28.12.2007 | 23:41
Milli hátíða
Jólahátíðinni er um garð genginn hér í Kívílandi og hún snerist að mestu um að éta, éta meira og örlítið meira en það. Ég var klæddur upp sem trúður í jólaskrúðgöngunni á aðfangadagskvöld sem er í rauninni ekkert spes dagur hér, endaði með því að allir fóru á pöbbinn. Ég verð nú að viðurkenna að það fór nú svolítill kjánahrollur um mig í skrúðgöngunni en get þakkað fyrir að það þekkti mig ekki nokkur einasti maður, var settur á tvöfalt hjól með farþegasæti og Austin Power var farþegi okkar trúðanna, mun auðveldara að halda jafnvægi á slíku hjóli enda er það eini hluturinn sem ég hef harðneitaða að gera hér eða reyna að læra, segi fólki að það sé mun einfaldar að nota fæturna og ganga. Stundum mætti halda að það væri dauðasynd að ganga, hér er hjól sett í gang til að opna hlið í 50 metra fjarlægð. Hvað um það, hjólreiðin gekk ekki betur en svo að keðjan fór af öðru megin (eftir 2 mínútur) og því mun erfiðar að færa hjólið úr stað, kom þá maður á fjórhjóli og húkkaði í hjólið og dró okkur trúðanna og Austin það sem eftir var skrúðgöngunnar, hann gleymdi hins vegar alltaf að við vorum á bremsulausu hjóli og því nokkrir árekstrar aftan á fjórhjólið þegar hann bremsaði og rykkir þegar hann tók af stað aftur.
Var síðan vakinn upp um sjöleytið á jóladag af börnum hjónanna til að taka upp pakkana, meira hvað fólk getur verið spennt, skil þetta með börn en hálffullorðið fólk það er nú einum of. Ég fékk slatta af gjöfum frá jólasveininum, nýsjálenska minjagripi og sælgæti, fékk súkkulaði Rúdolf, því kívíbúar öfund mig af því að hafa hreindýr á Íslandi. Jóladagur fór síðan í að fjölskylda konunnar kom sama til að borða, foreldra öll systkin, börn þeirra og barnabörn, þetta var eins og vera staddur í fuglabjargi, fólk talaði svo mikið en svona eru víst ættarmót. Annar í jólum var síðan eins nema þá kom saman fjölskylda bóndans. Meðal annars keypti fólkið mutton ham fyrir mig sem hangikjöt hérlendis en ég verð nú að segja að íslenska hangikjötið er margfalt betra en þetta.
Síðustu tveir dagar hafa síðan farið í að sortera ærnar eftir rúning, taka skurðarærnar frá og setja hinar annað, víxla skepnum milli beitarhólfa, færa lömbin frá kynbótaánum, en þá þarf að skrá niður þunga á hverju einasta lambi o.s.frv. Er núna að fara með fjölskyldunni til Te Anau og skoða Milford Sound á sunnudaginn en eyða áramótunum með skiptistúdentunum í Wanaka sem er vinsæll ferðamannastaður aðeins norðar en Queenstown. Ætla enda þessa færslu á smá myndbandi sem staðfestir að hobbitinn á heima hér í landi, ég er of stór fyrir Nýja-Sjáland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.12.2007 | 06:50
Slepp við jólaköttinn þetta árið
Ég er búinn að fá nýtt jóladress fyrir þessi jól og þarf því ekki að óttast jólaköttinn þetta árið.
Þessu dressi mun ég klæðast í jólaskrúðgöngu á aðfangadagskvöld í Riverton. Óska öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, skrifa kannski hér eitthvað milli hátíðanna um jólahald Kiwibúa.
Rúningi lauk í gær þegar kind númer 2407 fór í gegn á þriðja degi rúnings, það var afskaplega gaman þar sem ég var í ullarmeðhöndlun og því nokkur hundruð kíló af ull búin að fara í gegnum hendur mínar. Í dag var síðan kleprahreinsun haldið áfram og klárast að mestu á morgun, þá verða tæplega 1000 lömb eftir og það þykir nú ekki mikið, rétt hálft dagsverk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.12.2007 | 07:50
Sauðfjárrækt 2 og Drottningarborg
Frá því í síðustu viku hefur regn frekar angrað mig en sólskin og ég held að það rigni meira hér en á Íslandi þegar rignir á annað borð. Góður og ítarlegur pistill hjá Sveini um kleprahreinsun og það er svona helsta starfið síðustu vikuna, fyrst lömb og svo ærnar fyrir rúninginn sem byrjaði í dag. Það eru samt eftir rúmlega 4000 lömb, þannig að það er ekki fjarri lagi það sem Vaggi sagði einhvern tímann í nóvember að hér væru jú 20.000 lappir, þær eru allavega nógu margar framlappirnar sem ég hef handleikið undanfarna daga.
Á miðvikudaginn var vanið undan restinni af ánum og send 220 lömb í slátrun, ég fór með bóndanum í sláturhúsið á fimmtudeginum og fylgdum við lömbunum eftir. Það sem ég get sagt um þetta sláturhús er, það er STÓRT enda eru drepnar 32.000 kindur þar daglega á 4 vinnslulínum á tvískiptum vöktum. Vinnslulínan er í sjálfu sér ekkert mjög frábrugðin íslensku sláturhúsi nema hér eru öll lömb skönnuð og flokkuð skv. niðurstöðu skannans. Ekki get ég sagt að ég hafi séð mikið af fallegum skrokkum, held að flestir þeir sem ég hafi séð hafi átt heima í O1, O2, og P1 skv. EUROP kerfinu, þó horfði maðurinn við skannann lengi á einn skrokk og fannst hann feikna fallegur, held hann hafi verið R2, má sjá mynd af honum hér til hliðar.
Ég verð nú samt að segja að afurðasölukerfið hérlendis er mjög svo asnalegt, ef ég á að útskýra það á einfalda hátt þá verða öll lömb að vera stöðluð í sömu vigt og gerð til að fá sem hæst verð, ef þau verða of feit, of létt eða of þung þá er þér refsað og verið fer niður úr öllu valdi, allt niður í rúmlega 1000 kr íslenskar fyrir lambið. Mjög svo asnalegt kerfi og bóndinn er mjög sammála mér í því.
Hér í nágrenni við mig er hópur af skiptistúdentum víðsvegar að úr Evrópu (Svíþjóð, Danmörk, Englandi, Sviss, Frakklandi, Austurríki og Kanada), hittist hópurinn einu sinni í viku á pöbb í Winton. Um helgin skellti hópurinn sér síðan til Queenstown sem er helsta ferðamannaborgin hér í Kívílandi og slóst ég með í hópinn þar sem sveigjanleiki íslensks menntakerfis er mikill og ég tók tölfræðiprófið 14 klst. á undan öllum á Íslandi og lofaði að senda engar upplýsingar um innihalds prófsins á Internetinu. (Ég var nú heldur ekkert að gera góða hluti í þessu prófi, samt nóg til að ná held ég.) Við gistum í sumarhúsi sem einn af hópnum útvegaði, það var fínt að vera þar en ég svaf nú ekki mikið á steinsteyptu gólfi í bílskúr þar sem ég var í síðasta bílnum sem kom og engin dýna eða rúm eftir fyrir mig.
Á laugardeginum skellti ég mér síðan á Shotover Jet og Rafting. Það var mjög fínt og ég held á ég segi með hógværð að vegurinn niður að ánni þar sem við störtuðum sé sá hrikalegast sem ég hef farið á minni ævi, ekki fyrir lofthrædda og Hellisheiði eystri er eins og Mýrdalssandur í samanburði við þennan vega, var ekki með myndavél en ekki heppilegt að hafa hana með í svona ferðalag. Ferðin niður ána gekk ágætlega og tíminn var fjandi lengi að líða þegar ég féll útbyrðis í flúðum, báturinn valt yfir mig, ég náði ekki andanum og sá bara myrkrið undir bátnum var mjög varkár eftir það í öllum flúðum eins sjá má á mynd hér til hliðar. Sumir í hópnum skelltu sér í fallhlífarstökk en ég er víst of þungur fyrir slíkt og einföld eðlisfræði segir mér að ég myndir fara helming hraðar niður en léttast fólkið í hópnum. Mér fannst þó skondnara að ég væri of þungur fyrir að fara á hestbak með hópnum, það eru víst 95 kg takmörk á hestana hér, ef það gilti um íslenska hestinn líka mætti ég nú bara ekki ferðast um á hesti enda væru mörkin milli 70-80 kg ef farið er eftir stærð hesta, þannig að ég vísa nú bara í fyrri skrif mín um geymslustað kívíhesta. Um kvöldið komst ég í mjög svo íslenskar aðstæður þegar hópurinn skellti sér á Ísbarinn en þar er hitastigið -6°C og allir dressaðir upp í kuldaúlpu og vettlinga áður en farið er inn og aðeins heimilt að dvelja þar í 30 mínútur. Held að mætti markaðssetja svona á Ísland fyrir lítinn tilkostnað að vetrarlagi, það er ekki alltaf hlýtt á fjárhúsgrillunum á Hvanneyri.
Í morgun var ég síðan sendur að slá eitt beitarhólf þar sem var mikið af þistlum, var mjög svo sáttur við það enda rigning úti en auðvitað tókst mér að klúðra sláttuvélinni á fjórða hring, það bjargaðist nú samt og mér tókst að klára að slá hólfið áður en ég fór að hjálpa til við rúninginn. Þetta var samt ekki greiðusláttuvél þó mætti ætla það af fyrri skrifum mínum, aðeins nær nútímanum en það. Læt þetta nægja í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2007 | 09:11
Hvíti víkingurinn
Frá því að ég ritaði síðast um tækniframfarir Nýsjálendinga hefur svosem ekki margt skeð, jú dráttavélarvinnan er búin að því er ég held vonandi enda búinn að fá alveg nóg af þessum tæknivæddu vélum. Á föstudaginn var ég í girðingarvinnu og þar var notað mjög sérstakt tæki til að reka niður stauranna, ég hef ekki séð svona tæki áður, má sjá hér, spurning um að einhver flytji svo tæki inn og fari að markaðssetja á Íslandi, veit ekki, held að járnkall og sleggja séu góð og gild tæki m.v. þetta eftir reynslu mína af því á föstudaginn, væri kannski spurning um að ydda staurana hér líka þá gengi þetta hraðar.
Ég er nú ekki mjög tæknisinnaður maður og yfirleitt vanur því að tæki bremsi þegar maður stígur á bremsurnar, ég var því mikið búinn að velta því fyrir mér af hverju allar gömlu Ferguson dráttavélarnar hér væru bremsulausar með öllu þegar maður færi niður smá halla. Á föstudaginn var ég síðan sendur á Fergussyninum með ámoksturstækin þar sem við vorum að girða, staðsetning ofarlega í brekku. En til að komast þangað þarf líka að fara niður brekku og það þó nokkuð bratta og langa brekku (myndi giska á að halli hennar væri nálægt 40%), og ég get alveg sagt eins og það er ekkert mjög gaman að fara fríhjólandi niður slíka brekku á gömlum bremsulausum Ferguson. Á tímabili var ég hvítari en allt sem hvítt er horfandi á árekstur með skóflu ámoksturstækjanna við brekkuna uppí mót, hafði orð á þessu bremsuleysi við Tony og hann hló að mér og spurði mig hvort Graeme hefði ekki kennt mér á mótorbremsuna, nei það gerði hann ekki. Þá eru allar Fergusonvélarnar (engin af svipuðum Fergusonvélum sem ég hef séð á Íslandi hefur þennan útbúnað) hér útbúnar með slíku en ekki vissi ég það og ekki mikið fyrir að prófa handföng og stangir á tækjunum hér því þau eru ekkert svo ný af nálinni. Vitandi þetta gekk heimferðin betur en ég er samt á því að fótbremsa eigi líka að virka á dráttarvélum. Hefði verið gaman að ná mynd af andlitssvip mínum þarna.
Í gær var síðan byrjað á því að venja lömbin undan ánum og það get ég sagt þar er unnið mjög hratt. Vakin upp klukkan sex í gærmorgun og byrjað á því að reka allt heim á jörðinni þar íbúðarhús Tony er (þar eru 1400 kindur), síðan var flokkað í sundur lömb og ær, þyngstu lömbin eða 245 stk send í sláturhús, hin öll ormahreinsuð (eitthvað um 1800), þetta var allt búið um tvöleytið, þá var hafist handa við dagging the lamb sem er akkorðsvinna, ætla ekki að skýra það út nánar hér en sá sem kemur með góða skýringu á því í athugasemd fær nýsjálenskan minjagrip þegar ég kem aftur til Íslands. Það var klárað um hádegi í dag þá voru ærnar flokkaðar og skurðarærnar teknar úr hópnum og sendar í sláturhús eða the Rolla´s eins og Tony orðaði það. Síðan er rúningur í næstu viku en haldið áfram að venja lömbin undan hér heimavið í vikunni.
Á laugardaginn fór ég og hjálpaði Young Farmers að beiðni Tony´s að crutching the lamb á bæ í nágrenninu. Það var mjög gaman og um kvöldið var síðan grillveisla í ullarskýlinu hjá einum að meðliðum samtakanna, þar var ekki heilgrillaður hrútur eins tíðkast á Hvanneyri í boði heldur heilgrillaður göltur. Fínasta skemmtun og fínt fyrir mig að hitta fólk og reyna að gera mig skiljanlegan. Á sunnudaginn átti húsmóðir svo afmæli og var því öllu tekið rólega hér, grillveisla utandyra, var nú meira á skuggsælum stöðum því það var ríflega 30°C hiti og mér fannst ekkert gaman að vera í sólargeislunum, er ennþá að aðlagast þeim. Seinnipart sunnudagsins var jólaundirbúningur með því setja upp jólaskraut og jólatréð, þar þurfti hjálp stóra Íslendingsins til að setja jólaengilinn á toppinn. Gerði það að góðum og frjálsum vilja en fyrir mér eru ekkert að koma jól, það er sumar og það eru ekki jól á sumrin, það verður því fróðlegt að upplifa jól að sumri hér úti, því til staðfestingar finnst mér kjánalegt að hlusta á jólalög í sól og 30°C hita.
Þakka fyrir allar athugsemdir við síðustu færslu en hef þetta við þær að bæta ætli það hafi ekki verið glampinn af mínum hvítu leggjum sem lokkaði ærnar í gegnum hliðið Sveinn, ég var allavega ekki í graskögglapoka, en grasið virtist mun grænna við ljósið frá mér en dagsbirtuna og Axel ég held að smalabrjálæðingar þurfi ekkert að óttast hvort sem er í Dölunum eða Skagafirði, íslenska kindin verður aldrei svona ekki nema einhverjum detti í hug að flytja inn nýtt kyn til kynbóta vona samt ekki þar sem íslensk sauðfjárrækt er enn að berjast við síðasta innflutning í Skagafjörð ef einverjum langar að senda mér jólakort óskast það sent í Ásgarð, sé það þegar ég kem heim, held að póstsamgöngur yfir hnöttinn taki mjög langan tíma er allavega ekki enn búinn að fá hrútaskránna sem var send af stað fyrir nokkrum vikum svo ég sé ekki alveg á gati í hrútafræðum þegar ég kem aftur til Íslands auk þess sem ég skipti um bú núna í lok mánaðar og veit ekki nákvæma staðsetningu enn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.12.2007 | 08:50
Það var uppúr ...
... seinni heimsstyrjöldinni sem íslenskur landbúnaður byrjaði að tæknivæðast með tilkomu aukins fjármagns í íslenskt hagkerfi. Marga þá hluti sem þóttu nútímalegir á þeim tíma má nú finna á búvélasafninu á Hvanneyri fínpússaða og flotta en hluta þeirra má sjá enn þann dag í dag í notkun hérna megin veraldar. Í dag var semsagt byrjað að sá SWEDE sem ég held að séu fóðurrófur og kindunum er beitt á að vetrarlagi en til þess er notuð algjör fornaldarsáðvél sem dreifir saman fræi og aukamuldum fosfór svo hann brenni ekki fræið. Það má sjá þennan undragrip í myndunum sem ég setti inn núna. Mitt hlutverk var að standa á spýtu og moka til áburði í hólfunum og passa að fræhólfið stíflaðist ekki, þetta væri nú kannski allt í lagi í einn dag en okkur tókst ekki að sá nema í 8 ha og það eru sennilega um 15 ha eftir. Ég teldi nú allt í lagi að fá eitthvað betra og afkastameira tæki í þetta verkefni. Ég var nú ekkert of góður í að standa á spýtunni enda myndi þetta ekki standast vinnulöggjöf á Íslandi enda á kafi í moldarryki og því fór ég nú bara að líta eftir þessu öðru hvor á endunum á stykkinu en var þess á milli að hósta moldarfosfórryki úr mér og anda að mér fersku lofti. Held að bóndinn hafi alveg skilið mig en ég auglýsi eftir Vinnueftirliti þessa lands, hér hefðu Grétar Einarsson, Jói Ellerts og Haukur Þórðar. þarft verk að vinna með sín fræði sem kennd eru í bændadeildinni.
Talandi um bændadeildina þá held að það sem ég lærði þar og taldi óþarfa sé alltaf að nýtast mér betur og betur hér. Ég sagði einhvern tíman frá frumstæðri vélfötu á fyrstu dögum mínum hér, um helgina var ég einn heima og var þess heiðurs aðnjótandi að mjólka heimilskúna Heiðu og fóðra kálfana og hundanna. (Leit ekkert á þessar 5000 kindur, þær eru aukaatriði) Það gekk ágætlega en þvílíkt og annað eins skrapatól sem þessi vélfata er, held meira að segja að Sigtryggur myndi aldrei fást til að kenna á hana og Jóhannesi Reykdal hefði aldrei dottið í hug að flytja slíkt tæki til Íslands þegar hann hóf vélvæðingu sína rétt fyrir 1930. Þannig að ef einhver af nemendum bændadeildar sem eiga að vera lesa fyrir próf núna eru að lesa þennan pistil, eitt ráð frá mér, það er tilgangur með öllu sem troðið er í hausinn á ykkur þó maður sjái hann ekki í upphafi, ég er alltaf sjá hann betur og betur í annarri heimsálfu.
Um daginn hitti ég Uncle Chris sem mágur konunnar hér, hann fór aðeins að spjalla við mig þó ég sé nú ekki mikill spjallari á engilsaxnesku, spurði útí ferðalagið hingað og ég sagði honum frá því að það hefði verið sérstakt fyrir mig að keyra á vinstri vegarhelmingnum af því það væri hægri umferð á Íslandi. Hann sagði þá, já þið eruð eins og Ameríkubúar. Ég sagði nú bara já en var hugsað til þess í dag við erum eins og Ameríkubúar og flest allar vestrænar velmegandi þjóðir, það eru bara þriðja heims ríki, Bretar og breskar nýlendur sem keyra vinstra megin eftir minni bestu vitund, og já sum jarðvinnslutækin hér eiga heima í þriðja heiminum ekki í velmegandi landi eins og NZ myndi flokkast undir.
Þessu til staðfestingar þá hef ég séð ansið skondið tæki á ferðinni hér öðru hvoru, hér er verktaki að heyja fyrir bændur, hann fer framhjá bænum öðru hvoru og dinglast með tvöfalda hjólrakstravél sem raka í miðjuna og tekur ca. 5 metra, svona eins og flestir Íslenskir verktakar myndu nota tveggja stjörnu stjörnumúgavél við, hef aldrei séð svona tæki og veit ekki til þess að það sé til á Íslandi en segir ýmislegt um þá tækni sem er til staðar hérlendis.
En að öðrum tæknimálum, ég skil núna mjög vel af hverju fjórhjól var fundið upp og bændur tóku að nýta það við smölun sauðfjár. Ég gerðist semsagt svo vaskur að fara á hestbak, hesturinn var kannski í samræmi við stærð mína en á eins hast hross hef ég aldrei komið og var hálfpartin smeykur þegar það tók á rás með mig á hraðstökki þar sem hnakkurinn sem ég var með myndi flokkast sem barnastærð og ístöðin því alltof stutt og jafnvægi mitt á baki eftir því. Held að ég láti hestamennsku vera það sem eftir lifir dvalar minnar hér og skil mjög vel af hverju flestöll hross eru ekki seld dýrar en á u.þ.b. 15.000 kr. íslenskar hér og sum eru aðeins seld á dollar eða um 50 kr. íslenskar, kannski að hrossræktartengill Óðins Gíslasonar eigi við um þessi hross, er samt ekki viss um það þekkist í matarflórunni hér. Semsagt, ÍSLENSKT - JÁ TAKK, mun skárra en þetta útlenska dót.
Þakka fyrir góða hugmynd Eddu af hanadrápi, held ég láti það nú samt vera því það yrði mjög kvalarfullur dauðdagi fyrir greyið ef ég notaði markatöngina á þessu búi, hún er semsagt með einu stöðluðu marki, líkist markinu Tvíbitað á Íslandi og ég held að það yrði mjög seinlegt að nota hana á hanann, á sennilegast eftir að sakna hans þegar ég fer eins og Mæja benti á í sinni athugasemd.
Bloggar | Breytt 6.12.2007 kl. 07:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar