Gott kvöld !!!

Best að setja inn eina færslu hér á meðan nóvember lifir enn, allt gott að frétta héðan og veturinn rækilega staðfest komu sína og ekki nema 18 stiga frost úti. Föðurlandið er því það eina sem dugar innandyra sem utan enda Norðmenn ekki þekktir fyrir að einangra hús sérlega vel.

Hvað um það, fór á fund með leiðbeinendum í morgun til ákveða hvernig við ættum að túlka niðurstöður lokaverkefnis míns. Útaf fundinum gekk ég ringlaðir en nokkru sinni fyrr, fórum örugglega 2 jafnvel 3 hringi í umræðum og bökkuðum þó nokkrum sinnum. Varð mér því heldur lítið úr verk það sem eftir lifði dags og mín bíður reyndar enn einn vinkillinn á verkefnið í pósthólfi en læt hann bíða morguns. Það sem hægt er að gera einfalda hluti flókna en eins og leiðbeinandinn minn sagði í morgun þá velur maður nú alltaf flóknu hlutina framyfir þá einföldu. Síðan deila menn um það hvort það sé rétta aðferðina Smile

Hvort heimurinn er auðskiljanlegri sá fræðilegri eða sá raunverulegi læt ég ósagt látið en svo ég vitni nú í ágætan kunningja minn er niðurstaða verkefnisins í dag eitthvað á þessa leið: „Víxlhrif milli kynslóða er afleiða af misjöfnu kynslóðabili sem skýrist af skekkju í grunngögnum. Hana má þó minnka með því að deila afleiðunum í rótina af sjálfum sér og þá sést að það er betra að nota lambhrúta meira en nú er gert." Smá sannleikskorn í þessu en samt ekki að öllu leiti. En setjum þá verkefnið frá ... og þó ákváðum á fundinum í morgun að minnka verkefnið aðeins, kemur það aðallega niður á einni breyti og nokkrum frítölum, auðskiljanlegt ekki satt.

En þá að mun auðskiljanlegri hlut þar sem niðurstaða varð ljós í dag, og þó. Allavega skil ég ekki þetta kosningarkerfi einn, tveir og þrír og enginn sem ég þekki hefur skilið það heldur. Vonandi verður ekki notast við svona kosningarkerfi því ég held að það sé ein helsta ástæða hinnar lélegu kjörsóknar. En ég kaus nú samt og náði alveg 28 tölum af 100 réttum eða 7 einstaklingum af þeim 25 sem náðu kjöri og bind ágætar vonir við þetta fólk þó stóra spurningin verði alltaf hvort þingið komist að gáfulegri niðurstöðu fyrir þjóðina.

Meðan flestir Íslendingar sátu heima skrapp ég með Sigbjørn aðstoðarleiðbeinanda mínum og Ron prófessor frá Texas í heimsókn á sauðfjárbú Jon Sand í Buskerud. Sú heimsókn var mjög hressandi og gaman heyra óbreyttan bónda tala um möppudýrin sem sitji á skrifstofu allan daginn og sjái ekki út fyrir kassann og átti þá við kynbótaeinkunnina sem NSG heldur út hér í Noregi. Í henni er mikil áhersla á frjósemi og Joe vill minnka hana en finnst honum full mikil aukavinna fylgja því að halda 50 heimalninga sem ég skil alveg mjög vel. Þrátt fyrir þessa miklu frjósemi var fallþunginn hjá honum ekki nema rétt 22,5 kíló í haust, 4 kg þyngra það sem kom af fjallabeit en það sem gekk í skóginum í allt sumar. En þetta snýst nú að hluta til um útsjónarsemi og það er nóg til af henni hjá Jon. Gaman að koma í heimsókn til svona bónda sem er með allt á hreinu.

En best að hætta þessu ... jólin á næsta leiti, fór meir að segja á tónleik í Áskirkju í kvöld þannig að það styttist þá líka sá tími sem ég á eftir að vera hér úti.


Margur verður af aurum api

Í byrjun október ritaði utanríkisráðherra vor bréf til bænda hér í þetta blað og óskaði eftir samstöðu og hjálp þeirra í væntanlegu aðildarferli að ESB sem hann og nokkrir vinir hans lögðu í leiðangur með eftir kosningar 2009 án þess að kanna vilja þjóðarinnar til þess. Til að vinna nokkur prik hjá lesendum minntist hann á sveitadvöl sína sem barn í nokkuð rómantískum búningi, en barnsminnið svíkur sennilega engan.
Í þingsályktunartillögu (um aðildarumsókn að ESB) sem samþykkt var á Alþingi segir „að öll upplýsingamiðlun til almennings, fjölmiðla, félagasamtaka og alþjóðasamfélagsins verði í föstum skorðum og einkennist af fagmennsku og hlutlægni". Þetta ákvæði hefur utanríkisráðuneytið og fjölmargar ríkisstofnanir þverbrotið, t.d. sjálft Ríkisútvarpið með oft á tíðum mjög svo hlutdrægri umfjöllun um ágæti ESB. Embættismenn Össurar tala um fulla samstöðu Íslendinga þegar þeir sækja Brussel heim. Á móti eru embættismenn ESB alltaf jafn hissa á því hve andstaðan er mikil á Íslandi er þeir sækja okkur heim. Einnig ætlar ESB að opna sendiskrifstofur hér til að auglýsa eigið ágæti og kosta til þess nokkrum tugum milljóna. Eru slík vinnubrögð fagmennska í hæsta gæðaflokki?
Íslensk þjóð stendur á tímamótum um þessar mundir en ég vil ekki nota svo gildishlaðið orð sem kreppu til að lýsa ástandinu. Tel að margt eldra fólk sé mér sammála, kannski ekki það yngra enda ekki allir á mínum aldri sem hafa gaman af sagnfræðigrúski. Held nefnilega að heimskreppan uppúr 1930 hafi verið mun alvarlegri og meiri skortur steðjað að þá en nú. Í dag vitum við að sem þjóð fórum við framúr sjálfum okkur á síðustu árum, flestir samt án þess að ætla sér það. „Þeir sem mest höfðu völdin" kunnu líka að nýta sér gallaðar tilskipanir frá Brussel sem Íslendingum var gert að taka upp gegnum EES samninginn. Almenningur situr því eftir með sárt ennið og ríkisstjórnin reynir að telja okkur trú um að allt horfi til betri vegar ef við göngum alfarið inn í Evrópusambandið.
Vegna erfiðleikanna sem nú steðja að á Íslandi hlýtur sú spurning að vakna hvort ástfóstur Össurar og félaga á ESB sé drifið áfram af efnahagslegri hugsjón einni saman. Hvort þeirra markmið séu einungis að öðlast sem fyrst fyrri efnahagslegan styrk, sem oftast var lesinn í Excel skjali, en sjaldnast í raunverulegum verðmætum. Ég efast stórlega um að margir af þeim frammámönnum sem hæst gala um ágæti aðildar tali alltaf fyrir hönd allra sinna félagsmanna nefni Alþýðusambandið og Samtök verslunar og þjónustu sem dæmi. Að halda því fram að efnahagsástand Íslands batni einn, tveir og tíu við inngöngu vegna þess að efnahagsástand aðildarríkja sé svo gott og allir hjálpa öllum í efnahagsþrengingum þar sem ESB snúist um jafnrétti er hrein og klár vanþekking (Grikkland nýjasta dæmið). Það verður jú margur af aurum api.
Eflaust eru einhverjir hættir að lesa þessa grein hoppandi af bræði yfir torfbæjarhugsun minni og hversu ómálefnalegur ég sé. Það er hins vegar styrkur að geta hugsað á þennan hátt í stað þess að trúa gagnrýnislaust öllu sem við mann er sagt. Allavega er ég ekki svo ýkja hrifinn af landbúnaðarstefnu ESB sem í augum margra aðildarsinna er tær snilld. Hún er samin með kapítalísk sjónarmið að leiðarljósi sem einkennast af því að ná stærðarhagkvæmni, hætta að hafa yfirsýn yfir hlutina, borga léleg laun og „ríki kallinn" hirðir svo ágóðann. Vilja íslenskir neytendur slíkt?
Íslensk þjóð er fær um marga hluti og hér má margt færa til betri vegar en það er í dag. Vilji og þor er allt sem þarf, það skortir hins vegar hjá ríkisstjórn Íslands, þar lifa menn í blekkingu og taka boðum frá Brussel og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem heillögum sannleik. Össur og félagar, hvernig væri að þið leggðu þessa draumóra ykkar til hliðar og færuð að vinna fyrir íslenska þjóð í stað þess að fljóta sofandi að feigðarósi.
Greinin birtist í Bændablaðinu í dag, 18. nóvember 2010. Endilega kommentið á innihald hennar.

Vetur konungur ...

er mættur til Noregs, allavega snjóað slatta í gærmorgun með tilheyrandi slabbi, hálku og skemmtilegheitum. Ánægjan sennilega mismunandi eftir því sem einstaklingarnir eru margir. Sjálfur er ég svona hæfilega hrifinn af þessu ástandi, stærsti kosturinn er sá að ég veit að þetta er komið til að vera framá vor, þó ég flytji nú heim í íslenskar umhleypingar um jólin. Helsti ókosturinn sem ég sé við þetta að maður er í mun meiri hættu á gangbrautunum þegar maður þarf skyndilega færa sig fyrir hjólamönnum í hálkunni. Það er nefnilega bara hæfilega mikið saltað og sandborið hér í Ås svo manni skrikar oft fótur þegar maður víkur út í kant á gangbrautunum.

En ef snjóar aðeins meir styttist í að menn á gönguskíðum verði algengari sjón á þá fara nú hjólin meira heim í geymslu. Annars er bara allt gott að frétta héðan frá Ási, lokaverkefni gengur hægt að mínu mati en samt nokkuð örugglega. Rétt um 400 niðurstöður komnar af 800 og grunnskipulagið sem allur samanburður er gerður útfrá að malla uppí Osló þessa stundina.

Skrapp um síðustu helgi á sýningu hjá norska kaupfélaginu (Felleskjøp) í Eidsvoll og flest sem þar bar fyrir augu var grænt enda kaupfélagið umboðsmaður fyrir hinn ameríska Jón bónda (John Deer) sem mér sýnist á öllu að sé vinsælasta dráttarvélategundin hér í Noregi. Spjallaði lítillega við einn bónda þarna þegar ég tyllti mér aðeins niður, hann spurði mig fyrst af hinum klassíska íslenska brandara hvort einhverjir peningar væru til á Íslandi. Ég sagði nú svo vera þannig að hann náði ekki að espa mig mikið upp sem var trúlega það sem hann ætlaði sér.

Hins vegar er hann vélaglaður maður með eindæmum, á fjórar John Deer dráttarvélar sem mér finnst heldur mikið fyrir bú með 50 kýr og kartöfluræktun í 30 ha. En hann er líka í smá vélaútgerð s.s. snjómokstri sem er drjúggóð tekjulind fyrir bændur. Eiginlega það góð að menn geta leyft sér að endurnýja dráttarvélar mjög reglulega, 3-5 ára fresti hef ég heyrt. Það er greinilegt að norskir bændur hafa það gott líkt og margir Norðmenn. Spurningin er hins vegar hvort Norðmenn nýti alltaf peningana á gáfulegan hátt, samanber þessa auglýsingu frá norska bankanum mínum. Finnst hún minna svolítið á íslensku bankana fyrir hrun.

 

dnbNOR

 


Skatteliste

Einn hlutur tíðkast hér í Noregi sem mér finnst bara af hinu góða en kapítalismar eru á móti en það er birting skatttekna og eigna hjá öllum íbúum landsins. Er þetta opið allt árið um kring á vel flestum vefsíðum í Noregi.

Eyjólfur tekjur NoregiFletti mér að gamni upp og tók afrit af þeim upplýsingum sem þá birtust. Er þetta sett upp á marga vegu en einnig hægt að gera ýmsan samanburð innan póstnúmers er jafnaldra á sama svæði.

Samkvæmt þessu yfirliti þénaði ég 257723 krónum minna eða rétt rúmum 5 milljónum íslenskra en nágrannar mínir í Ás á síðasta ári og átti um 349728 krónum minni eignir eða um 7 milljónum íslenskra króna. Þó kom ég ekki fyrr en í september 2009 til Noregs.

Og þessar tölur sýna svart á hvítu að það er ekki tekið út með sældinni að vera námsmaður í Noregi, eða hvað?


eitthundraðsjötíuogtvær

greiningar búnar af hér umbil áttahundruð, tekst vonandi að klára þær fyrir jól svo framarlega sem ofurtölvan í Osló fari ekki í hakk við einhverja af þessum sexhundurð sem eru eftir, tekur reyndar ekki nema svona sólahring að reikna hverja og blessunarlega er hægt að reikna fleiri en eina samtímis svo ég þarf ekki að bíða í á þriðja ár í viðbót eftir niðurstöðum. Þá er ég búinn að upplýsa um stöðuna á náminu í dag.

Ætlaði að reyna að skrifa einn pistil án þess að hallmæla ESB en get það eiginlega ekki, verð eiginlega að minnast aðeins á þá umræðu sem dúkkaði enn einu sinni upp í dag hjá fylgjendum ESB um bændur. Þar var andstöðu bænda líkt við mótmæli þeirra við símalagninu fyrir 100 árum, heldur finnst mér þetta ójafn samanburður hjá þeim og hreinlega lykta af gríðarlegri vanþekking. Fyrir tæpu ári ritaði ég smá pistil og skoðum mín á hinum úrkynjað kynstofni Íslendinga hefur barasta ekkert breyst á þessu ári.

Oft hef ég velt fyrir mér hvernig hægt er að koma íbúum innan ákveðins radíus frá póstnúmeri 101 í skilning um innlendan landbúnað. Hvort heimildarmyndin Lands míns föður hjálpar einhverjum þegar hún kemur til sýninga á næsta ári veit ég ekki, en af því sýnishorni úr myndinni sem nú má finna á netinu vona ég að svo verði.

Þar sem ég er nú búinn að henda inn einu myndabandi er rétt að setja inn annað. Það sem mér finnst skemmtilegt við þetta myndband er hvað Gunnlaugur Guðmundsson viðmælandinn er ákveðinn við þáttarstjórnandann Helga P. Væri nú gaman ef menn væru svona góðir með sig í viðtölum nú til dags og tækju jafnvel stjórnina af þáttastjórnendum.


Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Nóv. 2010
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband