14.1.2008 | 07:30
Heimþrá
Ég hef aldrei verið mikið fyrir að lesa tilfinningablogg og því reynt að hlífa þeim hræðum sem lesa þessa síðu reglulega við slíkum færslum meðan á dvöl minni hér stendur. Málið er hins vegar að ég hef verið ein tilfinningahrúga og haft mikla heimþrá frá því skömmu fyrir jól, ég vissi svosem að ég ætti eftir að fá heimþrá á þessum tíma enda eitt af markmiðum ferðarinnar að prófa að vera fjarri klakanum í smá tíma (3 mánuðir eru ekki svo langur tími á Íslandi en þeir eru langur tími hér). Það eru margir þættir sem spila inní, þó eitt atvik standi þar uppúr sem leiddi hugsanir mínar í sífellu heim og mér var farið að líða illa, ég hélt þetta myndi skána þegar ég skipti um bú í byrjun janúar en ef eitthvað er var það bara blekking og versnaði þar, ég hef því skipt aftur um bú, kominn á gamla staðinn aftur eftir vikudvöl með stóru klaufdýrunum, enda er ég meiri kindakall en kúakall og það vita allir sem þekkja mig. Hér verið ég í rúma tíu daga í viðbót áður en ég held í ferðalag umhverfis suðureyjuna á litla fjallabílnum sem vonandi fer klakkslaust í gegnum túrinn áður en ég stíg uppí fyrstu flugvélina á heimferðinni í byrjun febrúar. Hér líður mér betur og það er mun betra til að gleyma heimþrá og til að njóta dvalarinnar þessar síðustu þrjár vikur. Ég er sáttur við þessa ákvörðun og hún var tekin í sátt við alla aðila enda kom ég hér til að fræðast um sauðfjárrækt og ætla reyna læra eitthvað meira þann tíma sem ég dvel hér á sauðfjárbúinu í viðbót.
Eftir vikudvöl á kúabúinu held ég að ég viti nokkurn veginn út á hvað nýsjálensk mjólkurframleiðsla gengur. Nýja-Sjáland er stærsti útflutningsaðilli mjólkurvara í heiminum með Asíu og S-Ameríku sem helstu markaðssvæði. Árleg mjólkurframleiðsla hér er 14 billjónir lítra eða sem er 111 sinnum meiri framleiðsla en íslenskir mjólkurframleiðendur skiluðu metárið 2007. Árleg framleiðsla á búinu sem ég var á er um tvær og hálf milljón lítra og eins og stendur eru bændur hér að fá um 30 kr/L þó svo að greiðslufyrirkomulagið sé frábrugðið því íslenska og kr/L ekki réttur mælikvarði. Meðalkúabúið hér á Nýja-Sjálandi eru um 300 kýr en hér í Southland héraði (ríflega 700 kúabændur) þar sem ég er, eru þau mun stærri eða meðaltal um 500-600 kýr og ég hef heyrt um bú með 1200 kýr mjólkaðar, þar byrja morgunmjaltir klukkan tvö að nóttu.
Þróunin hér í Southland héraði undanfarin ár hefur verið úr sauðfjárrækt yfir í mjólkurframleiðslu enda hægt að hafa stór bú með mikla framleiðslu enda landið flatt og mjólkurframleiðslan gefur meiri peninga af sér en sauðfjárræktin en um mun meiri vinnu að ræða líkt þekkist á Íslandi. Hérna fara þó kúabændur í frí einu sinni á ári, það er nefnilega svo að grasið sprettur ekki á veturna og því afar óhentugur tími til að framleiða mjólk, kýrnar eru því geldar í tvo mánuði og lítil sem engin mjólkurframleiðsla þann tíma, rétt til að sinna þörfum innanlandsmarkaðarins. Á sumum svæðum Nýja-Sjálands eru kýrnar geldar í þrjá mánuði. Framleiðsla byrjar síðan aftur í byrjun ágúst með vorkomunni burði kúnna. Heyrði um bónda sem samstillti allar kýrnar og svo báru 700 kýr á tveimur vikum, ég held að ég hefði nú ekki viljað vera þar, á flestum búum eru kýrnar að bera á sex-sjö vikna tímabili.
Það kostar peninga að gerast kúabóndi hér og því eru flestir þeir sem eru að byrja verktakar (contractor milker) eða leiguliðar (sharemilker), líkt og ég lýsti í síðustu færslu áður en þeir kaupa eigin jörð til að búa á. Hjónin hér á sauðfjárbúinu hafa hugsað um að breyta hluta af búinu í kúabú (500 kýr) en það kostar 200 milljónir að byggja mjaltaskýli, vélbúnaða, gripi og framleiðslurétt hjá Fonterra, samt ekkert líkt framleiðslurétti á Íslandi. Hér er gangverð á góðri mjólkurkú um 130.000 kr., en slæmar kýr með júgurvandamál fara á 75.000 kr., sem er betri kostur en senda þær í slátrun því það gefur ekki nema 15.000 kr. 200 milljónir finnst þeim of mikil fjárfesting og því hafa þau ekki skipt yfir í mjólkurframleiðslu og fyrir þá sem eru að kaupa svona bú má bæta öðrum 200-300 milljónum fyrir 200 ha. lands, því verð á landi hér er mun hærra en á Íslandi, samt breytilegt eftir því hvernig land er í boði.
Í vikunni fór ég einnig í heimsókn í mjólkurstöð Fonterra í Edendale sem tekur við mjólk í öllu Southland héraði, þar tók ég engar myndir enda myndavélar bannaðar, ekki var svosem mikið að sjá enda er þetta bara stór verksmiðja sem við gengum umhverfis utandyra og mest öll vinnsla er sjálfvirk og tölvustýrð. Meiri hluti framleiðslunnar fer í ost og mjólkurduft, þær tölur sem ég man eftir eru að í gegnum stöðina renna 11 milljónir lítra á hverjum degi eða örlítið meira en rennur í gegnum MS Búðardal á einu ári og það tæki 10 daga að vinna alla framleiðslu íslenskra kúabænda. Starfsfólkið á þessum stað er um 500 og er unnið á 4 mismunandi vöktum, af þessum 500 eru 120 mjólkurbílstjórar, 3 á hvern tankbíl en bílarnir keyra stanslaust 24 klukkutíma á þessum tíma þegar framleiðslan er í hámarki enda er ekkert óalgengt að mæta 10 mjólkurbílum á stuttum kafla ef maður er í umferðinni hér.
Rightyho, best að hætta þessu þvaðri í bili um kýr, skrifa sennilega eitthvað um ferfætlinga með ull næst. Tveir mætir nýsjálendingar eru nýlega látnir, annar er Sir Edmund Hillary (88 ára) sem fyrstur kleif Everest en hinn er próffessor Coop (94 ára) sem þróaði Coopworth fjárkynið og gerið því mikið fyrir nýsjálenska sauðfjárrækt.
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það geta allir fengið heimþrá og fegin er ég að það var ekkert alvarlegra sem olli þögninni hér á síðunni. Hélt máske að þú færir huldu höfði í tilefni af Bjarkaruppákomunni á Norðureyna
kv úr snjókomu við Skarðsheiðina
edda (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 07:40
Sæll ég er ein af þeim hræðum sem hafa lesið allar færslunar þínar síðan þú fórst út. Finnst þetta ótrúlega gott framtak að skrifa um þessa ferð þína. Mér sjálfri hefur alltaf langað að fara þarna niðureftir og upplifa landbúnaðinn þar. Með kveðju frá Hvanneyrinni sem er hulin snjó í augnablikinu.
Guðný (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 21:59
Sæll meistari og gleðilegt árið.
Af hverju læðist að mér sá grunur að þetta sé ekki heimþrá sem hrjáir þig heldur ást á einhverri kerlingu á fyrri bænum. Þetta get ég rökstutt með því að segja að ef þetta hefur verið heimþrá þá hefðir þú komið HEIM en ef þetta var bara svona ástardæmi þá fórstu aftur á fyrri bæinn þar sem kerlingin er. Er þetta ekki rétt?
Myndirnar hjá þér eru flottar og það verður örugglega geðveikt gaman að ferðast þarna um og skoða landið.
Með kveðju frá Uppsala
Vaggi
Vaggi (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 10:37
Það hefur gefist mér vel að hugsa um sunnlenskt slagveður og norðlensk vorhret þegar ég hef verið að heiman. Slíkar hugsanir draga verulega úr heimþránni!
Helgi Már Barðason, 16.1.2008 kl. 12:49
Láttu þér líða vel...
Mæja (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.