Ætli heimurinn sé að hrynja ...

... veit ekki, ætla svosem ekki að velta mér mikið uppúr því í þessari færslu, vil sem minnst hugsa um ísþræla og gengismál. Langt liðið síðan ég bloggaði síðasta og lítið markvert skeð annað en lærdómur. Hef svosem verið í ýmsu pappírsstússi til að verða nokkurn veginn fullgildur þegn í norsku samfélagi, það eitt og sér er efni í sér bloggfærslu seinna.

Skemmtilegasta atvik síðustu viku var í tíma hjá Odd Vangan þegar hann gat ekki hægri klikkað á skjalið sem hann ætlaði að sýna okkur. Var ekki með mús á fartölvunni sinni og veit ekki hvort snertimúsin virkaði ekki nógu vel. Upphófst þá leit að mús en þá kom uppúr dúrnum að aðeins eitt USB tengi var á tölvunni og þar var minnislykillinn. Hann vissi hins vegar af annarri lausri kennslustofu með alvöru tölvu og fór þangað og þá loksins gat kennslan hafist áfallalaust fyrir sig.

Til að halda aðeins í íslenskar hefðir sauð ég hangikjötsbita um helgina og um næstu helgi er stefnan sett á íslenska kjötsúpu til að gleyma aðeins stund og stað, en um helgina væri sérstaklega gaman að vera staðsettur í Dalasýslu. Mikil dagskrá í boði þar í tengslum við haustfagnað sauðfjárbænda og stofnfund félags ungbænda.

Á leiðinni út um daginn greip ég einn kvartaldargamlan Stikluþátt í Leifsstöð. Þar ræðir Ómar Ragnarsson m.a. við eldri konu Ólínu Magnúsdóttur bónda og f.v kennara um þær breytingarnar sem þá voru að verða á íslensku samfélagi. Langar aðeins að vitna í þetta samtal:

„Hver er þín skoðun á uppeldi barna nú á tímum? Það hefur geysilega breyst þó ekki sé farið lengra aftur en 10 ár. Mig undrar bara að börnin skuli vera með heilum sönsum í öllum þessum glundroða. Það eru blöðin, útvarpið, sjónvarpið og þessar þokkalegu barnabókmenntir. Öllu þurfa þau að fylgjast með og þetta alveg ruglar þau. Venur þau frá þessu þjóðlega." Þetta er allt saman rétt, en ég fór að hugsa hvað hefur bæst við á síðustu 25 árum, mjög mikið enda held ég að maður verið hálf ruglaður ef maður ætlar að fylgjast með öllu, að minnsta kosti stelur þetta heilmiklum tíma frá mér daglega. (Internetið, Facebook, MSN, blöðin o.s.frv.)

„Hvað finnst þér um að börn séu mikið ein heima? Get ekki hugsað það til enda, segi það alveg satt. Villingslegt uppeldi. Ég er ekki hrifinn af þessum barnastofnunum þó þær séu betri en börnin séu að flækjast á götunni. Svo er eitt hvað þeir fara skakkt með að taka börnin snemma í skólann, ágætt fyrir kaupstaðabörnin. Þau eru þá minna á götunni en þegar þau eru í skólanum. Meðan þau eiga kost á að vera í sveit, koma þau seint, koma ekki fyrr en sauðburður er búinn eða hálfnaður og þau eru kölluð löngu fyrir göngur og það er nú aðalpúðrið hjá börnunum að vera í réttunum." Í þessu er ótrúlega mikið rétt, velti því fyrir mér hvort ég væri nokkuð í því námi sem ég er í núna nema fyrir þær sakir að ég tók alltaf leyfi þegar eitthvað var um að vera heima og blessunarlega var skólinn að mestu búinn um sauðburð hjá mér öll skólaárin. Öðruvísi hefði ég ekki fengið áhuga á sauðfé og sauðfjárrækt. Kannski er þetta ein af ástæðunum fyrir erfiðri endurnýjun í bændastétt, fólk fær ekki að kynnast henni nægjanlega vel.

Að endingu: „Nú ert þú mikill unnandi íslensks máls. Hvernig sýnist þér ungt fólk tala í dag? Mér finnst nú aldeilis afdæmingur þegar menntamenn, háskólagegnir hámenntaðir menn eru að staglast á því að fyrirbyggja og bæta síðan skottinu við fyrirbyggjandi í staðinn fyrir að segja koma í veg fyrir. Síðan er það annað sem veður uppi núna allavegana í staðinn fyrir að minnsta kosti. Nútíminn staglast á ýmsum orðum. Ofnotar þau, gömul ágæt orð fá aldrei að koma inni á milli." Nú ætla ég ekki að dæma eigin íslenskukunnáttu en það veit ég að þessi orð hennar frá því 1983 eiga enn við í dag og sennilega hefur íslenskri tungu mikið hrakað síðan þá. Hvort ég á eftir að verða hámenntaður háskólagenginn maður sem staglast verður tíminn að leiða í ljós.

Þar til næst, hafið það gott og endilega kvittið. Síðan skulum við hugsa um það allavega að koma í veg fyrir að minnsta kosti stundum að ofnota ekki orðið fyrirbyggjandi.


Til Noregs á nýjan leik

Þá er maður kominn aftur í Ás eftir nokkra góða daga á Íslandi í smalamennskum, fjárragi og sláturvinnu. Mjög svo feginn að ég skildi fara heim til Íslands þar sem faðir minn veiktist og var fluttur á sjúkrahús, veit ekki hvernig ég hefði verið hér úti, vitandi af honum á spítala. Sprakk í honum botnlanginn, sem er ekki það skemmtilegasta sem maður lendir í, þekki það frá jólunum 1995 þegar ég eyddi þeim á sjúkrahúsi af sömu ástæðu, sennilega arfgengt. En hann er kominn heim og óðum að hressast og verður vonandi þokkalega vinnufær í lok mánaðar.  Þannig að það kom í minn hlut að velja líflömbin þetta árið og senda í slátrun, vonandi tókst það bærilega, kemur í ljós næsta vor hvort einhverjir gallagripir hafi læðst með.

Hér hefur kuldinn heldur hert tökin, allavega finnst mér kaldara hér en á Íslandi, þó hér sé rólegrar veðurfar, sól og blíða úti en ekkert sérlega hlýtt. Ekki sama rokið og var á Kjalarnesi á föstudaginn, hef aldrei farið þar um og mætt jafn fáum bílum um miðjan dag á föstudag. Var þá að koma frá Selfossi þar sem ég afhenti restina af sláturlömbunum, var gerðin í þetta skiptið 9,06 og fitan 6,33 og þunginn 15,8 sem þýðir að það er kílói léttara en í fyrra, mun minni fita og aðeins lakari gerð en samt tel ég þetta allt eðlilegt miðað við að slatti af lömb fæddist í júní þetta árið þar sem einn hrútur klikkaði á fyrri hluta fengitíðar.

Og já, ætli verið ekki veisla hjá manni í matinn núna, uppstaðan í ferðatöskunni minni út var kjöt, íslenskt lambakjöt, nánar tiltekið frá Ásgarði. Rétt komst í frystinn, þarf að vera duglegur að borða, svo það verði pláss fyrir meira kjöt eftir jólafrí sem ég vona að byrji fyrr en seinna í desember.

Síðan er ég sérlega ánægður með norska ríkið núna sem veitti mér smá styrk til náms hér sem er gott þar sem gengið á krónunni er ekkert alltof hagstætt, fer heldur uppávið ef eitthvað er þannig að ég fór í bankann í dag til að stofna bankareikning svo ég geti flutt dágóða upphæð út og ekki þurft að hugsa um gengi í hvert skipti sem maður verslar.

Í þessari Íslandsdvöl minni varð ég einnig vitni af bílslysi ca. 10 metrum fyrir framan mig þar sem ég var að gá að fé á túninu, þar sem ökumaður sofnaði undir stýri og endaði á hvolfi ofaní skurði. Blessunarlega slapp hann alveg ómeiddur en ég hef aldrei hlaupið jafnt hratt eftir hjálp og í þessu tilviki þar sem ég var ekki með síma á mér, var langt fram eftir kvöldi að fá eðlilegan hjartslátt aftur, hugsa að mér hafi brugðið meira en konunni sem var undir stýri.

Síðan varð mér ekki að ósk minni um það sem ég setti fram í síðasta pistli, ég þarf að baksa í öllum þessum þremur áföngum það sem eftir er annar þar sem ég stóðst stærðfræðina og hef öðlast próftökurétt.

En þar til næst hafið það gott ... og endilega kommentið !


Alþjóðaumhverfið í Ási

Skilaði mínu fyrsta verkefni í þessum skóla í dag. Var það skylduverkefni í línulegri algebru til að fá próftökurétt. Búinn að ákveða það að ef ég stenst ekki þetta verkefni láti ég þennan áfanga fara lönd og leið, vil frekar einbeita mér að því að gera hina tvo vel enda algebra ekki skylduáfangi hjá, meira undirstaða sem ég hefði átt að vera búinn með áður. (Tilheyrir bara ekki námskránni hjá LbhÍ) 

Annars er það að frétta héðan að hér er orðið skítkalt núna eða þá að ég er að verða veikur, allavega er búinn að vera hálfgerður hrollur í mér í allan dag. Vona frekar að það sé veðurfarið þar sem ég má ekkert vera að því að vera veikur núna, svona rétt fyrir Íslandsför til að komast í fjárrag og smalamennskur.

En annars er umhverfið hér í Ási mjög alþjóðlegt þegar maður fer meira að velta því fyrir sér, allavega þegar ég er að rölta í skólann mætir maður fólki af mjög ólíkum uppruna á gangstéttunum og þegar maður leggur við hlustir þá eru ekkert allir að tala norsku eða ensku, hér heyrir maður óminn að fjöldanum öllum af tungumálum, sumum sem maður skilur ekki baun í. Svo þegar ég var á leiðinni heim áðan þá mætti ég einum Japana sem ætlaði að spyrja til vegar og ég sagðist nú bara vera Íslendingur, nóg fyrir mig að rata þá leið sem ég þarf að fara daglega, get kannski sagt til vegar í vor ef ég verð duglegur að læra.

Síðan finnst mér eitt ansi hreint merkilegt í þessum 10.000 manna bæ að hér er aðeins eitt kaffihús/pöbb „Texas" (gætu verið fleiri, hef bara ekki séð þau) og þar mæta nánast allir. Skruppum við Íslendingarnir þangað fyrr í kvöld og í einu horninu þar sátu allir helstu stærðfræðikennarar skólans og ræddu heimsins gang og nauðsynjar. Fannst það skondið þar sem ég var að skila verkefni til þeirra í dag. Þarna var semsagt kennarinn minn og sá sem kom sem forfallakennari í dæmatíma um daginn og vissi ekki neitt að því er mér fannst. Ragnar sagði mér hins vegar í kvöld að sá væri helsti stærðfræðikennari skólans. Vona að ég álpist ekki í tíma til hans.

Frá því síðast hef ég samt sennilega mest ásamt algebrunni stúderað vigtarseðilinn af lömbunum sem fóru í slátrun um daginn, 202 stk., 15,98 kg fallþungi, gerðin 9,13 og fitan 6,09. Hefði viljað sjá meiri þunga og hærri gerð en er mjög ánægður með fitustuðulinn. En það þarf jú að stúdera hann þar sem ég hafði hugsað mér að vinna með gögn frá þessu hausti þegar ég fer að reikna BLUP einkunnir í HFA301 enda hristir Tormod bara hausinn þegar ég opna fjarvis.is í tíma og get nánast náð mér í þau gögn sem ég vil til að vinna með, sem sýnir bara að gott skýrsluhald er góður kostur. Hjálpar allavega við að skilja jöfnurnar sem eru nánast óskiljanlegar í bókinni.

En til að kóróna allt saman þá úthlutaði Odd mér seminar verkefni um val fyrir frjósemiþáttum hjá músum, flestir fá að fjalla um almenn húsdýr en ég um mýs. Æðislegt. Ætla ekki að hugsa um það fyrr en ég kem frá Íslandi aftur, þarf ekki að skila því fyrr en í lok nóvember.

Þar til næst, hafið það gott.


Er ekki best að blogga snemma morguns

Sit og er að borða morgunmat, sem samanstendur af hafragraut og tebolla. Þarf að fara haska mér af stað í tíma til Odd Vagens, þar sem ég án efa ekki eftir að skilja neitt afskaplega mikið. Sjáum þó til. Að læra á norsku, með kennsluefni á ensku en hugsa allt á íslensku er ekkert mjög góð blanda.

Í þessari viku hef ég aðallega verið að reyta hár mitt yfir línulegri algebru en ég ákvaða að taka svoleiðis áfanga, annað hvort er ég búinn að tapa öllum stærðfræðihæfileikum mínum eða þá að þessi hluti stærðfræðinnar er erfiður, hallast frekar að fyrri liðnum. En í þessu fagi þarf ég semsagt að skila einu skylduverkefni núna eftir helgi (svo ég komist heim til Íslands í seinni leit með þokkalegri samvisku) en það veitir síðan próftökuréttinn í desember. Vonandi tekst mér að klára það. Kennslan í áfanganum er hins vegar að mestu búinn í næstu viku.

Hef heldur ekki komist í alla tíma, þar sem ég á t.d. að vera í þessu fagi og hjá Vagnen á sama tíma. Síðan mætti ég galvaskur í æfingartíma í algebru á þriðjudaginn, hef ekki haft tíma til þess áður, þá fór ekki betur en svo að kennarinn var forfallakennari sem viss lítið. Svo ég sendi aðalkennaranum póst og spurði hann út í eitt dæmið og hann gat nú svarað því en sagði mér líka að tala við æfingarkennarann, ekki alltaf við sig. Gallinn er að ég veit ekkert hvað æfingarkennarinn minn heitir, sem þýðir að allt er í tómu tjóni. En sem sönnum Íslendingi er ég fullviss um að þetta reddist.

Í gærkveldi grilluðum við í Íslendingarnir hér í Ási saman, aðallega maís sem hluti hópsins fór að týna í gær. Var rökrætt um ýmsa hluti í framhaldi af því, misgáfulega. Haustið er eitthvað farið að láta sýna sig hér í Ási, þó hitinn ná alltaf 2 stafa tölu yfir hádaginn. Hins vegar held ég að hann sé nálægt frostmarki í sumum húsum skólans því Norðmenn eru svo sparsamir og tíma ekki að kynda húsin. Þannig að maður verður hálfpartinn að vera dúðaður með húfu og vettlinga ef manni dytti til dæmis í hug að lesa á Skógargarði en þar er lesaðstaða nema í Husdyrfag.

En síðan er það stóra spurningin ætti maður að skipta um bloggsíðu í ljósi frétta gærdagsins, vill náttúrulega enginn bendla sig við Moggann lengur? Held ekki, finnst nýir ritstjórar að mörgu leiti góðir, sérstaklega í ljósi þess að þeir munu ekki kokgleypa við öllum fyrirmælum og fréttum frá klíkunni í Brussel. Vonandi munu Íslendingar bera þá gæfu að halda sig víðsfjarri þeirri klíku næstu árin og áratugina.

Þar til næst, hafið það gott og endilega kommentið .................


Hans hátign

Á leiðinni heim í dag ákvað ég að koma við í Bioteknologibygningen og hlusta á fyrirlestur hjá hans hátign Hákoni krónprins um fátækt og virðingu eða hvað við getum gert til að bæta lífskjör í heiminum, var hann þarna að miðla af reynslu sinni af heimsóknum til annarra landa. Var fyrirlesturinn liður í afmælisdagskrá skólans en hann er 150 ára um þessar mundir. Opinn dagur víst á morgun, á eftir að skoða hvað er á dagskrá þar. Merkilegast í þessum fyrirlestri var þó allt tilstandið í kringum hans hátign, rauður dregill, fullt af lífvörðum og löggum. Einnig var leitað á manni áður en maður gekk í salinn svona til að fullviss sig um að ég væri ekki vopnaður eða ætlaði að henda einhverju í hans hátign.
 
 
Hvað um það, skólinn gengur svona lala, tel mig skilja meira og meira en samt ekkert of mikið, hugga mig við það að kennarinn sagði við mig í gær að það væri í lagi að hafa svona „black box", ef ég skildi byrjunin og endann þá væri það í lagi. Ef ég skildi allt þá gæti ég einfaldlega of mikið. Vona bara að þetta sé rétt hjá honum.

Fór áðan og keypti mér rúm, keypti semsagt ekki rúmið í Osló, allt of mikið vesen að fara þangað, langur akstur og svoleiðis. Fékk tiltölulega nýlegt rúm hér í Ási á 500 krónur. Haukur skutlaði mér þangað og svo festum við það bara á toppinn á bílnum og keyrðum til baka. Ég er heldur ekki einn í kotinu lengur, kominn með meðleigjendur, ekki einn heldur tvo en þær Anna Katrín og Snædís ákváðu að flytja hingað, þannig að hér verður svona Íslendingastemmning í vetur.

Skrapp til Evrópusambandsríkisins Svíþjóðar á miðvikudaginn til að versla, þar er matarverð nefnilega ódýrara en í Noregi plús það að sænska krónan er hagstæðari námsmönnum sem eiga bara íslenska peninga. Svolítil upplifun að koma þangað enda eru það Norðmenn sem eiga staðinn og gera útá það að fá Norðmenn þangað til að versla. Hins vegar fannst mér sumt dapurt þarna eins og ásýnd þeirra sveitabæja sem ég sá, sem styður mig í þeirri trú að ESB sé bara ríkumannaklúbbur sem Ísland á ekki að vera sækja um aðild að.

Nú er smalamennskur og réttir í Dalasýslunni, langar voðalega mikið að vera þar, en það er víst ekki í boði þessa helgina, bæti það upp eftir hálfan mánuðum með því að kíkja í seinni leit og komast aðeins í eigið fé til að skoða.

Þar til næst, hafið það gott. Endilega kvittið.


y = Xb + Zu + e

Já, ég var að koma úr tíma í kynbótafræðiútreikningum og þetta er jafnan sem allt gengur útá, en hliðarþættir hennar eru óendanlegir, held ég, allavega skil ég bara lítið brot í tímanum og heilinn þarfnast endurræsingar í lok hvers tíma, en kennarinn segir að það eigi að vera svoleiðis, svo vonandi sér maður ljósið í þessu, þegar nær dregur jólum.

Annars er maður bara svona smásaman að koma sér fyrir, ætla fara til Oslóar á eftir að kaupa eins og eitt stykki rúm ef mér líkar það, fer ekki vel með hávaxinn mann að sofa í of litlu rúmi til lengdar.

Síðan held ég að sé alveg ljóst að maður á ekki eftir salla á sig hér í vetur, matur er dýr og maður leyfir sér nú ekki allan munað í þeim efnum. Allavega er ég strax farinn að þrengja beltið á buxum til að þær haldist uppi. En maður má nú ekki svelta sig heldur, því þá verður maður skapvondur og allt ómögulegt, þess vegna eyðir maður góðum tíma út í búð þegar maður verslar í að finna ódýrar vörur. Til dæmis er margfalt ódýrar að kaupa 18 egg saman en 6 egg í pakka.

Til að gefa lesendum innsýn í verðlagið er hér hluti af síðasta innkaupaseðli mínum: 500 gr hakk, 34,9 krónur (733 ISK), 1 lítri mjólk á 13,9 krónur (292 ISK), 1 lítri AB-mjólk á 26,5 krónur (557 ISK) Bananar 16,5 krónur/kíló (347 ISK), grænmetisblanda (gulrætur, brokkóli og blómkál), 25 krónur (525 ISK) o.s.frv. Þannig að maður leyfir sé nú ekki hvaða munað sem er, hef ekki enn þorað að líta á bjórverðið, drekk bara vatn, það er þó frítt í krananum eins og á Íslandi.

Það sem sló þó öllu við í verðlaginu var þegar ég borgaði skólagjöldin, þau voru ekki há eða 340 krónur, en í bankanum var tekið 75 króna þjónustugjald fyrir að borga reikninginn eða rúmlega 1500 ISK, það er ekki nema von að íslenska bankakerfið hrundi, þeir kunnu ekkert að innheimta þjónustugjöld samanborði við frændur þeirra í Noregi.

En þangað til næst ... har det bra  og endilega kommentið


Mikið fjandi er brekkan brött!

Eins og titillinn gefur til kynna hugsa ég þessa daganna, hvað ég sé eiginlega búinn að koma mér útí og hvort þetta hvað verið rétt ákvörðun að fara út. Langar þá mest til að stökkva uppí næstu flugvél heim og hætta þessu en þá kemur á móti ég verð að gefa þessu tíma, ef ekki núna þá geri ég það sennilega aldrei. Enda ætla ég mér að þrauka hér fyrst fram að jólum og svo vonandi fram á vor og svo kannski annan vetur hér eða þá að ég klári ritgerðina heima þar sem veskið verður nánast tómt í vor nema kraftaverk gerist með verðlagið hér úti og íslenskan krónan taki að styrkjast til fyrra horfs.

Á hinn bóginn vísar titill færslunnar í leiðina sem ég labba í skólann en ég er fluttur á Solfallsveien 44 og síðasta brekkan hér upp götuna er fjandi brött, er þetta húsnæði í smá fjarlægð frá skólanum (2- 2,5 km held ég) og á maður sennilega eftir að halda sér í ágætisformi með því að labba í skólann, því ég er um 40 mínútur að labba í tíma enda er Husdyrfag byggingin þar sem landbúnaðar/fiskivísindi eru kennd höfð lengst í burtu, sennilega erum við fólkið sem höfum áhuga á þessu annað hvort svona skrítið eða illa lyktandi.

Held allavega að ég verði hér í vetur, afþakkaði allavega húsnæði á Pentagon í gær þegar skyndilega losnaði þar pláss, nenni ekki að flytja í hverri viku. Auk þess held ég að hér hafi ég það bara gott, hef stóra stofu, þráðlaust net, gervihnattasjónvarp, frystir, þvottavél og ýmis þægindi sem ekki eru á Pentagon, er hreinlega farinn að trúa því að Pentagon sé hálfgert fangelsi, m.v. sögurnar sem maður heyrir, allavega langar mig ekkert til að búa á þeim partýstað, legg frekar á mig að labba 30-40 mín lengur hvern dag, sá tími hlýtur að styttast þegar ég eyk æfinguna og skreflengdina í labbinu. (Verð að játa hér að ég lærði aldrei að hjóla þegar ég var lítill (minni) og efast um að ég geti lært það úr þessu)

Svo eru það kennsluaðferðirnar hér, ég hló nú pínulítið þegar ég mætti í fyrstu tímana og maður sá hvað nýjungagirni Íslendinga er mikil. Hér eru nefnilega krítartöflur enn og skjávarpinn er bara rétt að hefja innreið sýni, enn til kennarar sem nota bara gamla skjávarpann með glærum. Þó er örlítið um kraftbendilssýningar, held að Hvanneyringar hafi það bara of gott með skoli.is og upptökur á námsefni.

Í dag var sól og fínasta veður úti, bændur farnir að þreskja korn sem er í misjöfnu ásigkomulagi eftir rigningar sumarsins, skilst að hafi verið 3 dagar í ágúst sem ekkert rigndi hér á þessu svæði. Enda er ég mun jákvæðari í dag en í gær, markmið dagsins í dag var að skilja 5% af námsefni dagsins, komst að því að ég skildi meira en það og gat gert æfinguna nokkuð skammlaust, þó ég þurfi að rifja svolítið upp, mjög ógnvekjandi jöfnur sem maður er að fást við á hverjum degi. Allavega kom einn af þeim sem ég er í tíma með (frá langtíburtistan, bangadesh minnir mig) og leitað ráða hjá mér, ég gat útskýrt eitthvað og upplifði mig nokkuð gáfaðan í smá stund.

Já, síðan fór ég í norskutíma á mánudaginn, græddi lítið á honum, sýnir sig að eitthvað situr eftir að grunnskóladönskunni því þeir sem voru með mér þar skildu lítið enda flestir frá Asíu svo ég held ég horfi bara áfram á norska barnatímann og nái mér í norskar léttlestrarbækur, held maður læri norskuna hraðar svoleiðis.


Af Noregsdvöl

Nú er maður víst floginn af klakanum og kominn til Noregs, búinn að vera hér í viku og er svona að sættast á þetta allt saman og ætla mér að þrauka í vetur, hvort ég skipti yfir til Íslands seinni veturinn verður svo tíminn bara að leiða í ljós.

 

Ég er semsagt sestur á skólabekk í Universitetet for miljø- og biovitenskap að Ási í Noregi og markmiðið er að taka master í búvísindum með áherslu á kynbótafræði. Þetta hefur nú ekki gengið þrautalaust fyrir sig allt saman, í fyrsta lagi tókst skólanum hér og húsnæðismiðluninni (SiÅs) að klúðra umsókn minn um húsnæði alveg rækilega þannig að ég var húsnæðislaus þegar ég kom og hef fengið að gista í sófanum hjá heiðursfólkinu Hrafnhildi og Ragnari sem hafa verið hér í námi síðustu tvö ár. Allavega leist mér engan veginn á bráðabirgðahúsnæðið sem mér var boðið, það var í Molla sem ein af byggingum Pentagon og voru tvær kojur í herbergi og sameiginlegt eldhús, frekar sjabbý allt saman og ekki fyrir mig að dvelja þar.

 

En nú hillir undir húsnæði, búinn að skoða ýmislegt á einkamarkaðinum hér og fann loksins íbúð sem er ekkert of langt frá (ca. 2 km) og ætla að taka hana. Það kostar þó að ég þarf að finna mér meðleigjanda því hún er það stór fyrir mig einann en þetta er kjallaraíbúð (með öllum húsgögnum) og á efri hæðinni býr ein gömlu kona. Ætla að flytja þangað á morgun en leigan á þessari íbúð er 5000 NKR sem eru alltof margar íslenskar krónur, þar sem gjaldmiðillinn okkar á við einhverja pest að etja þessa stundina.

 

Síðan er ég búinn að taka þá ákvörðun að taka bara hæfilega margar einingar fram að jólum, ætla að taka 2 masterskúrsa og 1 grunnkúrs til að skilja betur annan masterskúrsinn. Svo er ég að hugsa um að smygla mér með í norsku þó skólakerfið hér segi að allt sé fullt, hér þarf maður sjálfur að passa uppá skrá sig í rétta áfanga. Fór í einn tíma í HFX251 sem er á norsku og ég legg ekki í hann að svo stöddu, námsmatið þar var 40% hópverkefni og 60% munnlegt próf í lokin, held sé betra að ná smá grunni í norsku fyrst.

Þannig að þetta eru áfangarnir sem ég ætla að reyna við í haust:

HFA301       Calculation of Breeding Value

HFA303       Biological Aspects of Animal Breeding

MATH131    Linear algebra 

Ætli ég láti þetta ekki nægja að sinni, veðrið er búið að vera gott í dag og vona ég að svo verði áfram því hér rigndi nánast alla vikuna og það er ekkert eðlilegt hvað getur rignt hér, held að Hvanneyri sé bara hátíð miðað við Ás. Læt heyra í mér fljótlega aftur !


Umhverfishagfræði

Var að leysa þetta verkefni í umhverfishagfræði:

Veljið umhverfisvandamál að eigin vali.
-    Fjallið um hvers eðlis vandamálið er.
-    Leggið til lausn á vandamálinu. Rökstyðjið vandlega val ykkar á lausn.
-    Fjallið vandlega um þær forsendur sem þurfa að liggja til grundvallar til að fullyrða megi að þín lausn tryggi þjóðhagslega hagkvæmustu niðurstöðu.
-    Fjallið vandlega um helstu kosti og veikleika þeirrar lausnar sem þú hefur stungið uppá.

Og hér er lausn mín á verkefninu:
Umhverfisvandamál það sem ég ætla taka til umfjöllunar í verkefni þessu er fuglategundin álft. Trúlega finnst mörgum það reyndar skrítið að tala um álft sem umhverfisvandamál en sem manni uppöldum í sveit finnst mér það ljóst að af henni stafar mikil mengun. Sem miklum hrokagikk gæti ég sett fram þau rök að forsenda mengunar er aðallega upplifun mín á álftinni, því á mig virkar hún sem stór og ljótur fugl sem framkvæmir mikinn hávaða auk þess sem hún er mjög ógnvekjandi þegar maður mætir henni augliti til auglitis. Ekki taka allir undir þessi sjónarmið enda eru þau ekki vísindalega fram sett né myndu falla í góðan jarðveg þeirra sem ekki líta á álftina sem vandamál.
Vandamálið felst í því að á undanförnum árum hefur orðið sú breyting í íslensku vistkerfi að álftir sækja í stórauknu mæli í ræktunarlönd bænda. Bændur telja að álftum hafi fjölgað gríðarlega en ég hef ekki rekist á neinar rannsóknir sem styðja þær kenningar, en ég held líka að lítið sé gert í slíkum rannsóknum. Sá skaði sem álftir valda í ræktarlöndum er umtalsverður því hún skemmir tún og nýræktir ásamt því að eyðileggja korn- og grænfóðurakra að hausti. Ásamt þessu get ég nefnt tvo galla sem ekki hafa verið sannaðir með vísindalegum aðferðum, annan hef ég heyrt nokkra bændur nefna en það er að álftin getur borið smitsjúkdóma milli svæða, sem er sérstaklega varhugavert fyrir sauðfjárbændur. Heima hjá mér hefur ekki verið hægt að beita lömbum á það hólf sem álftinni finnst best að dvelja í, vegna þess að tíðni lambadauða að hausti vegna garnapestar jókst mikið 3-4 árum eftir að álftin fór að gera sig heimakomna. Hitt atriðið er skíturinn úr álftinni sem vill blandast í það fóður sem seinna er verkað af spildunni sem hún hefur gert ránsferð um fyrr um vorið. Síðasta vetur bar mikið á skitu í ánum heima. Var þá farið að passa uppá að sópa garðann þegar ærnar voru búnar að éta mestallt upp þannig að þær næðu ekki að narta í þá úrvalsfæðu sem skíturinn er en við það hætti skitan með öllu. Hvort samhengi sé þarna á milli er ekki hægt að sanna nema fram fari rannsókn.
En álftin er friðuð og þegar ég kannaði með hvaða rökum það var gert komst ég að athyglisverðri niðurstöðu. Í Alþingistíðindum 1913 segir: „Svanurinn er hin mesta prýði í íslensku fuglalífi, nytjar hans munu mestar í fjaðratöku og þær nytjar vaxa við friðunina, nytjar á drápi fuglsins sjálfs eru svo litlar, að þeirra vegna verður friðunin að teljast fyllilega rjettmæt. Þess ber og að geta, að sje svanurinn friðaður, mun hann verða spakari og algengari, verða víðar til yndis og prýði“. Semsagt hún er ekki friðuð vegna þess að stofninn sé of lítill heldur vegna þess að álftin sé fagur og tignarlegur fugl. Skv. nýlegri fuglahandbók er stofnstærðin 15.000 – 19.000 fuglar og virk varppör á landinu um 2.500.
Úrlausn mín á þessu vandamáli er því sú að aflétta friðun hennar á ákveðnum árstíma og heimila veiðar á henni, sérstaklega geldfugli. Skv. hagfræðinni myndi þessi lausn flokkast sem besta lausn eða hagkvæmasta magn mengunar þar sem hagstaða þolanda og geranda mætast þannig að báðir hagnist á því.
Lausnin felst í því að setja á veiðitoll, þ.e. að leyft verði að veiða X marga fugla á ári. Til að fá veiðirétt þyrfti að borga veiðigjald svipað því sem tíðkast við hreindýraveiðar. Tekjurnar af veiðigjaldinu mætti nota svipað og hjá hreindýrum þar sem það er þrískipt. Hluti þess myndi þá standa undir kostnaði við eftirlit og stjórn álftaveiða, annar hluti vegna vöktunar á álftum til að ákveða veiðiþol og þriðji hlutinn til greiðslu hæfilegs arðs til þeirra sem verða fyrir búsifjum vegna ágangs álfta eða þá til rannsókna á stofninum í heild sinni.
Þessa lausn tel ég vera þjóðhagslega hagkvæma því eins og gefur að skilja finnst mér ekki réttlætanlegt að friða fugl einungis vegna þess að hann sé fríður á að líta. Einnig er ekki réttlátt að veiða fuglinn vegna þess eins að hann veldur tjóni en með þessari lausn er komið til móts við alla aðila, menn fá að veiða fuglinn, hægt verður að stunda rannsóknir sem sanna með óyggjandi hætti kosti og galla þess að veiða fuglinn og þeir sem verða fyrir miklu tjóni vegna ágangs hans fengju bætur greiddar.
Þessa lausn tel ég mjög góða en útfærsla hennar þarf að vera góð til þess að hún verði skilvirk. Einhvern veginn þarf að úthluta veiðikvótanum og teldi ég að allir bændur ættu að hafa aðgang að þeim potti, þeir sem ekki kærðu sig um veiðar gætu þá framselt rétt sinn til þeirra sem áhugann hefðu, svipað og skilvirk kvótakerfi við fiskveiðistjórnun og mjólkurframleiðslu gera. Menn mun síðan alltaf deila um það hvort kerfið sé réttlátt.
Nú kunna margir að spyrja sig þeirrar spurning og hvað á svo að gera við alla fuglana sem verða drepnir? Þá á að nýta til átu því þetta eru stórir fuglar sem gefa af sér mikinn mat, en fróðir menn segja mér að hver fugl skili um 3 kg af kjöti sem er á við vænt lambslæri. Þetta er einnig sáraeinfalt í eldamennsku og herramannsmatur. Heimildamanni mínum þótti ungfuglinn bestur steiktur á pönnu borinn fram með brúnni sósu, kartöflum og rabarbarasultu. Ef maður væri svo óheppinna að lenda á eldri fugli mun vera einfaldast að hakka kjötið og búa til kjötbollur. Sá möguleiki að nýta kjötið opnar á fleiri tækifæri í menningartengdri ferðaþjónustu til sveita, ég sé t.d. fyrir mér að ferðamenn geti komist í veiði og svo fengið steikina framreidda um kvöldið. Góður tekjumöguleiki fyrir íbúa hinna dreifðu byggða en auk þess væri hægt að selja kjötið á veitingahús á góðu verði. Hér er því um algjörlega arðbær viðskipti að ræða því það sem leggja þyrfti til í veiðigjald skilaði sér til baka í verðmæti afurðarinnar. Handverksfólk gæti svo nýtt fjaðrirnar í eitthvað líkt og áður var gert þegar þær voru aðalnytjar fuglsins.
Ég hef hér að framan fjallað um umhverfisvandamálið álft og tel þá úrlausn sem ég kom með fyllilega standast tímans tönn. Ég tel að gaman væri að senda hana til umhverfisráðuneytisins og sjá hvað viðbrögð ég fengi því búnaðarþing bænda hefur ályktað tvisvar um ágang álfta en viðbrögð umhverfisráðuneytisins hafa verið frekar þunglamaleg. Ástæðan er held ég sú að skortur er á rannsóknum, en þessi lausn tryggir fjármagn til þeirra ásamt því að hún felur í sér nýja sjálfbæra aukabúgrein um hinar dreifðu byggðir landsins.

Fyrir þetta verkefni fékk ég einkunnina 9,0.

Af kreppu

Ætli sé ekki kominn tími á bjartsýnisblogg um fjármál þar sem allir blogga neikvætt um efnahagsmál og peningamál þessa dagana, ég nenni því ekki enda er ég búin að loka á þessar leiðindafréttir um að þjóðarskútan sé strönduð og allt sé að fara til fjandans og þar fram eftir götunum. Það er vitað mál að meðan maður hugsar jákvætt þá kemur betri tíð með blóm í haga, mun allavega gera það í sveitinni.
 
Annars er það helst að frétta að skólinn gengur bara sinn vanagang, styttist í próf og þá er víst best að taka fram lærdómsgírinn og standa sig svo maður klári nú þennan skóla í vor, 4 próf í desember og reyndar 3 annarverkefnum enn ólokið en þetta reddast allt fyrir 18. desember og þá ætla ég líka að njóta þess að halda íslensk jól og jafnvel dvelja eitthvað fjárhúsinu og ráðskast með erfðaefni eigin fjár á fjórum fótum.
 
Þó svo að væri nú gott að vera í Kívílandi þá jafnast ekkert á við íslenskan vetur með tilheyrandi myrkri og kulda, sumarhitinn var fínn en bara í temmilegu magni. Næstkomandi mánudag á ég heimboð ásamt nokkrum vel völdum Hvanneyringum á Bessastaði þar sem Ólafur og Dorrit langar að hitta okkur. Þó að ég sé frá stórasta landi í heimi vona ég að ég sé ekki stórasti maður stórasta lands í heimi en hvað um það.
 
Niðurstöður í skýrsluhaldinu eru komnar í hús og er ég bara nokkuð sáttur með þær þó svo að frjósemin síðasta vor hafi verið með sú lakasta frá því ég man eftir mér en allavega 29,6 kg eftir hverja kind og vanhöld með því lægsta sem sést eða 1,75 lömb fædd og 1,72 lömb til nytja. Þeir hrútar sem voru að toppa sem lambafeður í haust eru þeir sömu og gerðu það gott í afkvæmarannsókninni eða Skugga-Sveinn Gránason og Stormur Catson. Hvað mæðraeiginleika varðar er enginn sérstakur toppur en þó standa dætur Hrings alltaf fyrir sínu en hann er einmitt afi Skugga-Sveins svo ég bind vonir við hann sem ærföður eftir nokkur ár.
 
Af erfðaefni kynbótabankans sem fer seint í þrot eða verður þjóðnýttur ætla ég að nýta mér kosti tveggja hrúta þeirra Púka og Prjóns en til að dreifa áhættunni meira hef ég hugsað mér að nota kannski Bramla og Kveik líka, jafnvel Kalda ef ærnar heima sýna viðskiptum við þennan banka áhuga rétt fyrir jól.
 
En best að hætta þessari þvælu í bil og þangað til næst hafið það sem best og munið ... hugsa jákvætt ... það bætir sál og líkama.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband