Ski storsenter ...

... er undarlegt fyrirbæri sem og flestar aðrar verslunarmiðstöðvar, hætti mér þangað áðan en var fljótur út aftur. Skil bara ekki hvernig hægt er að hafa svona mikið af fólki á einum og sama staðnum á sama tíma. Í ofanálag eru svona Storsenter með 10 km millibili hér í Noregi, allavega hér í nágrenni við mig.

Skrapp til að versla ísbor fyrir Ragnar sem hann sá á einhverju tilboði en á ekki heimangengt þar sem hann er einhvers staðar á skíðum hér norður í landi. Mig grunar samt að ekki sé mikið skíðafæri í Noregi í dag, allavega er veðráttan þess eðlis núna, þónokkur skafrenningur, blint og leiðinlegt að keyra. En ég ætla ekki að kvarta, fínt að hafa nóg af snjó, hugsa að ég hafi ekki haft svona mikinn í snjó í kringum mig síðan 1995.

Annars gengur lífið sinn vanagang, hægt og rólega, ég sótti sauðfjárræktarráðstefnu um síðustu helgi sem var mjög góð. Skildi það mesta sem þar fór fram en ég var nú ekkert mikið að spjalla við menn þarna, þó kom einn norðan úr Þrændalögum og spjallaði heillengi við mig, m.a. um Geir H. Haarde sem hann sagði ættaðan úr nágrenni við sig. Hins vegar gladdi það mig meira að heyra hann hrósa íslensku sauðkindinni í hástert, á bæði kindur af norska kyninu og örfáar spælkyninu sem náskylt því íslenska, sagði að Norðmenn ættu bara eftir að átta sig á því að íslenska kindin væri mun betri en sú norska.

Þar sem ég er nú í landbúnaðarnámi og ekki enn séð mikið af norskum bústofni ákvað ég í gær eftir tíma að labba í átt að útihúsunum og reyna að finna fjárhúsin eða kindafjósið eins og sagt er á norskri tungu. Fann ég það og kom mér eiginlega á óvart hversu stórt það var, hitti þar fjárhirðinn Símon sem er frá Bretlandi. Það var gaman að hitta hann og nú þarf maður bara að verða sér út um meiri upplýsingar um þennan sauðfjárbúskap, ætla að hafa samband við yfirfjárhirðinn við fyrsta tækifæri.

Held samt að ummæli vikunnar hafi tölfræðikennarinn minn átt þegar hann var að útskýra PRESS hugtakið sem er notað við tölfræðipróf í fervikagreining. Einn nemandi skildi ekki af hverju sú tala gat verið svona breytileg en svar hans var á þessa leið: „Ef þú mælir fílana þína í míkrógrömmum verður talan há, lág ef þú mælir í tonnum" sem er bara fjandi góð samlíking og alveg laukrétt.

En þar til næst, hafið það gott ... set hér inn mynd af gemlingum í kindafjósinu og eldri ánum, fer seinna og tek fleiri og betri myndir.

IMG 5153

IMG 5155

 


Bloggfærslur 20. febrúar 2010

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband