27.8.2010 | 21:15
Koma konurnar ekki líka
Þá er ég mættur til Noregs á nýjan leik og því rétt að hefja upp raus sitt hér á þessa síðu. Kom hingað á þriðjudaginn eða hálfum mánuði seinna en áætlun hljóðaði uppá í vor en það stafar af því að eini áfanginn sem ég á eftir var ekki kenndur nú í ágúst heldur verður á haustönninni og byrjar næsta þriðjudag. Annars mun þessi vetur að mestu fara í vinnu við lokaverkefni sem loks hefur verið skilgreint og ber vinnutitilinn Sheep breeding schemes for Iceland based on artificial insemination eða í lauslegri þýðingu ræktunaráætlun fyrir íslenskt sauðfé með notkun sæðinga.
Við fyrstu sýn virðist mér fátt hafa breyst hér í Noregi í sumar ef eitthvað er, hér er ennþá óþarflega heitt fyrir mína parta enda viðbrigði að koma úr norðan strekking í hlýindi og rigningu sem hér hafa verið þessa vikuna að hluta, veit samt ekki hvernig gengur að þurrka korn á hesju í þessari veðráttu en mér finnst þessi norska þurrkunaraðferð alltaf jafn sérstæð, þ.e. að hengja fóður upp til þerris.
Annars fór bara sumarið ágætlega með mig, sauðburður gekk vel í vor og fóru 659 lömb lifandi á fjall í vor sem er vel ásættanlegt þó frjósemi hefði mátt vera ívið meiri seinnihluta sauðburðar. Einnig heyjaðist ljómandi vel og á þeim stykkjum sem mesta uppskeru gáfu var hún um 6000 kg þe. sem verður að teljast nokkuð gott. Síðan hefur hesthúsbygging sú sem hófst árið 2006 tekið aðeins meiri mynd á sig í sumar en síðustu sumur og fer að verða fokheld. Þessi mynd er reyndar tekin í lok júlí.
Annars hélt ég mig mest á mjólkurbílnum í sumar eða tæpar sex vikur og var stærri hluta tímans á Patreksfirði að leysa af á bílnum þar. Með því að vera þar gafst mér tækifæri til að skoða mig aðeins um Vestfirði og einni daginn tók ég mig til og fór á alla þéttbýlisstaði Vestfjarða sem ég átti eftir að skoða og gat gert þann daginn (Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafjörður, Hnífsdalur, Bolungarvík og Súðavík). Á ég þá aðeins einn slíkan stað eftir þó smár sér en það er Norðurfjörður í Árneshreppi, en hef komið á alla hina 14. Þau eru nefnilega ótrúlega mörg þéttbýlin á Vestfjörðum.
Annars stoppa ég stutt við hér úti núna en ég fer aftur til Íslands um miðjan september í smalamennskur og tengd störf í þrjár vikur. Ætla aftur hingað út í byrjun október, vonandi verður lokaverkefnið komið af stað fyrir þann tíma en ég er hálf atvinnulaus þessi dægrin þar sem ég er að bíða eftir upplýsingum frá Íslandi og leiðbeinandi þarf að finna tíma til að starta verkefninu, fékk þó 260 blaðsíðan kennslubók í gær til glöggva mig betur á því sem ég er að fara gera.
Ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en ef einhverjir eru enn að velta titli þessara færslu fyrir sér er hann vísun í einn lítinn Ásverja sem var að velta fyrir sér hvort meðleigjendur mínir síðasta vetur þær Anna og Snædís kæmu líka núna. Svo er ekki, Anna er kominn til Íslands og Snædís á leið til Grænlands og ég búinn að finna mér aðra meðleigjendur þennan veturinn eða þau Ingu Völu og Steingrími, segið svo að Hvanneyringar haldi ekki hópinn utan Hvanneyrar .................
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.