17.12.2007 | 07:50
Sauðfjárrækt 2 og Drottningarborg
Frá því í síðustu viku hefur regn frekar angrað mig en sólskin og ég held að það rigni meira hér en á Íslandi þegar rignir á annað borð. Góður og ítarlegur pistill hjá Sveini um kleprahreinsun og það er svona helsta starfið síðustu vikuna, fyrst lömb og svo ærnar fyrir rúninginn sem byrjaði í dag. Það eru samt eftir rúmlega 4000 lömb, þannig að það er ekki fjarri lagi það sem Vaggi sagði einhvern tímann í nóvember að hér væru jú 20.000 lappir, þær eru allavega nógu margar framlappirnar sem ég hef handleikið undanfarna daga.
Á miðvikudaginn var vanið undan restinni af ánum og send 220 lömb í slátrun, ég fór með bóndanum í sláturhúsið á fimmtudeginum og fylgdum við lömbunum eftir. Það sem ég get sagt um þetta sláturhús er, það er STÓRT enda eru drepnar 32.000 kindur þar daglega á 4 vinnslulínum á tvískiptum vöktum. Vinnslulínan er í sjálfu sér ekkert mjög frábrugðin íslensku sláturhúsi nema hér eru öll lömb skönnuð og flokkuð skv. niðurstöðu skannans. Ekki get ég sagt að ég hafi séð mikið af fallegum skrokkum, held að flestir þeir sem ég hafi séð hafi átt heima í O1, O2, og P1 skv. EUROP kerfinu, þó horfði maðurinn við skannann lengi á einn skrokk og fannst hann feikna fallegur, held hann hafi verið R2, má sjá mynd af honum hér til hliðar.
Ég verð nú samt að segja að afurðasölukerfið hérlendis er mjög svo asnalegt, ef ég á að útskýra það á einfalda hátt þá verða öll lömb að vera stöðluð í sömu vigt og gerð til að fá sem hæst verð, ef þau verða of feit, of létt eða of þung þá er þér refsað og verið fer niður úr öllu valdi, allt niður í rúmlega 1000 kr íslenskar fyrir lambið. Mjög svo asnalegt kerfi og bóndinn er mjög sammála mér í því.
Hér í nágrenni við mig er hópur af skiptistúdentum víðsvegar að úr Evrópu (Svíþjóð, Danmörk, Englandi, Sviss, Frakklandi, Austurríki og Kanada), hittist hópurinn einu sinni í viku á pöbb í Winton. Um helgin skellti hópurinn sér síðan til Queenstown sem er helsta ferðamannaborgin hér í Kívílandi og slóst ég með í hópinn þar sem sveigjanleiki íslensks menntakerfis er mikill og ég tók tölfræðiprófið 14 klst. á undan öllum á Íslandi og lofaði að senda engar upplýsingar um innihalds prófsins á Internetinu. (Ég var nú heldur ekkert að gera góða hluti í þessu prófi, samt nóg til að ná held ég.) Við gistum í sumarhúsi sem einn af hópnum útvegaði, það var fínt að vera þar en ég svaf nú ekki mikið á steinsteyptu gólfi í bílskúr þar sem ég var í síðasta bílnum sem kom og engin dýna eða rúm eftir fyrir mig.
Á laugardeginum skellti ég mér síðan á Shotover Jet og Rafting. Það var mjög fínt og ég held á ég segi með hógværð að vegurinn niður að ánni þar sem við störtuðum sé sá hrikalegast sem ég hef farið á minni ævi, ekki fyrir lofthrædda og Hellisheiði eystri er eins og Mýrdalssandur í samanburði við þennan vega, var ekki með myndavél en ekki heppilegt að hafa hana með í svona ferðalag. Ferðin niður ána gekk ágætlega og tíminn var fjandi lengi að líða þegar ég féll útbyrðis í flúðum, báturinn valt yfir mig, ég náði ekki andanum og sá bara myrkrið undir bátnum var mjög varkár eftir það í öllum flúðum eins sjá má á mynd hér til hliðar. Sumir í hópnum skelltu sér í fallhlífarstökk en ég er víst of þungur fyrir slíkt og einföld eðlisfræði segir mér að ég myndir fara helming hraðar niður en léttast fólkið í hópnum. Mér fannst þó skondnara að ég væri of þungur fyrir að fara á hestbak með hópnum, það eru víst 95 kg takmörk á hestana hér, ef það gilti um íslenska hestinn líka mætti ég nú bara ekki ferðast um á hesti enda væru mörkin milli 70-80 kg ef farið er eftir stærð hesta, þannig að ég vísa nú bara í fyrri skrif mín um geymslustað kívíhesta. Um kvöldið komst ég í mjög svo íslenskar aðstæður þegar hópurinn skellti sér á Ísbarinn en þar er hitastigið -6°C og allir dressaðir upp í kuldaúlpu og vettlinga áður en farið er inn og aðeins heimilt að dvelja þar í 30 mínútur. Held að mætti markaðssetja svona á Ísland fyrir lítinn tilkostnað að vetrarlagi, það er ekki alltaf hlýtt á fjárhúsgrillunum á Hvanneyri.
Í morgun var ég síðan sendur að slá eitt beitarhólf þar sem var mikið af þistlum, var mjög svo sáttur við það enda rigning úti en auðvitað tókst mér að klúðra sláttuvélinni á fjórða hring, það bjargaðist nú samt og mér tókst að klára að slá hólfið áður en ég fór að hjálpa til við rúninginn. Þetta var samt ekki greiðusláttuvél þó mætti ætla það af fyrri skrifum mínum, aðeins nær nútímanum en það. Læt þetta nægja í bili.
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.