30.11.2007 | 09:44
Sauðfjárrækt
Á miðvikudaginn fór ég með bóndanum á milli þeirra STUD búa sem stunda skráningu og ræktun á Coopworth hérlendis. STUD búin stunda sauðfjárbókhald á ánum og rækta hrúta sem eru síðan seldir til annarra búa sem rækta Coopworth en stunda ekki bókhald. Markmið ferðarinnar á miðvikudaginn var að velja þá hrúta sem þessi ræktunarhópur ætlar að nota fyrir sjálfa sig á næsta tímabili til að framrækta sínar ræktunarlínur.
Þegar hrútarnir eru valdir er bara horft á tölur á blaði og kynbótaeinkunnar sem er reiknuð út í NZ peningum, þ.e. hvers mikið afkvæmi þessa hrúts munu skila framyfir meðaltalið í dollurum. Kynbótaeinkunnin byggir á BLUP mati fyrir nokkra þætti sem eru síðan reiknaðir saman í eina heildareinkunn. Einkunnin byggir á ormum í skít (þ.e. hversu mikið ormalyf þarf til að drepa alla orma viðkomandi einstaklings), fjölda fæddra lamba, lamba til nytja, vaxtarhraða lambanna, kjötþunga og loks á ullarmagni. Þetta er svosem allt gott og gilt nema ég held að ég myndi ekki vilja nota svona kerfi á Íslandi.
Þetta var merkisreisa og gaman að hlusta á kallana þó ég hafi ekki alltaf skilið þá, en þeir skutu hver á annan og voru ekki alltaf sammála um hver væri besti einstaklingurinn, ekki fannst mér hrútarnir neitt fallegir enda held ég að Coopworth væri svona mest megins O skrokkar á Íslandi. En það voru valdir fjórir hrútar og þeir verða notaðir á næsta tímabili og hefur hvert búi hrútinn í viku. Það sem mér finnst síðan best í þessari ræktun er það að 4-5 hrútum er sleppt saman í beitahólf með 500 kindum, allir með litabelti og sitt hvern litinn, síðan er skráð eftir því hvaða litur er á ánni til að vita hver faðirinn er. Veit ekki, gengur kannski í svona stórum hóp, gilda kannski önnur lögmál þar en ég hefði haldið að það væru nú einhverjar ær sem fengju hjá tveimur hrútum og því hæpið að byggja ætternisskráningu á því.
Í gær fór ég síðan á New Zealand Ewe Hogget Field Day en á honum er verið að verðlaun besta búið fyrir góðan árangur í sauðfjárrækt. Þar voru veitt verðlaun fyrir besta búið í sex flokkum (Crossbred, Coopworth, Romney, Perendale, Composite og Fine Wools), síðan var efsta búið valið úr þessum flokkum og verðlaunað sérstaklega en í ár var það bú I&K Pullar í Springfield en þau rækta Coopworth. Fengu einkunnina 97,3 af 110 mögulegum. Einkunnin er byggð á (afurðum hjarðar (lömb fædd, til nytja, ullarmagn og kjötmagn+flokkun) gildir 60 stig, eiginleikar ullar 20 stig, ræktunarmarkmið bænda 10 stig og erfðir og samræmi hjarðarinnar 20 stig). Get alveg tekið undir að hjörðin hjá þeim hjónum var falleg og þar sá ég loksins kindur sem ekki voru shitty að aftan, veit svosem ekki hvað hefur þurft mikið ormalyft til þess. Að lokinni verðlaunaafhendingu var farið í skoðunarferð um jörðina, 50 bílar í strollu um öll beitarhólfin, útvarpssendir í einum bíl og bóndinn sagði frá hvað bæri fyrir augum hverju sinni. Að þessu öllu loknum var síðan grillveisla og ég held bara að ég hafi étið yfir mig, fékk loksins kartöflur sem var ágætis tilbreyting frá kartöflumúsinni sem ég fæ á hverjum degi.
Svo ég haldi nú áfram á sauðfjárræktarlegum nótum þá var meðalviktin á lömbunum í síðustu viku 16,99 kg sem mér finnst nokkuð gott af 37-38 kg lífþunga. Þau flokkuðustu þokkalega og í skönnun var nýtanlegt kjöt 55,57% af skrokknum. Fyrir þetta fékk bóndinn ca. 135000 kr. íslenskar eða um 3700 kr á lamb, þar af voru 200 kr fyrir gæruna.
Besta að enda þetta á einhverju öðru en sauðfjárrækt en í nótt varð jarðskjálfti hér rétt fyrir klukkan fimm, ég rumskaði við hann, allavega hristist húsið og mér segja fróðir menn að hann hafi mælst 5,9 á Richter, upptökin hljóta samt að hafa verið langt í burt því mér fannst ekki vera af þessari stærðargráðu. Mér til mikillar ánægju forskrúfaðast haninn við jarðskjálftann og galaði ótt og títt það sem eftir lifði nætur sem sínum yndislega falska hreim.
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Á góðum bæ sunnanlands nota menn markatöng til að slátra hænsnum
edda (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 20:33
Þú munt sakna þessa hana þegar leiðir ykkar skilja...
Mæja (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.