11.2.2010 | 20:13
Ísafold, fyrsti hluti af þremur
FRUMVARP til reglugjörðar um að bæta kynferði búpenings í Skagafjarðarsýslu.
Sýslunefndin skal setja þriggja mann nefnd í hverjum hreppi, til þess að hafa nákvæmt eftirlit með bótum á kynferði alls búpenings í Skagafjarðarsýslu og stuðla til þeirra, samkvæmt reglum þeim, er samþykktar verða í því tilliti.
I. Um kynbætur hrossa
1.gr.
Það skulu af nefnd manna í hverjum hreppi árlega á hverju vori valin og merkt með sérstöku brennimarki, hestfolöld til undaneldis, er skulu vera mörg eða fá frá 4-10 eftir stærð hreppsins og hrossafjölda, skal hafa fyrir mark og mið að folöldin séu af sem bestu kynferði ýmist til reiðar eða áburðar, eftir því sem nefndinni er persónulega kunnugt, sem og eftir útliti og afspurn beggja kynferða. Skal við slíkt val taka til greina, lipurð, ganglaf, fjör, hörku, þol, krafta, holdafar, stærð og vaxtarlag m. m. svo sem lit, fríðleika, háralag, háraprýði og hófagjörð o.s.frv.
2.gr.
Þau hestfolöld, sem ekki eru ætluð til undaneldis, skulu geldast svo fljótt sem auðið er, eftir að þau er þriggja nátta. Sleppi hryssa í afrétt annaðhvort áður en hún kastar eða með hestfolaldi, sem á að geldast, svo ekki verði náð til hennar, verður að sæta fyrsta tækifæri til að vana trippið og sjá um að enginn hryssa fái við því, sem getur auðveldlega skeð, ef það verður tvævetur, áður en það er gelt.
3.gr.
Graðfolana skal síðan fara svo með í 3 ár, að ávallt séu þeir í góðum holdum, svo þeir nái sem mestum þroska áður en þeir eru brúkaðir til undaneldis. Þegar folarnir eru þrevetrir, má brúka þá til hryssa, en þó með mestu varkárni hið fyrsta ár, 4-vetra og eldri má árlega ætla þeim að fylja frá 20-30 hryssur, séu þær leiddar til þeirra, en aðeins frá 10-15, ef þeir eru látnir ganga lausir með þeim, sem ekki má eiga sér stað nema eigandi ábyrgist, að þeir gjöri ekki öðrum tjón.
4. gr.
Temja má graðhesta, en brúka gætilega, meðan þeir eru hafðir til undaneldis, og alls ekkert að vorinu meðan leitt er undir þá, eða hryssum hleypt til þeirra.
5. gr.
Graðhestana skal allajafna hafa í gæslu, svo þeir ekki gjöri skaða, hvorki með því að fylja hryssur, er ekki eiga að fá við þeim, né skemma hross, með biti eða höggum. Skal koma þeim á afvikna staði til fjalla til vöktunar yfir sumarið (að sínu leyti eins og nautum), því þeir mega ekki að sumrinu ganga saman við hross í sveit, og ekki heldur sleppa á afrétt.
6.gr.
Hver sá, er á þessa völdu ákveðnu graðhesta, skal hafa rétt til að taka toll eftir þá, svo framarlega sem hann hirðir folana forsvaranlega, er sé frá 1-3 krónur fyrir hverja hryssu, er þeir fylja.
7.gr.
Hryssurnar skulu hafa náð 4 vetra aldri, áður en þeim sé hleypt til graðhesta, svo þær eignist ekki folöld fyrr en 5 vetra, og að því leyti sem folöldunum er ætlað að ganga með hryssunum að vetrinum, sem eflaust er best meðan hvorttveggja er í góðum holdum, þá ætti ekki að hleypa hryssunum til oftar en annaðhvort ár, enda er sú viðkoma nægileg. Þó skal slíkt á ráði kynbótanefndar.
8.gr.
Það skal halda frá öllum ógerðar eða vanmeta hryssum, en ef þær eignast folöld, þá má ekki láta merfolöld lifa undir þeim, því þau geta á sínum tíma spillt kynferðinu.
9.gr.
Svo fóstrið nái sem mestum þroska og verði heilsugott, skal ekki brúka hryssurnar um fengitímann eða þar litlu á eftir, og varast að ofbjóða þeim með brúkun eða öðru hnjaski allan meðgöngutímann. Eins er að forðast að brúka hryssurnar, þegar þær eru með folöldum, í langferðir eða sviptingar.
10. gr.
Það skal hafa sem mestan hemil og yfir höfuð góða hirðing á öllum hrossum og í því skyni gjöra trippi taumvön, þá þau eru 3-4 vetra.
11.gr.
Hver búandi skal eiga rúmgóð hús yfir öll sín hross og hjúa sinna; bresti húsrúm, verður hann að fækka hrossunum.
12.gr.
Hverju hrossi, að undanteknum gjafarhestum, skal að meðaltali ætla 4-5 hestburði af heyi auk moða yfir veturinn, og ver að hagnýta það fóður svo, með góðri hirðingu, að hrossin verði ekki mögur.
13.gr.
Hross skal taka á hús og hey, meðan þau eru í holdum, ef ekki eru líkindi til að þau bjargi sé sjálf yfir veturinn.
14.gr.
Komi lús eða ormar í hross, er einkum á sé stað um ungviði, þegar þau verða mögur, skal tafarlaust fá slíkum óþrifum útrýmt.
Bráðabirgðarákvörðun.
Til þess að reglugjörð þessi komi sem fyrst að tilætluðum notum, skal nú á næsta vori, gelda alla þá fola, er ekki verða valdir sem nauðsynlegir til undaneldis.
Úr tímaritinu Ísafold, september/október 1879. (Annar og þriðji hluti um sauðfé og nautgripi koma seinna)
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er nú ekki mjög frábrugðið fyrirkomulaginu í dag - nema kannski helst verð á folatollum (hef að vísu ekki núvirt upphæðina sem nefnd er hér að ofan).
Mæja (IP-tala skráð) 13.2.2010 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.