Ætli heimurinn sé að hrynja ...

... veit ekki, ætla svosem ekki að velta mér mikið uppúr því í þessari færslu, vil sem minnst hugsa um ísþræla og gengismál. Langt liðið síðan ég bloggaði síðasta og lítið markvert skeð annað en lærdómur. Hef svosem verið í ýmsu pappírsstússi til að verða nokkurn veginn fullgildur þegn í norsku samfélagi, það eitt og sér er efni í sér bloggfærslu seinna.

Skemmtilegasta atvik síðustu viku var í tíma hjá Odd Vangan þegar hann gat ekki hægri klikkað á skjalið sem hann ætlaði að sýna okkur. Var ekki með mús á fartölvunni sinni og veit ekki hvort snertimúsin virkaði ekki nógu vel. Upphófst þá leit að mús en þá kom uppúr dúrnum að aðeins eitt USB tengi var á tölvunni og þar var minnislykillinn. Hann vissi hins vegar af annarri lausri kennslustofu með alvöru tölvu og fór þangað og þá loksins gat kennslan hafist áfallalaust fyrir sig.

Til að halda aðeins í íslenskar hefðir sauð ég hangikjötsbita um helgina og um næstu helgi er stefnan sett á íslenska kjötsúpu til að gleyma aðeins stund og stað, en um helgina væri sérstaklega gaman að vera staðsettur í Dalasýslu. Mikil dagskrá í boði þar í tengslum við haustfagnað sauðfjárbænda og stofnfund félags ungbænda.

Á leiðinni út um daginn greip ég einn kvartaldargamlan Stikluþátt í Leifsstöð. Þar ræðir Ómar Ragnarsson m.a. við eldri konu Ólínu Magnúsdóttur bónda og f.v kennara um þær breytingarnar sem þá voru að verða á íslensku samfélagi. Langar aðeins að vitna í þetta samtal:

„Hver er þín skoðun á uppeldi barna nú á tímum? Það hefur geysilega breyst þó ekki sé farið lengra aftur en 10 ár. Mig undrar bara að börnin skuli vera með heilum sönsum í öllum þessum glundroða. Það eru blöðin, útvarpið, sjónvarpið og þessar þokkalegu barnabókmenntir. Öllu þurfa þau að fylgjast með og þetta alveg ruglar þau. Venur þau frá þessu þjóðlega." Þetta er allt saman rétt, en ég fór að hugsa hvað hefur bæst við á síðustu 25 árum, mjög mikið enda held ég að maður verið hálf ruglaður ef maður ætlar að fylgjast með öllu, að minnsta kosti stelur þetta heilmiklum tíma frá mér daglega. (Internetið, Facebook, MSN, blöðin o.s.frv.)

„Hvað finnst þér um að börn séu mikið ein heima? Get ekki hugsað það til enda, segi það alveg satt. Villingslegt uppeldi. Ég er ekki hrifinn af þessum barnastofnunum þó þær séu betri en börnin séu að flækjast á götunni. Svo er eitt hvað þeir fara skakkt með að taka börnin snemma í skólann, ágætt fyrir kaupstaðabörnin. Þau eru þá minna á götunni en þegar þau eru í skólanum. Meðan þau eiga kost á að vera í sveit, koma þau seint, koma ekki fyrr en sauðburður er búinn eða hálfnaður og þau eru kölluð löngu fyrir göngur og það er nú aðalpúðrið hjá börnunum að vera í réttunum." Í þessu er ótrúlega mikið rétt, velti því fyrir mér hvort ég væri nokkuð í því námi sem ég er í núna nema fyrir þær sakir að ég tók alltaf leyfi þegar eitthvað var um að vera heima og blessunarlega var skólinn að mestu búinn um sauðburð hjá mér öll skólaárin. Öðruvísi hefði ég ekki fengið áhuga á sauðfé og sauðfjárrækt. Kannski er þetta ein af ástæðunum fyrir erfiðri endurnýjun í bændastétt, fólk fær ekki að kynnast henni nægjanlega vel.

Að endingu: „Nú ert þú mikill unnandi íslensks máls. Hvernig sýnist þér ungt fólk tala í dag? Mér finnst nú aldeilis afdæmingur þegar menntamenn, háskólagegnir hámenntaðir menn eru að staglast á því að fyrirbyggja og bæta síðan skottinu við fyrirbyggjandi í staðinn fyrir að segja koma í veg fyrir. Síðan er það annað sem veður uppi núna allavegana í staðinn fyrir að minnsta kosti. Nútíminn staglast á ýmsum orðum. Ofnotar þau, gömul ágæt orð fá aldrei að koma inni á milli." Nú ætla ég ekki að dæma eigin íslenskukunnáttu en það veit ég að þessi orð hennar frá því 1983 eiga enn við í dag og sennilega hefur íslenskri tungu mikið hrakað síðan þá. Hvort ég á eftir að verða hámenntaður háskólagenginn maður sem staglast verður tíminn að leiða í ljós.

Þar til næst, hafið það gott og endilega kvittið. Síðan skulum við hugsa um það allavega að koma í veg fyrir að minnsta kosti stundum að ofnota ekki orðið fyrirbyggjandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

kvitt kvitt :)

Anna Lóa (IP-tala skráð) 21.10.2009 kl. 20:05

2 identicon

Gangi þér vel í náminu. Gaman að fylgjast með þér - vona að það séu komnar einhverjar nýjar tölvur í Husdyrfag-bygginguna. Það sást ekki á nema einstaka skjá þegar við Elín vorum þarna. En ég notaði líka tölvuaðstöðu í Tækni og útbyggingunni þar eru miklu betrti aðstaða. En þú ert eflaust búinn að komast að þessu sjálfur. Bestu kveðjur af Ströndum.

Hafdís, Húsavík (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 09:51

3 identicon

Vit í þessari kerlingu.

María Þórunn Jónsdóttir (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband