Kaffi ...

... stendur alltaf fyrir sín, eitt og sér eða með einhverju meðlæti. Er einmitt að renna niður einum bolla af rótsterku „íslensku" kaffi meðan ég rita þessar línur. Veit ekki um hvað maður ætti að skrifa í dag, veðrið er náttúrulega klassískt og gott að vanda, hitinn kominn upp fyrir frostmark og sólin farin að skína, dægurklukkan hefur meir að segja færst nokkrar stundir fram frá því myrkrið var sem mest.

Lítið markvert drifið á daga mín síðan á mánudag, gat reyndar gefið tveimur villtum konum leiðbeiningar um hvert skyldi halda til að komast til Svíþjóðar, voru að leita að E18 þjóðveginum en ég benti þeim bara á að E6 væri hér rétt handan við næstu beygju og þá væri leiðin greið til Svíþjóðar. Önnur þeirra spurði mig reyndar strax hvort ég væri Íslendingur, heyrði það á minni bjöguðu norsku. (Gott að maður heldur einhverjum þjóðareinkennum) Það eru víst ekki bara við námsmennirnir sem förum þangað, hugsa að í dag sé mikil örtröð í Nordby, því margir Norðmenn leggja leið sín þangað í dag að versla, sennilega mest einskis nýtan varning.

Því er pæling dagsins á þessa leið. Allsstaðar þar sem fólk býr sækir það í að versla ódýrasta matinn, jafnvel þó að hann sé tilkominn á óhagkvæman hátt. Til dæmis kemur það sér vel að versla ódýran mat þarna en ég efast um að þeir sem framleiði hann hafi það gott innan veggja ESB enda segi ég það og mun standa við það eins lengi og ég get að aðildarumsókn að ESB er eitthvað það alvitlausasta sem Íslandi hefur dottið í hug uppá síðkastið.

Síðan skiptast menn í já og nei fylkingar sem keppast við að benda á rökleysu hins aðilans.  Jámenn gagnrýna BÍ harðlega fyrir að vera fastir í torfbæjarsjónarmiðinu og vilja ekki sjá jákvæðu hliðarnar meðan neimenn s.s BÍ benda á galla þess að fara þarna inn. Sjálfsagt eru einhverjir kostir en gallarnir eru veigameiri að mínu mati. Mér finnst til dæmis einstaklega vitlaust eins og ég skil komandi aðildarviðræður að það þurfi að setja lög og aðlaga lagaumhverfi að regluverki ESB, t.d. með því að stofna greiðslu- og eftirlitsstofnun fyrir landbúnaðinn. Ef síðan kæmi að því að Ísland vildi ekki ganga inn þá verður þessi stofnun eftir sem áður til með haug af starfsmönnum greiddum af íslenska ríkinu. Er það þetta sem Íslendingar vilja, auka umsvif hins opinbera enn meira með misjafnlega gáfulegum ríkisstofnunum, dæla skattpeningum þangað. Síðan er í raun grátlegt að heyra hvernig menn tala um að þessi og hinn sé á ríkisgarðanum með pening, sannast sagna er fjármálavitund Íslendinga ekki mikil og ég legg því til að menn ættu ekki að vera tjá sig um ríkisfjármál nema kynna sér hlutina fyrst og það vandlega.

Held reyndar að Samfylkingin sé orðin svo veruleikafirrt í þessu ESB máli að verði hún lengur við völd á Íslandi muni hún gera allt sem hún geti til að þvinga landið inn í ESB t.d með því að hafa ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu heldur, því hún væri sennilega marklaus svo vitnað sé í forystumann þeirra. Las einhversstaðar um daginn að heimskan væri eitt af stórveldum heimsins og liðsmenn hennar gætu auðveldlega orðið ofan á mönnum og málefnum til ómetanlegs tjóns. Hver vegna segi ég þetta, gætu sumir spurt sig núna. Nú vegna þess að Samfylkingin og heimskan eiga býsna margt sameiginlegt í þessu ESB máli. Ef einhver ESB sinni hefur lesið þetta er hann sjálfsagt pirraður núna yfir því snýr heimskunni uppá mig og að torfbæjarhugsun verði til ómetanlegs tjóns, en ég er bara stoltur af því, held reyndar að torfbæjarhugsunin gæti komið Íslandi fyrr á lappirnar og orðið mönnum til góða.

Ég er nefnilega orðinn hundleiður á öllu því kjaftæði sem kemur uppúr ESB sinnum um að allt muni snúast til betri vegar með því og Íslandi fá miklar undanþágur. Síðan hvenær hafa jafnræðisbandalög veitt undanþágur þann að einn hefur meira en hinn, held að þeir sem halda slíku fram ættu að lesa einhverjar skólabækur aftur. Ég held að lífkjör muni snúast fljótt á verri veg við inngöngu, það er nefnilega þannig að alþingiskosningarnar 25. apríl sl. gáfu til kynna að á Íslandi búa rétt um 240.000 einræðisherra + tæplega 56 manns sem aðhyllast sjálfhverfuna í Brussel og tilbiðja hana á hverjum degi. Einræðisherrar munu aldrei geta setið undir reglum og valdi annarra það er ekkert flóknara en það, hvers vegna á þá að vera sækja um aðild að slíkum klúbb.

Hvað um það, í norska sjónvarpinu er þessar vikurnar raunveruleikaþáttur sem heitir Farmen sem gengur út það að fólk á að lifa af við aðstæður eins og þær voru 1910. Þó svona þættir geti á stundum valdið manni smá kjánahroll velti ég því fyrir mér í alvöru hvort ekki væri hægt að gera svona þátt á Íslandi, held að þetta gæti orðið skemmtilegt sjónvarpsefni og ekki síður til þess fallið að upphefja sveitina aftur í augum fólks, held nefnilega að vanþekking fólks á landbúnaðarmálum sé undirstaða þess heimskulega áróðurs sem það heldur fram.

En að léttara hjali, ærnar hjá skólanum voru rúnar í vikunni og svo bara hent út á guð og gaddinn eins og meðfylgjandi mynd sýnir, hafa reyndar aðgang inn í hlýjuna í fjárhúsunum líka ... vona að slíkar dyr verði líka opnar fyrir íslenska einræðisherra þegar heimskan sem áður er lýst heldur að hún verði búin að fullkomna ætlunarverk sitt.

Þar til næst, hafið það gott .............. Fjárinn, kaffi er orðið KALT.

IMG 5175


Bloggfærslur 13. mars 2010

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband