12.11.2007 | 05:19
Að kvöldi mánudags
Mánudagsmorgun að renna upp á Íslandi núna og eflaust einhverjum sem langar að forvitnast hvað hefur á daga mína drifið hér fyrstu helgina. Ég er svona að komast inní lífið hérna á bænum og hér er fólkið mjög vinalegt og gott, fyrir mér líkist þetta bara alvöru íslensku sveitabæ og þetta hentar mér ágætlega. Þau skilja mjög vel mína slælega lélegu ensku og ég skil þau alltaf betur og betur, nýsjálendingar tala mjög hratt þannig að ég bara yppti öxlum ef ég skil þá ekki.
Svo ég skýri út merkinguna á bæjarnafninu þá stendur Lawson fyrir efri hluta á trjánum eða kórónurnar sem eru hér út um allt en Lea stendur fyrir alla akrana sem eru hér en þeir eru margir allt girt af. Vona að þetta skiljist. Ég er nú ekki búin að ná öllu varðandi kynbæturnar hér en aðalræktunarkynið er COOPWORTHS og er að ég held eitt aðalfjárkynið hér á Nýja-Sjálandi. Það var þróað af prófessor Coop um 1960 við blöndun Border Leicester og Romney. Helstu kostir þessa kyns eru há lambaprósenta á hverja á (á eftir að komast að því hver hún er), sláturþyngd er góð, mikil ullarvöxtur og vanhöld eru mjög lítil. Einnig eru hér nokkrar Suffolk kindur en þær eru bara til kjötframleiðslu og óskráðar. Þessum tveimur kynjum er blandað saman og þá fást blendingar með mikinn vaxtarhraða og eru fyrr tilbúnir til slátrunar "the meat factory".
Ásamt þessum bústofni sem telur nálægt 5000 kindum eru hér 180 nautgripir og nokkur dádýr. Hingað eru keyptir kálfar frá mjólkurbúunum og þeir aldir upp í sláturstærð sem er oftast við 18 mánaða aldur. Einnig fá mjólkurbændur að hafa kvígur hér í hagagöngu uns þær verða nógu stórar til að hefja mjólkurframleiðslu, þ.e. borga þeim fyrir beitina meðan þær eru að vaxa úr grasi. Svo er hér ein kýr sem er mjólkuð fyrir heimalningana en þeir eru eitthvað um 20, hef ekki talið þá nákvæmlega. Hún er mjólkuð með frumstæðari vélfötu en ég hef lært um á Íslandi. Svo eru náttúrulega hundar hérna til að nota við smölun á kindunum þegar þarf að meðhöndla þær eitthvað.
Landið sem þessir gripir eru á spannar eitthvað um 15000 ekrur sem jafngildir tæpum 600 hekturum og hjónunum hérna finnst skrítið að ég komi frá búi á Íslandi með 400 kindur og landið sé á bilinu 1500-2000 hektara. En Ísland og Nýja-Sjáland eru mjög ólík hvað þetta varðar. Hér eru bara notuð fjórhjól og mótorhjól til að smala kindunum saman ásamt hundum. Mér óaði nú stundum við aðförum hundana við kindurnar á laugardaginn en það er hægt að láta þá elta eina kind sem sleppur og ná henni, það sást oft smá blóð, eitthvað sem ég held að myndi ekki viðgangast á Íslandi.
En semsagt á laugardaginn var ég að aðstoða fólkið hér við að setja gúmmíhringi á halann á lömbunum svo hann detti með tímanum af. Þetta er gert til að þær verði snyrtilegri að aftan, þ.e. ullin óhreinkist ekki mjög mikið. Öllu beitt á gras og því mikill klessingur á kindunum líkt og sést á þeim íslensku þegar þær komast á túnbeit. Einnig voru lömbin meðhöndluð við "Scabby mouht" sem er einhver veira sem er landlæg hér í kindum og geitum, þarf að komast að því hvernig hún lýsir sér. Elstu lömbin fengu líka ormalyf, ekki nánda nærri öll. Held að það hafi verið tekin eitthvað um 500 lömb í svona meðferð á laugardaginn. Þessi framkvæmd lýsir sér þannig að allt er rekið inní trekt að flokkunargang og svo rennur það í gegnum hann, ærnar fara í gegn en lömbin í þröngt hólf og eru svo meðhöndluð þar og sleppt út.
Bóndinn er núna á ræktunarráðstefnu í Christchurch um Coopworth og verður þar fram á miðvikudag, kona sagði mér að slaka á þess tvo daga og vita hvort ökklinn verði ekki betri. Fór í morgun til nágrannans sem er með Texel fé en þar voru ástralskir búfræðinemendur í heimsókn. Hlustaði á hann tala um búið en ég náði nú ekki öllu en hann ætlar að bjóða mér aftur seinna og tala við mig á rólegu nótunum svo ég skilji þetta allt saman betur. Fer líka á miðvikudaginn í einhvern discussion group þar sem bændurnir hér á svæðinu koma saman og hlusta á ráðunautinn segja allt það nýjast í ræktunarmálum, verðu án efa mjög fróðlegt.
Ætla fara að enda þetta núna en langar að nefna eitt að lokum, fannst svolítið merkileg tilfinning að fara með bóndanum í gær og víxla kindum milli beitarhólfa, segja bara "follow me" og það kemur strollan af kindum og eltir mann yfir í næsta hólf. Væri nú aldeilis munur ef maður gæti sagt þetta við íslensku kindina. Set inn eitthvað af myndum ekki margar það tekur svo langan tíma að senda þær yfir netið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Bloggfærslur 12. nóvember 2007
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar