29.9.2009 | 21:33
Alþjóðaumhverfið í Ási
Annars er það að frétta héðan að hér er orðið skítkalt núna eða þá að ég er að verða veikur, allavega er búinn að vera hálfgerður hrollur í mér í allan dag. Vona frekar að það sé veðurfarið þar sem ég má ekkert vera að því að vera veikur núna, svona rétt fyrir Íslandsför til að komast í fjárrag og smalamennskur.
En annars er umhverfið hér í Ási mjög alþjóðlegt þegar maður fer meira að velta því fyrir sér, allavega þegar ég er að rölta í skólann mætir maður fólki af mjög ólíkum uppruna á gangstéttunum og þegar maður leggur við hlustir þá eru ekkert allir að tala norsku eða ensku, hér heyrir maður óminn að fjöldanum öllum af tungumálum, sumum sem maður skilur ekki baun í. Svo þegar ég var á leiðinni heim áðan þá mætti ég einum Japana sem ætlaði að spyrja til vegar og ég sagðist nú bara vera Íslendingur, nóg fyrir mig að rata þá leið sem ég þarf að fara daglega, get kannski sagt til vegar í vor ef ég verð duglegur að læra.
Síðan finnst mér eitt ansi hreint merkilegt í þessum 10.000 manna bæ að hér er aðeins eitt kaffihús/pöbb Texas" (gætu verið fleiri, hef bara ekki séð þau) og þar mæta nánast allir. Skruppum við Íslendingarnir þangað fyrr í kvöld og í einu horninu þar sátu allir helstu stærðfræðikennarar skólans og ræddu heimsins gang og nauðsynjar. Fannst það skondið þar sem ég var að skila verkefni til þeirra í dag. Þarna var semsagt kennarinn minn og sá sem kom sem forfallakennari í dæmatíma um daginn og vissi ekki neitt að því er mér fannst. Ragnar sagði mér hins vegar í kvöld að sá væri helsti stærðfræðikennari skólans. Vona að ég álpist ekki í tíma til hans.
Frá því síðast hef ég samt sennilega mest ásamt algebrunni stúderað vigtarseðilinn af lömbunum sem fóru í slátrun um daginn, 202 stk., 15,98 kg fallþungi, gerðin 9,13 og fitan 6,09. Hefði viljað sjá meiri þunga og hærri gerð en er mjög ánægður með fitustuðulinn. En það þarf jú að stúdera hann þar sem ég hafði hugsað mér að vinna með gögn frá þessu hausti þegar ég fer að reikna BLUP einkunnir í HFA301 enda hristir Tormod bara hausinn þegar ég opna fjarvis.is í tíma og get nánast náð mér í þau gögn sem ég vil til að vinna með, sem sýnir bara að gott skýrsluhald er góður kostur. Hjálpar allavega við að skilja jöfnurnar sem eru nánast óskiljanlegar í bókinni.
En til að kóróna allt saman þá úthlutaði Odd mér seminar verkefni um val fyrir frjósemiþáttum hjá músum, flestir fá að fjalla um almenn húsdýr en ég um mýs. Æðislegt. Ætla ekki að hugsa um það fyrr en ég kem frá Íslandi aftur, þarf ekki að skila því fyrr en í lok nóvember.
Þar til næst, hafið það gott.
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
vildi bara segja kvitt kvitt og gangi þér vel :)
Anna Lóa (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.