6.8.2008 | 22:56
Hrekkjavakan 2055
Í dag kom út merkilegt plagg á vegum Vísindanefndar um loftlagsbreytingar. Ég gluggaði aðeins í verkið áðan og rakst á þetta:
Eins og fram kom í kafla 1.8 getur afrakstur ræktarlands aukist sumstaðar utan hitabeltissvæða við hóflega hlýnun. Í nýlegu yfirliti um áhrif væntanlegra loftslagsbreytinga á landbúnað á Íslandi er meginniðurstaðan sú að þær muni almennt leiða til eflingar landbúnaðar. ... Spár um hlýnandi veðurfar ásamt auknum styrk CO2 í andrúmslofti gefa til kynna uppskeruauka á öllum fóður- og matjurtum sem hér eru nú í ræktun. Nýting jurta sem nú eru á mörkum ræktunarsvæðisins, svo sem belgjurta, vetrarýgresis, vetrarrepju og fóðurnæpna, mun verða öruggari. Nýjar fóðurjurtir svo sem hafrar, hveiti og vetrarkorn munu eiga hér stóraukna möguleika. Nýjar nytjajurtir, svo sem ýmsar káltegundir, grasker, og asíur gætu einnig orðið auðræktaðar fyrir 2050. Búfjárræktin ætti að hagnast á betra fóðri og styttri gjafatíma.
Í ljósi þess að grasker verða auðræktuð og algeng hér um 2050 vænti ég þess að hrekkjavökur verði almennur siður hér, enda erum við eins og Bandríkjamenn en ég mundi allt í einu eftir þessum orðum Uncle Chris frá því í nóvember.
Verður nú aldeilis gaman að skera grasker á elliheimilinu eftir 50 ár ef mér endist aldur svo lengi. En að öllum gamni slepptu þá er þetta hið alvarlegast mál þessi hlýnun sbr. útskýringar Stöðvar 2 á skýrslunni í kvöld, jöklarnir munu hopa svo mikið að landið léttist og rís að austan en sekkur í sæ á suðvesturhorninu (Hvað verður um nýtt tónlistarhús í Reykjavíkurhrepp?) Við jökulrýrnunina lækkar víst bræðslumark bergs, kvika eykst og eldgos verða tíðari og stærri. Kannski að Svínavarða verði eldfjall að nýju í hinni fornu Laugaeldastöð, sem gæti rumskað af værum blundi. (Ég hélt alltaf að hún færi að gjósa þegar ég heyrði um eldgos sem krakki) Einnig eiga flóð eftir að aukast vegna tíðari úrkomu og guð hjálpi okkur þá, andfætlingar okkar fengu nú sinn skerf af roki og rigningu um daginn.
En sjálfsagt tekst Þórunni Sveinbjarnardóttur að koma með góðar reglur til að hægja á hnattrænni hlýnun og merkilegt nokk þá treysti ég henni vel til þess, hún er virkilega einn af fáum ráðherrum (ráðfrúm) sem taka vel úthugsaðar ákvarðanir sbr. umhverfismat Bakka í síðustu viku. Sjálfsagt kemur álver fyrir rest en ég er alveg makalaust undrandi á skammsýnum hugsunarhátt stjórnmálamanna í dag um að álver bjargi málunum, sjáið bara stöðuna í dag. Verður þetta ekki bara byrjunin á viðvarandi kreppu ef byggja á álver í hverju einasta (krummaskuði) á Íslandi.
Annars féll Sverrir í álit hjá mér við þennan þátt þó ég viti að hann hafi verið að grínast. Mætti benda honum og fleiri illa þenkjandi 101 búum á ýmis námskeið og námsleiðir LBHÍ áður en þeir fara að gaspra um landbúnað og landbúnaðarkerfið í heild sinni. Því segi ég að helsta ógn íslensks landbúnaðar í dag eru ekki alþjóðlegar tilskipanir og fleira því um líkt, ógnin er vanþekking þjóðarinnar á honum, kostum hans og gæðum.
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 37525
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.