Lærdómsríkt að kynnast nýsjálenskum landbúnaði

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður nemendafélags Landbúnaðarháskóla Íslands, stundar nú nám fjórða vetur sinn við skólann. Hann lauk búfræði til tveggja ára en er nú á öðru ári í búvísindadeild. Í vetur tók hann sig til, lagði land undir fót, og fór einn síns liðs til Nýja-Sjálands þar sem hann starfaði í þrjá mánuði á sauðfjárbúi og kynntist hinum ýmsu hliðum nýsjálensks landbúnaðar, sem er um margt ólíkur þeim íslenska.

„Þetta var alfarið mín ákvörðun að fara út því mér fannst ég þurfa að skipta um umhverfi og ég þurfti örlitla áskorun fyrir sjálfan mig. Einnig fléttaðist inn í að ég var kominn með svolítinn námsleiða þannig að þetta var rétti tímapunkturinn. Ég talaði við Valdimar Einarsson, frá Lambeyrum í Laxárdal sem búsettur er á Nýja-Sjálandi, hann var mjög áhugasamur og útvegaði mér vist á sveitabæjum. Síðan keypti ég mér flugmiða og vissi í raun ekkert hvað ég var að fara út í," útskýrir Eyjólfur og brosir að endurminningunni.

Snýst um magn frekar en gæði

Eyjólfur dvaldi í þrjá mánuði á Nýja-Sjálandi, frá nóvember og fram í febrúarbyrjun á suðureynni nálægt bænum Riverton. „Ég var syðst á suðureynni sem er mikið landbúnaðarsvæði og var mestan hluta tímans á sauðfjárbúinu Lawson Lee. Þetta var fimm þúsund kinda bú og einnig voru þau hjónin með 180 nautgripi en þetta er aðeins stærra en meðalbú á Nýja-Sjálandi. Þau keyptu nautgripi, fóðruðu þá upp í sláturstærð og sendu síðan til slátrunar en einnig voru þau með kvíguuppeldi fyrir einn nágranna sinn, auk þess að halda örfá dádýr," útskýrir Eyjólfur sem er frá Ásgarði í Hvammssveit, Dalasýslu. Eyjólfur tók þátt í almennum störfum á bænum og segir hann það hafa verið svolítið sérstakt að upplifa að árstíðirnar þar eru öfugar á við okkar en í nóvember aðstoðaði Eyjólfur við vorverkin á bænum þegar sáð var í flög.  „Það eru allt önnur lögmál sem gilda þarna varðandi búskapinn og allt snýst um beit og að framleiða sem mest á sem stystum tíma. Þetta var kynbótabú þar sem 400 kindur voru skráðar með merkjum í skýrsluhaldi en restin var einungis til að framleiða kjöt og ull. Nýsjálendingar nýta landið á allt annan hátt en hér heima og að mínu mati snýst þetta um magn frekar en gæði hjá þeim," segir Eyjólfur.

Kynbætur sauðfjár fara m.a. eftir ormaeggjum

Eyjólfur segir búskaparháttunum á Nýja-Sjálandi fylgja ýmis vandamál sem bændur hér heima á Íslandi þurfi ekki að glíma við í jafnríkum mæli. „Ormasmit er algengt vandamál þarna vegna álags á beitiland en þessa þrjá mánuði sem ég var úti voru lömbin ormahreinsuð þrisvar sinnum, fyrst átta vikum eftir sauðburð, síðan fjórum vikum seinna og aftur mánuði eftir það. Það var líka sérkennilegt að upplifa það að hluti af kynbótum sauðfjár er að telja ormaegg í skítnum af hrútunum, sé of mikið af þeim, eru þeir ekki æskilegir til kynbóta. Ég hugsa að það verði seint farið að auglýsa ormalyf hér á RÚV milli frétta og Kastljóssins en sú var raunin úti, enda mikil samkeppni milli ormalyfjaframleiðenda," segir hann brosandi. Eyjólfur upplifði að margt var ólíkt með starfsaðferðum nýsjálenskra og íslenskra bænda og einnig hefða í löndunum. „Jörðin sem ég starfaði á var allt í allt rúmir 500 hektarar og dugði vel fyrir bústofninn en þetta var heldur stærri jörð en meðaljörðin úti og þeim fannst því skrýtið að heyra um stærðir íslenskra jarða m.v. þann beitarþunga sem þær bera. Meðalbúið úti er um tvö þúsund kinda bú og að mínu mati er það sambærileg vinna eins og 500 kinda bú hér heima. Skepnurnar eru úti allt árið, einungis skýli til að vinna við flokkun og rúning, einnig þarf að víxla á milli beitarhólfa og það tekur einungis nokkrar mínútur þegar hægt er að kalla á kindurnar og þær koma. Mér er minnisstætt að bændunum úti fundust mjög sérstakar lýsingar mínar á íslenskum göngum og réttum, þeim fannst þetta hálfgerð villimennska og þeir höfðu skýrar hugmyndir um hvaða aðferðum væri sniðugra að beita," segir Eyjólfur.

Mættu temja sér nýsjálenskan hugsunarhátt

Á Nýja-Sjálandi var aðstaða og tækjakostur bænda ekki jafn nútímalegur og hérlendis og segir Eyjólfur að íslenskir bændur megi læra margt af starfsbræðrum sínum á Nýja-Sjálandi hvað þetta varðar.  „Þarna styrktist ég í þeirri trú að við höfum það sennilega of gott hér heima. Hér missa margir sig í vitleysu og hugsa ekki um annað en fjárfestingar og peninga og steypa sér út í það. Á Nýja-Sjálandi er ekki vaðið í að kaupa nýtt tæki þó að hin séu ekki nógu flott. Það er ákveðið stöðutákn í íslenskum landbúnaði að vera á stærsta og flottasta traktornum sem er í raun skrýtinn hugsunarháttur því þetta er allt vinna sem þarf að inna af hendi og ef gömlu og slitnu vélarnar duga þá duga þær," segir Eyjólfur og bætir við; „Þeim fannst mjög sérstakt að kúabóndi hér heima væri með mjaltaþjón fyrir 50-60 kýr og tölvustýrða tækni við fóðrun, einn komst svo að orði að þetta væru „lazy bastards" hér heima eða letingjar. Í mjólkurframleiðslunni úti eiga menn ýmist jarðirnar eða að ábúendur eru ýmist verktakar eða leiguliðar. Hið síðarnefnda er í raun mjög algengt og þá er ákveðið fyrirkomulag milli eiganda og leigutakans en aðeins er gerður samningur til eins árs í senn svo þetta er fremur ótryggur búskapur fyrir þann sem í hlut á."

Úr sauðfjárbúskap í kúabúskap

Það eru ýmsar hræringar í nýsjálenskum landbúnaði sem Eyjólfur varð vel var við, mestar voru umræðurnar um þær breytingar sem eiga sér stað núna, þar sem margir sauðfjárbændur eru að skipta yfir í kúabúskap. „Nú fæst meira fyrir mjólkur- en kjötframleiðslu og því er þetta umhverfi að breytast mikið þarna úti. Ég skynjaði ákveðna depurð út af þessu hjá sauðfjárbændum og viðskipti í kringum sauðfé eru lítil sem stendur. Það er breytilegt eftir því hvar í landinu maður er hvaða sauðfjárkyn menn hafa en ég heyrði af hrútauppboð og þar var hrútur af Perendalekyni sleginn á 650 þúsund krónur íslenskar sem telst nú dágott. Það sama var uppi á teningnum varðandi áburðarverð hjá þeim eins og hér heima, sem fer hækkandi þó ekki eins mikið, en nýsjálenskir bændur nota mikið af honum. Á sauðfjárbúinu sem ég var á fara um 100 tonn af áburði á rúma 500 hektara og hjá kúabændunum er notaður heldur meiri áburður," útskýrir Eyjólfur sem fékk að líta inn í eitt mjólkursamlag og sláturhús á meðan hann dvaldi þar ytra.  „Mjólkursamlagið sem ég kom í framleiðir úr 11 milljónum lítra á dag og þeir reiknuðu með að aukningin yrði upp í 13-14 milljónir lítra á dag eftir fimm ár. Mjólkurbíllinn er því orðinn fullur eftir heimsókn á 2-3 bæi. Nýsjálenski kúabóndinn er að fá um 28 krónur fyrir lítrann en það á sennilega eftir að hækka. Einnig kom ég í sláturhús þar sem 32 þúsund kindum var slátrað á dag í fullum afköstum og er það í gangi nánast allt árið um kring. Í ágúst, september  og október er þó fremur rólegt þar."

Lærdómsríkt og mikill skóli

Eyjólfur er afar ánægður með dvölina og segist hafa lært mikið á stuttum tíma. Hann viðurkennir þó að þetta hafi ekki alltaf verið dans á rósum og heimþráin togaði oft á tíðum sterkt í hann.  „Ég fór hringinn í kringum hnöttinn og sat í 60 tíma í flugvél og þegar ég hugsa það eftir á,  þá er það meira en að segja það að vera aleinn í öðru landi. Ég hélt þó úti bloggsíðu á meðan ég var á Nýja-Sjálandi og það gaf mér aukinn styrk þegar ég fékk skemmtilegar athugasemdir inn á hana. Eitt af markmiðum mínum með því að fara þarna út var að bæta enskukunnáttu mína og það tók mig alveg þrjár vikur að skilja framburðinn hjá þeim. Það var ekki síður skóli að læra nýtt tungumál en það sem hjálpaði mér óneitanlega var hversu vel fólk tók mér þarna úti," segir Eyjólfur.  Eyjólfur vill koma sérstökum þökkum til kennara og kennsluskrifstofu Landbúnaðarháskólans  sem sýndu honum skilning varðandi hlé frá námi og fyrir þann sveigjanleika sem hann fékk frá reglunum.  „Þetta var búið að vera draumur hjá mér í nokkur ár og er ekki sagt að maður eigi að láta drauma sína rætast? Mörgum fannst þetta gott hjá mér að hafa drifið í þessu en ég er á þeirri skoðun að það sé lærdómsríkt fyrir alla að skoða heiminn, kynnast annarri menningu og öðrum starfsháttum. Ég mun búa að þessari reynslu lengi og það er aldrei að vita nema ég taki mér einhverja aðra svona ferð fyrir hendur seinna," segir Eyjólfur og brosir út í annað.

Viðtal við höfund þessarar síðu sem birtist í Bændablaðinu í dag. Smá ruglingur varð þó á myndum þar og hér koma réttar myndir og myndatexti.

Dæmigerður mjaltabás á NZ, 30 tæki og mjólkað til skiptis á vinstri og hægri hlið.
Á myndinni má sjá þá Graeme Black og Tony Anderson vinna við ormahreinsun.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband