Margur verður af aurum api

Í byrjun október ritaði utanríkisráðherra vor bréf til bænda hér í þetta blað og óskaði eftir samstöðu og hjálp þeirra í væntanlegu aðildarferli að ESB sem hann og nokkrir vinir hans lögðu í leiðangur með eftir kosningar 2009 án þess að kanna vilja þjóðarinnar til þess. Til að vinna nokkur prik hjá lesendum minntist hann á sveitadvöl sína sem barn í nokkuð rómantískum búningi, en barnsminnið svíkur sennilega engan.
Í þingsályktunartillögu (um aðildarumsókn að ESB) sem samþykkt var á Alþingi segir „að öll upplýsingamiðlun til almennings, fjölmiðla, félagasamtaka og alþjóðasamfélagsins verði í föstum skorðum og einkennist af fagmennsku og hlutlægni". Þetta ákvæði hefur utanríkisráðuneytið og fjölmargar ríkisstofnanir þverbrotið, t.d. sjálft Ríkisútvarpið með oft á tíðum mjög svo hlutdrægri umfjöllun um ágæti ESB. Embættismenn Össurar tala um fulla samstöðu Íslendinga þegar þeir sækja Brussel heim. Á móti eru embættismenn ESB alltaf jafn hissa á því hve andstaðan er mikil á Íslandi er þeir sækja okkur heim. Einnig ætlar ESB að opna sendiskrifstofur hér til að auglýsa eigið ágæti og kosta til þess nokkrum tugum milljóna. Eru slík vinnubrögð fagmennska í hæsta gæðaflokki?
Íslensk þjóð stendur á tímamótum um þessar mundir en ég vil ekki nota svo gildishlaðið orð sem kreppu til að lýsa ástandinu. Tel að margt eldra fólk sé mér sammála, kannski ekki það yngra enda ekki allir á mínum aldri sem hafa gaman af sagnfræðigrúski. Held nefnilega að heimskreppan uppúr 1930 hafi verið mun alvarlegri og meiri skortur steðjað að þá en nú. Í dag vitum við að sem þjóð fórum við framúr sjálfum okkur á síðustu árum, flestir samt án þess að ætla sér það. „Þeir sem mest höfðu völdin" kunnu líka að nýta sér gallaðar tilskipanir frá Brussel sem Íslendingum var gert að taka upp gegnum EES samninginn. Almenningur situr því eftir með sárt ennið og ríkisstjórnin reynir að telja okkur trú um að allt horfi til betri vegar ef við göngum alfarið inn í Evrópusambandið.
Vegna erfiðleikanna sem nú steðja að á Íslandi hlýtur sú spurning að vakna hvort ástfóstur Össurar og félaga á ESB sé drifið áfram af efnahagslegri hugsjón einni saman. Hvort þeirra markmið séu einungis að öðlast sem fyrst fyrri efnahagslegan styrk, sem oftast var lesinn í Excel skjali, en sjaldnast í raunverulegum verðmætum. Ég efast stórlega um að margir af þeim frammámönnum sem hæst gala um ágæti aðildar tali alltaf fyrir hönd allra sinna félagsmanna nefni Alþýðusambandið og Samtök verslunar og þjónustu sem dæmi. Að halda því fram að efnahagsástand Íslands batni einn, tveir og tíu við inngöngu vegna þess að efnahagsástand aðildarríkja sé svo gott og allir hjálpa öllum í efnahagsþrengingum þar sem ESB snúist um jafnrétti er hrein og klár vanþekking (Grikkland nýjasta dæmið). Það verður jú margur af aurum api.
Eflaust eru einhverjir hættir að lesa þessa grein hoppandi af bræði yfir torfbæjarhugsun minni og hversu ómálefnalegur ég sé. Það er hins vegar styrkur að geta hugsað á þennan hátt í stað þess að trúa gagnrýnislaust öllu sem við mann er sagt. Allavega er ég ekki svo ýkja hrifinn af landbúnaðarstefnu ESB sem í augum margra aðildarsinna er tær snilld. Hún er samin með kapítalísk sjónarmið að leiðarljósi sem einkennast af því að ná stærðarhagkvæmni, hætta að hafa yfirsýn yfir hlutina, borga léleg laun og „ríki kallinn" hirðir svo ágóðann. Vilja íslenskir neytendur slíkt?
Íslensk þjóð er fær um marga hluti og hér má margt færa til betri vegar en það er í dag. Vilji og þor er allt sem þarf, það skortir hins vegar hjá ríkisstjórn Íslands, þar lifa menn í blekkingu og taka boðum frá Brussel og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem heillögum sannleik. Össur og félagar, hvernig væri að þið leggðu þessa draumóra ykkar til hliðar og færuð að vinna fyrir íslenska þjóð í stað þess að fljóta sofandi að feigðarósi.
Greinin birtist í Bændablaðinu í dag, 18. nóvember 2010. Endilega kommentið á innihald hennar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka góða grein.

Gunnar Heiðarsson, 18.11.2010 kl. 16:08

2 identicon

Ljómandi góður pistill.

Einar Kári (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 08:58

3 identicon

Ánægður með þig

Guðmundur Steinar (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband