo er eitt hvað þeir fara skakkt með að taka börnin snemma í skólann, ágætt fyrir kaupstaðabörnin. Þau eru þá minna á götunni en þegar þau eru í skólanum. Meðan þau eiga kost á að vera í sveit, koma þau seint, koma ekki fyrr en sauðburður er búinn eða hálfnaður og þau eru kölluð löngu fyrir göngur og það er nú aðalpúðrið hjá börnunum að vera í réttunum." Í þessu er ótrúlega mikið rétt, velti því fyrir mér hvort ég væri nokkuð í því námi sem ég er í núna nema fyrir þær sakir að ég tók alltaf leyfi þegar eitthvað var um að vera heima og blessunarlega var skólinn að mestu búinn um sauðburð hjá mér öll skólaárin. Öðruvísi hefði ég ekki fengið áhuga á sauðfé og sauðfjárrækt. Kannski er þetta ein af ástæðunum fyrir erfiðri endurnýjun í bændastétt, fólk fær ekki að kynnast henni nægjanlega vel.
Að endingu: Nú ert þú mikill unnandi íslensks máls. Hvernig sýnist þér ungt fólk tala í dag? Mér finnst nú aldeilis afdæmingur þegar menntamenn, háskólagegnir hámenntaðir menn eru að staglast á því að fyrirbyggja og bæta síðan skottinu við fyrirbyggjandi í staðinn fyrir að segja koma í veg fyrir. Síðan er það annað sem veður uppi núna allavegana í staðinn fyrir að minnsta kosti. Nútíminn staglast á ýmsum orðum. Ofnotar þau, gömul ágæt orð fá aldrei að koma inni á milli." Nú ætla ég ekki að dæma eigin íslenskukunnáttu en það veit ég að þessi orð hennar frá því 1983 eiga enn við í dag og sennilega hefur íslenskri tungu mikið hrakað síðan þá. Hvort ég á eftir að verða hámenntaður háskólagenginn maður sem staglast verður tíminn að leiða í ljós.
Þar til næst, hafið það gott og endilega kvittið. Síðan skulum við hugsa um það allavega að koma í veg fyrir að minnsta kosti stundum að ofnota ekki orðið fyrirbyggjandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.10.2009 | 15:41
Til Noregs á nýjan leik
Þá er maður kominn aftur í Ás eftir nokkra góða daga á Íslandi í smalamennskum, fjárragi og sláturvinnu. Mjög svo feginn að ég skildi fara heim til Íslands þar sem faðir minn veiktist og var fluttur á sjúkrahús, veit ekki hvernig ég hefði verið hér úti, vitandi af honum á spítala. Sprakk í honum botnlanginn, sem er ekki það skemmtilegasta sem maður lendir í, þekki það frá jólunum 1995 þegar ég eyddi þeim á sjúkrahúsi af sömu ástæðu, sennilega arfgengt. En hann er kominn heim og óðum að hressast og verður vonandi þokkalega vinnufær í lok mánaðar. Þannig að það kom í minn hlut að velja líflömbin þetta árið og senda í slátrun, vonandi tókst það bærilega, kemur í ljós næsta vor hvort einhverjir gallagripir hafi læðst með.
Hér hefur kuldinn heldur hert tökin, allavega finnst mér kaldara hér en á Íslandi, þó hér sé rólegrar veðurfar, sól og blíða úti en ekkert sérlega hlýtt. Ekki sama rokið og var á Kjalarnesi á föstudaginn, hef aldrei farið þar um og mætt jafn fáum bílum um miðjan dag á föstudag. Var þá að koma frá Selfossi þar sem ég afhenti restina af sláturlömbunum, var gerðin í þetta skiptið 9,06 og fitan 6,33 og þunginn 15,8 sem þýðir að það er kílói léttara en í fyrra, mun minni fita og aðeins lakari gerð en samt tel ég þetta allt eðlilegt miðað við að slatti af lömb fæddist í júní þetta árið þar sem einn hrútur klikkaði á fyrri hluta fengitíðar.
Og já, ætli verið ekki veisla hjá manni í matinn núna, uppstaðan í ferðatöskunni minni út var kjöt, íslenskt lambakjöt, nánar tiltekið frá Ásgarði. Rétt komst í frystinn, þarf að vera duglegur að borða, svo það verði pláss fyrir meira kjöt eftir jólafrí sem ég vona að byrji fyrr en seinna í desember.
Síðan er ég sérlega ánægður með norska ríkið núna sem veitti mér smá styrk til náms hér sem er gott þar sem gengið á krónunni er ekkert alltof hagstætt, fer heldur uppávið ef eitthvað er þannig að ég fór í bankann í dag til að stofna bankareikning svo ég geti flutt dágóða upphæð út og ekki þurft að hugsa um gengi í hvert skipti sem maður verslar.
Í þessari Íslandsdvöl minni varð ég einnig vitni af bílslysi ca. 10 metrum fyrir framan mig þar sem ég var að gá að fé á túninu, þar sem ökumaður sofnaði undir stýri og endaði á hvolfi ofaní skurði. Blessunarlega slapp hann alveg ómeiddur en ég hef aldrei hlaupið jafnt hratt eftir hjálp og í þessu tilviki þar sem ég var ekki með síma á mér, var langt fram eftir kvöldi að fá eðlilegan hjartslátt aftur, hugsa að mér hafi brugðið meira en konunni sem var undir stýri.
Síðan varð mér ekki að ósk minni um það sem ég setti fram í síðasta pistli, ég þarf að baksa í öllum þessum þremur áföngum það sem eftir er annar þar sem ég stóðst stærðfræðina og hef öðlast próftökurétt.
En þar til næst hafið það gott ... og endilega kommentið !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar