29.9.2009 | 21:33
Alþjóðaumhverfið í Ási
Annars er það að frétta héðan að hér er orðið skítkalt núna eða þá að ég er að verða veikur, allavega er búinn að vera hálfgerður hrollur í mér í allan dag. Vona frekar að það sé veðurfarið þar sem ég má ekkert vera að því að vera veikur núna, svona rétt fyrir Íslandsför til að komast í fjárrag og smalamennskur.
En annars er umhverfið hér í Ási mjög alþjóðlegt þegar maður fer meira að velta því fyrir sér, allavega þegar ég er að rölta í skólann mætir maður fólki af mjög ólíkum uppruna á gangstéttunum og þegar maður leggur við hlustir þá eru ekkert allir að tala norsku eða ensku, hér heyrir maður óminn að fjöldanum öllum af tungumálum, sumum sem maður skilur ekki baun í. Svo þegar ég var á leiðinni heim áðan þá mætti ég einum Japana sem ætlaði að spyrja til vegar og ég sagðist nú bara vera Íslendingur, nóg fyrir mig að rata þá leið sem ég þarf að fara daglega, get kannski sagt til vegar í vor ef ég verð duglegur að læra.
Síðan finnst mér eitt ansi hreint merkilegt í þessum 10.000 manna bæ að hér er aðeins eitt kaffihús/pöbb Texas" (gætu verið fleiri, hef bara ekki séð þau) og þar mæta nánast allir. Skruppum við Íslendingarnir þangað fyrr í kvöld og í einu horninu þar sátu allir helstu stærðfræðikennarar skólans og ræddu heimsins gang og nauðsynjar. Fannst það skondið þar sem ég var að skila verkefni til þeirra í dag. Þarna var semsagt kennarinn minn og sá sem kom sem forfallakennari í dæmatíma um daginn og vissi ekki neitt að því er mér fannst. Ragnar sagði mér hins vegar í kvöld að sá væri helsti stærðfræðikennari skólans. Vona að ég álpist ekki í tíma til hans.
Frá því síðast hef ég samt sennilega mest ásamt algebrunni stúderað vigtarseðilinn af lömbunum sem fóru í slátrun um daginn, 202 stk., 15,98 kg fallþungi, gerðin 9,13 og fitan 6,09. Hefði viljað sjá meiri þunga og hærri gerð en er mjög ánægður með fitustuðulinn. En það þarf jú að stúdera hann þar sem ég hafði hugsað mér að vinna með gögn frá þessu hausti þegar ég fer að reikna BLUP einkunnir í HFA301 enda hristir Tormod bara hausinn þegar ég opna fjarvis.is í tíma og get nánast náð mér í þau gögn sem ég vil til að vinna með, sem sýnir bara að gott skýrsluhald er góður kostur. Hjálpar allavega við að skilja jöfnurnar sem eru nánast óskiljanlegar í bókinni.
En til að kóróna allt saman þá úthlutaði Odd mér seminar verkefni um val fyrir frjósemiþáttum hjá músum, flestir fá að fjalla um almenn húsdýr en ég um mýs. Æðislegt. Ætla ekki að hugsa um það fyrr en ég kem frá Íslandi aftur, þarf ekki að skila því fyrr en í lok nóvember.
Þar til næst, hafið það gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2009 | 07:21
Er ekki best að blogga snemma morguns
Sit og er að borða morgunmat, sem samanstendur af hafragraut og tebolla. Þarf að fara haska mér af stað í tíma til Odd Vagens, þar sem ég án efa ekki eftir að skilja neitt afskaplega mikið. Sjáum þó til. Að læra á norsku, með kennsluefni á ensku en hugsa allt á íslensku er ekkert mjög góð blanda.
Í þessari viku hef ég aðallega verið að reyta hár mitt yfir línulegri algebru en ég ákvaða að taka svoleiðis áfanga, annað hvort er ég búinn að tapa öllum stærðfræðihæfileikum mínum eða þá að þessi hluti stærðfræðinnar er erfiður, hallast frekar að fyrri liðnum. En í þessu fagi þarf ég semsagt að skila einu skylduverkefni núna eftir helgi (svo ég komist heim til Íslands í seinni leit með þokkalegri samvisku) en það veitir síðan próftökuréttinn í desember. Vonandi tekst mér að klára það. Kennslan í áfanganum er hins vegar að mestu búinn í næstu viku.
Hef heldur ekki komist í alla tíma, þar sem ég á t.d. að vera í þessu fagi og hjá Vagnen á sama tíma. Síðan mætti ég galvaskur í æfingartíma í algebru á þriðjudaginn, hef ekki haft tíma til þess áður, þá fór ekki betur en svo að kennarinn var forfallakennari sem viss lítið. Svo ég sendi aðalkennaranum póst og spurði hann út í eitt dæmið og hann gat nú svarað því en sagði mér líka að tala við æfingarkennarann, ekki alltaf við sig. Gallinn er að ég veit ekkert hvað æfingarkennarinn minn heitir, sem þýðir að allt er í tómu tjóni. En sem sönnum Íslendingi er ég fullviss um að þetta reddist.
Í gærkveldi grilluðum við í Íslendingarnir hér í Ási saman, aðallega maís sem hluti hópsins fór að týna í gær. Var rökrætt um ýmsa hluti í framhaldi af því, misgáfulega. Haustið er eitthvað farið að láta sýna sig hér í Ási, þó hitinn ná alltaf 2 stafa tölu yfir hádaginn. Hins vegar held ég að hann sé nálægt frostmarki í sumum húsum skólans því Norðmenn eru svo sparsamir og tíma ekki að kynda húsin. Þannig að maður verður hálfpartinn að vera dúðaður með húfu og vettlinga ef manni dytti til dæmis í hug að lesa á Skógargarði en þar er lesaðstaða nema í Husdyrfag.
En síðan er það stóra spurningin ætti maður að skipta um bloggsíðu í ljósi frétta gærdagsins, vill náttúrulega enginn bendla sig við Moggann lengur? Held ekki, finnst nýir ritstjórar að mörgu leiti góðir, sérstaklega í ljósi þess að þeir munu ekki kokgleypa við öllum fyrirmælum og fréttum frá klíkunni í Brussel. Vonandi munu Íslendingar bera þá gæfu að halda sig víðsfjarri þeirri klíku næstu árin og áratugina.
Þar til næst, hafið það gott og endilega kommentið .................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.9.2009 | 17:21
Hans hátign
Fór áðan og keypti mér rúm, keypti semsagt ekki rúmið í Osló, allt of mikið vesen að fara þangað, langur akstur og svoleiðis. Fékk tiltölulega nýlegt rúm hér í Ási á 500 krónur. Haukur skutlaði mér þangað og svo festum við það bara á toppinn á bílnum og keyrðum til baka. Ég er heldur ekki einn í kotinu lengur, kominn með meðleigjendur, ekki einn heldur tvo en þær Anna Katrín og Snædís ákváðu að flytja hingað, þannig að hér verður svona Íslendingastemmning í vetur.
Skrapp til Evrópusambandsríkisins Svíþjóðar á miðvikudaginn til að versla, þar er matarverð nefnilega ódýrara en í Noregi plús það að sænska krónan er hagstæðari námsmönnum sem eiga bara íslenska peninga. Svolítil upplifun að koma þangað enda eru það Norðmenn sem eiga staðinn og gera útá það að fá Norðmenn þangað til að versla. Hins vegar fannst mér sumt dapurt þarna eins og ásýnd þeirra sveitabæja sem ég sá, sem styður mig í þeirri trú að ESB sé bara ríkumannaklúbbur sem Ísland á ekki að vera sækja um aðild að.
Nú er smalamennskur og réttir í Dalasýslunni, langar voðalega mikið að vera þar, en það er víst ekki í boði þessa helgina, bæti það upp eftir hálfan mánuðum með því að kíkja í seinni leit og komast aðeins í eigið fé til að skoða.
Þar til næst, hafið það gott. Endilega kvittið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2009 | 14:57
y = Xb + Zu + e
Annars er maður bara svona smásaman að koma sér fyrir, ætla fara til Oslóar á eftir að kaupa eins og eitt stykki rúm ef mér líkar það, fer ekki vel með hávaxinn mann að sofa í of litlu rúmi til lengdar.
Síðan held ég að sé alveg ljóst að maður á ekki eftir salla á sig hér í vetur, matur er dýr og maður leyfir sér nú ekki allan munað í þeim efnum. Allavega er ég strax farinn að þrengja beltið á buxum til að þær haldist uppi. En maður má nú ekki svelta sig heldur, því þá verður maður skapvondur og allt ómögulegt, þess vegna eyðir maður góðum tíma út í búð þegar maður verslar í að finna ódýrar vörur. Til dæmis er margfalt ódýrar að kaupa 18 egg saman en 6 egg í pakka.
Til að gefa lesendum innsýn í verðlagið er hér hluti af síðasta innkaupaseðli mínum: 500 gr hakk, 34,9 krónur (733 ISK), 1 lítri mjólk á 13,9 krónur (292 ISK), 1 lítri AB-mjólk á 26,5 krónur (557 ISK) Bananar 16,5 krónur/kíló (347 ISK), grænmetisblanda (gulrætur, brokkóli og blómkál), 25 krónur (525 ISK) o.s.frv. Þannig að maður leyfir sé nú ekki hvaða munað sem er, hef ekki enn þorað að líta á bjórverðið, drekk bara vatn, það er þó frítt í krananum eins og á Íslandi.
Það sem sló þó öllu við í verðlaginu var þegar ég borgaði skólagjöldin, þau voru ekki há eða 340 krónur, en í bankanum var tekið 75 króna þjónustugjald fyrir að borga reikninginn eða rúmlega 1500 ISK, það er ekki nema von að íslenska bankakerfið hrundi, þeir kunnu ekkert að innheimta þjónustugjöld samanborði við frændur þeirra í Noregi.
En þangað til næst ... har det bra og endilega kommentið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2009 | 17:42
Mikið fjandi er brekkan brött!
Eins og titillinn gefur til kynna hugsa ég þessa daganna, hvað ég sé eiginlega búinn að koma mér útí og hvort þetta hvað verið rétt ákvörðun að fara út. Langar þá mest til að stökkva uppí næstu flugvél heim og hætta þessu en þá kemur á móti ég verð að gefa þessu tíma, ef ekki núna þá geri ég það sennilega aldrei. Enda ætla ég mér að þrauka hér fyrst fram að jólum og svo vonandi fram á vor og svo kannski annan vetur hér eða þá að ég klári ritgerðina heima þar sem veskið verður nánast tómt í vor nema kraftaverk gerist með verðlagið hér úti og íslenskan krónan taki að styrkjast til fyrra horfs.
Á hinn bóginn vísar titill færslunnar í leiðina sem ég labba í skólann en ég er fluttur á Solfallsveien 44 og síðasta brekkan hér upp götuna er fjandi brött, er þetta húsnæði í smá fjarlægð frá skólanum (2- 2,5 km held ég) og á maður sennilega eftir að halda sér í ágætisformi með því að labba í skólann, því ég er um 40 mínútur að labba í tíma enda er Husdyrfag byggingin þar sem landbúnaðar/fiskivísindi eru kennd höfð lengst í burtu, sennilega erum við fólkið sem höfum áhuga á þessu annað hvort svona skrítið eða illa lyktandi.
Held allavega að ég verði hér í vetur, afþakkaði allavega húsnæði á Pentagon í gær þegar skyndilega losnaði þar pláss, nenni ekki að flytja í hverri viku. Auk þess held ég að hér hafi ég það bara gott, hef stóra stofu, þráðlaust net, gervihnattasjónvarp, frystir, þvottavél og ýmis þægindi sem ekki eru á Pentagon, er hreinlega farinn að trúa því að Pentagon sé hálfgert fangelsi, m.v. sögurnar sem maður heyrir, allavega langar mig ekkert til að búa á þeim partýstað, legg frekar á mig að labba 30-40 mín lengur hvern dag, sá tími hlýtur að styttast þegar ég eyk æfinguna og skreflengdina í labbinu. (Verð að játa hér að ég lærði aldrei að hjóla þegar ég var lítill (minni) og efast um að ég geti lært það úr þessu)
Svo eru það kennsluaðferðirnar hér, ég hló nú pínulítið þegar ég mætti í fyrstu tímana og maður sá hvað nýjungagirni Íslendinga er mikil. Hér eru nefnilega krítartöflur enn og skjávarpinn er bara rétt að hefja innreið sýni, enn til kennarar sem nota bara gamla skjávarpann með glærum. Þó er örlítið um kraftbendilssýningar, held að Hvanneyringar hafi það bara of gott með skoli.is og upptökur á námsefni.
Í dag var sól og fínasta veður úti, bændur farnir að þreskja korn sem er í misjöfnu ásigkomulagi eftir rigningar sumarsins, skilst að hafi verið 3 dagar í ágúst sem ekkert rigndi hér á þessu svæði. Enda er ég mun jákvæðari í dag en í gær, markmið dagsins í dag var að skilja 5% af námsefni dagsins, komst að því að ég skildi meira en það og gat gert æfinguna nokkuð skammlaust, þó ég þurfi að rifja svolítið upp, mjög ógnvekjandi jöfnur sem maður er að fást við á hverjum degi. Allavega kom einn af þeim sem ég er í tíma með (frá langtíburtistan, bangadesh minnir mig) og leitað ráða hjá mér, ég gat útskýrt eitthvað og upplifði mig nokkuð gáfaðan í smá stund.
Já, síðan fór ég í norskutíma á mánudaginn, græddi lítið á honum, sýnir sig að eitthvað situr eftir að grunnskóladönskunni því þeir sem voru með mér þar skildu lítið enda flestir frá Asíu svo ég held ég horfi bara áfram á norska barnatímann og nái mér í norskar léttlestrarbækur, held maður læri norskuna hraðar svoleiðis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.9.2009 | 16:54
Af Noregsdvöl
Nú er maður víst floginn af klakanum og kominn til Noregs, búinn að vera hér í viku og er svona að sættast á þetta allt saman og ætla mér að þrauka í vetur, hvort ég skipti yfir til Íslands seinni veturinn verður svo tíminn bara að leiða í ljós.
Ég er semsagt sestur á skólabekk í Universitetet for miljø- og biovitenskap að Ási í Noregi og markmiðið er að taka master í búvísindum með áherslu á kynbótafræði. Þetta hefur nú ekki gengið þrautalaust fyrir sig allt saman, í fyrsta lagi tókst skólanum hér og húsnæðismiðluninni (SiÅs) að klúðra umsókn minn um húsnæði alveg rækilega þannig að ég var húsnæðislaus þegar ég kom og hef fengið að gista í sófanum hjá heiðursfólkinu Hrafnhildi og Ragnari sem hafa verið hér í námi síðustu tvö ár. Allavega leist mér engan veginn á bráðabirgðahúsnæðið sem mér var boðið, það var í Molla sem ein af byggingum Pentagon og voru tvær kojur í herbergi og sameiginlegt eldhús, frekar sjabbý allt saman og ekki fyrir mig að dvelja þar.
En nú hillir undir húsnæði, búinn að skoða ýmislegt á einkamarkaðinum hér og fann loksins íbúð sem er ekkert of langt frá (ca. 2 km) og ætla að taka hana. Það kostar þó að ég þarf að finna mér meðleigjanda því hún er það stór fyrir mig einann en þetta er kjallaraíbúð (með öllum húsgögnum) og á efri hæðinni býr ein gömlu kona. Ætla að flytja þangað á morgun en leigan á þessari íbúð er 5000 NKR sem eru alltof margar íslenskar krónur, þar sem gjaldmiðillinn okkar á við einhverja pest að etja þessa stundina.
Síðan er ég búinn að taka þá ákvörðun að taka bara hæfilega margar einingar fram að jólum, ætla að taka 2 masterskúrsa og 1 grunnkúrs til að skilja betur annan masterskúrsinn. Svo er ég að hugsa um að smygla mér með í norsku þó skólakerfið hér segi að allt sé fullt, hér þarf maður sjálfur að passa uppá skrá sig í rétta áfanga. Fór í einn tíma í HFX251 sem er á norsku og ég legg ekki í hann að svo stöddu, námsmatið þar var 40% hópverkefni og 60% munnlegt próf í lokin, held sé betra að ná smá grunni í norsku fyrst.
Þannig að þetta eru áfangarnir sem ég ætla að reyna við í haust:
HFA301 Calculation of Breeding Value
HFA303 Biological Aspects of Animal Breeding
MATH131 Linear algebra
Ætli ég láti þetta ekki nægja að sinni, veðrið er búið að vera gott í dag og vona ég að svo verði áfram því hér rigndi nánast alla vikuna og það er ekkert eðlilegt hvað getur rignt hér, held að Hvanneyri sé bara hátíð miðað við Ás. Læt heyra í mér fljótlega aftur !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar