16.12.2010 | 22:34
Ætli sé ekki best að ...
... að rita nokkrar línur hér inn að kvöldi fyrsta prófdags í þessari prófatíð sem var jafnframt sá síðasti. Prófið gekk vel, tel mér allavega trú um það þar til annað kemur í ljós. Getur samt verið að hitinn í stofunni hafi eitthvað ruglað mig, hef held ég aldrei verið í prófi þar sem er svona heitt. Osturinn á brauðsneiðinni sem ég tók með í nesti var næstum því bráðnaður þegar ég ákvað að taka nestispásu. Þegar ég gekk út prófinu fór ég aðeins að hugsa um kennsluna í haust, því aðstoðarkennarinn sem sá um alla dæmatímana var einnig að taka prófið. Hélt það væri nú lámark að kennarar væru búnir að standast námsefnið áður en þeir kenna.
En að löngu vitleysunni (mastersverkefninu) sem ég nefndi í síðustu viku. Það tók nokkurn tíma að fá sátt í hvernig framkvæmdin ætti að vera. Átti til dæmis annan fjögurra klukkustunda fund með Gunnari leiðbeinanda og öðrum prófessor sem endaði eiginlega á því að lögð voru drög að allt öðru verkefni sem væri gott að vinna en rúmast ekki innan þessa verkefnis. En þetta er allt komið í gang og útreikningar farnir af stað aftur svo núna er bara að bíða eftir tölum til að fara vinna úr. Gunnar sagði síðan við mig í dag að ég ætti bara að gera doktorsnám úr þessu, þetta væri það viðfangsmikið, mun meira en hjá vanalegum mastersnemum. Fyrir mér er doktorsnám bara enn stærri pakki og eitthvað sem ekki er efst á óskalistanum að svo stöddu ... hvað svo verður kemur svo í ljós, myndi nú alveg hugsa mig um ef mér byðist doktorsstyrkur hjá norska ríkinu.
En það styttist því í að maður flytji til Íslands enda hef ég sett mér það markmið að vera undantekning sem sannar regluna og ná að klára ritgerðina heima. Vinnan er allavega á áætlun og skipulag er allt sem þarf til að klára á tilsettum tíma, gerði meira segja ráð fyrir framangreindir löngu vitleysu á upphaflegu plani.
Á flug heim á sunndag og ósköp sem það verður nú gott að komast í mildara hitastig en hér úti, búinn að fá alveg nóg af þessu frosti sem hér hefur verið undanfarið. Mikið betra að vera á Íslandi þar sem er almennilegur breytileiki í veðurfari, kannski á stundum fullmikill.
Hvað um það ... set hér inn tengil á myndband sem nokkrir kennarar í tölfræðideild skólans hér í Ási bjuggu til. Mjög skemmtilegt myndband að mínu mati ...
... sumir eru kannski á öndverðum meiði, einn maður sem sá þetta hafði á orðið að ég ætti að koma mér sem fyrst héðan. Þetta fólk hefur bara húmor fyrir því að sjá spaugilegu hliðarnar á tölfræði sem sumir sjá ekki.
Hvað um það, læt þetta duga í bili, rita örugglega ekkert nýtt hér inn fyrr en á nýju ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2010 | 22:31
Í upphafi skildi endinn skoða ...
eru einkunnarorð dagsins í dag. Var semsagt á fundi með leiðbeinendum mínum í dag þar sem við reyndum að nálgast útgangspunkt til túlka heppilegar niðurstöður í verkefninu mínu. Fundurinn stóð í fjóra klukkutíma og gagnlegur en niðurstaðan samt í lausu lofti en trúlega sú að vinna haustsins fyrir bí og gera þarf allar 621 greiningarnar aftur. Allavega er ég margs vísari um allskyns hugtök sem ég hefði kannski átta að vera staðfastir á í upphafi og fer ekki nánar út hér enda ekki fyrir leikmann að skilja þau. Sagði ekki líka Edison að hver misheppnuð tilraun væri eitt skref í rétta átt.
Að öðrum hlutum, á laugardagskveldið þegar ég var að koma hér heim sá ég úlf á vappi hér neðar í götunni. Hann virtist samt alveg meinlaus en verst að hafa ekki verið með myndavél til að ná mynd af honum. Við vorum allavega tveir sem sáum hann og vorum báðir sammála um að þetta væri úlfur en ekki stór villihundur. En þetta er víst ekki í fyrsta skipti sem úlfar hafa sést hér í Ás, svo ég kippi mér ekki mikið upp við þetta. Einnig er ekki svo ýkja langt í skóginn, þannig að hann hefur trúlega villst aðeins af leið enda ekki mikið af hafa í ljósadýrðinni innanbæjar.
Frá því síðast hefur hitastig lítið breyst hérna rokkar frá -12°C til -18°C. Stefndi reyndar í hitabylgju hér á sunnudaginn þegar hitinn fór í -7°C en það var fljótt að breytast, snjóaði bara mun meira í staðinn. Allavega er mjög fallegt um að litast úti núna, frosthrím á öllum trjám og frostþoka, sumir myndu kalla þetta ævintýraheim.
Þar til næst .........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar