49,5

Sit núna á Cookers Backpacker, 52 Manchester stræti í miðborg Kristskirkju í Kívílandi. Það eru um fjórir tímar í að ég gangi um borð í fyrstu flugvélina til Auckland, þar þarf ég að bíða í átta tíma eftir rúmlega 26 klukkustunda flug til London, þar þarf ég síðan að bíða aftur í átta tíma eftir vélinni til Keflavíkur og ætti að öllu óbreyttu að lenda á Íslandi á miðnætti 5. febrúar þannig að í raun tekur 46 klukkustunda ferðalagið ekki nema 33 tíma því nú græði ég tímann sem ég tapaði yfir Kyrrahafinu á leiðinni út.

Hvað um þessar pælingar, ef það bætir eitthvað stolt Akureyringsins Vagns Kristjánssonar að vita fólksfjöldann í þorpinu Greymouth, þá búa þar rúmlega 13.000 manns og því er það réttilega aðeins minna en Akureyri en samt þorp á NZ mælikvarða, núna er ég í borg á NZ mælikvarða en hún telur rúmlega 330.000 íbúa og hefur því fleiri íbúa en allt Ísland.

Frá því ég skrifaði í Greymouth hef ég þvælst aðeins meira, fór þaðan til Nelson og komst næstum því í kynni við lögregluna en tókst að afstýra árekstri við hana í tæka tíð í einu af þeim skógarkjörrum sem ég keyrði um, varð aðeins of hægrisinnaður í umferðinni, í Nelson stoppaði ég síðan í einn dag, skoðaði furðulegt listasafn og reyndi að þvælast um borgina en sá að það gekk ekkert hjá mér að rata og fór því bara á ströndina að sleikja sólina. Frá Nelson keyrði ég síðan hingað til CHCH á einum degi og það get ég sagt að það var einhver heitasti dagur sem ég hef upplifað. Hefði komið sér afskaplega vel að hafa loftkælingu í bílnum en hún er víst ekki fyrir hendi í nærri 23 ára gömlum kagga og skrúfaði ég því niður báðar framsætisrúðurnar til að hafa vindstreng í gegnum bílinn og þrátt fyrir að hann minnti æði oft á íslenska norðanátt var það ekki nóg til að kæla mig niður ég var í algjöru svitabaði og stoppaði því nokkrum sinnum til að finna skugga frá stóra gula helvítinu eins einn ágætur verðandi Héraðsbúi kallar sólina.

Hérna í CHCH hefur mér gengið mun betur að rata og læt flaut og óþolinmæði innfæddra eins vind um eyru þjóta þó ég þurfi aðeins að hugsa mig um hvar ég ætli að beygja næst, ég er búin að fara í suðuheimsskautssetrið til að búa mig undir íslenskt veðurfar en þar var hægt að fara inní herbergi með heimsskautastormi (20 m/s og 25°C frost) og ég get ekki sagt annað að mér er nú bara farið hlakka til að komast í vetur þó ég hafi ekkert saknað hans þegar ég yfirgaf Ísland fyrir þremur mánuðum. Þarna sá ég líka eina af einkennisdýrategundum suðurheimsskautsins þ.e. mörgæsina, reyndar ekki þessar stóru, bara minnstu tegundina og þetta eru einkennileg dýr. Ég fór líka í dýragarðinn hér til að sjá einkennisfugl Kívílands þ.e. kívífuglinn, náði ekki mynd af honum en þetta er einhver fyndnasti og klunnalegasti fugl sem ég hef séð.

Ég keypti mér einnig nýja skó hér, það er þó ekki í frásögur færandi nema fyrir þá hluti að ég þurfti númer 49,5 til að þeir pössuðu á lappirnar á mér, þær hafa greinilega eitthvað stækkað hér og ég þarf sennilega að láta sérsmíða á mig skó næst.

Hvað um það, þegar ég lít til baka þá er þessi tími hér búinn að vera gríðarlegu skóli fyrir mig og góð reynsla til að hafa í farteskinu í framtíðinni, eins og Tony Andersson orðaði það þegar ég kvaddi hann þá kveð ég NZ með söknuði í öðru auganu og gleði í hinu yfir því að vera fara heim og á án efa eftir að koma hingað aftur sem ferðamaður seinna, ég á alveg eftir að skoða Norðureyjuna.

Tilhugsunin við að fá íslenska mat er góð, sérstaklega fisk, það má varla heita að ég hafi bragðað hann hér þessa þrjá mánuði, það sem er hins ekki á óskalistanum þegar ég kem heim er svínakjöt, kjúklingur og bakaðar baunir, alveg búinn að fá nóg af því auk þess sem ég er örugglega búinn að éta þrefaldan árskammt Íslendinga af kartöflum þessa þrjá mánuði, kann sko ýmsa kartöflurétti.

Eins og ég hef áður sagt er ég stundum/oft of stór fyrir Nýja-Sjáland enda held ég að meðalhæð Nýsjálendinga sé 10-15 cm minni en Íslendinga, það hefur því haft ýmsa ókosti fyrir mig þessa þrjá mánuði, ég sé núna t.d. frammá að geta farið í sturtu án þessa að þurfa að beygja mig í hvert skipti undir sturtuhausinn og svo verður afskaplega gott að komast í rúm sem er tveir metrar á lengd og með sæng og kodda, alveg búinn að fá nóg af rúmum sem eru um 1,8 á lengd ásamt umbúnaðinum um rúmin hér, ætla ekki að gera tilraun til að lýsa honum en hann er mun flóknari en sængurver, koddaver og lak ásamt því að hann hefur þann ókost að rúmið er ekki nema 1,8 og ég hef alltaf þurft að gera ráðstafanir til að koma löppunum útfyrir dýnuna áður en ég fer að sofa, ekki svo gott að geta bara stungið löppunum undir borðplötuna eins og ég þurfti að gera fyrsta veturinn á Hvanneyri í hálfkústaskápnum sem ég bjó í þann vetur, hýsir reyndar skrifstofu rektors núna.

En af því að Guðrún Bjarna spurði í síðustu athugasemd þá verður Viskukúin 2008 í matsal LBHÍ, 14. febrúar nk. kl 20:00 og ég á án efa eftir hugsa um einhverjar kvikindislegar spurningar á heimleiðinni, ég get allavega upplýsti að þetta árið verður þemað svona meira nýsjálenskt en samt þó að flestir eiga að geta svarað með því að nota heilbrigða skynsemi.

Bið að heilsa að sinni....................................


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gangi þér vel á heimleiðinni, þetta er helv langt en hlýtur að reddast. Las það um daginn að líkurnar á að flugvél farist í flugtaki eða lendingu eru 1:4.000.000 þannig að þú hlýtur að hafa það:)

Mbk

Vaggi 

Vaggi (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 09:13

2 identicon

Já 14. segirðu.. Andsk... ég er í prófundirbúningi og verkefnavinnu... Ég verð víst að sætta mig við þá annars skelfilegu tilhugsun að Viskukýrin getur alveg farið fram án mín......    Ó skemmtu þér í fluginu góði.. eða þannig.. Þú þarft þó ekki að hlaupá á milli flugvéla eins og ég gerði á leið frá Gvatemala... það var hlaupið á öllum flugvöllum.. Mig langaði svo að skoða í Amerísku búðirnar á Huston airport en nei... þær þutu framhjá á leið upp í næstu vél... spælandi... En vonandi verðurðu jafn heppinn og ég og nælir þér í "Exit row" ALEINN... en ég var þannig í 8 tíma flugi frá NY til Köben... NÆS...... Mætti bara nokkuð úthvíld heim eftir sólarhrings flug...    Þú heldur að þú sért stór þara í NS... ég og Hlynur Gauti vorum að koma frá Gvatemala og ég get svarið að heimamenn eru varla stærri en 130 ok.. í mesta lagi 140... Við vorum eins og RISAR.... Ég hélt ég væri að týnast á markaðinum en nei.. hehe.. ég sé út um allt og yfir alla.....

Góða ferð heim og passaðu upp á Viskukýrina fyrir mig..

Guðrún B.

Malmö

Guðrún Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband