7.11.2009 | 13:45
Í lífsins ólgu sjó (vatni)
Snemma í haust ákvað íslenski karlahópurinn hér í Ási að fara í veiðiferð. Ákveðið var að fara til Svíþjóðar og veiða í Vättern í Svíþjóð (sjá hér), en þetta er mjög gott veiðivatn, þar sem veiðivon er mikil og sænska ríkið leggur mikla fjármuni í að ala fisk þarna til að byggja upp ferðamannaiðnað. Lagt var af stað á fimmtudaginn og haldið áleiðis til Karlsborgar þaðan sem lagt var upp í veiðitúrinn en gist var á vandræðaheimilinu í Karlsborg (Karlsborgs Vandrarhem).
Fyrsti áfangastaður var Strömstad þar sem áð var til að kaupa mat og aðra þarfa hluti sem þarf í svona ferð s.s. bjór. En þar má finna mikið úrval og voru keyptar nokkrar tegundir til að prufa. Héldum við svo áfram leið okkar skv. GPS tækinu hans Hauks, reyndist það okkur vel og skilaði okkur á áfangastað, gleymdist samt einu sinni að fylgjast með því og lentum við þá af leið en þá var umræðuefnið í bílnum pólitík og Framsóknarflokkurinn. Ekki í fyrsta skipti sem Framsóknarflokkurinn beinir fólki af leið.
Á vandræðaheimilinu lentum við rétt uppúr 23:00 og var þá ákveðið að taka aðeins í spil, eina spilið sem fannst á staðnum var sænskt Trivial og spiluðum við það til klukkan eitt um nóttina, var árangurinn misjafn þar sem skilningur á spurningum gekk misvel og reglurnar því nokkuð eftir því ... meir að segja barnaspurningar reyndust okkur erfiðar.
Í gærmorgun var síðan ræs klukkan 7:00 og byrjað á því að fá sé morgunmat, sem samanstóð af eggjum og beikoni. Kannski ekki alveg besti morgunmatur í heimi sem kom betur í ljós er leið á daginn. Einnig smurðum við lifandis býsn af nesti enda langur dagur fyrir höndum. Það var því brattur mannskapur sem fór um borð og hélt til veiða á Vättern. Sá brattleiki hvarf þó fljótt af mér þar sem ölduhæð var þó nokkur á vatninu og vatnaveiki (sjóveiki) tók að hrjá mig. Morgunmaturinn átti aðalþátt í því held ég (egg og beikon fara ekkert vel í maga, samanber þessa tveggja ára gömlu færslu mína), jafnvel bjórinn sem var drukkinn með Trivial kvöldið áður og stuttur svefn.
Þrátt fyrir að ég fengi mér sjóveikislyf lynti ólgunni ekkert og voru félagar mínir á tímabili farnir að efast um að ég hefði það yfirhöfuð af og ræddu því um hvernig hægt væri að nota mig í beitu. (Góðir félagar það !) Þannig að ég húkti þarna inní káetu stærri hluta ferðar og vissi lítið hvað fór fram úti á dekki, varð ósköp lítið var við það þegar sást til sólar, þaðan af síður veit ég hver aflinn var, verðið að spyrja ferðafélagana um það. J
Það var því ósköp gott að komast í land klukkan hálffimm og halda af stað aftur áleiðis til Noregs með stoppi í Biltema í Uddevalla og á veitingastað sem nú má bara lesa um í sögubókum á Íslandi. Um margt var rætt á heimleiðinni, m.a. hvað Evrópusambandið er gallað, sérstaklega þar sem veglýsing á E6 í Svíþjóð var mjög slæm, betri í Noregi, þó eru hún ekki góð þar. Svo maður hamri einu sinni enn þá því, þá vona ég að ESB umsókn Íslands fari brátt að snúast í höndum á íslensku stjórnvöldum, höfum ekkert í þennan spillta veiðiklúbb að gera.
En best að fara koma sér að verki, er enn hálf lurkum laminn eftir ferðina, en hafið það gott þar til næst ........................ myndir koma KANNSKI inn síðar
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Já þetta var rosaleg ferð hjá ykkur........... Ég er búinn að sjá nokkrar myndir ér ferðinni og passa þær vel við texta þinn hér að ofan
HEyrðu annars sjáumst við eftir smá....Ragnar er alveg á kafi í námsbókunum og því erum við ekki mætt...!!!!! Veit ekki alveg hvernig ég næ að tosa hann uppúr bókunum.........
KV
HB
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 7.11.2009 kl. 19:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.