21.1.2008 | 08:21
Frá því síðast ...
... hefur ekki mikið gerst. Það hefur verið rjómablíða hér uppá hvern einasta dag með nærri 30 stiga hita, fínn hiti til að stunda letilíf í en við vinnu (garðvinnu) er þetta ekkert æskilegur hiti endaði á því að ég kældi mig niður í dag, í sundlaug svona til að lifa daginn af, þó það verið viðbrigði að koma aftur til Íslands er viss tilhlökkun að komast kuldann og veturinn, ég er svona meira fyrir normalt veðurfar.
Föstudeginum eyddi ég í ullarpressu á næsta bæ þar sem Graeme fór á jarðarför prófessor Coop´s. Þar var síðasti dagur í rúning og ég sá um að þjappa ullinni í pressunni enda þyngsti maðurinn á staðnum, menn voru ákaflega fegnir þegar kind númer fjögurþúsund og eitthvað var rúin þennan föstudagseftirmiðdag. Á laugardeginum fór ég síðan á litla landbúnaðarsýningu í Winton þar krakkarnir komu með gæluhúsdýrin sín og létu þau leika listir sínar, vélasalar reyndu að pranga tækjum á bændur og sitthvað fleira. Ég afþakkaði nú tæki til létta vinnuna við kleprahreinsun enda hef ég ekkert með slíkt að gera á Íslandi.
Keypti tvær litlar bækur í bókabíl á staðnum önnur um sauðfé og hinu um hvernig dæma eigi búfé á velli, báðar frekar gamlar en mikill fróðleikur í þeim. Íslandshjartað í mér var nú frekar kátt þegar ég var búinn að borga bækurnar og fór að tala við fólkið í bílnum, það þekkti nefnilega einn annan Íslending og það var ekki Björk. Þó hann hafi flúið Dalasýslu eftir manndráp vissu þau hver Eiríkur rauði var og vissu einnig að sonur hann Leif the Lucky" hefði fundið Ameríku á undan Kólumbus.
Í gær fór ég síðan og skoðaði byggðasafn Souhtland´s í Invercargill, lítið safn en merkilegasti gripurinn sem þar má sennilega sjá er eðlutegundin TUATARA sem safnið er ræktunaraðili að. Dýr þessi verða vel yfir 100 ára gömul og þarna mátti sjá eðluna Henry sem er kominn vel yfir 100 ára múrinn og átti það til að ráðast á önnur dýr af sömu tegund, það lagaðist þó eftir að hann fór í krabbameinuppskurð árið 2002.
Eftir skoðunarferð um safnið fór ég í bíltúr og ekki það að ég hafi villst aftur þá keyrði ég veginn á enda. Hér er nefnilega þjóðvegur 1 ekki hringvegur, heldur nær hann frá nyrsta enda norðureyjunnar til syðsta enda þeirra syðri nánar tiltekið Bluff. Þá var ég staddur á 46° 36 mín og 54 sek suðlægrar breiddar og 168° 21 mín og 28 sek austlægrar lengdar. Þarna var ég 7 km frá Hundaeyju, 784 km frá Wellington höfuðborg þeirra kívíbúa, 2000 km frá Sydney, 4810 km frá Suðurpólnum, 5133 km frá miðbaug, 9567 km frá Tókyó, 15008 km frá New York, 18958 km frá London sem segir mér að það séu eitthvað yfir 20000 km til Íslands.
Annars reyna bændur hér núna að nýta þurrkinn til heyskapar og hver segir að heybagginn sé úrelt uppfinning, sá inn sami ætti að koma til Nýja-Sjálands þar sem hann er mjög algengur. Aftur á móti finnst mér aðferðin til að þurrka frekar takmörkuð, garða heyið eftir slátt og velta görðunum til í sólinni í von um að grasið þorni í hitanum, ég myndi nú nota einhverja aðra aðferð eins og til dæmis heyþyrlu auk þess sem ég held að minn besti vinur þistillinn sé ekki góð fóðurjurt, held ég myndi nú frekar velja íslenska snarrót en þistill. Ætla samt ekki að reyna á innflutning þar sem mér yrði örugglega stungið inní fangelsi því innflutningur á landbúnaðarvörum er litinn alvarlegri augum en smygl á fíkniefnum hér í landi
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Dalamenn eru greinilega allsstaðar. Gaman að lesa um ferðalög þín. Gangi þér vel
Eyþór Ingi frá Sælingsdalstungu
Eyþór Ingi Jónsson (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 12:50
Það er alveg grjótmagnað hvað þessir andfætlingar eru að mörgu leyti tregir að meðtaka tæknina... Ekki að það sé allaf best að gera allt með vél en suma hluti er einfaldlega hagkvæmara og auðveldara að vinna með þar til gerðum vélum.
Mæja (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 18:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.