4.12.2007 | 08:50
Það var uppúr ...
... seinni heimsstyrjöldinni sem íslenskur landbúnaður byrjaði að tæknivæðast með tilkomu aukins fjármagns í íslenskt hagkerfi. Marga þá hluti sem þóttu nútímalegir á þeim tíma má nú finna á búvélasafninu á Hvanneyri fínpússaða og flotta en hluta þeirra má sjá enn þann dag í dag í notkun hérna megin veraldar. Í dag var semsagt byrjað að sá SWEDE sem ég held að séu fóðurrófur og kindunum er beitt á að vetrarlagi en til þess er notuð algjör fornaldarsáðvél sem dreifir saman fræi og aukamuldum fosfór svo hann brenni ekki fræið. Það má sjá þennan undragrip í myndunum sem ég setti inn núna. Mitt hlutverk var að standa á spýtu og moka til áburði í hólfunum og passa að fræhólfið stíflaðist ekki, þetta væri nú kannski allt í lagi í einn dag en okkur tókst ekki að sá nema í 8 ha og það eru sennilega um 15 ha eftir. Ég teldi nú allt í lagi að fá eitthvað betra og afkastameira tæki í þetta verkefni. Ég var nú ekkert of góður í að standa á spýtunni enda myndi þetta ekki standast vinnulöggjöf á Íslandi enda á kafi í moldarryki og því fór ég nú bara að líta eftir þessu öðru hvor á endunum á stykkinu en var þess á milli að hósta moldarfosfórryki úr mér og anda að mér fersku lofti. Held að bóndinn hafi alveg skilið mig en ég auglýsi eftir Vinnueftirliti þessa lands, hér hefðu Grétar Einarsson, Jói Ellerts og Haukur Þórðar. þarft verk að vinna með sín fræði sem kennd eru í bændadeildinni.
Talandi um bændadeildina þá held að það sem ég lærði þar og taldi óþarfa sé alltaf að nýtast mér betur og betur hér. Ég sagði einhvern tíman frá frumstæðri vélfötu á fyrstu dögum mínum hér, um helgina var ég einn heima og var þess heiðurs aðnjótandi að mjólka heimilskúna Heiðu og fóðra kálfana og hundanna. (Leit ekkert á þessar 5000 kindur, þær eru aukaatriði) Það gekk ágætlega en þvílíkt og annað eins skrapatól sem þessi vélfata er, held meira að segja að Sigtryggur myndi aldrei fást til að kenna á hana og Jóhannesi Reykdal hefði aldrei dottið í hug að flytja slíkt tæki til Íslands þegar hann hóf vélvæðingu sína rétt fyrir 1930. Þannig að ef einhver af nemendum bændadeildar sem eiga að vera lesa fyrir próf núna eru að lesa þennan pistil, eitt ráð frá mér, það er tilgangur með öllu sem troðið er í hausinn á ykkur þó maður sjái hann ekki í upphafi, ég er alltaf sjá hann betur og betur í annarri heimsálfu.
Um daginn hitti ég Uncle Chris sem mágur konunnar hér, hann fór aðeins að spjalla við mig þó ég sé nú ekki mikill spjallari á engilsaxnesku, spurði útí ferðalagið hingað og ég sagði honum frá því að það hefði verið sérstakt fyrir mig að keyra á vinstri vegarhelmingnum af því það væri hægri umferð á Íslandi. Hann sagði þá, já þið eruð eins og Ameríkubúar. Ég sagði nú bara já en var hugsað til þess í dag við erum eins og Ameríkubúar og flest allar vestrænar velmegandi þjóðir, það eru bara þriðja heims ríki, Bretar og breskar nýlendur sem keyra vinstra megin eftir minni bestu vitund, og já sum jarðvinnslutækin hér eiga heima í þriðja heiminum ekki í velmegandi landi eins og NZ myndi flokkast undir.
Þessu til staðfestingar þá hef ég séð ansið skondið tæki á ferðinni hér öðru hvoru, hér er verktaki að heyja fyrir bændur, hann fer framhjá bænum öðru hvoru og dinglast með tvöfalda hjólrakstravél sem raka í miðjuna og tekur ca. 5 metra, svona eins og flestir Íslenskir verktakar myndu nota tveggja stjörnu stjörnumúgavél við, hef aldrei séð svona tæki og veit ekki til þess að það sé til á Íslandi en segir ýmislegt um þá tækni sem er til staðar hérlendis.
En að öðrum tæknimálum, ég skil núna mjög vel af hverju fjórhjól var fundið upp og bændur tóku að nýta það við smölun sauðfjár. Ég gerðist semsagt svo vaskur að fara á hestbak, hesturinn var kannski í samræmi við stærð mína en á eins hast hross hef ég aldrei komið og var hálfpartin smeykur þegar það tók á rás með mig á hraðstökki þar sem hnakkurinn sem ég var með myndi flokkast sem barnastærð og ístöðin því alltof stutt og jafnvægi mitt á baki eftir því. Held að ég láti hestamennsku vera það sem eftir lifir dvalar minnar hér og skil mjög vel af hverju flestöll hross eru ekki seld dýrar en á u.þ.b. 15.000 kr. íslenskar hér og sum eru aðeins seld á dollar eða um 50 kr. íslenskar, kannski að hrossræktartengill Óðins Gíslasonar eigi við um þessi hross, er samt ekki viss um það þekkist í matarflórunni hér. Semsagt, ÍSLENSKT - JÁ TAKK, mun skárra en þetta útlenska dót.
Þakka fyrir góða hugmynd Eddu af hanadrápi, held ég láti það nú samt vera því það yrði mjög kvalarfullur dauðdagi fyrir greyið ef ég notaði markatöngina á þessu búi, hún er semsagt með einu stöðluðu marki, líkist markinu Tvíbitað á Íslandi og ég held að það yrði mjög seinlegt að nota hana á hanann, á sennilegast eftir að sakna hans þegar ég fer eins og Mæja benti á í sinni athugasemd.
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er nú magnað hvað vitneskjan sem var troðið inní hausinn á manni í bændadeild nýtist manni, maður sér það alltaf betur og betur.
Þú hefur nú verið kominn ansi hátt á loft þegar þú hefur setið á þessum jálk.
Einar Kári (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 11:01
Einstakt tæki þessi sáðvél þeirra. Maður gæti haldið að ,,Búvélar og ræktun" Árna G. Eylands væri fyrir þessum frummönnum hreinn vísindaskáldskapur.
Mæja (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 11:48
"Jóhannes Reykdal, Setbergi við Hafnafjörð 1927" nárnartiltekið.
Gott að vita að maður þarf að fara yfir hálfan hnöttin til að námið nýtist manni
Húrra fyrir nýtni Nýsjálendinga.... hvað er verið að kalla okkur spreðaranna hérna á klakanum "nítið sveitafólk"!! Svo erum við alltaf að kvarta hvað við höfum það slæmt !!
Nonni (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 00:22
Blessaður! Það er ótrúlega gaman að fylgjast með ævintýrum þínum hérna. En hvert má maður svo senda jólakortið þitt?!?!
Kolla og Þorsteinn Logi (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.