17.1.2010 | 16:41
Meira af vexti og vöxtum Norðmanna
Er ekki best að rausa svolítið fyrst er sunnudagur og maður nennir engan veginn að læra. En í framhaldi af vaxtarumræðu í síðustu færslu er rétt að tala aðeins um annarskonar vexti, þ.e. fjármálavexti Norðmanna. Ég hef svosem bloggað um þá áður en þegar ég fór að skoða bankayfirlitið mitt sýnist mér á öllu að Norðmenn séu búnir að nappa af mér hátt í 500 NOK vegna ýmis konar gjalda síðan ég stofnaði bankareikning um miðjan október.
Hér kostar sko allt, færslugjöld þegar borgað er út í búð eru 2,5 NOK, þegar maður millifærir á annan reikning, s.s. húsaleigu kostar það 3 NOK, 2 NOK ef um gíróseðil er að ræða, það eru þó mun manneskjulegri gjöld en að fara í bankann og borga þar, þá er færslugjaldið hátt í 100 NOK. Síðan kostar líka að taka pening út í hraðbanka, ekki nema von að íslenskt bankakerfi hrundi á einni nóttu, þar eru færslugjöld mun minni og að mig minnir ekki í nokkurri líkingu við þessar tölur. Rúsínan í pylsuendanum eru síðan innvextir á bankareikningum, ég fékk heilar 6 NOK í innvexti eða um 120 íslenskar af inneign minni, vaxtaprósetan hér er 0,15%. Allavega fékk ég mun hærri vexti af reikningum mínum á Íslandi.
Það sem þetta segir mér er að Norðmenn reka að öllum líkindum ábyrgt bankakerfi sem er trúlega vel varið fyrir kerfishruni meðan Íslendingar eru enn að læra að reka bankakerfi eftir kerfishrun hins kapítalíska bankakerfis. Hins vegar hlýtur norræna kerfið að vera í anda velferðar, ég ætla þó ekki að mæla með því að Íslendingar api allt upp eftir Norðmönnum, því norska skriffinnskan er alltof mikil. Mælist til þess að menn taki það besta úr báðum kerfum til að byggja upp nýtt íslenskt kerfi.
Annars verð ég voða feginn næsta föstudag þegar síðasti tíminn í HFA304 verður, því það er alveg skelfilegt að vera svona stíft í tímum hjá einum og sama manni, sem í þokkabót er nokkuð mörgum þrepum ofar í þekkingu til að geta miðlað henni almennilega. Við erum allavega mjög oft úti á þekju, ég og Jónatan frá Eþíópíu sem er með mér í tíma. Ég er þó búinn að læra ýmislegt um skyldleikarækt og vona að verkefnið sem verður eftir próf geti orðið hagnýtt.
Talandi um próf þá datt mér í hug að senda tölvupóst í byrjun árs og óska eftir prófdögum fyrir 15 maí í þeim fögum sem tek á vorönninni. Próftaflan kom inn á fimmtudag og vitið menn ég er bara í síðasta prófi 14 maí og næ því sennilega stærri hlutanum af sauðburðinum í vor enda hefði ég orðið vitlaus ef ég hefði þurft að bíða til 26 maí eftir síðasta prófi, maí er nefnilega með of mikið af einskis nýtum frídögum hér í Noregi, uppstigningadagur, hvítasunna og þjóðhátíðadagur. Hvort póstur minn hafði einhver áhrif um dagaval veit ég ekki, veit að verður gott að komast út úr prófunum og heima þar sem þau eru í tölfræði en ég ætla að taka slurk í þeim vísindum í vor enda gengur kynbótafræðin út á að túlka og skilja niðurstöður ýmissa stærð- og tölfræðijafna. Hljómar mjög óspennandi en er í raun mjög skemmtilegt þegar maður skilur hvað maður er að gera.
Ef maður sest fyrir fram sjónvarp núna eru ekkert annað en vetraríþróttir þar á bæ og skíðaganga fremst í flokki, ég vona að Norðmenn breyti aðeins um núna í vikunni og fari að sýna smá handbolta, þó manni verði ekki að ósk sinni um að þeir sýni leiki Íslands, hugsa að ég geti ekki sent póst út af því J, kæri mig ekkert um að horfa bara á leiki norska liðsins, þarf reyna finna út hvernig maður sér leiki Íslands þar sem þeir verða læstir á ruv.is fyrir tölvur utan Íslands.
En þar til næst ... hafið það gott.
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Asnalegt að rúv læsi íslandsleikjum fyrir erlendar tölvur - maður myndi halda að það væri jákvætt fyrir íslendinga ef einhver nennir að fylgjast með gengi handboltalandsliðsins...
Mæja (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 16:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.