5.3.2008 | 11:27
Sauðfjárrækt "auðlind eða ekki auðlind"
Þessi pistill byggist að mestu leiti á verkefni sem ég gerði í áfanganum Maður og náttúra fyrir rúmu ári síðan, held að flest af því sem kemur fram hér eigi jafnvel við í dag sem þá.
Þessi pistill mun fjalla um sauðfjárrækt á Íslandi með tilliti til auðlindanýtingar en að mínu mati er sauðfjárrækt ein af stærstu auðlindunum sem íslenskar sveitir eiga um þessar stundir. Af hverju? Jú það væri nú ekki mjög búsældarlegt um að lítast í hinum dreifðu byggðum landsins ef engin nýting færi fram á henni þar og er sauðkindin lífæðin í því að sumar byggðir á jaðarsvæðum þessa lands eru í byggð enn þann dag í dag. Sauðkindin hefur verið partur af þjóðinni frá örófi alda, hún kom til landsins með landnámsmönnunum er þeir námu hér land fyrir ca. 1150 árum. Að uppruna til er þetta norður evrópskt stuttrófukyn, reyndur hefur verði flutningur annarra kynja til blöndunar í gegnum árin en það hefur alltaf haft einhverja sjúkdóma í för með sér hér á landi.
En hvernig hefur hún nýst þjóðinni, í upphafi landnáms var meiri áhersla lögð á nautgriparækt í landinu en með versnandi hag og kólnandi veðurfari á miðöldum varð áherslan meiri á sauðfjárrækt og þá aðallega til að framleiða hið hvíta gull sem var mjög mikilvægt á miðöldum. Hvíta gullið? kann einhver að spyrja en mjólk og mjólkurafurðir voru gríðarlega mikilvægar til að framfleyta heilu fjölskyldunum. Voru lömbin þá færð frá ánum um mitt sumar og mjólkaðar fram á haust til að birgja heimilin upp að smjöri og ýmsum öðrum mjólkurmat fyrir veturinn. Fráfærur eins og þetta kallaðist voru stundaðar hér á landi fram til aldamótanna 1900 og á stöku stað héldust þær til 1950.
Aðrar afurðir sem sauðkind gaf af sér var kjöt og ull, en vaðmál sem unnið var úr ull var ein helsta útflutningsvara þjóðarinnar á miðöldum auk þess sem ullin var notuð í allar þær flíkur sem landsmenn klæddust á þessum árum. Og ég segi það satt að sé maður í ullarfatnaði út í slæmum veðrum þá er maður mun betur settur en að vera í einhverjum nýmóðins gerviefnum, ullin heldur alltaf á manni hita, sama hvernig viðrar. Skinnið af kindinni var einnig nýtt og var aðalskóggerðaefni Íslendinga fram á 20. öld. Nú á tímum er nýting sauðkindarinnar aðallega fólgin í því að framleiða kjöt og hefur fjárfjöldinn verið nokkuð breytilegur í gegnum aldirnar, t.d. var stofninn ekki stór eftir móðuharðindin og hann minnkaði mikið við alla þá niðurskurði sem framkvæmdir voru á sauðfé til að reyna útrýma sjúkdómum, t.d mæðuveiki og fjárkláða. Fjárfjöldi varð flestur á landinu á áttuna áratug síðustu aldar en þá voru um 900.000 kindur ásettar í landinu, þær höfðu gríðarleg áhrif á landið með beit sinni og á sumum stöðum var um mikla ofbeit og landtjón að ræða.
Það fer hins vegar fyrir brjóstið á mér sú umræða sem skýtur öðru hvoru upp í fjölmiðlum um að sauðfjárbændur séu líti á þjóðinni, þeir séu styrktir af ríkinu til að eyðileggja landið og þar fram eftir götunum. Vissulega get ég fallist á það að landgæðum hnignaði víða mjög mikið við beit sauðfjár og ekki síst á hálendi landsins. En það að sauðfjárbændur séu að eyðileggja landið get ég ekki fallist á, vissulega er ég hlutdrægur í skoðun minni en satt best að segja þá held ég að sauðfjárbændur séu þeir sem þekkja landið hvað best allra landsmanna, ekki nýmóðins menntamenn sem státa af einhverjum gráðum frá erlendum háskólum. En hvernig þekkja þeir landið svona vel? Svarið er, þeir fara um landið þegar þeir smala kindum og þeir þekkja bestu leiðirnar um landið á aldagamalli hefð og einnig þekkja þeir örnefni síns svæðis betur en aðrir og þannig varðveitast þau kynslóð fram af kynslóð en falla ekki í gleymsku.
Það að sauðfjárbændur sé í áskrift af peningum hjá ríkinu með styrkjum er ég ekki sammála, en vissulega má endurskoða styrkjakerfið og fyrirkomulag þess, en þessir styrkir hjálpa til með að bændur hafi viðunandi tekjur til að lifa af, ef þeirra nyti ekki væri þeir sennilega mun færri og mun eyðilegra um að litast í sveitum landsins. Sem dæmi má nefna er partur af ríkisstuðningi núna greiddur í formi gæðastýringarálags, gæðastýring felst í því að yfirlit yfir búreksturinn sé í góðu lagi og meðal annars þarf búið að uppfylla kröfur um landnýtingu, þ.e. búið þarf að hafa land fyrir allan þann bústofn sem er á jörðinni, annars falla greiðslur fyrir gæðastýringu niður. Til að halda landgæðum í sem bestum horfum þarf að beita fé meira á heimalönd og er það svo víða um land og á sumum svæðum í mínu heimahéraði Dölunum hefur fé fækkað það mikið að gróður hefur aukist það mikið að erfitt er að komast um svæðin. Hljómar einkennilega en er satt.
Á árabilinu 1980 til 2005, fækkaði ásettu sauðfé í landinu um 40% en framleiðsla sauðfjárafurða minnkaði hins vegar um rúm 30% sem segir manni að gripirnir eru að framleiða meira núna en þá og núna held ég að ofbeit sauðfjár sé varla til nokkurs staðar á landinu í dag, ég held frekar að hrossabeit sé of mikil á sumum svæðum og það hraki landgæðum en einnig er umgegni ferðamanna mjög slæleg á sumum svæðum sérstaklega á hálendinu.
Það skemmtilegasta við sauðfjárræktina er ræktunarstarfið, að para saman gripi og vita hver útkoman verður, þeir sem eru í sauðfjárrækt af líf og sál eru út í fjárhúsum öllum stundum til að spá og spekúlera um ræktun, hvernig fæ ég mest kjötgæði, hversu vel gerð er kindin, þetta eru allt hlutir sem sauðfjárbændur sjá fljótt en auðvita sýnist sitt hverjum. Þetta er sumum hulin ráðgáta að skilja en fyrir mér er sauðfjárrækt ekkert öðruvísi en nútímaborgarbúinn með knattspyrnu sem áhugamál og þurfa öllum stundum að spila fótbolta, horfa á hann í sjónvarpinu eða spila fótboltaleiki í tölvunni.
Hver og einn gripur hefur sinn karakter og sumir þeir sem umgangast þekkja hvern og einn einstakling annað hvort með nafni eða númeri og er ég einn þeirra. Það að hafa alist upp við að þekkja kindurnar svona hefur síðan hjálpað mér út á við í lífinu, t.d. man ég nöfn á fólki mjög vel og get sett það í samband við eitthvað annað tengt það við útlit eða mynd ef ég hef séð það. Þetta er hæfileiki sem er sumum hulinn en fyrir mér er þetta auðvelt og hefði ég ekki byrjað að þekkja kindurnar heima sem lítill polli væri ég sennilega ekki eins góður mannþekkjari og ég er í dag.
Ég ætla hér að láta staðar numið í umfjöllun minni um sauðfjárrækt í landinu sem auðlindanýtingu, það er margt meira hægt að skrifa en sauðfjárræktin tekur á svo mörgum atriðum en lykilatriði til að geta verið sauðfjárbóndi í dag og haft gaman af því er að vera svolítið "kindarlegur" í hugsun eins og einn viðmælenda Gísla Einarssonar orðaði það í Út&suður þætti.
Flokkur: Sauðfjárrækt | Facebook
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 37525
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.