Það var fyrir nokkrum (h)árum síðan ...

... sem allt lék í lyndi á Íslandi, allir frekar hamingjusamir og allt á blússandi siglingu vegna þess að einka(vina)væðingin hafði gert svo margt gott fyrir þjóð og land, meir að segja forsetinn tók þátt í hringdansinum. Síðan fékk hagkerfi heimsins smá flensu og eftirköst hennar eru misjöfn eftir því hvaða parta hagkerfisins þú lítur á.

Ég ætla nú ekki að fara skrifa um kreppuna sem slíka heldur er tilefni þessa pistils raforkuverð en það hefur hækkað mikið undanfarna daga hér í Noregi sökum þess að hitastigið hefur ekki farið yfir frostmark í nokkrar vikur, hefur verið öðru hvoru megin við -10°C undanfarna daga. Fann frétt um þetta í norskum miðlum og hér á Austurlandinu er raforkuverð 1,37 NOK/kWh eða rétt um 30 ISK m.v. gengið í dag. Fyrir sunnan mig  (Suðurland og Vesturland) er verðið þó nokkuð lægra eða um 50 aurar/kWh eða um 11 ISK. Íbúar í kringum Þrándheim  (sunnanvert Norðurland) þurfa hinsvegar að reiða fram 11,32 NOK/kWh (um 240 ISK) meðan íbúar enn norðar í Tromsö greiðar um 4 NOK/kWh.

Hvað þýðir þetta svo, jú mishár rafmagnsreikningur eftir því hvar í landinu þú býrð. Sem betur fer segi ég er rafmagn innifalið í leiguverðinu hjá mér en lauslegir útreikningar mínir sína að raforkunotkun í þessu húsi er um 80 kWh á sólahring. Það sér hver í hendi sér sanngirnina með rafmagnsreikning uppá 900 til  19200 krónur á sólahring fyrir samskonar hús.

En ástæðan, ég held hún sé einkavæðingin, brellumeistararnir í Brussel settu reglur fyrir nokkrum árum um að einkavæða raforkuflutningskerfi og rafmagnsveitur. Eftir minni bestu vitund hefur það verið gert í Noregi en flutningskerfin eru takmarkandi og því er hálfgerð einokun á sumum svæðum, þannig að íbúar hafa aðeins um einn viðskiptavina að ræða. Svona virkar einkavæðingin í hnotskurn, sjálfsagt nær hún tilgangi sínum í einstaka tilvikum en þau eru of fá.

En að léttara hjali og svari við athugasemdum síðustu færslu, USS: ég skal kanna þessi mál og gefa betri skýrslu um fjárhúsin við fyrsta tækifæri. Á enn eftir að athuga hvernig Loðdýrið hér norðvestan við mig hefur það. ALS: Forystufjárþátturinn var ekki sýndur á vefsjónvarpi RÚV þannig að ég sá hann ekki og get lítið sagt um hvað mér finnst, sá hins vegar að sitt sýndist hverjum á hinum nýmóðins sveitasíma (Facebook).

Þar til næst, hafið það gott ... endilega ritið athugasemdir


Ski storsenter ...

... er undarlegt fyrirbæri sem og flestar aðrar verslunarmiðstöðvar, hætti mér þangað áðan en var fljótur út aftur. Skil bara ekki hvernig hægt er að hafa svona mikið af fólki á einum og sama staðnum á sama tíma. Í ofanálag eru svona Storsenter með 10 km millibili hér í Noregi, allavega hér í nágrenni við mig.

Skrapp til að versla ísbor fyrir Ragnar sem hann sá á einhverju tilboði en á ekki heimangengt þar sem hann er einhvers staðar á skíðum hér norður í landi. Mig grunar samt að ekki sé mikið skíðafæri í Noregi í dag, allavega er veðráttan þess eðlis núna, þónokkur skafrenningur, blint og leiðinlegt að keyra. En ég ætla ekki að kvarta, fínt að hafa nóg af snjó, hugsa að ég hafi ekki haft svona mikinn í snjó í kringum mig síðan 1995.

Annars gengur lífið sinn vanagang, hægt og rólega, ég sótti sauðfjárræktarráðstefnu um síðustu helgi sem var mjög góð. Skildi það mesta sem þar fór fram en ég var nú ekkert mikið að spjalla við menn þarna, þó kom einn norðan úr Þrændalögum og spjallaði heillengi við mig, m.a. um Geir H. Haarde sem hann sagði ættaðan úr nágrenni við sig. Hins vegar gladdi það mig meira að heyra hann hrósa íslensku sauðkindinni í hástert, á bæði kindur af norska kyninu og örfáar spælkyninu sem náskylt því íslenska, sagði að Norðmenn ættu bara eftir að átta sig á því að íslenska kindin væri mun betri en sú norska.

Þar sem ég er nú í landbúnaðarnámi og ekki enn séð mikið af norskum bústofni ákvað ég í gær eftir tíma að labba í átt að útihúsunum og reyna að finna fjárhúsin eða kindafjósið eins og sagt er á norskri tungu. Fann ég það og kom mér eiginlega á óvart hversu stórt það var, hitti þar fjárhirðinn Símon sem er frá Bretlandi. Það var gaman að hitta hann og nú þarf maður bara að verða sér út um meiri upplýsingar um þennan sauðfjárbúskap, ætla að hafa samband við yfirfjárhirðinn við fyrsta tækifæri.

Held samt að ummæli vikunnar hafi tölfræðikennarinn minn átt þegar hann var að útskýra PRESS hugtakið sem er notað við tölfræðipróf í fervikagreining. Einn nemandi skildi ekki af hverju sú tala gat verið svona breytileg en svar hans var á þessa leið: „Ef þú mælir fílana þína í míkrógrömmum verður talan há, lág ef þú mælir í tonnum" sem er bara fjandi góð samlíking og alveg laukrétt.

En þar til næst, hafið það gott ... set hér inn mynd af gemlingum í kindafjósinu og eldri ánum, fer seinna og tek fleiri og betri myndir.

IMG 5153

IMG 5155

 


Ísafold, síðasti hluti

III. Um kynbætur nautpenings

1.gr.

Það skal einungis ala nautkálfa undan góðri kú af sem bestu kyni, en með því það er vandi fyrir kynbótanefndina að sjá, hver kýrin tekur annarri fram, skal hún leita sér nákvæmra upplýsinga um kost og löst á hverri kú og ráða síðan til þess er henni virðist best; naut undan strytlum eða gallagripum mega ekki eiga sér stað.

2. gr.

Vilji svo til að undan ágætri kú komi nautkálfur, sem ala skyldi upp, en hlutaðeigandi hafi ekki kringumstæður til þess, þá skal kynbótanefndin annast um, að kálfurinn sé alinn annarstaðar, svo ekki bresti svo góð naut, sem kostur er á.

3. gr.

Nautið má lítið eitt brúkast, þegar það er komið nokkuð á annað ár, svo sem til heimiliskúnna, en þó því aðeins að það sé vel alið, t.d. snemmborinn kálfur, um nýár á eftir, og mestu gætni þarf að við hafa allajafna, svo nautinu komi ekki hnekkir, einkum meðan það er á framfaraskeiði; þegar nautið er 2. ára má fyrst brúka það fullkomlega.

4. gr.

Kynbótanefndin skal hlutast til um, að í hverju byggðarlagi séu haldin svo mörg naut, að nægilegt sé, og skal koma þeirri reglu á, að naut séu sótt og léð til kúa, en sá skaðlegi ávani numinn burtu, að kýrnar séu leiddar til nautanna, einkum að vetrarlagi.

5. gr.

Kálfa skal einkum ala snemmborna eða fyrri part vetrar, og láta þá fá gott uppeldi.

6. gr.

Kvígur mega fá kálf, þegar þær eru þriggja missira, en kjarkmest og heilsubest yrði kynið, ef þær fengju ekki kálf fyrr en fullra tveggja ára. Einnig er það athugavert, að láta ekki kýr eiga kálf tvisvar á sama árinu, og mætti alls ekki halda þeim, fyrr en í fyrsta 9 vikur frá burði.

7. gr.

Það skal taka kýr snemma fastar að haustinu, og eftir tíðarfarinu byrja að gefa þeim með fyrir réttir.

8. gr.

Hverri kú skal ætla 35-40 hesta af töðu af venjulegu bandi eða 50 hesta af stör eða útheyi, en nautum, kvígum og kálfum að tiltölu minna.

9. gr.

Fái nautpeningur kláða af lús eða öðrum óþrifum, þarf að út rýma honum með íburði. Séu kýr varðar öllum óþrifum og kembdar daglega, þurfa þær ekki eins mikið fóður, en mjólka betur.

10. gr.

Fjósin þurfa að vera góð og hirðingin nákvæm, þau skulu vera björt, hlý og loftgóð, básarnir nógu stórir og vel við haldið; hey og vatn, kvöld og morgna um gjafartímann, má ekki bresta. Sé þessa gætt, er líklegt að kúakynið taki miklum bótum, og að afnot kúnna verði langt um meiri.

Ísafold, annar hluti af þremur

II. Um kynbætur sauðfjár

1.gr.

Árlega á hverju vori skulu á hverju heimili þar, sem sauðfjárrækt er stunduð, vera ógelt nokkur hinna fallegustu hrútlamba, er líklegust þættu til undaneldis, og skal setja á sig, að hvaða kyni þau eru í báðar ættir; væri æskilegt að láta álitlegustu hrútsmæðurnar ganga með dilk.

2. gr.

Kynbótanefndin skal síðan árlega á hverju hausti skoða lambhrúta og foreldri þeirra af hverju heimili, og eftir að hafa leitað nákvæmra upplýsingar um kynferðið, velja úr þeim þá sem álitlegastir eru til undaneldis, en hinir skulu haustgeldast; sömuleiðis skal nefndin, að því leyti sem hægt er, árlega taka eftir, hvernig þessum brundhrútaefnum fer að, þar til þeir eru veturgamlir að hausti, og skal þá enn af nýju velja úr þeim þá bestu, en slátra hinum.

3. gr.

Þar sem fjárkyn er fallegast, og að öllu aðgættu best í hreppnum, skal ávallt taka frá nokkuð fleiri hrúta en þar til undaneldis á því heimili, svo ekki verði skortur á góðum brundhrútum, þó sum heimili þurfi að fá hrúta að. Það er varúðarvert að brúka lengi hrút af sama fjárkyni, því féð má ekki verða of skylt, og skal skipta oft um kynferði brundhrúta, t.d. þriðja hvert ár.

4. gr.

Brundhrúta má alls ekki brúka lambsveturinn, á annan vetur má með gætni brúka hrútinn handa 10-15 ám, en á þriðja og fjórða þá hann hefir náð fullum þroska, er óhætt að ætla honum að lemba 30-40 ær.

5. gr.

Brundhrúta skal taka fasta fyrir 1. nóvember ár hvert, og gefa þeim hollt og nægt fóður, og annaðhvort hafa þá hjá lambgeldingum, eða þó heldur í kofa sér, fram í þorralok; úr því má láta þá ganga með ám, en ábyrgjast skal eigandi, að þeir gjöri hvorki honum eða öðrum skaða.

6. gr.

Svo skal búa um lambhrúta, að ekki komist þeir til gimbra á þeim tíma sem þær beiða.

7. gr.

Það skal fara vel með allt fé, og láta það hafa nákvæma hirðing árið um kring, byrja að gefa því snemma að vetrinum, og láta það aldrei missa kvið; þar sem ekki er því betra til beitar, er einkum nauðsynlegt að ala lömb vel í 3 mánuði, desember, janúar og febrúar, þá má ýmist fara að beita þeim eða draga við þau hey. Ám skal gefa yfir höfuð vel, en sér í lagi hleypa í þær eldi um miðjan veturinn. Sauðum skal gefa vel á annan vetur, en úr því þola þeir jafnaðarlega mikla beit, og lakara fóður, en hagur er að gefa þeim gott hey skurðarárið.

8. gr.

Lambgimbrar mega ekki fá lamb, en óhætt er að hleypa ám til á annan vetur, þó er ráðlegt, til að koma sem mestum kjarki í fárkynið, að sleppa árlega nokkrum hjá, einkum þeim sem væri líklegar til að verða brundhrútsmæður, og láta þær ekki eiga lömb fyrr en þrjevetra; það er nauðsynlegt ef rýrar gimbrar eru settar á vetur, að láta þær vera geldar, en aðalreglan skal vera sú, að skera allan rýrðina úr veturgömlu gimbrunum.

9. gr.

Í gjafasveitum skal ætla hverri á og hverjum lambi 4-5 bagga af vænu bandi hverju fyrir sig, og sauðum ekki minna en 2-3 bagga hverjum; að öðru leiti skulu menn ráðfæra sig við kynbótanefndina um heyásetning eftir því sem hagar til með beit á hverjum stað.

10. gr.

Fjárhúsin skulu vera vönduð, rúmgóð og björt.

11. gr.

Strax að haustinu skal bera ofan í féð, til að verja það óþrifum og heyrir það til góðrar hirðingar, að ekki sjáist sprottin sprunga á nokkurri kind. En komi fram óþrifakláði í einhverri kind seinna á vetrinum, verður að útrýma honum með íburði.

12. gr.

Baða skal lömb eða bera í þau að vorinu, áður en þau eru rekin á fjall, til að drepa í þeim lús og forða þeim við óþrifum yfir sumarið.

13. gr.

Best er að hafa lokið af að rýja ær fyrir fráfærur, því þeim bregður við, þegar þær eru teknar úr ullu, en það hefir ekki eins skaðleg áhrif á mjólkina eða gangsmuni af þeim, meðan þær ganga með lömbunum.

14. gr.

Ef óþrif eru í fé að vorinu, þá skal baða það, eða bera í það, um leið og það er tekið úr ullu; mun það þá taka miklu meiri framförum að sumrinu, en sem nemur þeim kostnaði og fyrirhöfninni.

Ísafold, fyrsti hluti af þremur

Rakst á þessa 130 ára gömlu reglugerð þegar ég var að "glöggva" mig á vefsvæðinu timarit.is í dag.
 

FRUMVARP til reglugjörðar um að bæta kynferði búpenings í Skagafjarðarsýslu.

Sýslunefndin skal setja þriggja mann nefnd í hverjum hreppi, til þess að hafa nákvæmt eftirlit með bótum á kynferði alls búpenings í Skagafjarðarsýslu og stuðla til þeirra, samkvæmt reglum þeim, er samþykktar verða í því tilliti.

I. Um kynbætur hrossa

1.gr.

Það skulu af nefnd manna í hverjum hreppi árlega á hverju vori valin og merkt með sérstöku brennimarki, hestfolöld til undaneldis, er skulu vera mörg eða fá frá 4-10 eftir stærð hreppsins og hrossafjölda, skal hafa fyrir mark og mið að folöldin séu af sem bestu kynferði ýmist til reiðar eða áburðar, eftir því sem nefndinni er persónulega kunnugt, sem og eftir útliti og afspurn beggja kynferða. Skal við slíkt val taka til greina, lipurð, ganglaf, fjör, hörku, þol, krafta, holdafar, stærð og vaxtarlag m. m. svo sem lit, fríðleika, háralag, háraprýði og hófagjörð o.s.frv.

2.gr.

Þau hestfolöld, sem ekki eru ætluð til undaneldis, skulu geldast svo fljótt sem auðið er, eftir að þau er þriggja nátta. Sleppi hryssa í afrétt annaðhvort áður en hún kastar eða með hestfolaldi, sem á að geldast, svo ekki verði náð til hennar, verður að sæta fyrsta tækifæri til að vana trippið og sjá um að enginn hryssa fái við því, sem getur auðveldlega skeð, ef það verður tvævetur, áður en það er gelt.

3.gr.

Graðfolana skal síðan fara svo með í 3 ár, að ávallt séu þeir í góðum holdum, svo þeir nái sem mestum þroska áður en þeir eru brúkaðir til undaneldis. Þegar folarnir eru þrevetrir, má brúka þá til hryssa, en þó með mestu varkárni hið fyrsta ár, 4-vetra og eldri má árlega ætla þeim að fylja frá 20-30 hryssur, séu þær leiddar til þeirra, en aðeins frá 10-15, ef þeir eru látnir ganga lausir með þeim, sem ekki má eiga sér stað nema eigandi ábyrgist, að þeir gjöri ekki öðrum tjón.

4. gr.

Temja má graðhesta, en brúka gætilega, meðan þeir eru hafðir til undaneldis, og alls ekkert að vorinu meðan leitt er undir þá, eða hryssum hleypt til þeirra.

5. gr.

Graðhestana skal allajafna hafa í gæslu, svo þeir ekki gjöri skaða, hvorki með því að fylja hryssur, er ekki eiga að fá við þeim, né skemma hross, með biti eða höggum. Skal koma þeim á afvikna staði til fjalla til vöktunar yfir sumarið (að sínu leyti eins og nautum), því þeir mega ekki að sumrinu ganga saman við hross í sveit, og ekki heldur sleppa á afrétt.

6.gr.

Hver sá, er á þessa völdu ákveðnu graðhesta, skal hafa rétt til að taka toll eftir þá, svo framarlega sem hann hirðir folana forsvaranlega, er sé frá 1-3 krónur fyrir hverja hryssu, er þeir fylja.

7.gr.

Hryssurnar skulu hafa náð 4 vetra aldri, áður en þeim sé hleypt til graðhesta, svo þær eignist ekki folöld fyrr en 5 vetra, og að því leyti sem folöldunum er ætlað að ganga með hryssunum að vetrinum, sem eflaust er best meðan hvorttveggja er í góðum holdum, þá ætti ekki að hleypa hryssunum til oftar en annaðhvort ár, enda er sú viðkoma nægileg. Þó skal slíkt á ráði kynbótanefndar.

8.gr.

Það skal halda frá öllum ógerðar eða vanmeta hryssum, en ef þær eignast folöld, þá má ekki láta merfolöld lifa undir þeim, því þau geta á sínum tíma spillt kynferðinu.

9.gr.

Svo fóstrið nái sem mestum þroska og verði heilsugott, skal ekki brúka hryssurnar um fengitímann eða þar litlu á eftir, og varast að ofbjóða þeim með brúkun eða öðru hnjaski allan meðgöngutímann. Eins er að forðast að brúka hryssurnar, þegar þær eru með folöldum, í langferðir eða sviptingar.

10. gr.

Það skal hafa sem mestan hemil og yfir höfuð góða hirðing á öllum hrossum og í því skyni gjöra trippi taumvön, þá þau eru 3-4 vetra.

11.gr.

Hver búandi skal eiga rúmgóð hús yfir öll sín hross og hjúa sinna; bresti húsrúm, verður hann að fækka hrossunum.

12.gr.

Hverju hrossi, að undanteknum gjafarhestum, skal að meðaltali ætla 4-5 hestburði af heyi auk moða yfir veturinn, og ver að hagnýta það fóður svo, með góðri hirðingu, að hrossin verði ekki mögur.

13.gr.

Hross skal taka á hús og hey, meðan þau eru í holdum, ef ekki eru líkindi til að þau bjargi sé sjálf yfir veturinn.

14.gr.

Komi lús eða ormar í hross, er einkum á sé stað um ungviði, þegar þau verða mögur, skal tafarlaust fá slíkum óþrifum útrýmt.

Bráðabirgðarákvörðun.

Til þess að reglugjörð þessi komi sem fyrst að tilætluðum notum, skal nú á næsta vori, gelda alla þá fola, er ekki verða valdir sem nauðsynlegir til undaneldis.

Úr tímaritinu Ísafold, september/október 1879. (Annar og þriðji hluti um sauðfé og nautgripi koma seinna)


Blessuð blíðan

Í þessum rituðu orðum eru -7,5°C hér í Ási og hægviðri, 0,3 m/s. Snjódýptin sú sama og undanfarnar vikur eða rétt um 40 cm jafnfallið. Þannig er nú það, ákvað að blogga þar sem ég var að koma úr tíma sem ég græddi lítið á, ljóta tölfræðiforritið þetta R. Græddi lítið á því að mæta þar sem kennarinn var ekki undirbúinn undir að það væri nýrri útgáfa uppsett en leiðbeiningarnar gerðu ráð fyrir og því þarf að gera fullt af nýjum skipunum.

Annars var þorrablót Íslendinganna hér um helgina, tókst það vel, nóg af mat og fullt af fólki. Var ég aðalskotmarkið í annálnum, sem er bara hið besta mál, því fólk sem ekki er gert grín af geri trúlega aldrei neitt. Fór á föstudaginn með Ragnar að sækja Valda sem nemur skógfræði í Svíþjóð til Moss en þangað kom hann með rútu til að komast á þorrablót. Einfaldasta leiðin frá Ås til Moss er eftir hraðbrautinni E6 en á bakleiðinni ákvað Ragnar að fara aðra leið til að sleppa við vegtoll Norðmanna, en þeir eru lunknir við að innheimta slík gjöld.

Þar sem ég rata lítið, treysti ég alfarið á leiðbeiningar Ragnars, þær voru þó ekki betri en svo að honum leist ekkert á blikuna þegar birtist skiltið Hobøl kommune, var okkur þá eitthvað farið að reka af leið og komnir mun austar en við áttum að fara. Við náðum þó að komast á réttu leiðina með því að beygja til Garder og þaðan til Kroer í staðinn fyrir að halda áfram til Elvestad. Var þetta hin besta útsýnisferð um sveitir Noregs, þó aðeins væri farið að skyggja. Eina sem vakti athygli mín var að mæta strætó inní skóg á einbreiðum sveitavegi, átta mig ekki á hvað leið hann var þar.

Annars er bara ósköp lítið að frétta héðan, annað en lærdómur, verð að fara leita að einhverjum skemmtilegum greinum á timarit.is til að setja hér inn. Hef kannski eitthvað betra að segja eftir næstu helgi þegar ég verð búinn að sækja sauðfjárræktarráðstefnuna Avlskonferanse 2010.

Þar til næst, hafið það gott .............


02-02-10

Það er víst nokkuð um liðið síðan ég ritaði eitthvað hér síðast og ástæðan er ekki sú að ég hafi haft svona mikið að gera heldur þvert á móti ég hef lifað miklu letilífi síðan ég gekk útúr prófinu fyrir rúmri viku. Enda held ég að það sé svolítið dæmigert fyrir þennan skóla að hver önn byrji frekar rólega sem kom sér vel til að geta fylgst almennilega með handboltanum. Tökum bara Frakkana í Malmö eftir tæpt ár og komum með gullpeninginn heim.

En að prófinu sem ég tók, það að taka próf hérna er þó nokkuð meiri vinna en svara bara prófinu, því að skrifa rétt á öll eyðublöðin og raða rétt inní möppu getur nú vafist fyrir manni. Hvíta eintakið fyrir kennara, gula fyrir prófdómara og bleika eintakið fyrir mig sjálfan. Síðan er yfirsetufólkið hér eldri borgarar og þeir eru mjög samviskusamir, passa uppá að öllum reglum sé fylgt í hvívetna. Prófið var gagnapróf og mátti ég vera með allar glósur og verkefni meðferðis, þó svo það stæði skýrt á prófinu spurði allt yfirsetufólkið mitt, „Hvað er í möppunni?" og ég svarði gögn sem ég má hafa. Allir spurðu með miklum efasemdartón og þar sem ég var orðinn þreyttur á þessari spurningu sýndi ég þeim póst frá kennaranum sem hann sendi, þar sem stóð svart á hvítu að þetta væri heimilt, þá fyrst hættu þau að spyrja. Meiri tortryggnin þetta alltaf hreint.

Á þriðjudeginum mætti ég í fyrsta tímann minn í fjölbreytugreiningu og líst mér bara bærilega á þann kúrs, þar er margt til umfjöllunar sem gott hefði verið að vera búinn að læra áður en ég tók t.d. BLUP kúrsinn fyrir jól, þó hann hafði svosem gengið ágætlega. Kennarinn þarna nýútskrifaður doktor í tölfræði með gítarmenntun sem aukafag, sagðist þó ekki ætla að nota gítarinn til kennslu í þessu fagi. Nemendurnir mun fleiri en áfanganum sem ég tók í janúar og alls staðar að úr heiminum, held jafnvel að hvíti kynstofninn sé í minnihluta.

Áður en ég mætti í tíma í dreifnigreiningu var ég búinn að móta mér þá skoðun að kennarinn væri eldri maður gráhærður sem talaði frekar rólega af lýsingum annarra að dæma. Annað kom þó á daginn, þvert á móti var hann andstæða lýsingarinnar og nánast ofvirkur, allavega hélt hann athygli manns allan tímann þrátt fyrir að tíminn væri snemma morguns og allir nývaknaðir. Hef allavega skipt um skoðun á tölfræðingum, verst að hann kennir ekki nema í tvær vikur og þá kemur hinn týpíski rólegi kennari sem ég tel alls óvíst að haldi athygli manns svona snemma morguns.

Ég hló innra með mér þegar ég sá frétt þess efnis, að nýlega hefði lokið 22 daga þíðviðriskafla á höfuðborgarsvæðinu í janúar. Hér er enn frost og ég held barasta að það sé ekkert á leiðinni í burtu, allavega hefur hitastigið ekki farið upp fyrir frostmark síðan einhvern tímann fyrir jól. Og vindurinn er ekkert að flýta sé frekar en fyrr daginn, aðeins bæst við af snjó. Hins vegar skilst mér á fréttum að það sé mjög týpískt íslenskt veðurfar víða á vesturströnd Noregs, þar rignir, er rok og jafnvel stórhríð endrum og eins. Ég verð hins vegar voða líði var við slíkt veður hér í Ási.

Best að fara gera eitthvað gáfulegt, til dæmis að læra svona til tilbreytingar þar sem ég hef lítið gert af því nýlega, en ásamt handboltaglápi í síðustu viku, las ég nýjustu bók Arnaldar og horfði á nokkrar klassískar íslenskar bíómyndir eftir Þráinn Bertelsson. Þar til næst hafið það gott .......


Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Feb. 2010
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband