Það er spurning ...

... rakst á auglýsingu í Fréttablaðinu í gær frá Söluturninum Jolla sem óskar eftir áreiðanlegu og stundvísu fólki í vinnu og góð laun í boði fyrir rétt fólk.

Spurning um að hætta bara í þessu námi og sækja um vinnu þarna, það væri nú ekki amalegt að hitta á Jolla í Jolla. 


Mótmæli

Það eru allir flutningabílstjórar að mótmæla þessa dagana háu eldsneytisverði, en á endilega að vera ódýrt að keyra. Eru ekki bílar og það að keyra eitthvað sem flokkast má sem munaður hinna efnameiri? ég spyr nú bara.

Annað sem ég heyrði og fannst svolítil þversögn í var þegar Sturla talsmaður flutningabílstjóra var í viðtali á Stöð 2 og borði var saman bensínverð á Íslandi og norðurlöndunum, þ.e. álögur hér á landi væru lægri en þar, Sturla benti þá á að laun verkamannsins þar væru hærri þar en hér og því væri þetta réttlætanlegt, þ.e. alltaf þyrfti að bera saman laun verkamanns við verðlag. Í næstu setningu á eftir bar hann Ísland saman við Afríku og bensínlítrinn þar væri 74 kr., aldrei var minnst á laun verkamannsins í þeim efnum sem ég held að séu miklu lakari en hér.

Þó að verð  sé hátt þá verða menn bara að sníða sér stakk eftir höfði og það er ekki sjálfgefið að hægt sé að fara á rúntinn á hverjum degi. Nefni samt hér að ég held að langur tími muni líða uns ég keyri 2000 km. fyrir 10000 kr. af bensín eins og ég gerði á Nýja-Sjálandi í lok janúar sl. og keypti bensínlítrann þar fyrir 85 kr./L.

Hins vegar varpa ég fram þeirri spurningu á ekki einfaldlega að leggja sérstakar álögur á eldsneyti í Reykjavík í því efni að styrkja almenningssamgöngur og fólk nýti sér þær umfram einkabílinn (t.d. 5-10 kr/L) en hafa það lægra úti á landi því við landsbyggðarfólk getum ekki sniðið okkur að almenningssamgöngum og þurfum ætíð að nota einkabílinn til að gera almenn innkaup. Það finnst mér réttlæti.


Gamall og gráhærður

Spurning um að setja eitthvað hér inn svona til að halda einhverju lífsmarki á síðunni en ég er þessa dagana að vinna í verkefnabunka skrifborðsins sem vill bara ekkert minnka þrátt fyrir góðar tilraunir til þess, tek mér samt nokkuð reglulega frí frá þeirri iðju til að safna eða dreifa hvíta gullinu ásamt því að hafa mokað skít undan sæðingahrútunum. Held meir að segja að lýsingin „skapharður" um Raft sé réttmæt og jafnvel mætti nota enn kröftugar lýsingarorð um skapgerð hans eftir viðkynni okkar þann daginn.
 
Það er víst alltaf að verða dýrara að éta enda hækkar heimsmarkaðsverð gríðarlega mikið. Langar þó að koma með eitt ráð til neytenda svona á síðustu og verstu dögum. Farið í ELKO og kaupið frystikistu áður en þær hækka mikið í verði eins og þeir auglýstu um daginn. Í haust skulu þið síðan vera mjög hagsýn og birgja ykkur upp af heilum eða hálfum skrokkum í sláturtíðinni til að borða. Ég get lofað ykkur að þið kaupið lambakjötið þannig á mun hagstæðara verði en ella. Það krefst hins vegar þess að þið þurfið að hugsa meira ein einn dag fram í tímann hvað eigi að vera í matinn til að taka úr frystinum, ef þið eruð hins vegar svo upptekin af lífsgæðakapphlaupinu að þið getið ekki étið neitt annað en tilbúin mat helst búið að formelta hann fyrir ykkur get ég ekki vorkennt ykkur neitt þó þið þurfið að borga hærra verð fyrir matinn.
 
Þetta er reyndar þjóðfélagsvandamál því að fólk má aldrei vera að neinu, nennir ekki neinu því það er í sífelldu kapphlaupi við lífsgæðin. Eitt einkenni þessa vandamáls er leti, allavega hvað mig varðar. Ég nenni varla núorðið að opna bók og lesa, reyni að komast ódýrt í gegnum alla áfanga, reyndar reynir maður ekki að breyta gamalgrónum áföngum sem velta áfram á gamalli hefð (nokkrir slíkir við búvísindadeild) og því tók ég þá ákvörðun að læra bara utanað gömul próf eins og hefur reynst mér mjög vel í gegnum tíðina til að ná einum áfanga. Það reyndist hins vegar ekki vel og fékk mitt fyrsta fall skráð um daginn uppá 4,6. Þó ég hafi verið nýkomin frá Kívílandi átti ég að gera betur og ná þessum áfanga þó ég eyddi aðeins tveimur dögum í eiginlegan lestur á námsefninu.
 
Þetta hefur bæði kosti og galli í för með sér, kosturinn er augljóslega sá að ég fékk spark í rassinn og fer að opna bækur í meira mæli Errm, gallinn er hins vegar sá að ég þarf að ná öllum áföngunum í vor til að fá námslán sem eru hagstæðustu lán eins og staðan er á fjármálamörkuðum í dag. Reiknaði mér til gamans að það myndi sennilega kosta mig nálægt 700.000 kr. að fara til Nýja-Sjálands í dag og gera það sama og ég gerði þar fyrr í vetur (sumar þarna hinu megin).
 
En best að hætta þessu þvaðri og gera eitthvað nytsamlegra en vafra um netheima á afmælisdaginn sinn .............


Að velja brundhrút

Fyrir 157 árum og einum mánuði betur uppá dag birtist grein í ritinu Bóndi, læt hana fljóta hér.

FÁEINAR RELGUR UM FJÁRHÚSABYGGINU OG SAUÐFJÁRRÆKT

~2. grein um að velja brundhrút~
Hver sá, sem vill koma sér upp vænu og kyngóðu fé, verður með mikilli alúð og nákvæmni að velja sér brundhrút; þarf hann þá að þekkja grant allar ær sínar, svo hann getið valið hrútana undan þeim vænstu; ekki má hrútsmóðir vera eldri en 5 vetra þegar hrút skal velja, nema hún sé afbragð að öllu leiti, og ekki yngri en 3 vetur. Hrútamæður eiga að vera stórar og vel vaxnar, holdsamar og kviðgóðar, vel ullaðar og góðar mjólkurær, af kvillalausu kyni, þær skulu og vera stórspenar. Þegar ær fara að bera á vorin, skal fjármaður skoða nákvæmlega öll hrútlömbin. Þau, sem finnast vera brúnslétt, eða hafa slétta og skarðalausa bringu, þegar þau eru nýborin, munu verða holdsöm við aldurinn, ef þau fá gott uppeldi. Þessi einkenni eiga að vera á fallegum brundhrút; hann á að hafa stórt höfuð, nokkuð langa snoppu, breitt enni, þykkar nasir, stór, svört og fjörleg augu, langan og digran háls, sívalan búk og mikinn kvið, hann skal vera framhár og söðulbakaður, með digrar fætur, stóran, síðan og loðinn pung, ekki hokinn í mjöðmum; hann á eftir útliti að dæma, að vera hraustlegur og svara sér sem best á allan vöxt. Alvarlega skulu menn gæta þess, að brundhrútur sé af kvillalausu kyni í báðar ættir, því það eru ýmsir sjúkleikar, sem leggjast í ættir, t.a.m. höfuðsótt, sem svo er mjög ættgeng, að þótt ekki beri á henni í fyrsta og öðrum lið, þá getur hún komið fram í þriðja og fjórða lið; sama er að segja um bólgusótt (þvagteppu), lungnabólgu, sullaveiki og margar algenga fjárkvilla. Ekki skal heldur velja fjársauð (brundhrút) undan einspena á, eða þeirri, sem undir hefur hlaupið, því júgurmein eða undirhlaup getur orðið ættgengur kvilli. Þegar lömbin fara að stálpast, verða menn oft að skoða þau nákvæmlega, taka á þeim og líta eftir vaxtarlagi þeirra og bringulögun; bringan á að vera næstum jafnbreið fram í gegn, slétt með skarðalausar brúnir, útslegnum geislungum og fremur stutt aftur. Líka eiga menn vandlega að taka eftir ullalaginu; þau lömb, sem hafa stóran hrokkinn lagð, þá þau eru nýborin, verða oftast ullmikil með aldrinum; þegar hrútlömb hafa mjúka og smáflókna ull (er kiðlar) í hnakka og vöngum og sé kviðurinn, allir nárar og pungurinn vel loðinn með þykkri og mjúkri ull þá verða það eflaust ullgóðir sauðir. Vilji menn stuðla til að féð verði hvítt, þá verður brudhrútur að vera hvítur og af hvítu kyni í báðar ættir; má hann hvorki hafa svarta dropa á snoppu eða eyrum, né heldur svarta geira í hornum eða klaufum; því hafi hann eitthvað af þessu þá er hætt við að undan honum komi mislitt. Lömb þau, sem hafa stríhærða og heldur litla ull á mölum, þótt þau séu all ullgóð að framan, verða ekki ullgóð með aldrinum; séu lömb skjallhvít og geithærð í framan, þá mun búkurinn líka verða hríshærður. Það er órækt merki á ullgóðu fé, að þegar það er rúið, hafi það annars gengið vel undan, þá er nýja ullin vel þétt og eintómt þel; en sé mikið af illhærum og löngu ljótu togi, er menn kalla hortog, út úr nýju ullinni á fé því, sem er í góðum holdum og vel fyllt, þá er það merki um vonda ull. Það er gerandi að lára 2 eða 3 afbragðsvænar ær fá svo sem rúmri viku fyrir venjulega fengitíð, en þá þurfa þær að eiga vel gott þegar kemur fram á útmánuði; fái maður nú fallegan hrút undan einhverri þeirra, þá ætti hún að ganga með dilk, ætli maður sér hann fyrir brundhrút; en þó er það varasamt þar sem hrútum og sauðum er hætt við bólgusótt, því dilkum þykir öllu hættara við henni en öðrum lömbum.
 
Úr ritinu Bóndi 1. blað 13. dag febrúarmánaðar 1851
 
Margt af þessu á við enn þann dag í dag þó þetta sé nú kannski ekki sú forgangsröðun sem maður lærir í kynbótafræði í dag. Finnst samt að taka mætti eitthvað þessum lýsingum aftur upp í hrútaskrá því þarna er fjölbreytt úrval góðra lýsingarorða. 
 

Bíllinn minn ...

... fékk útgefið dánarvottorð af bilanagreiningu Toyota í dag sem ég á bara eftir að kvitta undir. Gallinn er bara sá að ég á ekki pening til kaupa nýjan bíl eins og er eftir utanlandsferð og tölvukaup. Bíð samt með eftirvæntingu eftir námslánunum, þarf að tileinka mér fátæklegan námsmannamat á næstunni sem samanstendur af núðlum og svoleiðis góðgæti í hvert mál.

Sauðfjárrækt "auðlind eða ekki auðlind"

Þessi pistill byggist að mestu leiti á verkefni sem ég gerði í áfanganum Maður og náttúra fyrir rúmu ári síðan, held að flest af því sem kemur fram hér eigi jafnvel við í dag sem þá.

Þessi pistill mun fjalla um sauðfjárrækt á Íslandi með tilliti til auðlindanýtingar en að mínu mati er sauðfjárrækt ein af stærstu auðlindunum sem íslenskar sveitir eiga um þessar stundir. Af hverju? Jú það væri nú ekki mjög búsældarlegt um að lítast í hinum dreifðu byggðum landsins ef engin nýting færi fram á henni þar og er sauðkindin lífæðin í því að sumar byggðir á jaðarsvæðum þessa lands eru í byggð enn þann dag í dag. Sauðkindin hefur verið partur af þjóðinni frá örófi alda, hún kom til landsins með landnámsmönnunum er þeir námu hér land fyrir ca. 1150 árum. Að uppruna til er þetta norður evrópskt stuttrófukyn, reyndur hefur verði flutningur annarra kynja til blöndunar í gegnum árin en það hefur alltaf haft einhverja sjúkdóma í för með sér hér á landi.

En hvernig hefur hún nýst þjóðinni, í upphafi landnáms var meiri áhersla lögð á nautgriparækt í landinu en með versnandi hag og kólnandi veðurfari á miðöldum varð áherslan meiri á sauðfjárrækt og þá aðallega til að framleiða hið hvíta gull sem var mjög mikilvægt á miðöldum. Hvíta gullið? kann einhver að spyrja en mjólk og mjólkurafurðir voru gríðarlega mikilvægar til að framfleyta heilu fjölskyldunum. Voru lömbin þá færð frá ánum um mitt sumar og mjólkaðar fram á haust til að birgja heimilin upp að smjöri og ýmsum öðrum mjólkurmat fyrir veturinn. Fráfærur eins og þetta kallaðist voru stundaðar hér á landi fram til aldamótanna 1900 og á stöku stað héldust þær til 1950.

Aðrar afurðir sem sauðkind gaf af sér var kjöt og ull, en vaðmál sem unnið var úr ull var ein helsta útflutningsvara þjóðarinnar á miðöldum auk þess sem ullin var notuð í allar þær flíkur sem landsmenn klæddust á þessum árum. Og ég segi það satt að sé maður í ullarfatnaði út í slæmum veðrum þá er maður mun betur settur en að vera í einhverjum nýmóðins gerviefnum, ullin heldur alltaf á manni hita, sama hvernig viðrar. Skinnið af kindinni var einnig nýtt og var aðalskóggerðaefni Íslendinga fram á 20. öld. Nú á tímum er nýting sauðkindarinnar aðallega fólgin í því að framleiða kjöt og hefur fjárfjöldinn verið nokkuð breytilegur í gegnum aldirnar, t.d. var stofninn ekki stór eftir móðuharðindin og hann minnkaði mikið við alla þá niðurskurði sem framkvæmdir voru á sauðfé til að reyna útrýma sjúkdómum, t.d mæðuveiki og fjárkláða. Fjárfjöldi varð flestur á landinu á áttuna áratug síðustu aldar en þá voru um 900.000 kindur ásettar í landinu, þær höfðu gríðarleg áhrif á landið með beit sinni og á sumum stöðum var um mikla ofbeit og landtjón að ræða.

Það fer hins vegar fyrir brjóstið á mér sú umræða sem skýtur öðru hvoru upp í fjölmiðlum um að sauðfjárbændur séu líti á þjóðinni, þeir séu styrktir af ríkinu til að eyðileggja landið og þar fram eftir götunum. Vissulega get ég fallist á það að landgæðum hnignaði víða mjög mikið við beit sauðfjár og ekki síst á hálendi landsins. En það að sauðfjárbændur séu að eyðileggja landið get ég ekki fallist á, vissulega er ég hlutdrægur í skoðun minni en satt best að segja þá held ég að sauðfjárbændur séu þeir sem þekkja landið hvað best allra landsmanna, ekki nýmóðins menntamenn sem státa af einhverjum gráðum frá erlendum háskólum. En hvernig þekkja þeir landið svona vel? Svarið er, þeir fara um landið þegar þeir smala kindum og þeir þekkja bestu leiðirnar um landið á aldagamalli hefð og einnig þekkja þeir örnefni síns svæðis betur en aðrir og þannig varðveitast þau kynslóð fram af kynslóð en falla ekki í gleymsku.

Það að sauðfjárbændur sé í áskrift af peningum hjá ríkinu með styrkjum er ég ekki sammála, en vissulega má endurskoða styrkjakerfið og fyrirkomulag þess, en þessir styrkir hjálpa til með að bændur hafi viðunandi tekjur til að lifa af, ef þeirra nyti ekki væri þeir sennilega mun færri og mun eyðilegra um að litast í sveitum landsins. Sem dæmi má nefna er partur af ríkisstuðningi núna greiddur í formi gæðastýringarálags, gæðastýring felst í því að yfirlit yfir búreksturinn sé í góðu lagi og meðal annars þarf búið að uppfylla kröfur um landnýtingu, þ.e. búið þarf að hafa land fyrir allan þann bústofn sem er á jörðinni, annars falla greiðslur fyrir gæðastýringu niður. Til að halda landgæðum í sem bestum horfum þarf að beita fé meira á heimalönd og er það svo víða um land og á sumum svæðum í mínu heimahéraði Dölunum hefur fé fækkað það mikið að gróður hefur aukist það mikið að erfitt er að komast um svæðin. Hljómar einkennilega en er satt.

Á árabilinu 1980 til 2005, fækkaði ásettu sauðfé í landinu um 40% en framleiðsla sauðfjárafurða minnkaði hins vegar um rúm 30% sem segir manni að gripirnir eru að framleiða meira núna en þá og núna held ég að ofbeit sauðfjár sé varla til nokkurs staðar á landinu í dag, ég held frekar að hrossabeit sé of mikil á sumum svæðum og það hraki landgæðum en einnig er umgegni ferðamanna mjög slæleg á sumum svæðum sérstaklega á hálendinu.

Það skemmtilegasta við sauðfjárræktina er ræktunarstarfið, að para saman gripi og vita hver útkoman verður, þeir sem eru í sauðfjárrækt af líf og sál eru út í fjárhúsum öllum stundum til að spá og spekúlera um ræktun, hvernig fæ ég mest kjötgæði, hversu vel gerð er kindin, þetta eru allt hlutir sem sauðfjárbændur sjá fljótt en auðvita sýnist sitt hverjum. Þetta er sumum hulin ráðgáta að skilja en fyrir mér er sauðfjárrækt ekkert öðruvísi en nútímaborgarbúinn með knattspyrnu sem áhugamál og þurfa öllum stundum að spila fótbolta, horfa á hann í sjónvarpinu eða spila fótboltaleiki í tölvunni.

Hver og einn gripur hefur sinn karakter og sumir þeir sem umgangast þekkja hvern og einn einstakling annað hvort með nafni eða númeri og er ég einn þeirra. Það að hafa alist upp við að þekkja kindurnar svona hefur síðan hjálpað mér út á við í lífinu, t.d. man ég nöfn á fólki mjög vel og get sett það í samband við eitthvað annað tengt það við útlit eða mynd ef ég hef séð það. Þetta er hæfileiki sem er sumum hulinn en fyrir mér er þetta auðvelt og hefði ég ekki byrjað að þekkja kindurnar heima sem lítill polli væri ég sennilega ekki eins góður mannþekkjari og ég er í dag.

Ég ætla hér að láta staðar numið í umfjöllun minni um sauðfjárrækt í landinu sem auðlindanýtingu, það er margt meira hægt að skrifa en sauðfjárræktin tekur á svo mörgum atriðum en lykilatriði til að geta verið sauðfjárbóndi í dag og haft gaman af því er að vera svolítið "kindarlegur" í hugsun eins og einn viðmælenda Gísla Einarssonar orðaði það í Út&suður þætti.


Lærdómsríkt að kynnast nýsjálenskum landbúnaði

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður nemendafélags Landbúnaðarháskóla Íslands, stundar nú nám fjórða vetur sinn við skólann. Hann lauk búfræði til tveggja ára en er nú á öðru ári í búvísindadeild. Í vetur tók hann sig til, lagði land undir fót, og fór einn síns liðs til Nýja-Sjálands þar sem hann starfaði í þrjá mánuði á sauðfjárbúi og kynntist hinum ýmsu hliðum nýsjálensks landbúnaðar, sem er um margt ólíkur þeim íslenska.

„Þetta var alfarið mín ákvörðun að fara út því mér fannst ég þurfa að skipta um umhverfi og ég þurfti örlitla áskorun fyrir sjálfan mig. Einnig fléttaðist inn í að ég var kominn með svolítinn námsleiða þannig að þetta var rétti tímapunkturinn. Ég talaði við Valdimar Einarsson, frá Lambeyrum í Laxárdal sem búsettur er á Nýja-Sjálandi, hann var mjög áhugasamur og útvegaði mér vist á sveitabæjum. Síðan keypti ég mér flugmiða og vissi í raun ekkert hvað ég var að fara út í," útskýrir Eyjólfur og brosir að endurminningunni.

Snýst um magn frekar en gæði

Eyjólfur dvaldi í þrjá mánuði á Nýja-Sjálandi, frá nóvember og fram í febrúarbyrjun á suðureynni nálægt bænum Riverton. „Ég var syðst á suðureynni sem er mikið landbúnaðarsvæði og var mestan hluta tímans á sauðfjárbúinu Lawson Lee. Þetta var fimm þúsund kinda bú og einnig voru þau hjónin með 180 nautgripi en þetta er aðeins stærra en meðalbú á Nýja-Sjálandi. Þau keyptu nautgripi, fóðruðu þá upp í sláturstærð og sendu síðan til slátrunar en einnig voru þau með kvíguuppeldi fyrir einn nágranna sinn, auk þess að halda örfá dádýr," útskýrir Eyjólfur sem er frá Ásgarði í Hvammssveit, Dalasýslu. Eyjólfur tók þátt í almennum störfum á bænum og segir hann það hafa verið svolítið sérstakt að upplifa að árstíðirnar þar eru öfugar á við okkar en í nóvember aðstoðaði Eyjólfur við vorverkin á bænum þegar sáð var í flög.  „Það eru allt önnur lögmál sem gilda þarna varðandi búskapinn og allt snýst um beit og að framleiða sem mest á sem stystum tíma. Þetta var kynbótabú þar sem 400 kindur voru skráðar með merkjum í skýrsluhaldi en restin var einungis til að framleiða kjöt og ull. Nýsjálendingar nýta landið á allt annan hátt en hér heima og að mínu mati snýst þetta um magn frekar en gæði hjá þeim," segir Eyjólfur.

Kynbætur sauðfjár fara m.a. eftir ormaeggjum

Eyjólfur segir búskaparháttunum á Nýja-Sjálandi fylgja ýmis vandamál sem bændur hér heima á Íslandi þurfi ekki að glíma við í jafnríkum mæli. „Ormasmit er algengt vandamál þarna vegna álags á beitiland en þessa þrjá mánuði sem ég var úti voru lömbin ormahreinsuð þrisvar sinnum, fyrst átta vikum eftir sauðburð, síðan fjórum vikum seinna og aftur mánuði eftir það. Það var líka sérkennilegt að upplifa það að hluti af kynbótum sauðfjár er að telja ormaegg í skítnum af hrútunum, sé of mikið af þeim, eru þeir ekki æskilegir til kynbóta. Ég hugsa að það verði seint farið að auglýsa ormalyf hér á RÚV milli frétta og Kastljóssins en sú var raunin úti, enda mikil samkeppni milli ormalyfjaframleiðenda," segir hann brosandi. Eyjólfur upplifði að margt var ólíkt með starfsaðferðum nýsjálenskra og íslenskra bænda og einnig hefða í löndunum. „Jörðin sem ég starfaði á var allt í allt rúmir 500 hektarar og dugði vel fyrir bústofninn en þetta var heldur stærri jörð en meðaljörðin úti og þeim fannst því skrýtið að heyra um stærðir íslenskra jarða m.v. þann beitarþunga sem þær bera. Meðalbúið úti er um tvö þúsund kinda bú og að mínu mati er það sambærileg vinna eins og 500 kinda bú hér heima. Skepnurnar eru úti allt árið, einungis skýli til að vinna við flokkun og rúning, einnig þarf að víxla á milli beitarhólfa og það tekur einungis nokkrar mínútur þegar hægt er að kalla á kindurnar og þær koma. Mér er minnisstætt að bændunum úti fundust mjög sérstakar lýsingar mínar á íslenskum göngum og réttum, þeim fannst þetta hálfgerð villimennska og þeir höfðu skýrar hugmyndir um hvaða aðferðum væri sniðugra að beita," segir Eyjólfur.

Mættu temja sér nýsjálenskan hugsunarhátt

Á Nýja-Sjálandi var aðstaða og tækjakostur bænda ekki jafn nútímalegur og hérlendis og segir Eyjólfur að íslenskir bændur megi læra margt af starfsbræðrum sínum á Nýja-Sjálandi hvað þetta varðar.  „Þarna styrktist ég í þeirri trú að við höfum það sennilega of gott hér heima. Hér missa margir sig í vitleysu og hugsa ekki um annað en fjárfestingar og peninga og steypa sér út í það. Á Nýja-Sjálandi er ekki vaðið í að kaupa nýtt tæki þó að hin séu ekki nógu flott. Það er ákveðið stöðutákn í íslenskum landbúnaði að vera á stærsta og flottasta traktornum sem er í raun skrýtinn hugsunarháttur því þetta er allt vinna sem þarf að inna af hendi og ef gömlu og slitnu vélarnar duga þá duga þær," segir Eyjólfur og bætir við; „Þeim fannst mjög sérstakt að kúabóndi hér heima væri með mjaltaþjón fyrir 50-60 kýr og tölvustýrða tækni við fóðrun, einn komst svo að orði að þetta væru „lazy bastards" hér heima eða letingjar. Í mjólkurframleiðslunni úti eiga menn ýmist jarðirnar eða að ábúendur eru ýmist verktakar eða leiguliðar. Hið síðarnefnda er í raun mjög algengt og þá er ákveðið fyrirkomulag milli eiganda og leigutakans en aðeins er gerður samningur til eins árs í senn svo þetta er fremur ótryggur búskapur fyrir þann sem í hlut á."

Úr sauðfjárbúskap í kúabúskap

Það eru ýmsar hræringar í nýsjálenskum landbúnaði sem Eyjólfur varð vel var við, mestar voru umræðurnar um þær breytingar sem eiga sér stað núna, þar sem margir sauðfjárbændur eru að skipta yfir í kúabúskap. „Nú fæst meira fyrir mjólkur- en kjötframleiðslu og því er þetta umhverfi að breytast mikið þarna úti. Ég skynjaði ákveðna depurð út af þessu hjá sauðfjárbændum og viðskipti í kringum sauðfé eru lítil sem stendur. Það er breytilegt eftir því hvar í landinu maður er hvaða sauðfjárkyn menn hafa en ég heyrði af hrútauppboð og þar var hrútur af Perendalekyni sleginn á 650 þúsund krónur íslenskar sem telst nú dágott. Það sama var uppi á teningnum varðandi áburðarverð hjá þeim eins og hér heima, sem fer hækkandi þó ekki eins mikið, en nýsjálenskir bændur nota mikið af honum. Á sauðfjárbúinu sem ég var á fara um 100 tonn af áburði á rúma 500 hektara og hjá kúabændunum er notaður heldur meiri áburður," útskýrir Eyjólfur sem fékk að líta inn í eitt mjólkursamlag og sláturhús á meðan hann dvaldi þar ytra.  „Mjólkursamlagið sem ég kom í framleiðir úr 11 milljónum lítra á dag og þeir reiknuðu með að aukningin yrði upp í 13-14 milljónir lítra á dag eftir fimm ár. Mjólkurbíllinn er því orðinn fullur eftir heimsókn á 2-3 bæi. Nýsjálenski kúabóndinn er að fá um 28 krónur fyrir lítrann en það á sennilega eftir að hækka. Einnig kom ég í sláturhús þar sem 32 þúsund kindum var slátrað á dag í fullum afköstum og er það í gangi nánast allt árið um kring. Í ágúst, september  og október er þó fremur rólegt þar."

Lærdómsríkt og mikill skóli

Eyjólfur er afar ánægður með dvölina og segist hafa lært mikið á stuttum tíma. Hann viðurkennir þó að þetta hafi ekki alltaf verið dans á rósum og heimþráin togaði oft á tíðum sterkt í hann.  „Ég fór hringinn í kringum hnöttinn og sat í 60 tíma í flugvél og þegar ég hugsa það eftir á,  þá er það meira en að segja það að vera aleinn í öðru landi. Ég hélt þó úti bloggsíðu á meðan ég var á Nýja-Sjálandi og það gaf mér aukinn styrk þegar ég fékk skemmtilegar athugasemdir inn á hana. Eitt af markmiðum mínum með því að fara þarna út var að bæta enskukunnáttu mína og það tók mig alveg þrjár vikur að skilja framburðinn hjá þeim. Það var ekki síður skóli að læra nýtt tungumál en það sem hjálpaði mér óneitanlega var hversu vel fólk tók mér þarna úti," segir Eyjólfur.  Eyjólfur vill koma sérstökum þökkum til kennara og kennsluskrifstofu Landbúnaðarháskólans  sem sýndu honum skilning varðandi hlé frá námi og fyrir þann sveigjanleika sem hann fékk frá reglunum.  „Þetta var búið að vera draumur hjá mér í nokkur ár og er ekki sagt að maður eigi að láta drauma sína rætast? Mörgum fannst þetta gott hjá mér að hafa drifið í þessu en ég er á þeirri skoðun að það sé lærdómsríkt fyrir alla að skoða heiminn, kynnast annarri menningu og öðrum starfsháttum. Ég mun búa að þessari reynslu lengi og það er aldrei að vita nema ég taki mér einhverja aðra svona ferð fyrir hendur seinna," segir Eyjólfur og brosir út í annað.

Viðtal við höfund þessarar síðu sem birtist í Bændablaðinu í dag. Smá ruglingur varð þó á myndum þar og hér koma réttar myndir og myndatexti.

Dæmigerður mjaltabás á NZ, 30 tæki og mjólkað til skiptis á vinstri og hægri hlið.
Á myndinni má sjá þá Graeme Black og Tony Anderson vinna við ormahreinsun.

Getraun

Ekki get ég nú sagt að það sé mjög gaman að lesa undir próf í plöntulífeðlisfræði er þó búinn að hafa mig í gegnum námsefnið einu sinni sem er nú afrek út af fyrir sig þar ég held að þetta sé mest óspennandi fag sem ég hef komist í, á átján ára skólagöngu minni.

Hvað um það, ég hef ákveðið að skjóta hér öðru hvoru inn fróðleik um íslenska sauðfjárrækt sem finna má mikið um í ýmsum gömlum ritum, s.s. Búnaðarritun, mun skemmtilegra að grúska í því út á bókasafni í prófaundirbúningi en nokkurn tíma því sem maður á að vera lesa það sinnið. Í fyrsta skiptið ætla ég að standa fyrir smá getraun og er þetta í raun stofn úr spurningu í Viskukúnni fyrir þremur árum. Þannig var að fyrir rúmum hundrað árum ferðuðust tveir bræður um Ísland og skoðuðu sauðfé og lýstu því, annar hét Hallgrímur Þorbergsson og mig minnir að hinn hafi heitið Jón og voru þeir úr Suður-Þingeyjarsýslu.

Getraunin að þessu sinn er hins hvar á landinu lýstu þeir sérstökum stofni með eftirfarandi orðum:

"langt og grant beinalag og ósamræmi í sköpulagi, hryggur kryppuvaxinn og sterkur, brjóstholið stutt og þröngt, ullin stutt og á mörgu gróf; andlitslitir: svardropótt, hvítt og gult."


kindur.is

er góð viðskiptahugmynd en ósköp held ég að verði lýjandi að taka á móti fjölda fóstra/eigenda koma og sjá litlu sætu lömbin sín á sauðburði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband