4.4.2010 | 13:18
Gleðilega páska
Frá Noregi er allt gott að frétta, langt síðan ég skrifaði síðast hér inn en það á líka sínar skýringar. Móðir mín og systir komu hingað í heimsókn í nokkra daga og reyndi ég að sína þeim eitthvað af Noregi en ferðaveður var lélegt alla dagana sem þær stoppuð, rigning og þoka. Nú er hins vegar glaðsólskin hér í Ási á páskadagsmorgni.
Sit og háma í mig páskaegg á milli þess sem ég skrifa eitthvað, málshátturinn góður Svo má góðu venjast að gæðalaust þyki", býsna mikið til í þessu. Þessi dægrin er ég að lesa alláhugaverða bók sem heitir Lífsbjörg Íslendinga og er handbók í miðaldasögu, svosem ekki kominn langt en margt athyglisvert á fyrstu síðunum, sérlega athyglisvert þykir mér að sjá hversu mikið ósamræmi er í rannsóknum sem gerðar hafa verið og því oft ótryggar heimildir fyrir þeim fróðleik sem haldið er að fólki nú til dags.
Fyrsta daginn sem móðir mín og systir voru hér fór ég með þær í léttan göngutúr um Ás og sýndi þeim helstu byggingar sem ég stunda nám mitt í. Á sunnudeginum fórum við til Osló og litum þar á þjóðminjasafn Norðmanna sem og Vigeland höggmyndagarðinn, hann er trúlega fallegri að sumarlagi og ekki skildi ég nú alla þá listsköpun sem þar var sýnd, enda mun ég seint teljast til listþenkjandi manna. En heimsóknin var samt góð.
Á þriðja degi þegar ég varð árinu eldri en fyrir ári síðan skruppum við til Sem, sem er í Asker suðvestan við Osló en þar var á árum áður smábændaskóli norska ríkisins en afi minn var nemandi þar 1939-1940. Sá skóli var síðan innlimaður í norska landbúnaðarháskólann seinna UMB sem ég stunda nú nám í. Reyndar var allt lokað þarna núna enda Norðmenn með eindæmum duglegir að taka sér páskafrí og verð ég því að fara seinna til að komast inní byggingarnar enda skilst mér að þar megi jafnvel finna einhver skólaspjöld. Set kannski einhvern tímann hér inn frásögn eftir afa um árin og heimferðina frá Sem.
Á þriðjudeginum skrapp ég til Svíþjóðar í verslunarleiðangur eða öllu heldur til að sýna þeim verslunarbrjálæðið sem búið er að byggja upp handan við landamærin og ég held ég geti svarið það að ég hef aldrei eytt jafn löngum tíma inní verslunarmiðstöð og þennan daginn, hafði reyndar ágætis jakka uppúr búðarrápinu en sökum stærðar gengur mér oft illa að finna hentugar stærðir sérstaklega þegar verslanir miða við staðlaða stærð af fólki. Daginn eftir sýndi ég þeim síðan Ski Storsenter sem ég hef áður ritað hér um en fór jafnframt í landbúnaðarsafnið hér í Ás sem er fínasta safn en var meira eins og barnaheimili þennan dag svo lítið var hægt að skoða nákvæmlega.
Þær flugu síðan heim á skírdag og hef ég verið að vinna í skattframtalsgerð síðan þá, bara vesen að skila framtali í tveimur löndum, asnaðist einnig í fótbolta á skírdagskvöld og hef verið eins og farlama gamalmenni síðan þá með strengi en þarf að fara líta eitthvað á námsbækurnar á nýjan leik enda sígur á seinni hluta þessarar annar og próf handan við hornið.
Þar til næst hafið það gott ... hér má finna nokkrar myndir frá síðustu viku
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.