14.2.2010 | 19:00
Ísafold, annar hluti af þremur
II. Um kynbætur sauðfjár
1.gr.
Árlega á hverju vori skulu á hverju heimili þar, sem sauðfjárrækt er stunduð, vera ógelt nokkur hinna fallegustu hrútlamba, er líklegust þættu til undaneldis, og skal setja á sig, að hvaða kyni þau eru í báðar ættir; væri æskilegt að láta álitlegustu hrútsmæðurnar ganga með dilk.
2. gr.
Kynbótanefndin skal síðan árlega á hverju hausti skoða lambhrúta og foreldri þeirra af hverju heimili, og eftir að hafa leitað nákvæmra upplýsingar um kynferðið, velja úr þeim þá sem álitlegastir eru til undaneldis, en hinir skulu haustgeldast; sömuleiðis skal nefndin, að því leyti sem hægt er, árlega taka eftir, hvernig þessum brundhrútaefnum fer að, þar til þeir eru veturgamlir að hausti, og skal þá enn af nýju velja úr þeim þá bestu, en slátra hinum.
3. gr.
Þar sem fjárkyn er fallegast, og að öllu aðgættu best í hreppnum, skal ávallt taka frá nokkuð fleiri hrúta en þar til undaneldis á því heimili, svo ekki verði skortur á góðum brundhrútum, þó sum heimili þurfi að fá hrúta að. Það er varúðarvert að brúka lengi hrút af sama fjárkyni, því féð má ekki verða of skylt, og skal skipta oft um kynferði brundhrúta, t.d. þriðja hvert ár.
4. gr.
Brundhrúta má alls ekki brúka lambsveturinn, á annan vetur má með gætni brúka hrútinn handa 10-15 ám, en á þriðja og fjórða þá hann hefir náð fullum þroska, er óhætt að ætla honum að lemba 30-40 ær.
5. gr.
Brundhrúta skal taka fasta fyrir 1. nóvember ár hvert, og gefa þeim hollt og nægt fóður, og annaðhvort hafa þá hjá lambgeldingum, eða þó heldur í kofa sér, fram í þorralok; úr því má láta þá ganga með ám, en ábyrgjast skal eigandi, að þeir gjöri hvorki honum eða öðrum skaða.
6. gr.
Svo skal búa um lambhrúta, að ekki komist þeir til gimbra á þeim tíma sem þær beiða.
7. gr.
Það skal fara vel með allt fé, og láta það hafa nákvæma hirðing árið um kring, byrja að gefa því snemma að vetrinum, og láta það aldrei missa kvið; þar sem ekki er því betra til beitar, er einkum nauðsynlegt að ala lömb vel í 3 mánuði, desember, janúar og febrúar, þá má ýmist fara að beita þeim eða draga við þau hey. Ám skal gefa yfir höfuð vel, en sér í lagi hleypa í þær eldi um miðjan veturinn. Sauðum skal gefa vel á annan vetur, en úr því þola þeir jafnaðarlega mikla beit, og lakara fóður, en hagur er að gefa þeim gott hey skurðarárið.
8. gr.
Lambgimbrar mega ekki fá lamb, en óhætt er að hleypa ám til á annan vetur, þó er ráðlegt, til að koma sem mestum kjarki í fárkynið, að sleppa árlega nokkrum hjá, einkum þeim sem væri líklegar til að verða brundhrútsmæður, og láta þær ekki eiga lömb fyrr en þrjevetra; það er nauðsynlegt ef rýrar gimbrar eru settar á vetur, að láta þær vera geldar, en aðalreglan skal vera sú, að skera allan rýrðina úr veturgömlu gimbrunum.
9. gr.
Í gjafasveitum skal ætla hverri á og hverjum lambi 4-5 bagga af vænu bandi hverju fyrir sig, og sauðum ekki minna en 2-3 bagga hverjum; að öðru leiti skulu menn ráðfæra sig við kynbótanefndina um heyásetning eftir því sem hagar til með beit á hverjum stað.
10. gr.
Fjárhúsin skulu vera vönduð, rúmgóð og björt.
11. gr.
Strax að haustinu skal bera ofan í féð, til að verja það óþrifum og heyrir það til góðrar hirðingar, að ekki sjáist sprottin sprunga á nokkurri kind. En komi fram óþrifakláði í einhverri kind seinna á vetrinum, verður að útrýma honum með íburði.
12. gr.
Baða skal lömb eða bera í þau að vorinu, áður en þau eru rekin á fjall, til að drepa í þeim lús og forða þeim við óþrifum yfir sumarið.
13. gr.
Best er að hafa lokið af að rýja ær fyrir fráfærur, því þeim bregður við, þegar þær eru teknar úr ullu, en það hefir ekki eins skaðleg áhrif á mjólkina eða gangsmuni af þeim, meðan þær ganga með lömbunum.
14. gr.
Ef óþrif eru í fé að vorinu, þá skal baða það, eða bera í það, um leið og það er tekið úr ullu; mun það þá taka miklu meiri framförum að sumrinu, en sem nemur þeim kostnaði og fyrirhöfninni.Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.