29.11.2009 | 14:13
Þetta er einn af þessum dögum
sem maður kemur ekki nokkrum sköpuðum hlut í verk, finnst þeir reyndar vera orðnir full margir hér úti en þetta er kannski svona í mastersnámi, maður kemst ekki heim til sín um helgar og verður því að finna eitthvað annað sér til dundurs. En nú þarf að fara læra, styttist í þessi próf sem ég fer í og það þýðir enn styttri tími í lendingu í Keflavík.
Sit þessa stundina og horfi á sjónvarpið með öðru auganu, þar er (gríðarlega spennandi) heimildarmynd í gangi, búinn að vera síðan 11 í morgun en í tilefni af 100 ára afmæli Bergenlestarinn milli Bergen og Osló var gerð heimildarmynd sem sýnir ferðalagið í rauntíma. Afskaplega sérstakt sjónvarpsefni, ég segi nú ekki meira. Sennilega svipað og ef Íslendingar gerðu heimildarmynd um strandsiglingar Eimskips.
Sem sauðfjárræktaráhugamaður fór ég að skoða heimasíðu Norsk Sau og Geit og fann þar norsku hrútaskránna, hún er mun viðameiri en sú íslenska sem prýðir sennilega náttborðin hjá flestum sauðfjárbændum þessa dagana. Jólabókin í ár. En fyrir þá sem langar að skoða þá norsku þá má finna hana hér http://www.nsgsemin.no/files/katalog_ver/seminkatalog_2009.pdf Norðmenn eru líka mun frumlegri í hrútanöfnum.
Síðan fór ég að spá í einu núna eftir að fréttir að hruni Dubai komu í liðinni viku. Ef manni dytti í hug að taka út alla peninga í heiminum sem taldir eru sem eign, væri það hægt. Hvað ætli sé stór hluti af hagkerfi heimsins það sem ég kalla froðuhagkerfi, uppþembdir peningar sem aðeins eru tölur á blaði? Held það sé mun hærra hlutfall en nokkur maður getur gert sér í hugarlund og þá spyr maður er eðlilegt að hagkerfi séu svona uppbyggð? Ef einhver hefur svör við þessu má hann gjarnan svara þessu ....
Síðan er það þetta blessað íslenska lífeyrissjóðakerfi, þarna eru heilu gullkisturnar sem ekkert má hreyfa við. Ég hef aldrei verið spurður um það hvort megi höndla með mína peninga í einhverjar áhættufjárfestingar til að ávaxta pening með misjöfnum árangri. Af hverju er ekki bara gegnumstreymiskerfi á Íslandi, þar sem þeir sem njóta ellilífeyris fái þann pening frá þeim sem eru vinnandi hverju sinni, í stað þess að leggja þetta í eitthvert gullsjóðakerfi sem fæstir skilja eitthvað í. Hvað er líka málið með að vera með þrjátíu og eitthvað lífeyrissjóð á Íslandi, væri ekki nær að vera bara með einn? Spurning um að stofna sinn eigin lífeyrissjóð til að höndla með þessa peninga sína. Maður væri þó viss um að fá peningana alla til baka í lokin, eða þá að einhver annar nákominn manni fengi þá. Hef aldrei skilið þetta kerfi og mun sennilega seint skilja það.
Best að hætta þessari þvælu og fara gera eitthvað að viti .................... lestin er kominn í Store Haremo göngin ætti að vera kominn til Osló eftir rúman klukkutíma .................... talandi um spennandi sjónvarpsefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.11.2009 | 16:12
Er ég Íslendingur?
já það er ég, þó ég búi um stundar sakir í ríkasta landi heims, með besta velferðarkerfi, að sögn heimamanna.
Ég fór að hugsa um þetta eftir að koma fréttainnskot frá Íslandi hér í norskum fjölmiðlum um helgina. Má nálgast það hér.
Þó alltaf megi vekja málstað á kreppunni þá fannst mér þetta svolítið mikið ýkt og velti því fyrir mér í þágu hverra starfa fjölmiðlar. Svona neikvæðar fréttir eru ekki beint uppörvandi, þær ýta undir neikvæða hugsun sem leiðir bara til meira volæðis. Kannski virkar þetta á útlendinga að þeir finni til með okkur en ég leyfi mér samt að efast um það.
Höldum þeirri staðreynd til haga að sem þjóð fórum við framúr sjálfum okkur og flestir tóku óbeint þátt í því, þó höfuðpaurarnir virðist ætla sleppa létt frá því. Kannski vegna þess að þeir kunnu að fara eins og kettir í kringum heita graut gallaðra tilskipanna frá einka- og sérhagsmunaklúbbnum í Brussel, sem ætlar síðan að þvinga okkur til borga þar sem þeir vilja ekki viðurkenna mistök sín á gölluðum hugmyndum sínum.
Íslendingar sem þjóð eiga nú að hafa þor til að hafna Ísbjörginni og síðan koma sér út úr þeim fíflaskap sem fylgir því, að kanna hvað er í boði hjá spillta klúbbnum í Brussel. Hef aldrei haft trú á svona ríkjabandalögum og velti því fyrir mér hvort þeir sem sækja það stífast að komast í þennan klúbb sé ekki fólkið sem nennir ekki að gera neitt, vilji helst sitja á fínum kaffihúsum alla daga og þamba latte og treysta á að allt sé rétt sem gerist inná kontór ESB handan við hornið. (ESB borga fólki nú þegar fyrir að gera hlutina ekki vegna þessa að það er óhagkvæmt, hversu gáfulegt sem það nú er!) Í þeirri fræðigrein sem ég legg nú stund á væri þetta fólk sennilega kallað úrkynjaði stofninn, allavega væri hann ekki nýttur til frekari kynbóta.
Stöndum því í lappirnar sem þjóð, vinnum saman, tækifærið er núna, fyrsta og langstærsta skrefið í því er jákvæð hugsun og leyfa engri neikvæðri hugsun að komast að. Einnig skora ég á fjölmiðla að hætta þessum volæðisfréttum dag eftir dag, flytja frekar jákvæðar og skemmtilegar fréttir. Það er erfitt ástand núna, en því fylgir sú áskorun að rétta það við og þetta fer allt einhvern veginn fyrir rest, VEL ef við höldum okkur fjarri spillta klúbbnum, ILLA ef við ánetjumst honum og leyfum honum að ráða öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.11.2009 | 22:18
og það stytti upp ...
þó ekki nema í einn dag, það var bara sól hér í Ási í gær, merkilegt. Þó stóðst reglan um reglufasta veðurfarið ekki, nei það var komið drungalegt veður aftur í dag. Í tilefni þess skrapp ég með Hauki á landbúnaðarsýninguna Agroteknikk í gær. Er sú sýning öll mikið minni að umfangi en t.d. Agromek sýningin. Allavega var sýningarsvæðið minna, þó svo að það hafi verið býsna stórt. Mestmegnis voru vélar til sýnis þarna en eitthvað var þó um önnur landbúnaðartæki. Steig uppí nýjustu gerðina af JCB dráttarvél og já ... hún líkist eiginlega meira geimskipi að innan en dráttarvél. Held allavega að ég myndi ekki vinna mikið á henni, er það ekki einum of þegar menn eru komnir með tölvuskjá til að sýna hvað sé fyrir framan dráttarvélina. Hugsa að ég myndi frekar notast við nýjustu gerð af Zetor sem var þarna til sýnis, þó hún hafi verið frekar frumleg miðað við hina en samt brúkleg til flestra dráttarvélarverka. Haukur hafði þó á orði að hann myndi sennilega segja upp vinnu ef hann þyrfti að vinna á slíkri vél. Zetor má þó eiga það að þeir hafa ekki minnkað stýrishúsið á vélum sínum, það er enn jafnstórt.
Álit mitt á norska kerfinu hefur ekki aukist síðan í síðustu viku, hvað er fólk að kalla yfir sig heima á Íslandi með þessari ríkisstjórn, sem skýlir sér bak við norræna velferð, mér er spurn. Fór með Ragnari á föstudaginn að endurheimta tölvuna hans úr viðgerð hjá Apple umboðinu. Þið lásuð rétt, Apple tölva bilað, svo margir sem dásama það merki, jafnvel ég. En það var líkt og áður með þessa Norðmenn að þeir gefa misvísandi skilaboð svo þetta var fýluferð og tölvan ekki enn komin úr viðgerð, sjálfsagt hafa þeir sent hana til Tromsö í staðinn fyrir Ski, segi nú bara svona.
Síðan á landbúnaðarsýningunni í gær, þá lögðum við á bílastæði sem menn leiðbeindu okkur á með því að baða höndunum út í allra áttir. Ekki tókum við eftir svona hvítum kassa þar sem hægt var að fá bílastæðamiða í ákveðinn tíma. Hef Norðmenn grunaða um fela þá viljandi. Nema þegar við komum út af sýningunni þá er svona fallegur gulur mið á rúðunni sem tjáði okkur að bílnum væri lagt ólöglega og þyrfti að greiða sekt. Og hvað haldið þíð nú að svona sekt sé há í Noregi. 570 NOK eða rúmlega 13.000 kall m.v gengi dagsins. Veit svosem ekki hvað svona sektir eru háar á Íslandi í dag en ég hef einu sinni fengið stöðumælasekt og hún var uppá 500 kall, sem er smáaur í samanburði við þetta.
En svona fara Norðmenn að, taka gjald fyrir allt og það ríflegt. Hef mikið velt fyrir mér bréfi sem ég fékk frá bankanum í vikunni en ég var semsagt að millifæra húsaleigu um daginn og hakaði við Kvitteringsoblat í heimabankanum í þeirri trú að þeir myndu senda leigusalanum kvittun. Svo er víst ekki, ég fékk senda kvittun til mín sem er prentuð á svona A4 límmiðaörk og nokkrir minni límmiðar á henni líka með greiðsluupplýsingum sem ég hef bara ekki grænan grun um hvað ég eigi að gera við. Spurning um að fara föndra eitthvað, t.d. jólaskraut með svona bankalímmiðum, hver veit .........................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2009 | 15:38
og það rignir ...
Talandi um myrkrið, sem verður enn meira þegar jörðin er svona auð og drungalegt yfir að líta. Þá held ég að Norðmenn tími varla að splæsa pening í almennilega götulýsingu. Íslendingar eru þar mun framar, það eru ekki einu sinni stikur á þjóðvegi hér, þannig að ef maður mætir elg út í skógi (t.d. á leiðinni Ås-Ski), þá bara óheppinn þú. Jákvæði hluturinn við þetta er þó sá að norðmenn lýsa götur sínar meira upp en Svíar, sem segir allt sem segja þarf um ESB. En þetta er kannski lykillinn að norrænni velferð að spara peningana sem mest og byggja upp mikla sjóði. Sjáum til hvernig til tekst að skapa norrænt velferðarkerfi á Íslandi, af fréttum að dæma eru nokkrar ágætar hugmyndir en ég held að fleiri séu vanhugsaðar og muni draga mikið úr velferð á Íslandi.
Svo maður haldi nú áfram að finna aðeins að Norðmönnum, þá finnst mér þeir nota íþróttablys full til mikið. Á leið minni í skólann sem er ágætis labbitúr ca. 3 km aðra leið, mæti ég slatta af fólki. Mér finnst nánast annar hvor maður vera púandi íþróttablys í leit að innri frið með ávandbindandi ógeði. Þið fyrirgefið en reykingarmenn eiga enga samúð hjá mér þegar ég þarf að anda óbeint að mér reyk í tíma og ótíma. Mér finnst þetta ekki vera svona mikið á klakanum, en kannski er ég bara svona mikill sveitamaður að ég tek ekki eftir þessu þar, fatta þetta þegar ég þarf loksins að búa í meðalstóru sveitaþorpi í Noregi ..... þetta hlýtur bara að kosta norska ríkið mikla peninga í heilbrigðiskerfinu ár hvert.
En svo við tökum upp léttara hjal, þá gengur lífið bara sinn vanagang, námsbækurnar eru minnst spennandi efnið dag hvern eins og það hefur verið til þessa í skólagöngu minni. Held það sé alltaf svoleiðis. Þarf að fara byrja á því að skrifa námsverkefnið í útreikningaáfanganum, á að vera eitthvað um 10 bls á engilsaxneskri tungu, sem ég er afskaplega lélegur að skrifa. Held ég sé kominn til ráðs við lausnarmengi útreikninganna þar sem ég er búinn að flækja þessa einföldu jöfnu hér y = Xb + Zu + e í y = Xb + Za + Zm + Zc + e þar sem ég tek genaáhrif mæðra og sameiginlegs umhverfis mæðra með. Voða gaman allt saman, sérstaklega þegar maður skilur svona flókna hluti eins og þennan hér:
C= inv([X'*X X'*Z1 X'*Z2 X'*Z3;
Z1'*X Z1'*Z1+Ai*k(1,1) Z1'*Z2+Ai*k(1,2) Z1'*Z3;
Z2'*X Z2'*Z1+Ai*k(1,2) Z2'*Z2+Ai*k(2,2) Z2'*Z3;
Z3'*X Z3'*Z1 Z3'*Z2 Z3'*Z3+eye(336)*k(3,3)])
Gagnasafnið sem ég vinn með snýr að fallþunga Ásgarðsdilkanna í haust og er niðurstaðan úr þessu dæmi voða margar tölur (3309 ef ég man rétt). Get þó upplýst það að Skugga-Sveinn Gránason er bestur út frá þessari niðurstöðu með alveg 154 í BLUP einkunn (þegar búið er að staðla matið) sem ég held að verði að teljast býsna gott. Eitthvað hefur hann fundið á sér nafni hans, guðfaðirinn úr Hornafirði sem taldi mér trú um að láta hann lifa haustið 2007. Sé ekki eftir því. Best að halda áfram að skrifa........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.11.2009 | 18:49
Hvað má
ganga langt í því að notfæra sér ófarir annarra til að markaðsetja vöru?
Spyr sá sem ekki veit .............
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.11.2009 | 19:20
Tímarit punktur is
Úr ritinu Bóndi 3. blað 28. dag febrúarmánaðar 1851
FÁEINAR RELGUR UM FJÁRHÚSABYGGINU OG SAUÐFJÁRRÆKT
~3. grein um uppeldi og meðferð á hrútum~
Húsnæði skulu menn vanda sem best handa brundhrútum; og á það að vera rúmgott, þurrt og rakalaust, og heldur kalt en heitt. Brundhrúta skulu menn taka snemma inn á haustin og ekki seinna, þótt fullorðnir séu, en í 3. viku vetrar, og séu þeir ekki látnir út úr því, þá þarf ekki að sauma fyrir þá. Þegar saumað er fyrir hrúta og þeir svo látnir ganga með ánum langt fram á jólaföstu, eða fram undir jól, þá verða þeir kviðlausir, og geta svo ekki tekið eldinu, þegar farið er að gefa þeim, því þegar ærnar fara að beiða, stendur hvað yfir öðru allan daginn, en heldur sér ekki að jörðunni, og kemur svo hungrað heim að kvöldi, og er það auðsjáanlega illt bæði fyrir hrútana og ærnar, og þegar svo er farið að með brundhrútana, má nærri geta, hversu þeir verði ónýtir til undaneldis. Brundhrútum skal velja kjarngott hey, grænt og snemmslegið, og ætti það að vera taða, eða þá töðugæft úthey; ekki má gefa þeim sjaldnar en kvöld og morgna, og brynna skal þeim á degi hverjum, og er betra að brynna þeim tvisvar á dag, því þá drekka þeir minna í hvert skipti, en éta betur. Svo þeir verði hirtir sem best, þá væri gott að byggja þeim annaðhvort kofa út af fyrir sig nálægt bæ, eða þá, þar sem bæjarhús eru rúmgóð og rakalaus, að króa þá í einhverju þeirra, þar sem ekki er ónæði eða umgangur af mönnum; þess skulu menn gæta, að ætíð sé bjart á þeim, því allur peningur þrífst betur í birtu en myrkri. Sé lambhrútur vel alinn, þá má brúka hann handa 8 eða 10 ám, en þó ekki nema handa einni á dag. Það hafa menn fyrir satt, að stærri lömb komi undan lambhrútum en fullorðnum hrútum, en hitt er líka sannreynt, að undan fullorðnum hrútum kemur harðara fé en undan lambhrútum; og þótt lömbin kunni að vera nokkuð minni borin undan þeim fullorðnu, þá ná þau fullkomnum vexti með aldrinum, ef þau fá gott uppeldi. Til þess að varast alla ættgenga kvilla, væri óhættast að brúka ekki hrút til undaneldis fyrr en hann er á þriðja vetur, því þá eru líkindi til að kvillar séu komnir fram í honum, ef nokkrir eru, svo menn geti þá varast að hafa hann til undaneldis. Ekki má hafa hrút til undaneldis lengur en þangað til hann er 5 vetra. Fullorðnum hrút má ætla 50 ær, sé hann vel alinn, en þó ekki fleiri en 6 á dag. Ekki mega hrútar ganga úti með ánum á daginn um brundtímann, heldur skal hleypa þeim til ánna einu sinni á dag, helst á morgnana. Það er nóg að hleypa til hverri á einu sinni. Margir gefa ánum inni þann daginn, sem þær eru blæsma, og er það bæði betra fyrir ærnar sjálfar, því sjaldan halda þær sér að jörð þann dag, og séu þær úti, koma þær oft óeirð í hitt féð, svo það stendur verr á, og sé ekki staðið yfir ánum, hlaupa þær oft heim að húsi um miðjan dag, og hitt féð eltir þær. Það er líka ætlan manna, að lömbin verði vænni, ef ánum er gefið vel um brundtímann. Þegar brundtíminn er úti, þá má láta fullorðna hrúta ganga úti með ánum á daginn, en gefa skal þeim vel á hverju kvöldi, og hirða þá að öllu eins vel og áður. Þegar svo er farið með fjársauði, sem hér er gjört ráð fyrir, þá má ætla að þeir séu bæði feitir og kviðmiklir, svo að jafnvel fullorðnum ám að konungsnefi. Þess verða menn að gæta vandlega áður en til er hleypt, hvort ekki sé brundmaðkur á hrútum, og sé svo, þá verða menn að nema hann burtu með beittum knífi.
Margt af þessu á við enn þann dag í dag þó sumt þarna samræmist ekki alveg kynbótafræðinni sem slíkri, allavega væri gaman að vita hvort það sé rétt að stærri lömb fæðist undan lambhrútum en öðrum eða þá að komi harðara fé undan fullorðnum hrútum en lambhrútum. Held að hvoru tveggja yrði erfitt að sanna með vísindalegum rökum í dag.
Sauðfjárrækt | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.11.2009 | 13:45
Í lífsins ólgu sjó (vatni)
Snemma í haust ákvað íslenski karlahópurinn hér í Ási að fara í veiðiferð. Ákveðið var að fara til Svíþjóðar og veiða í Vättern í Svíþjóð (sjá hér), en þetta er mjög gott veiðivatn, þar sem veiðivon er mikil og sænska ríkið leggur mikla fjármuni í að ala fisk þarna til að byggja upp ferðamannaiðnað. Lagt var af stað á fimmtudaginn og haldið áleiðis til Karlsborgar þaðan sem lagt var upp í veiðitúrinn en gist var á vandræðaheimilinu í Karlsborg (Karlsborgs Vandrarhem).
Fyrsti áfangastaður var Strömstad þar sem áð var til að kaupa mat og aðra þarfa hluti sem þarf í svona ferð s.s. bjór. En þar má finna mikið úrval og voru keyptar nokkrar tegundir til að prufa. Héldum við svo áfram leið okkar skv. GPS tækinu hans Hauks, reyndist það okkur vel og skilaði okkur á áfangastað, gleymdist samt einu sinni að fylgjast með því og lentum við þá af leið en þá var umræðuefnið í bílnum pólitík og Framsóknarflokkurinn. Ekki í fyrsta skipti sem Framsóknarflokkurinn beinir fólki af leið.
Á vandræðaheimilinu lentum við rétt uppúr 23:00 og var þá ákveðið að taka aðeins í spil, eina spilið sem fannst á staðnum var sænskt Trivial og spiluðum við það til klukkan eitt um nóttina, var árangurinn misjafn þar sem skilningur á spurningum gekk misvel og reglurnar því nokkuð eftir því ... meir að segja barnaspurningar reyndust okkur erfiðar.
Í gærmorgun var síðan ræs klukkan 7:00 og byrjað á því að fá sé morgunmat, sem samanstóð af eggjum og beikoni. Kannski ekki alveg besti morgunmatur í heimi sem kom betur í ljós er leið á daginn. Einnig smurðum við lifandis býsn af nesti enda langur dagur fyrir höndum. Það var því brattur mannskapur sem fór um borð og hélt til veiða á Vättern. Sá brattleiki hvarf þó fljótt af mér þar sem ölduhæð var þó nokkur á vatninu og vatnaveiki (sjóveiki) tók að hrjá mig. Morgunmaturinn átti aðalþátt í því held ég (egg og beikon fara ekkert vel í maga, samanber þessa tveggja ára gömlu færslu mína), jafnvel bjórinn sem var drukkinn með Trivial kvöldið áður og stuttur svefn.
Þrátt fyrir að ég fengi mér sjóveikislyf lynti ólgunni ekkert og voru félagar mínir á tímabili farnir að efast um að ég hefði það yfirhöfuð af og ræddu því um hvernig hægt væri að nota mig í beitu. (Góðir félagar það !) Þannig að ég húkti þarna inní káetu stærri hluta ferðar og vissi lítið hvað fór fram úti á dekki, varð ósköp lítið var við það þegar sást til sólar, þaðan af síður veit ég hver aflinn var, verðið að spyrja ferðafélagana um það. J
Það var því ósköp gott að komast í land klukkan hálffimm og halda af stað aftur áleiðis til Noregs með stoppi í Biltema í Uddevalla og á veitingastað sem nú má bara lesa um í sögubókum á Íslandi. Um margt var rætt á heimleiðinni, m.a. hvað Evrópusambandið er gallað, sérstaklega þar sem veglýsing á E6 í Svíþjóð var mjög slæm, betri í Noregi, þó eru hún ekki góð þar. Svo maður hamri einu sinni enn þá því, þá vona ég að ESB umsókn Íslands fari brátt að snúast í höndum á íslensku stjórnvöldum, höfum ekkert í þennan spillta veiðiklúbb að gera.
En best að fara koma sér að verki, er enn hálf lurkum laminn eftir ferðina, en hafið það gott þar til næst ........................ myndir koma KANNSKI inn síðar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2009 | 17:12
Does EUROP taste well?
Frá Noregsríki er allt bærilegt að frétta. Hef ekki lent í neinum stórkostlegum uppákomum uppá síðkastið nema ef vera skyldi bréfsendingar NAV (norsku heilsugæslunnar) til mín. Þannig var, að eftir allt þetta lykilorðadót sem ég lýsti í þar síðasta pistli komst ég inná mína síðu hjá norsku heilsugæslunni. 21. október fæ ég síðan bréf frá þeim að ég sé ekki með heimilislækni sem ég og vissi, enda skráði ég mig þarna inn til að velja lækni. 22. október fæ aftur sent nákvæmlega eins bréf frá NAV en það sem meira er fékk einnig annað bréf frá þeim sama daginn um að ég væri kominn með fastlækni sem býr hér í Ási. Ekki veit hvers vegna þeir sendu mér tvisvar sinnum sama bréfið.
Svosem ekkert slæmt að fá póst, það sem maður vill ekki nota virkar sem ágætis íkveikiefni þegar kynda þarf kofann, heldur kalt hérna stundum. Þegar ég vaknaði einn morguninn sýndi hitamælirinn hér inní herberginu 10°C og það var fjandi kalt að fara framúr, stendur núna í 16°C, held samt að það sé heldur hlýrra hér, allavega er ég ekki skjálfandi.
Er þessa stundina að vinna í verkefni um frjósemisþætti á músum, afskaplega lítið spennandi að lesa sér til um það en maður ræður víst ekki öllu því sem maður þarf að læra. Þarf einnig að vinna að öðru verkefni en get það ekki sökum þess að tölvuforritið sem til þess þarf fór í mótmælaverkfall og á ég ekki von á að tölvumenn skólans kippi því í lagi fyrr en í fyrsta lagi á morgun, jafnvel ekki fyrr en á þriðjudag/miðvikudag. Hér er hlutunum ekki reddað 1, 2 og bingó. Varð aðeins pirraður yfir þessu þar sem ég þarf að halda kynningu á verkefninu á þriðjudag, en ég tala þá bara um eitthvað annað en þær niðurstöður sem ég ætlaði að reikna.
Síðan held ég að fólk sé ekki með öllum mjalla út af nokkrum útigöngukindum á Íslandi. Þetta er ekki vitund villifé í mínum augum, heldur afkomendur vestfirskra eftirlegukinda sem hafa tímgast þarna í nokkur ár. Kindanna vegna er betra að fella þær heldur en láta horn þeirra vaxa óáreytt í kjálka þeirra eða beinbrot gróa vitlaust saman þegar þær renna til í skriðunum, finnst umræðan jafnast á við að nokkrum fatlafólum eins og Megas lýst svo vel væri sleppt óáreittum í miðbæ Reykjavíkur. Hvað yrði það látið viðgangast lengi?
En fyrir þá sem enn eru að velta fyrirsögninni fyrir sér þá barst kynbótaskipulagið á Íslandi í tal við Tormod um daginn þegar hann var að hjálpa mér með gagnasafnið í HFA301. Ég sagði sem svo að kynbætur hefðu undangengin ár snúist sem mest um að bæta gerðina í sláturlömbum og hann spurði mig á móti þessara gullnu setningar, ég gat lítið sagt. En vissulega er það rétt sem hann sagði að rétt fitusamsetning í kjöti væri það sem mestu máli skipti uppá bragðgæði en ekki sem mestir vöðvar, þó þetta haldist í hendur.
Síðan má náttúrlega snúa setningunni uppá þjóðfélagsumræðuna og þá er mitt svar NEI eða með smá breytingu uppá vestfirsku útilegukindurnar, hugsa að þær muni bragðast ágætlega, allavega er það reynsla mín til þess af íslensku ær og hrútaketi.
En þar til næst, hafið það gott .........................................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2009 | 17:34
Gúmmímjólk
Í Svíþjóðarferð minni í síðustu viku sagði Ragnar við mig: Þú verður að prufa þetta" og benti á Långfil fernu í mjólkurkælinum. Ég spurði hvað þetta væri og hann sagðist ekki geta lýst því, ég yrði bara að prufa þetta sem ég og gerði.
Daginn eftir prufaði ég réttinn og opnaði fernuna og byrjaði að hella á disk en ekkert gerðist, ekki fyrr en fernan var komin á hvolf og ég kreisti fernuna þá kom smá slurkur úr fernunni og rann mjög hægt niður, hálfpartinn eins og mjög þykkt síróp eða ég veit ekki hvaða vöru ég að bera saman við þetta. Síðan bragðaðist þetta ágætlega nema áferðin var mjög spes, hálfpartinn eins og loftkennt jógúrt og þetta hélst alveg í skeiðinni þó maður snéri henni á hvolf. Mjög spes allt saman eins og Ragnar sagði.
Skv. upplýsingum Arla er Långfil eins konar hleypt mjólk sem þarf sérstaka sýringu og langan þroska. Hún hefur vægt sýrustig og örlítið beiskt bragð og áferðin er sterk og samhangandi - löng. Seigfljótandi áferð.
Fann þetta myndband fyrir þá sem vilja sjá Långfil á mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2009 | 09:13
Norræn velferð ...
... veit ekki alveg útá hvað hún gengur, en hluti af henni hlýtur að vera eftirlits/skráningarkerfið í hverju landi fyrir sig. Reynsla mín af því að flytja aðsetur milli landa er nú sú að þetta er gríðarleg skriffinnska sem tekur dágóðan tíma að koma sér í gegnum. Spurning hvort það taki jafn langan tíma að komast inní íslenska kerfið aftur að loknu námi hér í Noregi.
Fyrst af öllu varð að tilkynna flutning til Noregs á skattstofu í SKI í byrjun september til að fá norska kennitölu. Úrvinnsla þeirrar umsóknar tók 4 vikur og beið mín ný kennitala þegar ég kom aftur til Noregs eftir Íslandsferð í byrjun október. Þá gat ég sótt um bankareikning og ýmislegt fleira.
Fór ég því í DnB bankann hér í Ási og stofnaði bankareikning. Það tók um 20 mínútur í bankanum en síðan liðu 2 dagar, þá kom PIN númer reikningsins í pósti, daginn eftir leiðbeiningar um símabanka og grunnnúmer til að komast í heimabankann. Þriðja daginn kom síðan bankakortið sjálft í pósti og fjórða daginn kom tilkynning um að ég ætti einkennislykil að heimabankanum á pósthúsinu. Stormaði ég því næsta dag á pósthúsið og fékk heimabankann minn. Þurfti að framvísa vegabréfi til að fá sendinguna afhenda. Þá fyrst treysti ég á að senda pening af stað frá Íslandi á nýja reikninginn, það tók 2 daga. Og bæði Kaupþing á Íslandi og DnBNor hér í Noregi tóku ágæta þóknun fyrir að senda peningana af stað og taka við þeim hér.
En það er víst ekki nóg að vera með bankareikning, einnig fékk ég sent bréf frá heilsugæslunni um að ég þyrfti að velja mér heimilislækni. Opnaði ég þá heimasíðu og þar þurfti ég enn eitt lykilorðið til að stofna aðgang þar. Í raun ekki hægt að kalla það eitt LYKILORÐ heldur þurfti ég að sækja um sérstakt skjal hjá skattinum með 20 PIN númerum fyrir mína kennitölu, við innskráningar er ég síðan beðinn tilviljanakennt um 1, 2 eða 3 af þessum PIN númerum.
Þegar þetta skjal barst í hús gat ég opnað mitt svæði hjá lækninum og valið lækni. Á síðan eftir að fá staðfestingu í bréfpósti að sú skráning hafi verið í lagi. En svo maður haldi nú áfram þá er ekki nóg að vera kominn með lækni hér heldur þarf maður að sækja um evrópskt sjúkratryggingarkort þannig að ég sé sjúkratryggður á Íslandi þegar ég fer í jólafrí þangað gegnum Noreg, sambærilegt og ég sótti um slíkt kort á Íslandi áður en ég fór út. Vona bara að ég þurfi ekki að leita til læknis þann tíma sem ég á eftir að dvelja hér úti.
En eins og sjá má af þessu er býsna margt sem þarf að gera til að verða löglegur þegn í nýju samfélagi jafnvel þó maður stundi bara nám í einn vetur, kannski tvo. En pappírsreynsla sem þessi er víst einnig skóli og vistast einhversstaðar inní reynslubankann. Sjálfsagt á einhver pappírsvinna eftir að bætast við ef einhver umsókn hefur gleymst, mér finnst ég nú samt vera búinn að gera nóg.
Annars gengur lífið sinn vanagang ... lítið var um lærdóm um helgina, eldaði íslenska kjötsúpu hann Íslendingunum hér í Ási á laugardaginn. Skrapp til Svíþjóðar í verslunarleiðangur á miðvikudag, alltaf gott að komast þangað, fór í keilu á föstudagskvöldið, þar sem ég átti stórleik í að hitta ekki. Og svo var klukkunni breytt hér um helgina þannig að tímamunurinn á Íslandi og Noregi er ekki nema klukkustund núna.
Þar til næst .... hafið það gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar