5.3.2010 | 18:09
Ráðstefna um sauðfjárrækt í Noregi
Fyrir þá lesendur síðunnar sem ekki hafa séð Bændablaðið fyrir viku síðan, þá er hér grein sem birtist eftir mig þar og skjalið sem vísað var í.
Helgina 13. og 14. febrúar sl. sótti undirritaður fyrir hönd Landssamtaka sauðfjárbænda, ráðstefnu um norska sauðfjárrækt og hvernig talið er að hún þróist á næstu árum. Rúmlega 250 manns frá flestum stöðum/héruðum í Noregi sátu ráðstefnuna.
Alls voru flutt 22 erindi á ráðstefnunni og má segja að efni þeirra hafi skipst í eftirfarandi meginflokka. a) skyldleikarækt og mál tengd henni; b) hvað kröfur á að gera til lambakjöts á komandi árum; c) ærnar, nýir eiginleikar í kynbótastarfi/betra kynbótamat? og d) hvers er að vænta á allra næstu árum.
Fyrst ræddu menn um skyldleikarækt, var almennt farið yfir fræðin bak við skyldleikarækt og hvaða afleiðingar hún getur haft í för með sér. Ekki kom fram hverjar afleiðingar hennar hafa verið á norskt sauðfé en alkunna er að skyldleikaræktarhnignun getur komið fram í ýmsum myndum, t.d. lakari frjósemi. Á undanförnum árum hafa sæðingar aukist mikið í Noregi og munu aukast meira á næstu árum, líkt og á Íslandi fá bestu hrútarnir mesta notkun en aðrir litla sem enga. Af þeim sökum horfa norskir sauðfjárræktarmenn til þess að setja þurfi einhverjar reglur svo skyldleikarækt aukist ekki of hratt í stofninum með hættu á skyldleikaræktarhnignun. Voru ýmsar leiðir til þess ræddar á ráðstefnunni og mun tíminn leiða í ljós hvað Norðmenn gera í þeim efnum.
Þegar kom að því að ræða hvaða kröfur eigi að gera til lambakjöts í framtíðinni var fyrst farið yfir kjötmarkaðinn hér í Noregi. En Norðmenn borða rétt um 330.000 tonn af kjöti á ári, tæp 3% þess eru flutt til landsins (9.200 tonn). Lambakjöt er með rúmlega 7% markaðshlutdeild (24.550 tonn) en 5% þess eru flutt til landsins (1.200 tonn). Var rætt hvað ætti að gera til að auka söluna og m.a. reynt að svara þeirri spurningu hvort ætti að bjóða uppá ferskt kjöt yfir lengra sölutímabil. Sú umræða hefur oft verið til umfjöllunar á Íslandi og á ráðstefnunni var svarið bæði já og nei. Even Nordal sem flutti erindið taldi réttara að leggja áherslu á gæði afurðanna, með því að bjóða frosið eða þýtt kjöt utan hefðbundinnar sláturtíðar frekar en bjóða uppá lambakjöt í misjöfnum gæðaflokkum á óhefðbundnum sláturtíma.
Við lok fyrri dags ráðstefnunnar var flutt erindi um skýrsluhaldskerfi Norðmanna sem er orðið veflægt og ekki ósvipað íslenska Fjárvís kerfinu. Það sem helst vakti athygli mína í erindinu var að 90% lamba síðasta vor, var merkt með rafrænu eyrnamerki. Einnig hið öfluga heilsuskráningarkerfi sem Norðmenn hafa komið sér upp, t.d. varðandi lyfjaskráningu.
Seinni ráðstefnudagurinn byrjaði síðan á umfjöllun um ærnar og hvaða kosti þær þurfi að hafa í framtíðinni. Ærnar þurfa jú að vera afurðasamar og heilsuhraustar til að hámarka tekjurnar sem þær gefa af sér, ýmsa þessa afurðaeiginleika er hægt að bæta með kynbótum en það krefst umfangsmeira skráningarforms sem er óvíst að bændur séu tilbúnir að vinna eftir. Einnig voru flutt nokkur erindi um rannsóknir á afurðaeiginleikum, t.d. hvort um erfðafræðileg tengsl væri að ræða varðandi vanhöld lamba, svo reyndist ekki vera.
Að lokum var síðan rætt um hvernig sauðfjárræktin myndi þróast á allra næstu árum, inntakið þar var að skýrsluhaldið sé aldrei mikilvægara en nú og kynbótamarkmið þurfi að vera vel hugsuð og skilgreind, einnig séu bændur með staðfasta stefnu í kynbótastarfinu mikilvægir.
Ráðstefnan var mjög áhugaverð og fékk mig til að hugsa um ýmis álitamál tengd sauðfjárræktinni. Ýtarlegri greinargerð um ráðstefnuna verður að finna á vef LS (www.saudfe.is) en jafnframt eiga erindin sem flutt voru að vera aðgengilega á vef Norsk Sau og Geit (www.nsg.no), innan tíðar.
Flokkur: Sauðfjárrækt | Facebook
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.