Færsluflokkur: Bloggar

846 eða eiga þau að vera 1269

Það verður að viðurkennast ég er ekkert alltof duglegur að skrifa hér inná síðuna enda held ég að minna fari fyrir bloggurum í dag en fyrir tíma nýja sveitasímans (Facebook). Undafarið hef ég reynt að skilgreina betur lokaverkefnið þar sem skólinn ekki byrjaður vegna slaks upplýsingaflæðis hjá Norðmönnum.

Þannig er að upphaflega gerði ég ráð fyrir að áfanginn sem ég á eftir að taka yrði kenndur í ágúst og gerði ráðstafanir með það þegar ég pantaði flug í vor. Fyrir tilviljun komst ég svo að því að áfanginn yrði kenndur á haustönn og byrjaði 1 september, seinkaði ég því flugi út til þess að ég yrði ekki í of miklu aðgerðarleysi hér í ágúst. 31 ágúst fæ ég síðan póst þar sem mér er tilkynnt að kennsla í áfanganum byrji ekki fyrr en 14 september en þann 15 fer ég aftur til Íslands í smalamennskufrí. Fínt að láta vita en ég hefði jafnvel sleppti því að koma út fyrr en í byrjun október ef ég hefði verið látinn vita í sumar, en þetta er norska reglan, svo þetta kom kannski ekki mjög á óvart.

Þar sem ég hef haft mikinn dauðann tíma hef ég verið nokkuð duglegur við að fylgjast með fjölmiðlum og finnst breytingarnar á ríkisstjórn Íslands í síðustu viku jákvætt merki hjá annars máttlausri stjórn. Hef þó eitt spurningarmerki varðandi breytingarnar og það er embætti efnahags- og viðskiptaráðherra, ætli hver sem er geti bara sest þar inn, finnst oft eins og þetta ráðuneyti hafi verið notað sem pólitísk skiptimynt til að hafa menn góða undanfarin ár, með fullri virðingu fyrir núverandi ráðherra og forverum hans. Allavega held ég að ábyrgð á mörgu í aðdraganda hrunsins megi finna í þessu ráðneyti sem segir mér að þar innanborðs hefur verið og er sennilega enn fullt af smákóngum eða þá að æðstavaldið (ráðherra) hefur verið þar uppá puntið.

Síðan má velta fyrir sér hvort verði eiginleg hagræðing af sameiningu ráðuneyta, getur þetta bara ekki orðið til þess að yfirsýn ráðherra minnkar og fjöldi embættis„smákónga" eykst? Ég er ekki viss um að það sé það sem Íslendingar vilja en menn skýla sér bak við að þetta sé í anda „norrænnar velferðar" en mín kynni af henni eru ekkert annað en svifasein stjórnsýsla, sbr. upplýsingarflæðið hér að ofan.

Allavega verkefni dagsins var að fækka aðeins þeim greiningum sem ég þarf að gera er kominn núna í 846 greiningar (reyndar sinnum 10, þar sem hver greining verður endurtekin 10 sinnum), veit ekki hvort leiðbeinandi vill að ég fækki þeim meira, kemur í ljós síðar í vikunni. Eitt allavega víst, ég verð orðinn vel æfður í að slá tölur inní Excel þegar nær líður jólum.


Koma konurnar ekki líka

Þá er ég mættur til Noregs á nýjan leik og því rétt að hefja upp raus sitt hér á þessa síðu. Kom hingað á þriðjudaginn eða hálfum mánuði seinna en áætlun hljóðaði uppá í vor en það stafar af því að eini áfanginn sem ég á eftir var ekki kenndur nú í ágúst heldur verður á haustönninni og byrjar næsta þriðjudag. Annars mun þessi vetur að mestu fara í vinnu við lokaverkefni sem loks hefur verið skilgreint og ber vinnutitilinn Sheep breeding schemes for Iceland based on artificial insemination eða í lauslegri þýðingu ræktunaráætlun fyrir íslenskt sauðfé með notkun sæðinga.

Við fyrstu sýn virðist mér fátt hafa breyst hér í Noregi í sumar ef eitthvað er, hér er ennþá óþarflega heitt fyrir mína parta enda viðbrigði að koma úr norðan strekking í hlýindi og rigningu sem hér hafa verið þessa vikuna að hluta, veit samt ekki hvernig gengur að þurrka korn á hesju í þessari veðráttu en mér finnst þessi norska þurrkunaraðferð alltaf jafn sérstæð, þ.e. að hengja fóður upp til þerris.

Hesja

Annars fór bara sumarið ágætlega með mig, sauðburður gekk vel í vor og fóru 659 lömb lifandi á fjall í vor sem er vel ásættanlegt þó frjósemi hefði mátt vera ívið meiri seinnihluta sauðburðar. Einnig heyjaðist ljómandi vel og á þeim stykkjum sem mesta uppskeru gáfu var hún um 6000 kg þe. sem verður að teljast nokkuð gott. Síðan hefur hesthúsbygging sú sem hófst árið 2006 tekið aðeins meiri mynd á sig í sumar en síðustu sumur og fer að verða fokheld. Þessi mynd er reyndar tekin í lok júlí.

 IMG 5328

Annars hélt ég mig mest á mjólkurbílnum í sumar eða tæpar sex vikur og var stærri hluta tímans á Patreksfirði að leysa af á bílnum þar. Með því að vera þar gafst mér tækifæri til að skoða mig aðeins um Vestfirði og einni daginn tók ég mig til og fór á alla þéttbýlisstaði Vestfjarða sem ég átti eftir að skoða og gat gert þann daginn (Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafjörður, Hnífsdalur, Bolungarvík og Súðavík). Á ég þá aðeins einn slíkan stað eftir þó smár sér en það er Norðurfjörður í Árneshreppi, en hef komið á alla hina 14. Þau eru nefnilega ótrúlega mörg þéttbýlin á Vestfjörðum.

Annars stoppa ég stutt við hér úti núna en ég fer aftur til Íslands um miðjan september í smalamennskur og tengd störf í þrjár vikur. Ætla aftur hingað út í byrjun október, vonandi verður lokaverkefnið komið af stað fyrir þann tíma en ég er hálf atvinnulaus þessi dægrin þar sem ég er að bíða eftir upplýsingum frá Íslandi og leiðbeinandi þarf að finna tíma til að starta verkefninu, fékk þó 260 blaðsíðan kennslubók í gær til glöggva mig betur á því sem ég er að fara gera.

Ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en ef einhverjir eru enn að velta titli þessara færslu fyrir sér er hann vísun í einn lítinn Ásverja sem var að velta fyrir sér hvort meðleigjendur mínir síðasta vetur þær Anna og Snædís kæmu líka núna. Svo er ekki, Anna er kominn til Íslands og Snædís á leið til Grænlands og ég búinn að finna mér aðra meðleigjendur þennan veturinn eða þau Ingu Völu og Steingrími, segið svo að Hvanneyringar haldi ekki hópinn utan Hvanneyrar .................


På Gardenmoen

Alltaf gaman að bíða á flugvöllum og þá er ekkert betra en skrifa eins og eina bloggfærslu, verður reyndar síðasta færslan í bili enda nennir maður ekkert að blogga meðan maður verður á Íslandi í sumar. En ég er semsagt á leiðinni heim núna eftir ef guð og Eyfjallajökull lofar. Merkilegt en satt þá er þessi skólavetur liðinn og 60 einingar sennilega í höfn, allavega gekk vel í þessum tveimur prófum sem ég fór í og öllum verkefnum skilað þannig að þau ættu að fá þokkalegasta námsmat. Annars er einkunn afstætt hugtak.

Þegar ég horfi til baka þá er maður bara búinn að skólast heilmikið til í vetur þrátt fyrir smá byrjunarörðugleika, hvort maður er víðsýnni hef ég ekki hugmynd um. Brekkan sem um var ritað fyrst í haust er samt jafn brött en sú andlega er meira aflíðandi.

Samt merkilegt hvað maður getur sankað að sér dóti á hverjum vetri, var í mestu vandræðum að pakka niður í morgun þrátt fyrir að skilja stærri hlutann af dótinu eftir þar sem maður kemur hingað aftur í ágústbyrjun til að læra meira og meira. Vona samt að fari ekki fyrir mér eins og [því miður] fer fyrir mörgum og Steinn Steinarr lýsir í þessu kvæði:

Betra er að vera af Guði ger

greindur bóndastauli

en að heita hvað sem er

hámenntaður auli

Held nefnilega að alltof margir hafi farið þennan veginn á síðustu árum, sérstaklega við stjórn ríkisins, það er verður aldrei hægt að skýla sér bak við menntun því það eitt hef ég lært á þessari skólagöngu minni að engi vísindi eru heilög (raunar eru þau mörg býsna brothætt) og því ætti heilbrigð skynsemi ætíð að ráða ef vafi leikur á hvað skal gera. Nenni varla að eyða orðum á siðblinduna sem nú hrjáir þá sem keyrðu landið í þrot, kannast ekki neitt við neitt og neita að gangast við ábyrgð, held væri réttast að þessir menn mokuðu skít og sinntu samfélagsþjónustu í eins og tíu ár, það verður of gott fyrir þá að sitja í fangelsi ef einhvern tímann næst að sanna glæp á þá.

Allavega eru fangelsin hér í Noregi orðin of góð og betri en mörg hótelherbergi enda hefur þetta aðeins verið í fréttum að undanförnu. Þó ég ætli nú ekki að vera með neina dómsdagsspá finnst mér Norðmenn að vissu leyti vera í íslenskum 2007 fasa (kaupa og kaupa jafnframt því að taka 100% lán) og trúa því að ekkert geti farið á versta veg, því miður held ég að þeir eigi eftir að glíma við sína kreppu en ég held nú samt að bankakerfið þeirra hrynji ekki. Eins held ég að styttist í sundrung Brusselvaldsins, það stefnir hraðbyr inní seinni bylgju kreppunnar sem menn töluð alltaf um, þar var bara rétt sópað undir teppið, ekki tekið til, skil ekki hvernig hægt er að byggja hagkerfi endalaust á loftbólupeningum. Meðan ekki eru raunveruleg verðmæti bak við hlutina verður efnahagsleg kreppa, ætli sé til að mynda innistæða fyrir öllum þeim peningum sem skráðir eru á efnahagsreikninga heimsins. Spyr sá sem ekki veit.

Næst á dagskrá er hins vegar sauðburður og bunki af klassískum heimsbókmenntum eða ævintýri Andrésar andar og félaga frá áramótum. Svo vona ég að bæði efnahagslegum og náttúrlegum hamförum farir að linna á Íslandi, held að hvoru tveggja gerist þegar þessi „sýndarríkisstjórn" Íslands segir af sér, því fyrr því betra fyrir alla aðila. Vona að ósk mín rætist áður en ég blogga næst um miðjan ágúst, hafi einhvern tímann verið spilling í íslenskum stjórnmálum þá er hún núna, það leynist engum skynsömum manni.


Russefest

Apríl senn á enda og ekki get ég kvartað yfir að tíminn gangi á hraða snigilsins. Flestar kennslustundir að verða búnar og prófin á næsta leiti eins og ég margoft hefur komið fram áður. Allavega gekk ég frá fyrsta masterssamning í dag sem skila þarf fyrir 15. maí og get því byrjað að vinna í verkefninu fljótlega eftir að ég kem hingað aftur í ágúst, verður sjálfsagt „rosa gaman" að fara vinna við forritun, allavega skildist mér að lokaútreikningar verði gerið inní Osló í einhverju tölvuveri og tekur víst einhverja daga fyrir tölvuverið að reikna. Bara svona til að gefa vísbendingu um stærðargráðuna.

Annars fékk ég merkilegt SMS í vikunni frá vinum mínum í SiÅs sem klúðruðu öll varðandi húsnæðisumsókn mína í haust en skeytið var á þá leið að greiðsluseðill (purrefaktura) hefði verði sendur í póstboxið mitt og síðasti séns til að borga væri 4. maí. Þar sem ég vissi ekki til að ég skuldaði þessu fyrirtæki neitt og þess heldur hef ég ekkert pósthólf hjá þeim, kom ég við á skrifstofu þeirra í dag til að kanna hvað hér væri á seiði. Gekk sú heimsókn ágætlega án þess að til átaka eða rifrilda kæmi og fannst skýring á þessu, merkilegast fannst mér samt að konan þar þekkti mig frá því í haust og mundi allt um mín mál og þá trúlega klúður SiÅs, ég hlýt bara að vera svona eftirminnilegur.

Lá misskilningurinn í að ég var á listi yfir þá sem hefði fengið sæng og diska eða svokallað startpakka í haust og ætti eftir að borga hann. Aldrei fékk ég slíkt og trúði hún mér alveg án þess að vera gera vesen úr þessu og ætlaði að fella skuldina niður. Held að þetta sé ekki einsdæmi hjá þessu blessaða fyrirtæki því ég er alltaf að heyra einhverjar sögur á þessa leið. Velti bara fyrir hvort það séu álög á nemendagörðum og starfsmönnum þar að klúðra hlutum því þetta minnir mig mikið á vísitöluklúðri sem við börðumst við að fá leiðrétt síðasta vetur á Hvanneyri.

En að öðru, þegar ég var leiðinni í skólann fyrir viku síðan fór ég að velta fyrir af hverju svona margir af þeim sem eru í framhaldsskólanum hér í Ási væru klæddir í rauðar smekkbuxur með ýmis konar skrauti. Komst svo að því að þetta er dimmitering þeirra Norðmanna eða „Russefest" og stendur mun lengur en sú íslenska, meir og minna yfir allan prófatímann hjá þeim hörðustu hér, eins gáfulegt og það nú er. Síðan fá þau einhvern með bílpróf til að rúta um með sig á þar til gerðum Russebílnum sem eru rauðir líkt og smekkbuxurnar. Mæti þó nokkrum russum í morgun á leiðinni í skólann en ég labba framhjá framhaldsskólanum á leiðinni og þegar ég kom við í matvörubúðinni voru flestir að kaupa þennan týpíska partýmat eða pizzu, snakk og BJÓR og nóg af honum. Datt síðan inná síðu sem selur föt fyrir russa og ég segi nú bara, hvað er ekki til þarna.

Síðan velti ég fyrir mér hvaðan þeirri hugmynd skaut niður í kollinn á Samfylkingunni að fara taka upp lurkakyndingu á köldum svæðum Íslands sem ekki njóta hitaveitu í nýrri byggðaáætlun. Hvar ætla þeir að fá allan viðinn til að brenna og svo ég tali nú ekki um þær breytingar sem þarf að gera á húsum til að koma fyrir strompi ... ég held stundum að eitthvað vanti milli eyrnanna á þessum skrifstofupésum sem setja svona á blað.


Ánamaðkar og froskar

Eins og titillinn gefur til kynna er rigning þessa stundina í Ås sem er bara hið besta mál fyrir gróðurinn enda er ég ekki fjarri því að grasið hafi aðeins lengst í dag, allavega er mun grænna um að líta og verður trúlega orðið hvanngrænt í byrjun næstu viku ef fram heldur sem horfir.

Annað merki um að vorið sé komið er aukinn fjöldi froska í umferðinni, allavega hafa þó nokkuð margir verðið á ferðinni síðustu daga, maður heldur kannski að þetta sé lítill steinn þarna á gangstéttinni og svo stökkva þeir allt í einu í burt þannig að maður hrekkur í kút.

Annars eru flest verkefni annarinnar frá þó rúm vika sé eftir af kennslu, en allur er varinn góður til að hafa nægan tíma til að læra fyrir þessi tvö próf sem ég fer í. Þau eru reyndar bæði í tölfræði en ólíkum undirgreinum hennar eins ég hef örugglega skrifað hér áður. En eftir því sem ég læri meira í þessu fagi velti ég því æ oftar fyrir mér hvað menn voru að hugsa með því að finna upp allar þessar aðferðir og sumar aðeins til að nota við úrlausn sérhæfðra verkefna sem fáir vita af. En það er með tölfræðina eins og margt annað að hún verður bærileg um leið og maður fer að skilja.

Annars fannst rakst ég eina góða frétt í gær um að ESB hefði bannað notkun trombíns próteinsins í matvælaiðnaði sem þeir höfðu reyndar heimilað fyrr í vetur. En trombín er notað til að líma saman litla kjötbita og kjötafganga í falllega sunnudagssteik, eins girnilegt og það nú hljómar. En líkurnar á alvarlegu bakteríusmit eru miklar með notkun þessa efnis. Það sem mér fannst jákvæðast við þessa frétt er að enn sé smá vitsmuni að finna þarna suðurfrá en hún breytir þó ekki meginskoðun minni á þessu ægivaldi.


Niður og upp

Það er víst heillangur tími síðan ég skrifaði hér síðasta og dvölin hér úti farin að styttast í annan endann í þessari lotu, á flug heim 15. maí nk. En hingað út aftur í byrjun ágúst til að taka síðasta áfangann sem ég tek og byrja á lokaverkefninu sem mér fróðari menn segja að mætti alveg gera að doktorsverkefni, en ég stefni ekki svo hátt að svo stöddu. En í þessu verkefni ætla ég á einfaldan hátt að reikna út hvernig best er hátta ræktunarstarfinu í íslenskri sauðfjárrækt næstu tuttugu árin.

Hvað um það, hér komið vor og bændur farnir að keppast við að bera á, plægja, sá og fleira í þeim dúr. Einnig keppast þeir við að bera skarn á hól og er eiginlega stöðug umferð gegnum Ás með stóra haugdalla og tilheyrandi peningalykt og sulli við helstu hraðahindranir. En ég get ekki séð að fólk kippi sér mikið upp við þetta, finnst þetta í hæsta máta eðlilegt, annað en íbúar höfuðborgarsvæðisins sem gera úlfalda úr mýflugu þegar bændur á Kjalarnesinu fara í sömu verk, fólk færist alltaf fjær sínum raunveruleika sem það ætti að halda sig í.

Síðan voru rektorskosningar hér við skólann í vikunni, já nemendur og starfsfólk kýs rektor, menntamálráðherra Norðmanna hefur ekkert um það að segja líkt íslenska kerfið byggir á. Kjörsókn var bærileg hjá starfsfólki en skammarlega lítil hjá nemendum, rétt rúm 20% þeirra sem greiddu atkvæði. Reyndar greiddi ég ekki atkvæði í fyrri umferðinni en gerði það í þeirri seinni. Segir manni bara það hvað ungt fólk er alveg sama um ýmislegt og auðvelt væri að fá það til kjósa bara það sem því er sagt að gera líkt og ég held að raunin sé hjá fjölda ungs fólks á Íslandi.

Annars hafa nokkrir nemendur hér spurt mig um eldgosið og finnst þetta alveg magnað fyrirbæri, sérstaklega þeir sem koma frá fjarlægum löndum og þekkja ekki til svona hluta. Allavega tjáði sessunautur minn í öðru tölfræðiáfanganum frá Kenýa mér að margir hefðu orðið fyrir búsifjum þar því ekki hefði verið hægt að koma blómum á markað með flugi þar sem þau gefa meiri tekjur en í heimalandinu og jafnvel þann litla hagnað sem kann að myndast af ræktun þeirra. En ég fór að velta því fyrir mér eitt kvöldið þar sem mikið hefur verið af stórum jarðskjálftum upp á síðkastið og sumir á svæðum þar sem flekar ganga undir annan, hvort jarðvísindamenn hafi einhvern tímann reynt að meta alla þessa kraft í einu samhengi, því það sem fer niður á einum stað hlýtur að koma upp annars staðar, ekki verður öll þessi kvika til af sjálfu sér, spyr sá sem ekki veit.


Sannspár?

Ég fann nú ekkert á mér á þriðjudaginn að eldgos væri í vændum þegar ég sló því fram í gamni hér á blogginu, kom því skemmtilega á óvart að sjá fréttir um eldgos væri hafið eða að hefjast þegar ég vaknaði á miðvikudagsmorgun. Tek hins vegar fram að hugur minn er hjá fólkinu umhverfis Eyjafjallajökul sem þurfa að berjast við vatnsflóð og öskufall. En Íslendingar hafa hingað til þurft að berjast við náttúruöflin og þeim tekst það líkt og þeir hafa þurft að gera gegnum aldirnar. Hins vegar þarf restin af Evrópu eitthvað að meta stöðuna aftur, sérstaklega þeir sem halda að hægt sé að stoppa eldgos með því að ýta á takka.

Síðan er ég nokkuð viss um að silfurgráa slikjan sem vel má greina á nokkur bílum hér í Ås sé aska úr Eyjafjallajökli. Hvað sem segja má um þetta gos þá er held ég að þegar Katla vaknar næst þá verði hamfarir og ekkert í líkingu við það sem menn hafa séð síðustu daga. Einnig held ég að ekki sé langt þar til hún rumskar eða „bryddi á Barða" eins og þjóðsaga segi, hámark tvö ár.

Af fréttaflutning að dæma í erlendum fjölmiðlum er greinilegt að mannveran er orðin of góðu vön varðandi samgöngur og plan B virðist aldrei vera til staðar þegar á reynir. Hugsa að flestir hugmyndafræðingar þurfi aðeins að endurskipuleggja sín plön því ég er nokkuð viss um að öll plön geta hrunið nánast fyrirvaralaust. Íslendingar þekkja það best á bankakerfinu, það voru hamfarir af mannavöldum. Þetta nefni ég því ég er þess fullviss að ESB eins og við þekkjum það í dag hrinur einn daginn, bara svona til að koma andstöðu minni við það apparat á framfæri.

Vona síðan að ríkisstjórn Íslands hætti öllu þessu fjáraustri í vitlausa Evrópustefnu og noti peningana í uppbyggingu vegna tjóns af þeim hamförum sem nú ganga yfir. Það er mun gáfulegri fjárfesting en senda peningana til Brussel. Er þess fullviss að ef þjóðin væri núna í ESB fengist ekki svo mikið sem ein króna úr sjóðum ESB vegna náttúruhamfara, þetta væri eitthvað sem við yrðum sjálf að sjá um.


Sumar og sól

Helstu fréttir frá Noregi í dag eru þær að hér er bara skaðræðisblíða eins og maðurinn sagði. Heiðskírt og 12°C hiti á opinberum mæli þessa stundina og svipað veður skv. spánni næstu daga. Vindur mælist og er heldur meiri en maður á að venjast hér úti en samt mjög gott af haf smá golu svo maður grillist ekki alveg þegar maður labbar í skólann.

Sýnist á flestu að annað eldgos gæti hjálpað íslensku þjóðinni mikið núna, svona svo fréttamenn hafi eitthvað annað að fjalla um en þessa hrunskýrslu. Nei, maður má ekki segja svona, þeir myndu fyrst þá fara yfir um.  En rosalega er ég feginn því að vera ekki á Íslandi þessa stundina því mér sýnist á öllu að umfjöllun um þetta 3426 blaðsíðna rit (kannski leikrit?) sé komin vel fram úr því sem góðu hófi gegnir.

Fyrir þá sem hafa eitthvað af almennri skynsemi held ég að fátt komi á óvart við lestur á þessu verki. Skýrslan var þörf til að staðfesta hversu sjúkt menn hugsuðu og voru komnir langt út fyrir öll velsæmismörk í fjárfestingum og blekktu saklaust fólk eingöngu til að græða meira. Allt knúið áfram af lögmáli markaðarins sem átti að vera hin fullkomna hugmyndafræði en einnig spilaði hið sjúka regluverk sem upprunnið er á einhverjum kontór í Brussel nokkurn þátt.

Jafnframt er skýrslan góður grunnur til að byggja á hvernig menn eiga ekki að gera, gæti orðið öðrum ríkjum áminning (ég held að enn sé ekki allt komið uppá yfirborðið í hinum alþjóðlega fjármálaheimi), heppilegt að þetta var Ísland því ég efa stórlega að svona skýrsla hefði verið prentuð í öðru landi, m.v. höfðatöluregluna hefði hún orðið um 3.500.000 blaðsíður í Bandaríkjahreppi og 15 milljónir síðna í Kína en það er nú kannski óvæginn samanburður hjá mér. Hugsa reyndar að væri þörf á að skrifa svona skýrslu í Bandaríkjahrepp.

Um leið og stjórn landsins verður skipuð fólki sem hefur einhvern vott af heilbrigðri skynsemi þá getur einhver uppbygging af viti hafist. Það mun hins vegar ekki gerast meðan ákveðinn hópur fólks ætlar að gera allt sem það getur til að koma þjóðinni undir Brusselvaldið, jafnvel með áður óþekktum aðferðum í samningatækni (að fara sundurð í viðræður og ekki nýta þær fagstofnanir sem til eru) sem trúlega munu ekki gefast vel.

Langaði bara að deila þessum skoðunum mínum með ykkur, jafnframt finnst mér aðdáunarvert hjá leikurum Borgarleikhússins að lesa þetta í beinni útsendingu á netinu (http://www.borgarleikhus.is/livestream), jafnvel þó það taki nokkra daga, heyrist þau núna vera á blaðsíðu 470 af 3426.

En þar til næst ... hafið það gott


Að horfa í rétta átt

Best að henda hingað inn nokkrum línum, er svona að fá heilsuna aftur en ég hrökklaðist heim úr skólanum í dag (reyndar í lok tíma) þegar allt sem fyrir framan mig var á tölvuskjánum var farið að hringsnúast á miklum hraða vegna höfuðverkjar. Ætla ég að kenna mér sjálfum fyrst og fremst um þennan höfuðverk með því að vera óduglegar að horfa til hægri í vetur, enda tölvan vinstra megin á skrifborðinu.

Henti hugleiðingu um þetta inná sveitasímann í gærkveldi og það stóð ekki á skoðunum vina minna þar, flestir héldu að þetta tengist pólitískir sýn minni á einhvern hátt, meir að segja að ég myndi sjá ljósið ef ég horfði nógu lengi. En ég gef lítið fyrir þessa vinstri hægri pælingar í pólitík, hún snýst bara um völd og meiri völd. Ef hentar mönnum að flytja sig til hægri eða vinstri þá er það gert til að krækja í völd, enginn hugsjón þar að baki. Kannski ástæðan fyrir að meiri skítur safnast í fjóshauginn hjá íslenskum stjórnvöldum á degi hverjum en þau ná að moka út.

Talandi um pólitík þá er ég fyrst hér í Ási að átta mig á því hvað réttur nemandans er mikill þegar kemur að prófdegi. Þannig er að í upphafi annar liggur próftafla fyrir sem og tímasetningar prófa, ef gera þarf breytingar á henni þarf samþykki allra nemenda áfangans. Það nægir ekki að 57 af 60 samþykki, heldur þurfa allir að samþykkja. Engar varúðarrástafanir fyrir skólann enda eiga nemendur að velja sér áfanga miðað við þetta, þ.e. að velja ekki áfang sem prófað er í á sama tíma.

Af hverju skildi ég vera skrifa um þetta, ástæðan er sú að í öðrum tölfræðiáfanganum kom það fljótlega í ljós að mistök voru gerð og á að reyna laga þau með því að færa prófið til innan sama dags, þ.e. frá klukkan 9 um morguninn til klukkan 14:30. Fyrir rúmum mánuði síðan fékk ég tölvupóst þess efnis að samþykkja þetta, skiptir mig engu máli og samþykkti ég þetta því. Enn í dag er ekki komin niðurstaða í þetta mál þar sem 3 nemendur af 58 eiga eftir að samþykkja og enginn af þeim sem sækja tíma reglulega kannast við þá. Því virðist vera að réttur huldunemenda sé mikill og skóli á borð við UMB hafi ekkert plan B þegar kemur að þessum málum, t.d. með því að hringja í fólk. En það er sjálfsagt ekki skrifað í starfsreglur skólans og því má ekki gera það, meiri reglufestan á öllu hér í Noregi.

Svo við höldum áfram með hægri umræðuna þá finnst mér svokölluð hægri regla í umferðinni vera óþarflega algeng hér í Noregi, verð nú bara að segja þar. Með tilliti til þess þarf ég líka að vera duglegur að horfa til hægri á nánast öllum gatnamótum, ég er bara svo vanur því að biðskyldumerki sé á gatnamótum að mér finnst það einnig sjálfsagður hlutur hér. En svona er þetta nú. Hægri reglan er samt skárri en vinstri hægri reglan sem ég kynntist á Nýja-Sjálandi fyrir tveim árum, hún var reglulega ruglandi, vægt til orða tekið.

Þar til næst, hafið það gott ........................


Gleðilega páska

Frá Noregi er allt gott að frétta, langt síðan ég skrifaði síðast hér inn en það á líka sínar skýringar. Móðir mín og systir komu hingað í heimsókn í nokkra daga og reyndi ég að sína þeim eitthvað af Noregi en ferðaveður var lélegt alla dagana sem þær stoppuð, rigning og þoka. Nú er hins vegar glaðsólskin hér í Ási á páskadagsmorgni.

Sit og háma í mig páskaegg á milli þess sem ég skrifa eitthvað, málshátturinn góður „Svo má góðu venjast að gæðalaust þyki", býsna mikið til í þessu. Þessi dægrin er ég að lesa alláhugaverða bók sem heitir Lífsbjörg Íslendinga og er handbók í miðaldasögu, svosem ekki kominn langt en margt athyglisvert á fyrstu síðunum, sérlega athyglisvert þykir mér að sjá hversu mikið ósamræmi er í rannsóknum sem gerðar hafa verið og því oft ótryggar heimildir fyrir þeim fróðleik sem haldið er að fólki nú til dags.

Fyrsta daginn sem móðir mín og systir voru hér fór ég með þær í léttan göngutúr um Ás og sýndi þeim helstu byggingar sem ég stunda nám mitt í. Á sunnudeginum fórum við til Osló og litum þar á þjóðminjasafn Norðmanna sem og Vigeland höggmyndagarðinn, hann er trúlega fallegri að sumarlagi og ekki skildi ég nú alla þá listsköpun sem þar var sýnd, enda mun ég seint teljast til listþenkjandi manna. En heimsóknin var samt góð.

Á þriðja degi þegar ég varð árinu eldri en fyrir ári síðan skruppum við til Sem, sem er í  Asker suðvestan við Osló en þar var á árum áður smábændaskóli norska ríkisins en afi minn var nemandi þar 1939-1940.  Sá skóli var síðan innlimaður í norska landbúnaðarháskólann seinna UMB sem ég stunda nú nám í. Reyndar var allt lokað þarna núna enda Norðmenn með eindæmum duglegir að taka sér páskafrí og verð ég því að fara seinna til að komast inní byggingarnar enda skilst mér að þar megi jafnvel finna einhver skólaspjöld. Set kannski einhvern tímann hér inn frásögn eftir afa um árin og heimferðina frá Sem.

Á þriðjudeginum skrapp ég til Svíþjóðar í verslunarleiðangur eða öllu heldur til að sýna þeim verslunarbrjálæðið sem búið er að byggja upp handan við landamærin og ég held ég geti svarið það að ég hef aldrei eytt jafn löngum tíma inní verslunarmiðstöð og þennan daginn, hafði reyndar ágætis jakka uppúr búðarrápinu en sökum stærðar gengur mér oft illa að finna hentugar stærðir sérstaklega þegar verslanir miða við staðlaða stærð af fólki. Daginn eftir sýndi ég þeim síðan Ski Storsenter sem ég hef áður ritað hér um en fór jafnframt í landbúnaðarsafnið hér í Ás sem er fínasta safn en var meira eins og barnaheimili þennan dag svo lítið var hægt að skoða nákvæmlega.

Þær flugu síðan heim á skírdag og hef ég verið að vinna í skattframtalsgerð síðan þá, bara vesen að skila framtali í tveimur löndum, asnaðist einnig í fótbolta á skírdagskvöld og hef verið eins og farlama gamalmenni síðan þá með strengi en þarf að fara líta eitthvað á námsbækurnar á nýjan leik enda sígur á seinni hluta þessarar annar og próf handan við hornið.

Þar til næst hafið það gott ... hér má finna nokkrar myndir frá síðustu viku


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband