11.12.2007 | 09:11
Hvíti víkingurinn
Frá því að ég ritaði síðast um tækniframfarir Nýsjálendinga hefur svosem ekki margt skeð, jú dráttavélarvinnan er búin að því er ég held vonandi enda búinn að fá alveg nóg af þessum tæknivæddu vélum. Á föstudaginn var ég í girðingarvinnu og þar var notað mjög sérstakt tæki til að reka niður stauranna, ég hef ekki séð svona tæki áður, má sjá hér, spurning um að einhver flytji svo tæki inn og fari að markaðssetja á Íslandi, veit ekki, held að járnkall og sleggja séu góð og gild tæki m.v. þetta eftir reynslu mína af því á föstudaginn, væri kannski spurning um að ydda staurana hér líka þá gengi þetta hraðar.
Ég er nú ekki mjög tæknisinnaður maður og yfirleitt vanur því að tæki bremsi þegar maður stígur á bremsurnar, ég var því mikið búinn að velta því fyrir mér af hverju allar gömlu Ferguson dráttavélarnar hér væru bremsulausar með öllu þegar maður færi niður smá halla. Á föstudaginn var ég síðan sendur á Fergussyninum með ámoksturstækin þar sem við vorum að girða, staðsetning ofarlega í brekku. En til að komast þangað þarf líka að fara niður brekku og það þó nokkuð bratta og langa brekku (myndi giska á að halli hennar væri nálægt 40%), og ég get alveg sagt eins og það er ekkert mjög gaman að fara fríhjólandi niður slíka brekku á gömlum bremsulausum Ferguson. Á tímabili var ég hvítari en allt sem hvítt er horfandi á árekstur með skóflu ámoksturstækjanna við brekkuna uppí mót, hafði orð á þessu bremsuleysi við Tony og hann hló að mér og spurði mig hvort Graeme hefði ekki kennt mér á mótorbremsuna, nei það gerði hann ekki. Þá eru allar Fergusonvélarnar (engin af svipuðum Fergusonvélum sem ég hef séð á Íslandi hefur þennan útbúnað) hér útbúnar með slíku en ekki vissi ég það og ekki mikið fyrir að prófa handföng og stangir á tækjunum hér því þau eru ekkert svo ný af nálinni. Vitandi þetta gekk heimferðin betur en ég er samt á því að fótbremsa eigi líka að virka á dráttarvélum. Hefði verið gaman að ná mynd af andlitssvip mínum þarna.
Í gær var síðan byrjað á því að venja lömbin undan ánum og það get ég sagt þar er unnið mjög hratt. Vakin upp klukkan sex í gærmorgun og byrjað á því að reka allt heim á jörðinni þar íbúðarhús Tony er (þar eru 1400 kindur), síðan var flokkað í sundur lömb og ær, þyngstu lömbin eða 245 stk send í sláturhús, hin öll ormahreinsuð (eitthvað um 1800), þetta var allt búið um tvöleytið, þá var hafist handa við dagging the lamb sem er akkorðsvinna, ætla ekki að skýra það út nánar hér en sá sem kemur með góða skýringu á því í athugasemd fær nýsjálenskan minjagrip þegar ég kem aftur til Íslands. Það var klárað um hádegi í dag þá voru ærnar flokkaðar og skurðarærnar teknar úr hópnum og sendar í sláturhús eða the Rolla´s eins og Tony orðaði það. Síðan er rúningur í næstu viku en haldið áfram að venja lömbin undan hér heimavið í vikunni.
Á laugardaginn fór ég og hjálpaði Young Farmers að beiðni Tony´s að crutching the lamb á bæ í nágrenninu. Það var mjög gaman og um kvöldið var síðan grillveisla í ullarskýlinu hjá einum að meðliðum samtakanna, þar var ekki heilgrillaður hrútur eins tíðkast á Hvanneyri í boði heldur heilgrillaður göltur. Fínasta skemmtun og fínt fyrir mig að hitta fólk og reyna að gera mig skiljanlegan. Á sunnudaginn átti húsmóðir svo afmæli og var því öllu tekið rólega hér, grillveisla utandyra, var nú meira á skuggsælum stöðum því það var ríflega 30°C hiti og mér fannst ekkert gaman að vera í sólargeislunum, er ennþá að aðlagast þeim. Seinnipart sunnudagsins var jólaundirbúningur með því setja upp jólaskraut og jólatréð, þar þurfti hjálp stóra Íslendingsins til að setja jólaengilinn á toppinn. Gerði það að góðum og frjálsum vilja en fyrir mér eru ekkert að koma jól, það er sumar og það eru ekki jól á sumrin, það verður því fróðlegt að upplifa jól að sumri hér úti, því til staðfestingar finnst mér kjánalegt að hlusta á jólalög í sól og 30°C hita.
Þakka fyrir allar athugsemdir við síðustu færslu en hef þetta við þær að bæta ætli það hafi ekki verið glampinn af mínum hvítu leggjum sem lokkaði ærnar í gegnum hliðið Sveinn, ég var allavega ekki í graskögglapoka, en grasið virtist mun grænna við ljósið frá mér en dagsbirtuna og Axel ég held að smalabrjálæðingar þurfi ekkert að óttast hvort sem er í Dölunum eða Skagafirði, íslenska kindin verður aldrei svona ekki nema einhverjum detti í hug að flytja inn nýtt kyn til kynbóta vona samt ekki þar sem íslensk sauðfjárrækt er enn að berjast við síðasta innflutning í Skagafjörð ef einverjum langar að senda mér jólakort óskast það sent í Ásgarð, sé það þegar ég kem heim, held að póstsamgöngur yfir hnöttinn taki mjög langan tíma er allavega ekki enn búinn að fá hrútaskránna sem var send af stað fyrir nokkrum vikum svo ég sé ekki alveg á gati í hrútafræðum þegar ég kem aftur til Íslands auk þess sem ég skipti um bú núna í lok mánaðar og veit ekki nákvæma staðsetningu enn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggfærslur 11. desember 2007
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar