Christmas Parade

Já, jólin nálgast víst óðfluga og ég held að fólk verði nú meira vart við það á heima á Íslandi heldur en ég hér miðja vegu milli miðbaugs og suðurpólsins. Eitthvað verð ég þó var við jólin og fór því í dag á jólaskrúðgöngu í Invergarcill sem er svona aðalbærinn hér syðst á eyjunni. Þetta var mjög sérstök upplifun fyrir mig því ég hef aldrei séð svona lagað áður. Og mér finnst nú hálf vitlaust að hlusta á jólalög í útvarpinu og það er um 20 stiga hiti úti og sól, það er sumar fyrir mér ekki jól en jólin eru víst að sumarlagi hér.

Setti inn nokkrar myndir held að þær skýri sig að mestu sjálfar, meir að segja mynd af mér með sólhattinn og af því að kom spurning um hvað gert væri við dádýrin hérna þá held ég að þau fari nú flest í sláturhús, hér eru til bú eingöngu með dádýr og kjötið er allt flutt úr landi, mest til Evrópu. Ef þau eru étin hér þá er það allavega ekki með kartöflum og rabbabarasultu, frekar kartöflumús og apríkósusultu, það sem ég er búinn að fá leið á kartöflumús, verð feginn í febrúar að komast heim og fá almennileg jarðepli. Veit ekki hvernig Akurnesbóndinn myndi fara að við þessar aðstæður.


Til hvers að girða í kringum trjágróður?

Hér er búin að vera bogóblíða undanfarna daga og fór hitinn í 28°C í gær, þá var ég með bóndanum í "discussion group" þar sem rætt var allt það nýjast og besta í landbúnaði hér og fór umræða fram á bændum hjá einum bóndanum í hópnum. Verð nú að viðurkenna að ég skildi nú ekki allt sem þarna fór fram, tók um fjóra tíma og seinni hlutann af tímanum var mér farið að líða mjög illa sökum sólbruna á handleggjunum, þakka fyrir að ég var með sólhattinn góða með mér.

Í dag voru síðan tekin frá sláturlömb og farið með þau í sláturhúsið, m.v. að þau hafi náð 35 kg þunga en þau eru að meðaltali 2 og hálfs mánaðar gömul núna. Þetta virkar eins og sumarslátrun á Íslandi hærra verð fyrir kg þessa vikuna en lægra í þeirri næstu. Það er nú samt ekki mikið af hafa upp úr þessu hér, held að bændur hér séu að fá á bilinu 2500-3000 kr íslenskar fyrir lambið og öfundast mikið þegar ég segi að við fáum um helmingi meira fyrir lambið á Íslandi. Það þótti ekki mikill fjöldi að fara með 36 lömb (enda sennilega ekki nema 0,5% af heildarlambafjölda) í sláturhúsið á þessu búi, voru 150 á sama tíma í fyrra, en október var svo kaldur hér að grasið spratt ekki og þar af leiðandi uxu lömbin hægar. Vakti athygli mína að lömbin er klippt í kringum rófuna sem einu sinni var, áður en þau fara í sláturhús, til að minnka drulluna sem fer með, þegar þau koma síðan þangað fara þau að minnsta kosti tvisvar sinnum í sturtu áður en þau koma að banaklefanum til að minnka skítinn við fláningu. Sláturhúsið er gríðarlega stórt enda er það að drepa 25.000 gripi á hverjum degi held það hafi verið 8 rampar til að taka lömb af bílum í fjárréttinni. Þetta er rólegur tími og Graeme sagði mér að ef ekki væri til nóg sláturfé keypti húsið ær á markaði eins og í Lorneville og væri með á beit nálægt húsinu til að fylla uppí sláturkvóta hvers dags. Bara svo það komi fram þá eru 40 milljónir sauðfjár á Nýja-Sjálandi voru eitthvað yfir 70 milljónir rétt eftir 1980.

Í gær las ég í Farmers Weekly umfjöllun um stærsta kúabú hér í landi, á því eru ein hjón ásamt bróður bóndans búin að kaupa upp nokkur nærliggjandi bú eins og hefur gerst á Íslandi nema hvað þetta bú er núna með 20.000 mjólkandi kýr og eru þær mjólkaðar á 14 mismunandi stöðum. Sem gerir um 1500 kýr á hverjum stað, hér er 400 kúa bú bara bölvað kot. Ef þetta er ekki stórt þá veit ég ekki hvað, framleiðslan er næstum því jafnmikli og á Íslandi.

Titill á færslunni vísar í verkefni sem ég fékk seinnipartinn en það er að rífa gamla girðingu kringum trjágróður og sveim mér þá hvað það er leiðinlegt, gott að geta bölvað á góðri kjarnyrtri íslensku við það verk, það skilur enginn það hér hvort sem er. Fæ sennilega að halda áfram með það verk á morgun og get núna farið að skemmta mér við þá tilhugsun að vakna upp við eitthvert falskast hanagal sem ég hef nokkurn tímann heyrt, haninn hér galar í um hálftíma á morgnana, myndi frekar vilja vakna upp við spangól Díla í Ásgarði en þetta helvíti.


Rotate the paddock

Titillinn lýsir svona nokkurn veginn því sem ég hef fengist við síðustu þrjá daga en það er að sitja í dráttarvél og vinna í flögum. Varð að hætta áðan af því að það sauð á dráttarvélinni sem ég var á, komið gat á hosu frá vatnskassanum. Þetta er svosem engin erfiðisvinna en það ER HALLI á beitarhólfunum hér, fara upp hæð og niður aftur í mismiklum hliðarhalla, aðeins meira en ég er vanur og ég held meir að segja að eyfirsku túnin sem ég kynnist í námsdvölinni 2005 séu bara slétt miðað við þessi beitarhólf. Eitt einkenni á þessu hólfum eru bleytupollar inná milli þannig að vélin sekkur aðeins enda eru allar dráttarvélar hér á tvöföldum dekkjagang að aftan.

Annars er allt gott að frétta, ég er alltaf að átta mig betur og betur á enskunni hérna, er nú ekki farinn að tala reiprennandi en get gert mig skiljanlegan og skil innfædda ef þeir tala rólega. Gengur verst að skilja afann hérna á bænum, hann talar bæði hratt og með muldri þannig að ég skil hann nánast aldrei, (mætti líkja þessu við að Gísli á Uppsölum væri að tala ensku) ég yppti nú bara öxlum eða jánka því sem hann segir og hann er yfirleitt sáttur, þannig að ég nota svona táknmálsaðferðina á hann.

Á miðvikudaginn var ég í girðingarvinnu með vinnumanninum Tony, nýsjálenskar girðingar eru ekkert frábrugðnar þeim íslensku sem ég er vanur nema þeir nota þanvír neðst og átta strengja girðingarnet, gaddavírinn er svo til staðar efst. Þetta gekk hratt og örugglega fyrir sig nema ég held að Axel hefði fundist þetta asnaleg vinnubrögð því við unnum hvern hluta fyrir sig og neglum upp líkt og verktakinn sem hann fylgdist með í Skagafirði síðast sumar ef mig minnir rétt í fyrirlestur hans um girðingar í Almennri bútækni. Þar sem landið er mjög hæðótt þarf að strengja netið niður í dældunum og það gerðum við með hand- og fótafli. Leið ekkert vel þegar Tony missti takið andartak og ég flaug uppí loft með netinu þar sem ég var ekki nógu þungur til að halda því niðri.

Eins og gefur að skilja er sauðféð hér á þröngu landi og því þarf að gefa inn mikið ormalyf. Samt er bara lömbunum gefið inni ormalyf, ekki ánum, vilja að þær noti sínar náttúrulegu varnir gegn ormunum. Á fimmtudag og föstudag voru við semsagt í því að ormahreinsa lömbin og það er nú bara gert með samskonar dælubyssu og á Íslandi nema hraðinn hér er örlítið meiri, bara á föstudeginum voru ormahreinsuð 3000 lömb og ég held það hafi tekið 6 klukkutíma, ég rak nú bara inní tektina og út úr henni, lét inngjöfina að mestu eiga sig þar sem ökklinn fylgdi ekki eftir í þessu hraða. Þetta er í fyrsta skipti sem lömbunum er gefið ormalyf síðan aftur eftir 4 vikur þegar þau verða vanin undan ánum og loks 5 vikum eftir það. Til marks um það hversu stóran þátt ormalyfsgjöf er í hérlendum landbúnaði þá er ormalyfið keypt inn í stórum 20 L brúsum líkt og við fá smurolíu í á Íslandi og það er auglýst í sjónvarpinu rétt á eftir fréttum, get ekki séð RÚV fyrir mér auglýsa ormalyf fyrir bændur milli veðurfrétta og Kastljóss. Svo ég endi þennan ormalyfspistil á einhverju þá skilst mér að menn rækti féð eftir ónæmi gegn ormum, þá eru talin ormaegg í skítum frá hrútunum og þeir hrútar sem hafa fæst egg valdir til kynbóta í því markmiði að afkvæmi þeirra erfi þann eiginleika að hafa fá ormaegg. Las hér í einhverju blaði að vísindamaður er búinn að finna DNA marker fyrir lágri tíðni ormaeggja ef ég skildi greinina rétt.

Á þriðjudagmorguninn fór ég í Lornville en þar vinnur tengdasonur hjónanna sem Stocksman, þ.e. tengiliður bænda sem vilja selja búfé og þeirra sem vilja kaupa. Alla þriðjudaga er uppboð í Lornville og ef maður vill kaupa búfé verður maður að bjóða í og skepnurnar eru seldar hæstbjóðanda. Mjög gaman að fylgjast með þessu og þarna tala menn MJÖG HRATT, ég náði sárasjaldan verðinu sökum þess hve hratt þeir töluðu og meðfylgjandi myndband er frá uppboðinu á þriðjudaginn.

 

Svona tala menn stundum við mig, svo ég vona að fólk heima skilji við hvað vandamál ég á að etja þegar ég reyni að fylgjast með samtölum milli innfæddra.

Annars er best að fara enda þetta, búin að skrifa nóg og eflaust einhverjir sem ekki entust til að lesa allan þennan pistil, nýkominn úr kvöldmat, borðum grillmat utandyra enda var veðrið hér dásamlegt í dag, léttskýjað og 24°C hiti, næstum því of mikill hiti fyrir mig til að vinna í.


Að kvöldi mánudags

Mánudagsmorgun að renna upp á Íslandi núna og eflaust einhverjum sem langar að forvitnast hvað hefur á daga mína drifið hér fyrstu helgina. Ég er svona að komast inní lífið hérna á bænum og hér er fólkið mjög vinalegt og gott, fyrir mér líkist þetta bara alvöru íslensku sveitabæ og þetta hentar mér ágætlega. Þau skilja mjög vel mína slælega lélegu ensku og ég skil þau alltaf betur og betur, nýsjálendingar tala mjög hratt þannig að ég bara yppti öxlum ef ég skil þá ekki.

Svo ég skýri út merkinguna á bæjarnafninu þá stendur Lawson fyrir efri hluta á trjánum eða kórónurnar sem eru hér út um allt en Lea stendur fyrir alla akrana sem eru hér en þeir eru margir allt girt af. Vona að þetta skiljist. Ég er nú ekki búin að ná öllu varðandi kynbæturnar hér en aðalræktunarkynið er COOPWORTHS og er að ég held eitt aðalfjárkynið hér á Nýja-Sjálandi. Það var þróað af prófessor Coop um 1960 við blöndun Border Leicester og Romney. Helstu kostir þessa kyns eru há lambaprósenta á hverja á (á eftir að komast að því hver hún er), sláturþyngd er góð, mikil ullarvöxtur og vanhöld eru mjög lítil. Einnig eru hér nokkrar Suffolk kindur en þær eru bara til kjötframleiðslu og óskráðar. Þessum tveimur kynjum er blandað saman og þá fást blendingar með mikinn vaxtarhraða og eru fyrr tilbúnir til slátrunar "the meat factory".

Ásamt þessum bústofni sem telur nálægt 5000 kindum eru hér 180 nautgripir og nokkur dádýr. Hingað eru keyptir kálfar frá mjólkurbúunum og þeir aldir upp í sláturstærð sem er oftast við 18 mánaða aldur. Einnig fá mjólkurbændur að hafa kvígur hér í hagagöngu uns þær verða nógu stórar til að hefja mjólkurframleiðslu, þ.e. borga þeim fyrir beitina meðan þær eru að vaxa úr grasi. Svo er hér ein kýr sem er mjólkuð fyrir heimalningana en þeir eru eitthvað um 20, hef ekki talið þá nákvæmlega. Hún er mjólkuð með frumstæðari vélfötu en ég hef lært um á Íslandi. Svo eru náttúrulega hundar hérna til að nota við smölun á kindunum þegar þarf að meðhöndla þær eitthvað.

Landið sem þessir gripir eru á spannar eitthvað um 15000 ekrur sem jafngildir tæpum 600 hekturum og hjónunum hérna finnst skrítið að ég komi frá búi á Íslandi með 400 kindur og landið sé á bilinu 1500-2000 hektara. En Ísland og Nýja-Sjáland eru mjög ólík hvað þetta varðar. Hér eru bara notuð fjórhjól og mótorhjól til að smala kindunum saman ásamt hundum. Mér óaði nú stundum við aðförum hundana við kindurnar á laugardaginn en það er hægt að láta þá elta eina kind sem sleppur og ná henni, það sást oft smá blóð, eitthvað sem ég held að myndi ekki viðgangast á Íslandi.

En semsagt á laugardaginn var ég að aðstoða fólkið hér við að setja gúmmíhringi á halann á lömbunum svo hann detti með tímanum af. Þetta er gert til að þær verði snyrtilegri að aftan, þ.e. ullin óhreinkist ekki mjög mikið. Öllu beitt á gras og því mikill klessingur á kindunum líkt og sést á þeim íslensku þegar þær komast á túnbeit. Einnig voru lömbin meðhöndluð við "Scabby mouht" sem er einhver veira sem er landlæg hér í kindum og geitum, þarf að komast að því hvernig hún lýsir sér. Elstu lömbin fengu líka ormalyf, ekki nánda nærri öll. Held að það hafi verið tekin eitthvað um 500 lömb í svona meðferð á laugardaginn. Þessi framkvæmd lýsir sér þannig að allt er rekið inní trekt að flokkunargang og svo rennur það í gegnum hann, ærnar fara í gegn en lömbin í þröngt hólf og eru svo meðhöndluð þar og sleppt út.

Bóndinn er núna á ræktunarráðstefnu í Christchurch um Coopworth og verður þar fram á miðvikudag, kona sagði mér að slaka á þess tvo daga og vita hvort ökklinn verði ekki betri. Fór í morgun til nágrannans sem er með Texel fé en þar voru ástralskir búfræðinemendur í heimsókn. Hlustaði á hann tala um búið en ég náði nú ekki öllu en hann ætlar að bjóða mér aftur seinna og tala við mig á rólegu nótunum svo ég skilji þetta allt saman betur. Fer líka á miðvikudaginn í einhvern discussion group þar sem bændurnir hér á svæðinu koma saman og hlusta á ráðunautinn segja allt það nýjast í ræktunarmálum, verðu án efa mjög fróðlegt.

Ætla fara að enda þetta núna en langar að nefna eitt að lokum, fannst svolítið merkileg tilfinning að fara með bóndanum í gær og víxla kindum milli beitarhólfa, segja bara "follow me" og það kemur strollan af kindum og eltir mann yfir í næsta hólf. Væri nú aldeilis munur ef maður gæti sagt þetta við íslensku kindina. Set inn eitthvað af myndum ekki margar það tekur svo langan tíma að senda þær yfir netið.


Kominn til Dawson Dea

Ég er kominn á búid sem ég verd fyrst á. Get ekki sagt annad en mér lítist vel á stadinn. Hér lítur allt mjog vel út, var med bóndanum seinnipartinn vid hin ýmsu storf. Hér eru kindur (ca. 5000), nautgripir, dádýr, hundar og nokkrir hestar. Laet vita af mer einhvern tímann seinna tegar eg veit meira um búid og er kominn meira inní allt saman. Tarf ad fara versla mér vinnufot a morgun tvi her hefur ekki sést svo stór madur ádur. Verd kalladur JOLLY her, Eyjolfur er of erfitt í framburdi. (folk kemst naest tvi ad segja Eyjojola tannig ad Jolly er betra held eg).


Kominn til DUNEDIN

Jæja, ég hellti mér af stað út í vinstri umferðina í morgun. Var ekki ákveðin í því hversu langt ég myndi fara en stefna var tekin suður á bóginn. Stoppaði fyrst í borginni Timaru og fór þar inná McDonalds og fékk mér hamborgara í hádegismat. Hann var allt í lagi en ekkert til að hrópa húrra fyrir frekar en McDonalds á Íslandi. Ætlaði síðan að stoppa í Omaru en fann ekkert almennilegt stæði til að stoppa á þar þannig að ég hélt áfram í gegnum borgina. Stoppaði á ströndinni þar fyrir sunnan milli Katiki og Shaq Point. Tók þar nokkrar myndir sem ættu að vera hér einhversstaðar á síðunni og fékk mér nestið, en flýtti mér að éta það, því hænsnin og mávarnir sem voru þar gerðust svo ágeng við mig, vildu fá eitthvað að éta líka, flýtti mér bara inní bíl áður þessar fuglategundir voru farnar að slást um það sem ég missti niður. Held að stóri haninn hafi haft vinninginn.

Það er bara furðuauðvelt að keyra vinstra megin á vegin og venst furðu fljótt, held meira að segja að Vagn Kristjánsson hefði þorað að sitja í bíl með mér alla leiðina án þess að verða hræddur, bíllinn stóð sig vel, fór kannski ekkert of hratt upp brekkurnar hér fyrir utan Dunedin (svona eins og fara 5-6 sinnum upp Kambana) en hér er mjög hæðótt landslag. Hefði allavega ekki viljað hafa neinn með mér í bílnum þegar ég var að leita að móteli hér innanbæjar því bærinn stendur í mjög hæðóttu landslagi. (Hef ekki keyrt innanbæjar í meiri halla, ekki líkt Akureyri á neinn hátt, hún er bara slétt m.v. þessa borg) Ekkert asnalegt að skipta um gír með vinstri hendi, eina sem ég gerði oft vitlaust var að ég setti rúðuþurrkurnar oft á stað þegar ég ætlaði að gefa stefnuljós. Gerðist mjög oft innanbæjar.ME 1379 stóð sig vel

Það var margt sem bar fyrir augu á leiðinni, sá mikið af kúm og það í massavís á sumum stöðum, sá líka eitthvað af sauðfé, sennilega myndi flestum Íslendingum þær hafa verið á þröngum haga. Veit ekki hvað ég mætti mörgum mjólkurbílum á leiðinni, þeir voru allavega margir. Sá meira að segja svona gamaldags baggabindivél í bænum Herbert, veit svosem ekkert hvort hún var virk eða ekki. Á öðrum hvorum akri voru síðan úðunartæki í gangi til að vökva gróðurinn, náði ekki mynd af svoleiðis en hlýt að rekast á svona aftur einhvern tímann seinna. Nýsjálensk vegagerð er ekkert frábrugðin þeirri íslensku, þ.e. þegar gert er við er bara slengt upp skiltum hér og þar, hraði minnkaður og þú verður að keyra milli vegavinnumannanna.

En er núna staddur á Farrys Motel í Dunedin og held áfram til Lawson Lea á morgun er sennilega rúmlega hálfnaður á leiðinni, keyrði 370 km í dag. Voða vinaleg kona í afgreiðslunni sem rukkaði mig um 120 NZ dollara fyrir gistinguna (ca. 6000 ISK). Þegar hún viss að ég væri frá Íslandi sagði hún mér að bróðir sinn væri þar og ynni í "Cheese factory in Selfoss", það hlýtur að vera Mjólkursamsalan og henni fannst ennþá merkilegra að ég hefði unnið hjá sama fyrirtæki á öðrum stað á landinu. Er heldur skárri í ökklanum núna en í gær, samt ekki góður, fínt mar komið út sem minnir einna helst á glóðaraugað góða sem ég fékk fyrir tæpu ári síðan, bara örlítið stærra.

Með kveðju frá Dunedin, Jolli KIWI (ætla fara finna mér einhvern veitingastað til að éta á. 


Fall er fararheill ............. ég vona það allavega

Best að láta vita aðeins af sér. Ég er enn í CHCH og verð það sennilega eitthvað áfram. Ég er búinn að kaupa mér bíl og "third party insurance" fyrir hann og kostaði það mig eitthvað um 45.000 kr. íslenskar. Hér er ekki skylda að vera tryggður í umferðinni, valfrjálst en bara aumingja þú ef óhapp verður. Ég er svo skelfilega lélegur með myndavélina, en þeir sem vilja líta gripinn augum geta skoðað hann á þessari síðu hér. Finnst vel við hæfi að skráningarnúmerið byrji á ME þar sem ég er að fara á sauðfjárbú.

Ég veit núna hvar ég á að vera fyrst um sinn en það er á sauðfjárkynbótabúinu Lawson Lea alveg syðst á eynni. Þar eru að mér skylst 500 skráðar kynbótaær en eitthvað um 4500 óskráðar ær ásamt nokkrum dádýrum og nautgripum. En í morgun ætlaði ég semsagt að leggja af stað á búið og var á leiðinni út í bíl þegar ég lendi í ójöfnu á gangstéttin, dett og misstíg mig heiftarlega á hægri ökkla. Fór niður á sjúkrahús, tókst að gera mig skiljalegan þar á minni slælega lélegu ensku, fór í rötgen og er sem betur fer ekki brotinn en í teygjubindi og á verkjalyfjum. Á að taka því rólega í nokkra daga að lækniráði, þannig að núna ligg ég bara í leti og læt mér leiðast, hleyp allvega ekkert um ef ég vildi skoða bæinn. Vonandi get ég lagt af stað á föstudaginn, tek því sennilega rólega hér á morgun áður en ég hendi mér af stað útí vinstri umferðina.

Frekar vonsvikinn með þetta og finnst eins og ég eigi ekki að komast héðan úr borginni ... myndi helst vilja vera heima á ÍSLANDI þessa stundina.


Lýsi eftir 3. nóvember 2007

Ég er kominn heilu og höldnu til Nýja-Sjálands eftir mjög langt flug og er að keppast við það þessa stundina að halda mér vakandi eitthvað fram á kvöldið en tímamismunurinn er +13 tímar m.v. Ísland. Ég varð aldrei var við laugardaginn 3. nóvember 2007.

Ferðalagið snemma morguns í London við það að koma sér út á Heatrow, gekk það ágætlega enda var ég vel haldinn eftir staðgóðan morgunverð þeirra Breta á hótelinu. (Egg, beikon og bakaðar baunir). Þegar ég kom að innritunarborðinu tók afgreiðslukonan voða tíma í að skoða vegabréfið mitt og hleypti mér loksins í gegn en spurði um handfarangur og ég sýndi henni töskuna mína. Hún bað um að ég setti hana á vigtina og sagði svo: „This is too much, you can kill someone with this handbag" og ég varð náttúrulega eins og algjör auli en fór þarna á fjórar fætur á miðju gólfinu með langa röð af farþegum á eftir mér í innritun og færði bækur á milli taskna og fékk voða fallegan rauðan miða um yfirvigt á aðaltöskuna mína. En þetta fór í gegn og skipti mestu máli. Þarna skipti Kynbótafræðibókin höfuðmáli en hún er mun þyngri en hún lítur út fyrir að vera. Spurning um að senda hana í pósti heim um miðjan desember svo hún valdi mér ekki erfiðleikum á heimleiðinni líka.

Ég hélt síðan áfram leið minni um borð í flugvélina og fékk gluggasæti í þessu rúmlega 26 tíma maraþonflugi. Ég gat því drepið tímann með því að horfa út um gluggann á leiðinni vestur um haf, sá samt voða lítið fyrr en yfir miðjum Bandaríkjahreppi og þegar fór að styttast í Los Angeles og sá ekkert yfir Kyrrahafinu enda kolniðamyrkur og nótt meðan við ferðuðumst þar yfir. Sá alla ferningana í landslagi hjá kananum mjög vel og þjóðvegina dregna með reglustiku eftir eyðimörkinni ásamt því að sjá eyðilegginguna sem hluti að skógareldunum hafa ollið í Kaliforníu undanfarið.

Innan flugvélarinnar var nóg sem ég gat gert mér til dundurs, ég var með bækur með mér, nennti samt ekki að lesa mikið en byrjaði þó aðeins á nýju bókinni eftir Arnald Indriðason, síðan var í stólbakinu fyrir framan mig þessi fíni tölvuskjár og þar gat ég valið úr fjölda kvikmynda að horfa á (m.a. nýsjálensku stórmyndina Black Sheep), hlustað á tónlist, spilað tölvuleiki eða fræðst um hitt og þetta. Gerið mest af því að hlusta á tónlist og valdi mér yfirleitt mjög svefnvæna tónlist. Ferðin til Los Angeles var fín vorum þá tvö með þrjú sæti en síðan var vélin full þaðan til Auckland og það var aðeins meira en segja það fyrir mig að sitja í þeim þrengslum í tæpa 13 tíma (Stóð tvisvar upp þennan tíma). Á tíma leið mér vægast sagt illa, bæði vegna þess að það var mjög heitt í vélinni sem fylgdi mikil ógleði enda held ég að þjóðarréttur Breta hafi ekki farið neitt allt og vel í maga hjá mér fyrir þetta langt flug í sambland við misgóðan flugvélarmat fyrst í fluginu. Einnig var alltaf öðru hvoru smá ókyrrð í loftinu yfir Kyrrahafi sem bætti ekki ástandið. Reyndi að sofa þetta úr mér og þetta slapp nú allt saman fyrir rest en ég var dauðuppgefinn þegar við lentum í Auckland snemma í morgun og ég fór í gegnum vegabréfseftirlitið og tollinn þar.

Fór síðan að sækja farangurinn minn og var farinn að örvænta um að yfirvigtartaskan mín hefði orðið eftir í London því allir aðrir voru komnir með farangurinn sinn en ekki ég, hún kom svo fyrir rest (örugglega síðust) og ég hafði rétt tíma til þess að bóka mig í flugið hingað yfir á Suðureyjuna til Christchurch. Þangað er ég kominn núna dvel hjá Þorbjörgu, sennilega fram á þriðjudag meðan ég er að leiðrétta tímamismuninn og átta mig á hlutunum. Það besta var samt að konan á innritunarborðinu í Auckland sleppti mér við að borga sekt fyrir yfirvigt  þar sem ég var að koma svona langt að og ég var voða kátur með það enda hefðu sennilega fokið nokkrir þúsundkallar þar.

Hér er núna hið ágætasta veður enda er vor og sumarið á næsta leiti, ég fékk mér göngutúr út í einhvern garð hér í nágrenninu í dag og setti inn nokkrar myndir úr honum, takið sérstaklega eftir rafmagnslínunum á einn, veit ekki hvort þessi frágangur myndi viðgangast á Íslandi.

Held áfram að berjast við Óla lokbrá, ætla að halda mér vakandi aðeins lengur fram á kvöld, klukkan rúmlega sjö að kvöldi þess fjórða. Best að hætta þessari þvælu núna enda nóg komið í bili. Læt vita af mér næst þegar ég verð kominn nálægt borginni Gore en myndi áætla að það yrði á miðvikudag/fimmtudag. Get samt sagt eitt að lokum það er ekkert mjög spennandi að fara í svona langt flug, mig langar allavega ekki neitt voðamikið að fara í slíkt flug strax aftur, er búinn að sofa kannski 6-7 tíma við slæmar aðstæður af síðustu 48 klst.


Kominn til London

Þá er ég kominn til London, flugið gekk bara ágætlega smá ókyrrð í flugtakinu söku veðurs á Íslandi og síðan öðru hvoru á leiðinni. Var ekkert að láta það trufla mig hafði svo fjári skemmtilegan sessunaut, verkfræðing sem sagði mér ekkert annað en sögur af sjálfum sér og voru þær bara ágætar.

En auðvitað gerið ég mistök á flugvellinum, gleymdi að kaupa mér miða í stærtóinn sem fór á hótelið þannig að ég þurfti að bíðan alveg hálftíma lengur til að ná næsta strætó. En er semsagt kominn á hótelið og ætla fara halla mér fyrir hið gríðarskemmtilega og spennandi flug á morgun sem tekur litla 26 tíma og 20 mínútur með millilendingu í Los Angeles.

Varð bara hugsað til þess á leiðinni á hótelið hvað er asnalegt að vera í vinstri umferð og get nú ekki sagt að mér hlakki beint til að fara keyra þarna á Nýja-Sjálandi. Læt vita af mér næst þar þegar ég kemst í netsamband.


Fyrsta færslan

Þessi síða er hugsuð fyrir vini og vandamenn til að fylgjast með dvöl minni á Nýja-Sjálandi næstu þrjá mánuði.

Ég fer út 2. nóvember næstkomandi og kem heim í byrjun febrúar 2008. Flýg héðan til London og þaðan er beint flug til Nýja-Sjálands með millilendingu í Los Angeles. Frá Auckland fer ég með flugi yfir á Suðureyjuna til Christchurch og á þá eftir að aka þaðan til West Otago fyrir norðan borgina Gore.

Þar verð ég á nokkrum sauðfjárbúum við vinnu og almenn störf en í janúar fer ég á kúabú þar sem eru rúmlega 500 kýr.

Ég ætla reyna að skrifa reglulega inná þessa síðu hér og set eitthvað hér inn næst þegar ég er kominn út.


« Fyrri síða

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband