27.11.2008 | 14:14
Af kreppu
Ætli sé ekki kominn tími á bjartsýnisblogg um fjármál þar sem allir blogga neikvætt um efnahagsmál og peningamál þessa dagana, ég nenni því ekki enda er ég búin að loka á þessar leiðindafréttir um að þjóðarskútan sé strönduð og allt sé að fara til fjandans og þar fram eftir götunum. Það er vitað mál að meðan maður hugsar jákvætt þá kemur betri tíð með blóm í haga, mun allavega gera það í sveitinni.
Annars er það helst að frétta að skólinn gengur bara sinn vanagang, styttist í próf og þá er víst best að taka fram lærdómsgírinn og standa sig svo maður klári nú þennan skóla í vor, 4 próf í desember og reyndar 3 annarverkefnum enn ólokið en þetta reddast allt fyrir 18. desember og þá ætla ég líka að njóta þess að halda íslensk jól og jafnvel dvelja eitthvað fjárhúsinu og ráðskast með erfðaefni eigin fjár á fjórum fótum.
Þó svo að væri nú gott að vera í Kívílandi þá jafnast ekkert á við íslenskan vetur með tilheyrandi myrkri og kulda, sumarhitinn var fínn en bara í temmilegu magni. Næstkomandi mánudag á ég heimboð ásamt nokkrum vel völdum Hvanneyringum á Bessastaði þar sem Ólafur og Dorrit langar að hitta okkur. Þó að ég sé frá stórasta landi í heimi vona ég að ég sé ekki stórasti maður stórasta lands í heimi en hvað um það.
Niðurstöður í skýrsluhaldinu eru komnar í hús og er ég bara nokkuð sáttur með þær þó svo að frjósemin síðasta vor hafi verið með sú lakasta frá því ég man eftir mér en allavega 29,6 kg eftir hverja kind og vanhöld með því lægsta sem sést eða 1,75 lömb fædd og 1,72 lömb til nytja. Þeir hrútar sem voru að toppa sem lambafeður í haust eru þeir sömu og gerðu það gott í afkvæmarannsókninni eða Skugga-Sveinn Gránason og Stormur Catson. Hvað mæðraeiginleika varðar er enginn sérstakur toppur en þó standa dætur Hrings alltaf fyrir sínu en hann er einmitt afi Skugga-Sveins svo ég bind vonir við hann sem ærföður eftir nokkur ár.
Af erfðaefni kynbótabankans sem fer seint í þrot eða verður þjóðnýttur ætla ég að nýta mér kosti tveggja hrúta þeirra Púka og Prjóns en til að dreifa áhættunni meira hef ég hugsað mér að nota kannski Bramla og Kveik líka, jafnvel Kalda ef ærnar heima sýna viðskiptum við þennan banka áhuga rétt fyrir jól.
En best að hætta þessari þvælu í bil og þangað til næst hafið það sem best og munið ... hugsa jákvætt ... það bætir sál og líkama.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Bloggfærslur 27. nóvember 2008
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar