23.1.2008 | 06:14
Enn af tækniframförum
Ég verð nú að segja að ég er bara farinn að hafa nokkuð gaman af þeim tækjum sem ég vinn með hér dags daglega þó ég geti tekið undir orð Mæju að sumt er betra að gera með þar til gerðum vélum en þær kosta peninga og þetta er allt spurning um þá. Kúabændum hér á Nýja-Sjáland dettur ekki í hug að nota tæki lík þessu enda eru þeir uppteknir mest allan sólahringinn við að mjólka og kaupa því verktaka í flest þau störf sem til falla utan mjalta, s.s. jarðvinnslu og heyskap. Og verktakarnir nota nýjustu tækni, Búvélar og ræktun, Árna Eylands, er ekki bókin sem er á náttborðinu hjá þeim, þó ég hafi ekki gert vísindalega könnun á því.
Eitt get ég þó þakkað fyrir og það er að rúningurinn hér er unninn með þar til gerðum rúningsklippum eins og tíðkast á Íslandi ekki handklippum (þó má eflaust finna sérvitring sem klippir enn með handklippum hér á Nýja-Sjálandi), enda væri það ærið verk að klippa á fimmta þúsund ær með handklippum, hvað þá að kleprahreinsa öll lömbin með slíku verkfæri. Ástæða þess að ég skrifa þetta er sú að ég fór í dag að sjá Jimmy Clark slá heimsmetið í einmenningsrúningi með ær á átta klukkustundum og hann notaði barkaklippur, frá Heiniger svo það komi fram hver kostaði heimsmetið. Og hvað get ég sagt, hann rúði fjandi hratt og fyrir rest fór svo að hann bætti eldra met um 65 ær, rúði 560 ær. Það met hafði staðið óhreyft síðan 1999 og taldi 495 ær. Vísa í fyrri færslu mína um frekari rúningsfróðleik.
Heyskapur gekk ekki sem skildi enda fór að rigna fljótlega eftir að ég skrifaði síðustu færslu og heyið var ekki nógu þurrt til að binda það í litla bagga, ég held nú að það mætti vel þurrka hey í nærri 30 stiga hita í þrjá daga með því að nota t.d. heyþyrlu til að snúa því öðru hvoru ekki bara velta múgunum til. Ég var því settur í ýmis tilfallandi störf í gær, fluttum til kálfa, hreinsaði upp plastúrgang og svo var ég sendur í að slá/hreinsa eitt beitarhólf. Ég lagði af stað og setti sláttuvélina niður, setti aflúrtakið í gang og ætlaði af stað en ekkert gerðist, ég reyndi aftur og ekkert gerðist, hugsaði því með mér hvaða tæknivandamál væri nú á ferðinni. Ég fór því út og var fljótur að sjá hvað var að, það vantaði einfaldlega drifskaftið. Ég rölti því heim í von um að finna skaftið, því ég hélt það hefði einfaldlega dottið af á leiðinni en nei ekki fannst það. En fyrir rest hafði eitthvað þurft að laga skaftið og það var í vélageymslunni og einfaldlega bara gleymst að setja það aftur á vélina. Gott að þetta var ekki meira vandamál en þetta.
Nú fer að styttast í að ég leggi af stað í ferðalagið mitt umhverfis Suðureyna, veit ekkert hvað ég ætla að skoða er bara búinn að bóka gistingu þessa daga sem eftir lifa af dvöl minni sem andfætlingur Íslendinga, vona bara að litli fjallabíllinn haldi út þessa ferð, hefur gert það hingað til þá rúmlega 2000 km sem ég er búinn að keyra hér á vinstri helmingnum og finnst hálf bjánalegt að keyra hægra megin svo það verður skrautlegt að fylgjast með mér þegar ég kem aftur á klakann. Ef ég kemst í tölvusamband á einhverjum náttstaða minna, set ég kannski inn færslu ef eitthvað merkilegt hendir mig í þessu ferðalagi s.s. eins og að starfsbræður Vagga stoppi mig, skilst að þeir séu í sérstöku túristaátaki núna því ferðamenn valda flestum slysum í umferðinni hér í landi
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sælir.
Djöfull hefur maðurinn verið snöggur að taka af þessum skjátum.
Það hlýtur að vera talsvert gaman að vinna hjá svona verktaka, allavega ef maður hefur gaman af tækjum, ein og ein rúlla þar.
Gangi þér vel í ferðalaginu, rollan hlýtur að endast enda úrvalstegund eins og við báðir vitum:). Já og láttu ekki taka þig á öðru hundraðinu, þarna fá menn að ganga með "kinda"byssur í jobbinu og sjá örugglega ekki eftir einhverjum íslenskum tarfi sem ók of hratt.
Mbk
Vaggi
Vaggi (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 10:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.