19.11.2007 | 08:47
Rotate the paddock
Titillinn lýsir svona nokkurn veginn því sem ég hef fengist við síðustu þrjá daga en það er að sitja í dráttarvél og vinna í flögum. Varð að hætta áðan af því að það sauð á dráttarvélinni sem ég var á, komið gat á hosu frá vatnskassanum. Þetta er svosem engin erfiðisvinna en það ER HALLI á beitarhólfunum hér, fara upp hæð og niður aftur í mismiklum hliðarhalla, aðeins meira en ég er vanur og ég held meir að segja að eyfirsku túnin sem ég kynnist í námsdvölinni 2005 séu bara slétt miðað við þessi beitarhólf. Eitt einkenni á þessu hólfum eru bleytupollar inná milli þannig að vélin sekkur aðeins enda eru allar dráttarvélar hér á tvöföldum dekkjagang að aftan.
Annars er allt gott að frétta, ég er alltaf að átta mig betur og betur á enskunni hérna, er nú ekki farinn að tala reiprennandi en get gert mig skiljanlegan og skil innfædda ef þeir tala rólega. Gengur verst að skilja afann hérna á bænum, hann talar bæði hratt og með muldri þannig að ég skil hann nánast aldrei, (mætti líkja þessu við að Gísli á Uppsölum væri að tala ensku) ég yppti nú bara öxlum eða jánka því sem hann segir og hann er yfirleitt sáttur, þannig að ég nota svona táknmálsaðferðina á hann.
Á miðvikudaginn var ég í girðingarvinnu með vinnumanninum Tony, nýsjálenskar girðingar eru ekkert frábrugðnar þeim íslensku sem ég er vanur nema þeir nota þanvír neðst og átta strengja girðingarnet, gaddavírinn er svo til staðar efst. Þetta gekk hratt og örugglega fyrir sig nema ég held að Axel hefði fundist þetta asnaleg vinnubrögð því við unnum hvern hluta fyrir sig og neglum upp líkt og verktakinn sem hann fylgdist með í Skagafirði síðast sumar ef mig minnir rétt í fyrirlestur hans um girðingar í Almennri bútækni. Þar sem landið er mjög hæðótt þarf að strengja netið niður í dældunum og það gerðum við með hand- og fótafli. Leið ekkert vel þegar Tony missti takið andartak og ég flaug uppí loft með netinu þar sem ég var ekki nógu þungur til að halda því niðri.
Eins og gefur að skilja er sauðféð hér á þröngu landi og því þarf að gefa inn mikið ormalyf. Samt er bara lömbunum gefið inni ormalyf, ekki ánum, vilja að þær noti sínar náttúrulegu varnir gegn ormunum. Á fimmtudag og föstudag voru við semsagt í því að ormahreinsa lömbin og það er nú bara gert með samskonar dælubyssu og á Íslandi nema hraðinn hér er örlítið meiri, bara á föstudeginum voru ormahreinsuð 3000 lömb og ég held það hafi tekið 6 klukkutíma, ég rak nú bara inní tektina og út úr henni, lét inngjöfina að mestu eiga sig þar sem ökklinn fylgdi ekki eftir í þessu hraða. Þetta er í fyrsta skipti sem lömbunum er gefið ormalyf síðan aftur eftir 4 vikur þegar þau verða vanin undan ánum og loks 5 vikum eftir það. Til marks um það hversu stóran þátt ormalyfsgjöf er í hérlendum landbúnaði þá er ormalyfið keypt inn í stórum 20 L brúsum líkt og við fá smurolíu í á Íslandi og það er auglýst í sjónvarpinu rétt á eftir fréttum, get ekki séð RÚV fyrir mér auglýsa ormalyf fyrir bændur milli veðurfrétta og Kastljóss. Svo ég endi þennan ormalyfspistil á einhverju þá skilst mér að menn rækti féð eftir ónæmi gegn ormum, þá eru talin ormaegg í skítum frá hrútunum og þeir hrútar sem hafa fæst egg valdir til kynbóta í því markmiði að afkvæmi þeirra erfi þann eiginleika að hafa fá ormaegg. Las hér í einhverju blaði að vísindamaður er búinn að finna DNA marker fyrir lágri tíðni ormaeggja ef ég skildi greinina rétt.
Á þriðjudagmorguninn fór ég í Lornville en þar vinnur tengdasonur hjónanna sem Stocksman, þ.e. tengiliður bænda sem vilja selja búfé og þeirra sem vilja kaupa. Alla þriðjudaga er uppboð í Lornville og ef maður vill kaupa búfé verður maður að bjóða í og skepnurnar eru seldar hæstbjóðanda. Mjög gaman að fylgjast með þessu og þarna tala menn MJÖG HRATT, ég náði sárasjaldan verðinu sökum þess hve hratt þeir töluðu og meðfylgjandi myndband er frá uppboðinu á þriðjudaginn.
Svona tala menn stundum við mig, svo ég vona að fólk heima skilji við hvað vandamál ég á að etja þegar ég reyni að fylgjast með samtölum milli innfæddra.
Annars er best að fara enda þetta, búin að skrifa nóg og eflaust einhverjir sem ekki entust til að lesa allan þennan pistil, nýkominn úr kvöldmat, borðum grillmat utandyra enda var veðrið hér dásamlegt í dag, léttskýjað og 24°C hiti, næstum því of mikill hiti fyrir mig til að vinna í.
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Eyjólfur
Hér er ég mættur í kynbótafræði og því er gráupplagt að senda þér línu. Þú heldur sem sagt að ég gæti sigrað Nýja-Sjáland ef ég kæmi til þín og gerðist girðingaverktaki, kannski að maður hafi fundið eitthvað sem gæti gert mann ríkann.... nei ég held ég verði bara fátækur hér heima.
Axel Kárason (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 10:29
Blessaður
Þetta er bara eins og að hlusta á Jónatan Hermannsson fara hratt yfir eitthvað... bara á ensku...
En eitthvað hefur þessi griðing nú verið strekkt fyrst hún skaut þér upp í loftið...
Mæja (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 12:42
Hæ Jolly
Bwahahaha... brilliant gaurinn á vídeóinu Þú verður orðinn súperman í enskuhlustun ef þú nærð honum þessum.
Hvað er eiginlega gert við dádýrin á bænum, eru þau étin með kartöflum og sultu? Áttu mynd af þeim?
Halla (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 19:04
Heill og sæll Jolly (Kátur)!!!
Ertu til í að koma við hér í Svíþjóð á leiðinni til baka til að kenna Svíum að girða... Þeir kunna ekkert að girða en girðingarnar hér eru 2 m á hæð vegna elganna og dádýranna.... Þú ferð létt með það.....
Við lásum pistilinn í gegn og horfðum á myndbandið.. Djísus... Ég held að maðurinn sé bara ekki að segja neitt af viti... Líklega var hann bara að missa af strætó og var að flýta sér.... (það er ekkert að enskunni þinni, þetta var bara HANN.....)
Kveðjur frá Malmö
Guðrún og Valdi
Guðrún og Valdi (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 22:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.