23.1.2010 | 18:01
Og tíminn flýgur áfram ...
allavega er maður að fara í 60% próf á mánudaginn í Theory and Application of Inbreeding Management sem segir manni að þessi önn sé á enda, eitt verkefni eftir í áfanganum sem á að skilast fyrir 28. febrúar. Á þriðjudaginn byrjar síðan vorönn og það verða nú viðbrigði að sjá fólk á nýjan leik og vera ekki lengur alltaf einn í tíma.
Sennilega myndu samt fæstir velja sér sjálfviljugir þau fög sem ég ætla að fara í, kynbótafræðin verður ábyggilega fín og áhugaverð en ég hef aldrei verið mikið fyrir tölfræði eða tölfræðilega útreikninga. En verður maður ekki að ögra sjálfum sér til að ná settum markmiðum, áskorunin að þessu sinn eru því tveir tölfræðikúrsar, annar í dreifnigreiningu og hinn í fjölbreytugreiningu.
Hugsa að prófið á mánudaginn verði ekki mikið vandamál, þó ég hafi misjafnan áhuga á innihaldi hans, hef takmarkaðan áhuga á erfðatæknilega hlutanum þó hann sé ekki síður mikilvægur. Allavega hef ég lítinn áhuga á markerum og snippum (SNP eða einkirni) og vil eiginlega eftirláta erfðafræðingum að einbeita sér af því. Finnst líka lítið spennandi að hugsa til þess að kynbótastarf framtíðarinnar verði fólgið í því að taka stroksýni með bólmullarpinna og senda það síðan í greiningu hjá rannsóknarstofu. Mun skemmtilegar að skoða, rökræða og hafa smá happdrætti í þessu þegar kynbótagripir eru valdir. Þetta er allavega mín skoðun, það eitt er víst að ég ætla mér ekki að starfa sem hvítsloppungur á rannsóknarstofu í framtíðinni.
Allavega hrósaði kennarinn mér eftir síðasta tímann, eða verður maður ekki að taka því sem hrósi þegar hann segir að vísindin þurfi fleira fólk sem hugsi eins og ég. Spurði mig eftir tímann hvað ég ætlaði að leggja fyrir mig að námi loknu og ég svaraði því til, að ég ætlaði starfa við búskap og væri fyrst og fremst að menntan mig til að hafa meiri þekkingu og þá sagði hann We need more people thinking like you". Burtséð frá því hvort hún muni nokkurn tímann nýtast mér við það sem ég tek mér fyrir hendur.
Annars gengur lífið bara sinn vanagang hér í Noregi, sólin verið heldur feiminn við að sýna sig og því hefur frostið verið ca. 2-5 gráður undanfarna dag og dimmt yfir að líta. Nóg er af snjónum og heldur bæst við hann en vindurinn er ekkert að flýta sér hér frekar en fyrri daginn, spurning hvort maður þurfi að fara í vindaðlögun á einhverjum annesjum þegar maður kemur heim í sumarfrí.
Ætli maður láti þetta ekki gott heita, ætla ekkert að tjá mig um handbolta, tel Íslandi í góðri stöðu enn sem komið er og vona að þeir vinni fyrrum einræðisherra sína á eftir. Best fara leggja til atlögu við eldhúsið og næra sig eitthvað áður en spennan hefst fyrir framan imbann klukkan 20:00 að norskum tíma.
Þar til næst hafið það gott..........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.1.2010 | 16:41
Meira af vexti og vöxtum Norðmanna
Er ekki best að rausa svolítið fyrst er sunnudagur og maður nennir engan veginn að læra. En í framhaldi af vaxtarumræðu í síðustu færslu er rétt að tala aðeins um annarskonar vexti, þ.e. fjármálavexti Norðmanna. Ég hef svosem bloggað um þá áður en þegar ég fór að skoða bankayfirlitið mitt sýnist mér á öllu að Norðmenn séu búnir að nappa af mér hátt í 500 NOK vegna ýmis konar gjalda síðan ég stofnaði bankareikning um miðjan október.
Hér kostar sko allt, færslugjöld þegar borgað er út í búð eru 2,5 NOK, þegar maður millifærir á annan reikning, s.s. húsaleigu kostar það 3 NOK, 2 NOK ef um gíróseðil er að ræða, það eru þó mun manneskjulegri gjöld en að fara í bankann og borga þar, þá er færslugjaldið hátt í 100 NOK. Síðan kostar líka að taka pening út í hraðbanka, ekki nema von að íslenskt bankakerfi hrundi á einni nóttu, þar eru færslugjöld mun minni og að mig minnir ekki í nokkurri líkingu við þessar tölur. Rúsínan í pylsuendanum eru síðan innvextir á bankareikningum, ég fékk heilar 6 NOK í innvexti eða um 120 íslenskar af inneign minni, vaxtaprósetan hér er 0,15%. Allavega fékk ég mun hærri vexti af reikningum mínum á Íslandi.
Það sem þetta segir mér er að Norðmenn reka að öllum líkindum ábyrgt bankakerfi sem er trúlega vel varið fyrir kerfishruni meðan Íslendingar eru enn að læra að reka bankakerfi eftir kerfishrun hins kapítalíska bankakerfis. Hins vegar hlýtur norræna kerfið að vera í anda velferðar, ég ætla þó ekki að mæla með því að Íslendingar api allt upp eftir Norðmönnum, því norska skriffinnskan er alltof mikil. Mælist til þess að menn taki það besta úr báðum kerfum til að byggja upp nýtt íslenskt kerfi.
Annars verð ég voða feginn næsta föstudag þegar síðasti tíminn í HFA304 verður, því það er alveg skelfilegt að vera svona stíft í tímum hjá einum og sama manni, sem í þokkabót er nokkuð mörgum þrepum ofar í þekkingu til að geta miðlað henni almennilega. Við erum allavega mjög oft úti á þekju, ég og Jónatan frá Eþíópíu sem er með mér í tíma. Ég er þó búinn að læra ýmislegt um skyldleikarækt og vona að verkefnið sem verður eftir próf geti orðið hagnýtt.
Talandi um próf þá datt mér í hug að senda tölvupóst í byrjun árs og óska eftir prófdögum fyrir 15 maí í þeim fögum sem tek á vorönninni. Próftaflan kom inn á fimmtudag og vitið menn ég er bara í síðasta prófi 14 maí og næ því sennilega stærri hlutanum af sauðburðinum í vor enda hefði ég orðið vitlaus ef ég hefði þurft að bíða til 26 maí eftir síðasta prófi, maí er nefnilega með of mikið af einskis nýtum frídögum hér í Noregi, uppstigningadagur, hvítasunna og þjóðhátíðadagur. Hvort póstur minn hafði einhver áhrif um dagaval veit ég ekki, veit að verður gott að komast út úr prófunum og heima þar sem þau eru í tölfræði en ég ætla að taka slurk í þeim vísindum í vor enda gengur kynbótafræðin út á að túlka og skilja niðurstöður ýmissa stærð- og tölfræðijafna. Hljómar mjög óspennandi en er í raun mjög skemmtilegt þegar maður skilur hvað maður er að gera.
Ef maður sest fyrir fram sjónvarp núna eru ekkert annað en vetraríþróttir þar á bæ og skíðaganga fremst í flokki, ég vona að Norðmenn breyti aðeins um núna í vikunni og fari að sýna smá handbolta, þó manni verði ekki að ósk sinni um að þeir sýni leiki Íslands, hugsa að ég geti ekki sent póst út af því J, kæri mig ekkert um að horfa bara á leiki norska liðsins, þarf reyna finna út hvernig maður sér leiki Íslands þar sem þeir verða læstir á ruv.is fyrir tölvur utan Íslands.
En þar til næst ... hafið það gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2010 | 10:44
Er ég kannski undarlegur ...
trúlega, enda væri sá maður afskaplega skrýtinn sem hefði ekki sérstök áhugamál. Hef reyndar þó nokkrar áhyggjur af því að skóli og skólakerfi steypi öllum í sama form, þannig að fólk verð einsleitt og þeir sem vilja vera öðruvísi eru strax dæmdir skrýtnir, ofvirkir o.s.frv. Sú var tíðin að hver sveit á Íslandi átti sinn karakter sem hægt var að hafa gaman af vegna hugsanaháttar eða tilsvara, hins vegar hef ég áhyggjur af því að svo verði ekki eftir 2-3 áratugi vegna framangreinds atriðis skólanna að gera alla eins, þeir sem skera sig strax úr hópnum fá lyf eða eru vistaðir á viðeigandi stofnun til að halda einkennum í skefum.
Ástæða þess að ég setti þetta niður á blað er sú að ég fékk orð í eyra frá meðleigjendum mínum í gær þegar ég fann þessa heimasíðu hér með ýmsum veðurfarsupplýsingum um Ás. Spurðu þær hvers vegna ég væri að skoða þetta, veður er sennilega bara eitt af áhugamálum mínum og hefur verið frá æsku enda veðurathugunarstöð verið þar frá því ég var 8 ára. Þó sumir gestkomandi í Ásgarði hafi haldið að veðurstöðin væri fuglahús.
En hvað um það, í gær komst ég líka að því að gönguskíðaiðkun er bara fyrir dverga ekki stóra Íslendinga eins og mig. Fór semsagt á gönguskíðaleigu Siås og ætlaði að leigja mér skíði til að prufa þetta sport en nei þar var stærsta stærð af skóm svona þremur númerum og lítil á mína stóru fætur. Svo ég hugsa að ég láti þetta sport eiga sig, venjuleg ganga með tveimur jafnfljótum verður mitt sport í vetur og er bara fínasta hreyfing. Almennt eru Norðmenn þokkalega stórir og að jafnaði stærri en Nýsjálendingar en ég er sennilega bara of stór fyrir Noreg eins og ég var fyrir Nýja-Sjáland, samanber þessa tæplega tveggja ára gömlu færslu.
Annars hefur heldur dregið úr frostinu hér í Noregi og bara svona þægilega kalt hér núna, á bilinu 5 til 10 stiga frost. Sveiflan frá síðustu viku er samt næstum því eins og á sólarströnd, allavega er svefnherbergisglugginn ekki lengur hélaður að innan á morgnana. En að öðru, hef tvisvar síðustu vikuna farið í kaffiteríuna í Husdyrfag í hádeginu þar sem ég mæti stundum rúmlega 9 og er til 3 á daginn og ekki nennt að taka með mér nesti. Þar er t.d. boðið uppá vinsælt meðlæti Norðmanna, vöfflur sem eru góðar og standa alltaf fyrir sínu með rabbbarasultu og rjóma á Íslandi. Í grandavaraleysi mínu setti ég það sama og flestir Norðmenn á vöfflur í fyrra skiptið sem ég fór í kaffiteríuna og það geri ég ekki aftur, hverjum datt í hug að setja sýrðan rjóma á vöfflur ... ég bara spyr. Enn eitt dæmið um undarlegheit Norðmanna.
Best að fara undirbúa sig undir fyrirlestur dagsins sem mér sýnist á öllu að verði um hvernig lámarka eigi skyldleikarækt með því að velja foreldra saman hjá skoska kennaranum mínum, sem mér þótti heldur betur undarlegur eftir fyrsta tímann minn hjá honum. Hef hins vegar komist af því að það er kækur hjá honum að leggjast fram á borðið og liggja hálfhreyfingarlaus í smá tíma. En þar til næst hafið það gott.................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2010 | 21:29
10-01-10
Ferðin gekk ágætlega hingað út nema árans konan í Leifsstöð lét mig borga yfirvigt á farangurinn minn, ég sætti mig nú við það þar sem hann var að mestu leiti íslenskur matur svona svo maður geti eldað almennilegar máltíðir öðru hvoru fram á vor. Hins vegar er veðrið mjög falllegt hér, þó það sé kalt að labba í skólanna núna. Hér hreifir allavega ekki vind mjög mikið, enda ef það gerðist yrði mikil bylur, þar sem að hér er ≈50 cm jafnfallinn snjór yfir öllu.
Áfangarnir fyrir jól gengu alveg bærilega, hlaut ég B í meðaleinkunn fyrir þessa fyrri önn mína hér í Noregi. Enda stendur B fyrir margt gott í lífinu. Í prófunum tveimur sem voru 5 einingar hvort fékk ég C en í stóra verkefnaáfanganum, 10 einingar, þar sem ég var m.a. að læra BLUP útreikninga hlaut ég A. Þó ég segi sjálfur frá er ég nokkuð ánægður með það, þar sem ég var sá eini sem hlaut þá einkunn.
Núna er ég í einum áfanga í janúarblokk sem fjallar um skyldleikarækt, 10 eininga áfangi þar sem kennsla klárast 22 janúar, próf 25 janúar og þá byrjar ný önn. Það sem mér finnst hins vegar merkilegt við þennan áfanga er að kennarinn kemur frá Skotlandi til að kenna sárafáum einstaklingum, var einn í tíma á fimmtudag. Á föstudaginn vorum við helmingi fleiri, veit ekki hvernig það verður á morgun, erum 5 skráð í þennan áfanga. Í byrjun fimmtudagstímans var ég einn í stofunni, svo kemur kennarinn eftir smá stund, ég hélt áfram að vinna í tölvunni í smá tíma, þegar ég lít síðan upp blasir kennarinn liggjandi fram á kennaraborðið hreyfingarlaus, mér varð nú hálf bilt við þetta og íhugaði augnablik að fara fram og fá hjálp en þá reis hann upp aftur, lét ég þá líða smá tíma og lét vita af mér. Hann sagði þá: Svo þú er einn af þessum fáu nemendum mínum".
Annars leið jólafríið of fljótt, dvaldist ég mestan tíma þess í fjárhúsunum við gjafir og önnur þau verk sem þar þarf að vinna á þessum árstíma. Sæddi frekar fáar ær þetta árið, voru fáar að ganga og stærri hluti þeirra gekk upp enda sæddi ég flestar með dagsgömlu sæði, þar sem fleiri ær voru að ganga þann daginn. Ætti þó að fá lömb undan Hróa í vor, jafnvel Kjark, Karli, At og Raft ef þessi eina kind sem eftir er undan hverjum heldur.
Síðan vona ég að Norðmönnum þóknist að prófa mig tímanlega í maí svo ég komist heim í sauðburð um miðjan mánuð en uppúr þeim tíma ber stærri hlutinn af ánum á vikutíma. Vona innilega að síðasta próf mitt verði 14 maí, kemur í ljós í þessari viku, verst að geta ekki haft eins mikil áhrif á prófdaga hér eins og þegar maður var á Hvanneyri. Verð bara reyna senda þeim hugboð.
En þangað til næst hafið það gott, endilega kvittið .........................
Nokkrar myndir úr vetrarríkinu hér úti: Inngangurinn að íbúðinni minni í vetrarríki. Séð frá einum af gatnamótunum í Ási á leiðinni heim og síðan skilti hlaðið lausamjöll, tel afar ólíklegt að snjór geti stoppað í hálfan mánuð á íslenskum skiltum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar