Færsluflokkur: Bloggar

Búðardalur, Kosov og Ås

Best að skrifa nokkrar línur hér inn, lífið gengur sinn vanagang, snjórinn minnkar með hverjum deginum, hitinn hækkar heldur og fuglasöngurinn eykst, bendir allt til þess að vorið sé á næsta leiti.

Fór á ágætis fræðslufund um Island, EU og Norge hjá norsku nei TIL EU samtökunum á mánudaginn. Þar var aðalræðumaðurinn formaður þeirra Heming Olaussen. Inntakið í erindi hans var gott og ég held barasta að andstaða mín við þennan spillta klúbb eins og ég hef svo oft nefnt hér á þessari síðu aukist. Meðal annars varpaði hann fram þeirri spurningu hvort ESB væri ekki núverandi leið Þjóðverja til að ná yfirráðum yfir Evrópu eftir að það mistókst í seinni heimsstyrjöldinni. Gæti bara verið heilmikið til í þessu og ég er lítið gefinn fyrir svona heimsvaldabrölt sumra þjóða.

Að ég tali nú ekki um samlíkingu þá sem margir ESB sinnar á Íslandi nota að ESB sé í raun stærsta kaupfélag í heimi, það vita allir að flest kaupfélögin á Íslandi fóru á hausinn og jafnframt SÍS sem var höfuðið yfir þeim, þannig að spurningin er hvort gjaldþrotahrinan innan ESB sé ekki bara byrjuð. Annars finnst mér þetta slæm samlíking hjá ESB sinnum og ef þetta á að vera raunin vil ég beina viðskiptum mínum í eitthvað annað og betra kaupfélag. Einnig er ég undrandi á því að menn haldi alltaf að sérsamningar séu í boði hjá þessu ESB kaupfélagi, sannast best hér gamla máltækið: „Ef þú færð það ekki í kaupfélaginu, þá þarftu það ekki" tel ólíkt að þeir verði með sérvöruúrval (sérsamning) fyrir 0,1% af íbúum þess.

Hvað um ESB, skrapp með Ragnari og Hauk í gær að Nannestad eða nágrenni þess þar sem Óðinn nokkur Gíslason réði sig í vinnu fyrir skemmstu. Virtist hann bara hafa það bærilegt og bóndinn hress sem hann vinnur hjá. Mér leist þó ekkert á túnin þarna, held jafnvel að brekkurnar sem ég komst í kynni við í Eyjafirði séu bara nánast láréttar í samanburði við það sem ég sá þarna. Held allavega að borgi sig ekki að vera lofthræddur í vélavinnu á þessum stað.

Svo ég skýri út titilinn þá hef ég undanfarin ár farið í klippingu í Búðardal en datt í  hug að líta til rakarans í Ås áðan, svona til að snyrta aðeins á mér toppstykkið, auðveldara fyrir námsefnið að komast inn. Rakarinn var hins vegar frá Kosovo sem kom sér vel, töluðum hvorugur góða norsku. Hún var hins vegar ekki gefins klippingin, 349 norskar eða rétt rúmar 7500 íslenskar. Held barasta að sé best að fá sér fjárklippur næst get þó huggaði mig við það að ég fékk afsláttarkort þannig að í hvert skipti sem ég kem fæ ég fría kókdós og pizzu í fimmta hvert skipti, tel samt ólíklegt að ég fari svo oft að ég nái því.

En vitið þið hvað ... þegar ég var að kyngja kókinu kom í ljós að um sænskt kók var að ræða, það má greinilega ekki tapa á þessari klippingu .....................


Store Ree, Staur og Nannestad

Á fimmtudaginn fór ég í námsferð í áfanganum „Animal Breeding Plans" og var ferðinni heitið í höfuðstöðvar norskrar nautgriparæktar að Stange, rétt sunnan við Hamar. Ferðin gekk svona klakklaust fyrir sig en norskir vegir eru ekkert alltaf uppá það besta, holóttir, sprungnir og í allskonar ásigkomulagi eftir veturinn (var semsagt ökumaður). Allsstaðar þar sem vegagerð var í gangi stóð „Nytt kjøremønster" og í grandvaraleysi mínu þýddi ég alltaf seinni hluta orðins sem skrímsli (fannst það líka passa vel við öll vegavinnutækin sem voru við hliðina á manni), trúlega vegna engisaxneskra áhrifa en ekki sem mynstur eins og raunin var þegar ég fletti upp í orðabók er heim var komið.

Fyrsti áfangastaður var Store Ree, rétt hjá Stange sunnan Hamars. En þar er sæðingastöð þeirra Norðmanna fyrir nautgripi, ekki skoðuðum við hana sem slíka heldur fengum við fyrirlestur um kynbótaskipulagið með rauðar norskar, sem að sögn heimamanna er það besta í heimi. Held að sú staðhæfing eigi alveg rétt á sér hjá þeim, því með marga eiginleika samtímis í ræktunarmarkmiðum lenda menn síður í einhverju rugli og rækta upp óæskilega galla líkt og hefur verið raunin í mörgum öðrum kynjum. Allavega hefur útflutningur aukist mikið hjá þeim og raunin sú í dag að nánast jafn mikið sæði er flutt út úr norskum nautum og notað er á heimamarkaði í Noregi.

Hér má fræðast um skipulagið í ræktuninni en það á margt sameiginlegt með íslenska skipulaginu, í fyrsta lagi eru valin naut til prófunar undan nautsmóður og reyndu nauti. Geno fær til skoðunar um 2000 kálfa árlega en kaupa um 400 á grundvelli ætternismats sem fara í gæðaprófun, þar sem vaxtarhraði og heilbrigði hefur hvað mest að segja. Þeir 130 sem koma best út úr þessu próf komast á Store Ree þar sem um 3500 sæðisskammtar eru teknir úr þeim í fyrstu fyrir afkvæmaprófun en bændur eru skyldugir til að nota ungnaut á 40% kúnna hjá sér. Meðan þeir bíða niðurstöðu afkvæmaprófunar eru þeir í góðu yfirlæti í nokkrum biðfjósum á Store Ree. Þeir bestu úr afkvæmaprófun eru síðan valdir sem toppfeður, um 10-13 stykki og fara þá aftur á Store Ree þar sem í þetta skiptið eru teknir 70.000 sæðisskammtar, um 15.000 þeirra eru fluttir strax úr landi áður en þeir fara í dreifingu meðal norskar mjólkurframleiðenda.

Að loknum fyrirlestri í Store Ree og hádegisverði var farið í Staur Teststasjon en þar fer fram gæðaprófun á nautum fyrir norska nautakjötsframleiðslu. Í Noregi eru fimm meginkjötkyn Simmental, Hereford, Charolais, Angus og Limousin, en um 30% af kjötneyslu Norðmanna er nautakjöt. Þarna eru nautin höfði í prófun m.t.t. vaxtarhraða í 150 daga, bestu nautin fara síðan á sæðingastöð þar sem teknir eru 7000 sæðisskammtar. Reyndar er haldið uppboð á nautum um miðjan apríl þar sem bændum gefst kostur á að kaupa þau beint í sínar hjarðir, gildir einnig um toppnautin, þau fara bara fyrst á sæðingastöðina áður en nýr eigandi tekur við þeim. Frekari upplýsingar um Staur eru hér. Og hér eru einhverjar myndir sem ég tók.

Áður en við yfirgáfum Staur litum við rétt inn í sauðfjársæðingastöðin sem einnig er á Staur, ekkert planlagt að koma þangað en ég verð nú að segja það að mér finnst þetta svolítið stór bygging fyrir 100 hrúta, hálfgerð höll en það á allt sýnar skýringar í ræktunarsögu Norðmanna.

Síðast en ekki síst komum við á sauðfjárbú nálægt Nannestad sem er ekki langt frá flugvellinum. Það er reyndar ekki ýkja stórt sauðfjárbú á íslenskan mælikvarða en nokkuð stórt og um meðalsauðfjárbú á þessu svæði eða um 110 kindur, allar af NKS kyni. Bæði vinna þau utan heimilis, árstíðabundna vinnu, maðurinn á flugvellinum m.a. við að afísa flugvélar fyrir flugtak og konan sem kennari. Þau eru meðlimir í hrútahring með 1000 fullorðnar ær en þessir hringir virka þannig að hrútarnir eru notaðir hjá öllum aðilum viðkomandi hrings á fengitíma og fá þannig sinn afkvæmadóm.

Frjósemin er hins vegar býsna mikil á þessum bæ, 2,49 lömb voru til nytja í fyrra og svoleiðis vilja þau hafa það, taka alla þrí- og fjórlembinga undan og ala á mjólk. Um 50 stykki árlega, ærnar með lömbum eru síðan á beit í skóginum sem er ekki langt þarna frá. Vanhöld yfir sumarið eru lá í þarna enda ekki mikið um rándýr til trafala í skóginum, var innan við 2% á síðasta ári. En vanhöld hafa verið mikið vandamál hér í Noregi og verið að aukast á undanförnum árum, m.a. vegna niðurskurðar í framlögum til veiða á rándýrum.

Fjallskil eru gerð frá miðjum ágúst fram í miðjan september og svipar þeim mjög til íslenskar þó ég haldi að regluverkið sé ekki eins formlegt hér. En hér eru semsagt ær frá öllum á sameiginlegum afrétt og ef viðkomandi bóndi finnur annarra manna fé tekur hann það heim og lætur eigandann vita sem sækir það sér að kostnaðarlaus. Eina sem þeir þurfa að passa er að vera búinn að smala skóginn fyrir miðjan september en þá byrjar veiðitímabilið.

En þetta er nú víst orðin frekar löng færsla og eflaust hægt að týna meira til en ég læt staðar numið hér að sinni.


My very good friend

Skólinn sem ég er í státar af hæsta hlutfalli erlendra stúdenta hér í Noregi (um 17%, að jafnaði 8% í norskum skólum). Þetta er náttúrlega bara hið besta mál og mikilvægt að fólk fari til annarra landa að sækja sér menntun, sérstaklega ef komið er frá þriðja heims ríki þar sem mikil þörf er á aukinni menntun.

Það sem ég ætla núna að skrifa um gætu sumir flokkað sem kynþáttafordóma á hæsta stigi og bið ég þá bara um að loka síðunni hið snarasta ef þeir eru viðkvæmir fyrir þess háttar tali. Ég lít ekki á þetta sem kynþáttafordóma, þó ég verði að rita nokkrar línur um þetta. Það er nefnilega einhvern veginn þannig að ég er með fullann vara á mér þegar erlendir stúdentar langt að komnir og örlítið dekkri fara að spjalla við mig og kalla mig góðan vin „My very very good friend".

Sumir eru besta fólk en það sem maður veit ekki er hvernig mismunandi menning sem fólk elst uppí virkar í öðru samfélagi, það sem þeim finnst í lagi finnst mér bara alls ekkert í lagi. Til dæmis var einn í áfanga með mér fyrir jól og spurði mig oftar hjálpar, veitti ég hana góðfúslega upp að vissum mörkum, gerði ekki verkefnin fyrir hann þó mér þætti stundum hann ætlast til þess. Ég mætti honum nokkrum sinnum út á götu og alltaf heilsaði hann mér eins og ég væri langbesti vinur hans. Ég er hins vegar hættur að sjá honum bregða fyrir, grunar að hann sé hættur.

Í öðrum tölfræðiáfanganum mínum er þó nokkuð af útlendingum allastaðar að, Nepal, Eþíópía, Gana, flest öll lönd sem eru langtíburtistan. Ástæða þess að ég rita þetta er sú að ég mætti nokkuð snemma í tíma síðasta föstudag og þá var einn frá Ghana minnir mig mættur og fór að spjalla við mig, sagðist þekkja einn Íslending sem ég man ekki alveg nafnið á. Í gær settist hann síðan við hliðina á mér í tölvutíma og bað um aðstoð sem ég gat veitt eftir bestu getu, þar sem ég var svona skrefi á undan að gera verkefnin, sá að hann var í þó nokkrum vandræðum. Svo ákvað hann að fara þegar um hálftími var eftir af tímanum en tók eftir sem áður góðan tími í að kveðja mig og segja mér að hann væri að fara þangað að gera þetta. Fór ekki fyrr en ég tók í spaðann á honum og hann sagði sjáumst á morgun, góði vinur eða „See you tomorrow, my very good friend". Ég verð nú bara að segja það að mér finnst ég ekkert vera orðinn langbesti vinur með því að hitta manninn tvisvar og tala við hann.

Fyrir svo utan að háttalag þessara manna í frímínútum er mjög sérstakt, sjálfsagt tengt menningu þeirra en fyrir mér væri þetta verðugt rannsóknarefni atferlisfræðinga, bæði hvernig þeir heilsast og ræða saman. Illa sagt? Kannski

En svona er nú viðhorf mitt til þeirra, enda veit maður aldrei hvað þeim finnst sjálfsagt ef maður segir einu sinni já, svo ég passa mig bara á því segja það ekki oft. Efast ekki um að gott er að eiga tengslanet um víða veröld en spurningin er hvað notar maður það mikið, þannig að ég ætla að passa að þróa það ekki of mikið.

Fordómar ... veit ekki

En best að koma sér í tíma, ég má nú ekki svíkja nýja besta vininn minn.


Kaffi ...

... stendur alltaf fyrir sín, eitt og sér eða með einhverju meðlæti. Er einmitt að renna niður einum bolla af rótsterku „íslensku" kaffi meðan ég rita þessar línur. Veit ekki um hvað maður ætti að skrifa í dag, veðrið er náttúrulega klassískt og gott að vanda, hitinn kominn upp fyrir frostmark og sólin farin að skína, dægurklukkan hefur meir að segja færst nokkrar stundir fram frá því myrkrið var sem mest.

Lítið markvert drifið á daga mín síðan á mánudag, gat reyndar gefið tveimur villtum konum leiðbeiningar um hvert skyldi halda til að komast til Svíþjóðar, voru að leita að E18 þjóðveginum en ég benti þeim bara á að E6 væri hér rétt handan við næstu beygju og þá væri leiðin greið til Svíþjóðar. Önnur þeirra spurði mig reyndar strax hvort ég væri Íslendingur, heyrði það á minni bjöguðu norsku. (Gott að maður heldur einhverjum þjóðareinkennum) Það eru víst ekki bara við námsmennirnir sem förum þangað, hugsa að í dag sé mikil örtröð í Nordby, því margir Norðmenn leggja leið sín þangað í dag að versla, sennilega mest einskis nýtan varning.

Því er pæling dagsins á þessa leið. Allsstaðar þar sem fólk býr sækir það í að versla ódýrasta matinn, jafnvel þó að hann sé tilkominn á óhagkvæman hátt. Til dæmis kemur það sér vel að versla ódýran mat þarna en ég efast um að þeir sem framleiði hann hafi það gott innan veggja ESB enda segi ég það og mun standa við það eins lengi og ég get að aðildarumsókn að ESB er eitthvað það alvitlausasta sem Íslandi hefur dottið í hug uppá síðkastið.

Síðan skiptast menn í já og nei fylkingar sem keppast við að benda á rökleysu hins aðilans.  Jámenn gagnrýna BÍ harðlega fyrir að vera fastir í torfbæjarsjónarmiðinu og vilja ekki sjá jákvæðu hliðarnar meðan neimenn s.s BÍ benda á galla þess að fara þarna inn. Sjálfsagt eru einhverjir kostir en gallarnir eru veigameiri að mínu mati. Mér finnst til dæmis einstaklega vitlaust eins og ég skil komandi aðildarviðræður að það þurfi að setja lög og aðlaga lagaumhverfi að regluverki ESB, t.d. með því að stofna greiðslu- og eftirlitsstofnun fyrir landbúnaðinn. Ef síðan kæmi að því að Ísland vildi ekki ganga inn þá verður þessi stofnun eftir sem áður til með haug af starfsmönnum greiddum af íslenska ríkinu. Er það þetta sem Íslendingar vilja, auka umsvif hins opinbera enn meira með misjafnlega gáfulegum ríkisstofnunum, dæla skattpeningum þangað. Síðan er í raun grátlegt að heyra hvernig menn tala um að þessi og hinn sé á ríkisgarðanum með pening, sannast sagna er fjármálavitund Íslendinga ekki mikil og ég legg því til að menn ættu ekki að vera tjá sig um ríkisfjármál nema kynna sér hlutina fyrst og það vandlega.

Held reyndar að Samfylkingin sé orðin svo veruleikafirrt í þessu ESB máli að verði hún lengur við völd á Íslandi muni hún gera allt sem hún geti til að þvinga landið inn í ESB t.d með því að hafa ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu heldur, því hún væri sennilega marklaus svo vitnað sé í forystumann þeirra. Las einhversstaðar um daginn að heimskan væri eitt af stórveldum heimsins og liðsmenn hennar gætu auðveldlega orðið ofan á mönnum og málefnum til ómetanlegs tjóns. Hver vegna segi ég þetta, gætu sumir spurt sig núna. Nú vegna þess að Samfylkingin og heimskan eiga býsna margt sameiginlegt í þessu ESB máli. Ef einhver ESB sinni hefur lesið þetta er hann sjálfsagt pirraður núna yfir því snýr heimskunni uppá mig og að torfbæjarhugsun verði til ómetanlegs tjóns, en ég er bara stoltur af því, held reyndar að torfbæjarhugsunin gæti komið Íslandi fyrr á lappirnar og orðið mönnum til góða.

Ég er nefnilega orðinn hundleiður á öllu því kjaftæði sem kemur uppúr ESB sinnum um að allt muni snúast til betri vegar með því og Íslandi fá miklar undanþágur. Síðan hvenær hafa jafnræðisbandalög veitt undanþágur þann að einn hefur meira en hinn, held að þeir sem halda slíku fram ættu að lesa einhverjar skólabækur aftur. Ég held að lífkjör muni snúast fljótt á verri veg við inngöngu, það er nefnilega þannig að alþingiskosningarnar 25. apríl sl. gáfu til kynna að á Íslandi búa rétt um 240.000 einræðisherra + tæplega 56 manns sem aðhyllast sjálfhverfuna í Brussel og tilbiðja hana á hverjum degi. Einræðisherrar munu aldrei geta setið undir reglum og valdi annarra það er ekkert flóknara en það, hvers vegna á þá að vera sækja um aðild að slíkum klúbb.

Hvað um það, í norska sjónvarpinu er þessar vikurnar raunveruleikaþáttur sem heitir Farmen sem gengur út það að fólk á að lifa af við aðstæður eins og þær voru 1910. Þó svona þættir geti á stundum valdið manni smá kjánahroll velti ég því fyrir mér í alvöru hvort ekki væri hægt að gera svona þátt á Íslandi, held að þetta gæti orðið skemmtilegt sjónvarpsefni og ekki síður til þess fallið að upphefja sveitina aftur í augum fólks, held nefnilega að vanþekking fólks á landbúnaðarmálum sé undirstaða þess heimskulega áróðurs sem það heldur fram.

En að léttara hjali, ærnar hjá skólanum voru rúnar í vikunni og svo bara hent út á guð og gaddinn eins og meðfylgjandi mynd sýnir, hafa reyndar aðgang inn í hlýjuna í fjárhúsunum líka ... vona að slíkar dyr verði líka opnar fyrir íslenska einræðisherra þegar heimskan sem áður er lýst heldur að hún verði búin að fullkomna ætlunarverk sitt.

Þar til næst, hafið það gott .............. Fjárinn, kaffi er orðið KALT.

IMG 5175


Á mánudagskveldi

Best að skrifa nokkrar línur hér svona til að koma sérhæfðum sauðfjárræktarfróðleik neðar á síðuna. Héðan er allt gott að frétta, veðrið svipað og fyrri daginn, semsagt ekkert, þó er heldur farið að hlýna. Er enn á því að maður fái sjokk við að koma í vind á Íslandi í maí, maður er orðinn svo óvanur því að Kári geri svo mikið sem blása á mann.

Fékk sendingu í dag með Hvanneyringum sem hér er á fundahaldi vegna NOVA, alltaf gott að fá íslenskt kaffi, þó það sjálfsagt lítið íslenskt við það nema kannski umbúðirnar, hráefnið kemur úr öðrum heimshluta en er margfalt bragðbetra en það sem Norðmenn hafa uppá að bjóða. Skil ekkert í þessari kaffimenningu þeirra.

Af námi er bara allt bærilegt að frétta, útkoman úr janúarkúrsinum Theory and Application of Inbreeding Management var að koma fyrst í hús í dag, B þar á ferð, sáttur með það, enda á maður ávallt að vera sáttur með B og hafa það sem fyrsta valkost þegar slíkt er í boði.

Ekki tókst mér að skafa flórinn nógu vel fyrir föstudagsmorgun, en ég held að allir hafi verið í þeirri stöðu, fer ekki ofan af því að þetta er einkennilegur áfangi, upplýsingaöflun mín hefur hingað til verið á formi gamalla skjala og verkefna sem ég veit ekki hvort eru réttar eða traustar upplýsingar. Semsagt mjög óvönduð vinnubrögð að mínu mati en ég veit fyrir víst að heimamenn telja þetta í lagi, á stundum finnst mér gæði námsins ekki vera uppá það besta, allavega voru kröfurnar stundum meiri á Hvanneyri sem staðfestir bara gæðastimpil námsins þar.

Meðal annars rakst ég á meðfylgjandi mynd í einni af gömlu kraftbendilssýningunum sem við getum skoðað, veit ekki hvernig hún stemmir eða tengist norskum nautgripum, einhverjar hugmyndir?

Á mánudagskveldi

 


Stórborgir, Icesave og norskar kýr

Ég er þess fullviss að vorið sé á næsta leiti hér í Noregi (lengra í það á Íslandi), allavega finnst mér aukin umsvif ákveðinna vefnaðarvara í gluggakömrum hér innandyra vísbending þess. Síðan eru farnar að sjást rauðar hitatölur eftir rúma viku í veðurspánni, slíkt hefur nú bara ekki skeð síðan einhvern tímann snemma í desember. Annars snjóaði býsna mikið hér um helgina en ég held það hafi verið síðasti snjórinn að þessu sinni en mér tókst samt að keyra útaf á laugardaginn, kenni snjóblindu um frekar en klaufaskap, mjög keimlíkt að keyra útaf í norskan snjóskafl og íslenskan, og þó kannski meiri púðursnjór hér. Allt fór þetta þó vel, engin slys né tjón og ég komst klakklaust til Sverige að versla ýmislegt góðgæti í frystinn.

Skrapp til Osló í morgun, svipuð flestum öðrum stórborgum nema mér fannst hún heldur svona sóðalega að sjá en það er nú bara oft þegar saltslabb er á götum og hálfgert millistigs leysingarveður, sem oft á sér stað um hádegisbil þegar hitastig er hæst. Samt er sennilega rangnefni í titlinum hjá mér að Osló sé stórborg, þetta er sennilega óttalegur smábær miða við stærstu bæi en fyrir mér er þetta stórt og lítið spennandi, skil ekki hvað er svona rosalega frábært við borgarlíf. En þeim sem finnst borgarlíf frábært skilja sennilega ekki sveitalíf svo þetta kemur út á jöfn.

En erindi mitt til Osló var að heimsækja íslenska sendiráðið, að nýta mér þann rétt sem ég hef sem íslenskur ríkisborgari og kjósa um hana Ísbjörgu blessuðu. Þó þetta hafi bæði verið fyrirhöfn, vesen og kostnaður að fara til Osló held ég að það muni skila sér margfalt til baka. Ég bara spyr, af hverju á sárasaklaust fólk að borga með skattpíningu fyrir heimsku jakkafataklæddra skólastráka sem trúðu að peningar yxu á trjánum. Síðan er samningatækni Breta og Holllendinga sérkapítuli fyrir sig, jaðar við kúgun. Báðar eru þó þjóðirnar í ESB sem skilgreinir sig með jöfnuði og réttlæti, sér hver heilvita maður að það var ekkert jafnrétti í gamla samningum. Þó Bretar og Holllendingar semji sem sjálfstæðar þjóðir hafa þeir örugglega mömmu gömlu í Brussel mitt á milli sín sem helsta ráðgjafa enda er allt sem hún segir satt og heilagt.

En best að vera ekki að ergja sig of mikið á þessu „jafnréttis"sambandi, það er efni í sér pistil með nokkrum vel völdum orðum og ég skrifa örugglega þegar heimanám í dreifni- og fjölbreytugreiningu verður óspennandi á næstu dögum. Reyndar eru það norsku kýrnar sem eru helsta vandamál mitt í náminu þessa dagana, er afla mér upplýsinga um ræktunarskipulag þeirra og á að gera verkefni um það sem ég veit ekki alveg hvernig endar. Veit þó að ég er staddur einhversstaðar í miðju norsku fjósi með marga spotta, á eftir að ákveða hvernig og hverja þeirra ég kippi í til að fullkomna verkið fyrir 7. maí. En þá á að skila verkefninu, sem bæði verður prófið og námsmatið í áfanganum, í millitíðinni þarf þó að moka ýmsa flóra og einn þeirra þarf  að hreinsa fyrir næsta föstudag með kynningu á smá hópverkefni, það á þó ekki að vera fullkomið svo sennilega má skilja eitthvað eftir í fórnum.

En þar til næst hafið það sem best .................. veit ekki hvort rafmagnið var svona leiðinlegt síðast, en það skaðar engan að kvitta hér, langar að vita hverjir endast í að lesa allt þetta rafraus mitt :).


Það var fyrir nokkrum (h)árum síðan ...

... sem allt lék í lyndi á Íslandi, allir frekar hamingjusamir og allt á blússandi siglingu vegna þess að einka(vina)væðingin hafði gert svo margt gott fyrir þjóð og land, meir að segja forsetinn tók þátt í hringdansinum. Síðan fékk hagkerfi heimsins smá flensu og eftirköst hennar eru misjöfn eftir því hvaða parta hagkerfisins þú lítur á.

Ég ætla nú ekki að fara skrifa um kreppuna sem slíka heldur er tilefni þessa pistils raforkuverð en það hefur hækkað mikið undanfarna daga hér í Noregi sökum þess að hitastigið hefur ekki farið yfir frostmark í nokkrar vikur, hefur verið öðru hvoru megin við -10°C undanfarna daga. Fann frétt um þetta í norskum miðlum og hér á Austurlandinu er raforkuverð 1,37 NOK/kWh eða rétt um 30 ISK m.v. gengið í dag. Fyrir sunnan mig  (Suðurland og Vesturland) er verðið þó nokkuð lægra eða um 50 aurar/kWh eða um 11 ISK. Íbúar í kringum Þrándheim  (sunnanvert Norðurland) þurfa hinsvegar að reiða fram 11,32 NOK/kWh (um 240 ISK) meðan íbúar enn norðar í Tromsö greiðar um 4 NOK/kWh.

Hvað þýðir þetta svo, jú mishár rafmagnsreikningur eftir því hvar í landinu þú býrð. Sem betur fer segi ég er rafmagn innifalið í leiguverðinu hjá mér en lauslegir útreikningar mínir sína að raforkunotkun í þessu húsi er um 80 kWh á sólahring. Það sér hver í hendi sér sanngirnina með rafmagnsreikning uppá 900 til  19200 krónur á sólahring fyrir samskonar hús.

En ástæðan, ég held hún sé einkavæðingin, brellumeistararnir í Brussel settu reglur fyrir nokkrum árum um að einkavæða raforkuflutningskerfi og rafmagnsveitur. Eftir minni bestu vitund hefur það verið gert í Noregi en flutningskerfin eru takmarkandi og því er hálfgerð einokun á sumum svæðum, þannig að íbúar hafa aðeins um einn viðskiptavina að ræða. Svona virkar einkavæðingin í hnotskurn, sjálfsagt nær hún tilgangi sínum í einstaka tilvikum en þau eru of fá.

En að léttara hjali og svari við athugasemdum síðustu færslu, USS: ég skal kanna þessi mál og gefa betri skýrslu um fjárhúsin við fyrsta tækifæri. Á enn eftir að athuga hvernig Loðdýrið hér norðvestan við mig hefur það. ALS: Forystufjárþátturinn var ekki sýndur á vefsjónvarpi RÚV þannig að ég sá hann ekki og get lítið sagt um hvað mér finnst, sá hins vegar að sitt sýndist hverjum á hinum nýmóðins sveitasíma (Facebook).

Þar til næst, hafið það gott ... endilega ritið athugasemdir


Ski storsenter ...

... er undarlegt fyrirbæri sem og flestar aðrar verslunarmiðstöðvar, hætti mér þangað áðan en var fljótur út aftur. Skil bara ekki hvernig hægt er að hafa svona mikið af fólki á einum og sama staðnum á sama tíma. Í ofanálag eru svona Storsenter með 10 km millibili hér í Noregi, allavega hér í nágrenni við mig.

Skrapp til að versla ísbor fyrir Ragnar sem hann sá á einhverju tilboði en á ekki heimangengt þar sem hann er einhvers staðar á skíðum hér norður í landi. Mig grunar samt að ekki sé mikið skíðafæri í Noregi í dag, allavega er veðráttan þess eðlis núna, þónokkur skafrenningur, blint og leiðinlegt að keyra. En ég ætla ekki að kvarta, fínt að hafa nóg af snjó, hugsa að ég hafi ekki haft svona mikinn í snjó í kringum mig síðan 1995.

Annars gengur lífið sinn vanagang, hægt og rólega, ég sótti sauðfjárræktarráðstefnu um síðustu helgi sem var mjög góð. Skildi það mesta sem þar fór fram en ég var nú ekkert mikið að spjalla við menn þarna, þó kom einn norðan úr Þrændalögum og spjallaði heillengi við mig, m.a. um Geir H. Haarde sem hann sagði ættaðan úr nágrenni við sig. Hins vegar gladdi það mig meira að heyra hann hrósa íslensku sauðkindinni í hástert, á bæði kindur af norska kyninu og örfáar spælkyninu sem náskylt því íslenska, sagði að Norðmenn ættu bara eftir að átta sig á því að íslenska kindin væri mun betri en sú norska.

Þar sem ég er nú í landbúnaðarnámi og ekki enn séð mikið af norskum bústofni ákvað ég í gær eftir tíma að labba í átt að útihúsunum og reyna að finna fjárhúsin eða kindafjósið eins og sagt er á norskri tungu. Fann ég það og kom mér eiginlega á óvart hversu stórt það var, hitti þar fjárhirðinn Símon sem er frá Bretlandi. Það var gaman að hitta hann og nú þarf maður bara að verða sér út um meiri upplýsingar um þennan sauðfjárbúskap, ætla að hafa samband við yfirfjárhirðinn við fyrsta tækifæri.

Held samt að ummæli vikunnar hafi tölfræðikennarinn minn átt þegar hann var að útskýra PRESS hugtakið sem er notað við tölfræðipróf í fervikagreining. Einn nemandi skildi ekki af hverju sú tala gat verið svona breytileg en svar hans var á þessa leið: „Ef þú mælir fílana þína í míkrógrömmum verður talan há, lág ef þú mælir í tonnum" sem er bara fjandi góð samlíking og alveg laukrétt.

En þar til næst, hafið það gott ... set hér inn mynd af gemlingum í kindafjósinu og eldri ánum, fer seinna og tek fleiri og betri myndir.

IMG 5153

IMG 5155

 


Ísafold, síðasti hluti

III. Um kynbætur nautpenings

1.gr.

Það skal einungis ala nautkálfa undan góðri kú af sem bestu kyni, en með því það er vandi fyrir kynbótanefndina að sjá, hver kýrin tekur annarri fram, skal hún leita sér nákvæmra upplýsinga um kost og löst á hverri kú og ráða síðan til þess er henni virðist best; naut undan strytlum eða gallagripum mega ekki eiga sér stað.

2. gr.

Vilji svo til að undan ágætri kú komi nautkálfur, sem ala skyldi upp, en hlutaðeigandi hafi ekki kringumstæður til þess, þá skal kynbótanefndin annast um, að kálfurinn sé alinn annarstaðar, svo ekki bresti svo góð naut, sem kostur er á.

3. gr.

Nautið má lítið eitt brúkast, þegar það er komið nokkuð á annað ár, svo sem til heimiliskúnna, en þó því aðeins að það sé vel alið, t.d. snemmborinn kálfur, um nýár á eftir, og mestu gætni þarf að við hafa allajafna, svo nautinu komi ekki hnekkir, einkum meðan það er á framfaraskeiði; þegar nautið er 2. ára má fyrst brúka það fullkomlega.

4. gr.

Kynbótanefndin skal hlutast til um, að í hverju byggðarlagi séu haldin svo mörg naut, að nægilegt sé, og skal koma þeirri reglu á, að naut séu sótt og léð til kúa, en sá skaðlegi ávani numinn burtu, að kýrnar séu leiddar til nautanna, einkum að vetrarlagi.

5. gr.

Kálfa skal einkum ala snemmborna eða fyrri part vetrar, og láta þá fá gott uppeldi.

6. gr.

Kvígur mega fá kálf, þegar þær eru þriggja missira, en kjarkmest og heilsubest yrði kynið, ef þær fengju ekki kálf fyrr en fullra tveggja ára. Einnig er það athugavert, að láta ekki kýr eiga kálf tvisvar á sama árinu, og mætti alls ekki halda þeim, fyrr en í fyrsta 9 vikur frá burði.

7. gr.

Það skal taka kýr snemma fastar að haustinu, og eftir tíðarfarinu byrja að gefa þeim með fyrir réttir.

8. gr.

Hverri kú skal ætla 35-40 hesta af töðu af venjulegu bandi eða 50 hesta af stör eða útheyi, en nautum, kvígum og kálfum að tiltölu minna.

9. gr.

Fái nautpeningur kláða af lús eða öðrum óþrifum, þarf að út rýma honum með íburði. Séu kýr varðar öllum óþrifum og kembdar daglega, þurfa þær ekki eins mikið fóður, en mjólka betur.

10. gr.

Fjósin þurfa að vera góð og hirðingin nákvæm, þau skulu vera björt, hlý og loftgóð, básarnir nógu stórir og vel við haldið; hey og vatn, kvöld og morgna um gjafartímann, má ekki bresta. Sé þessa gætt, er líklegt að kúakynið taki miklum bótum, og að afnot kúnna verði langt um meiri.

Ísafold, annar hluti af þremur

II. Um kynbætur sauðfjár

1.gr.

Árlega á hverju vori skulu á hverju heimili þar, sem sauðfjárrækt er stunduð, vera ógelt nokkur hinna fallegustu hrútlamba, er líklegust þættu til undaneldis, og skal setja á sig, að hvaða kyni þau eru í báðar ættir; væri æskilegt að láta álitlegustu hrútsmæðurnar ganga með dilk.

2. gr.

Kynbótanefndin skal síðan árlega á hverju hausti skoða lambhrúta og foreldri þeirra af hverju heimili, og eftir að hafa leitað nákvæmra upplýsingar um kynferðið, velja úr þeim þá sem álitlegastir eru til undaneldis, en hinir skulu haustgeldast; sömuleiðis skal nefndin, að því leyti sem hægt er, árlega taka eftir, hvernig þessum brundhrútaefnum fer að, þar til þeir eru veturgamlir að hausti, og skal þá enn af nýju velja úr þeim þá bestu, en slátra hinum.

3. gr.

Þar sem fjárkyn er fallegast, og að öllu aðgættu best í hreppnum, skal ávallt taka frá nokkuð fleiri hrúta en þar til undaneldis á því heimili, svo ekki verði skortur á góðum brundhrútum, þó sum heimili þurfi að fá hrúta að. Það er varúðarvert að brúka lengi hrút af sama fjárkyni, því féð má ekki verða of skylt, og skal skipta oft um kynferði brundhrúta, t.d. þriðja hvert ár.

4. gr.

Brundhrúta má alls ekki brúka lambsveturinn, á annan vetur má með gætni brúka hrútinn handa 10-15 ám, en á þriðja og fjórða þá hann hefir náð fullum þroska, er óhætt að ætla honum að lemba 30-40 ær.

5. gr.

Brundhrúta skal taka fasta fyrir 1. nóvember ár hvert, og gefa þeim hollt og nægt fóður, og annaðhvort hafa þá hjá lambgeldingum, eða þó heldur í kofa sér, fram í þorralok; úr því má láta þá ganga með ám, en ábyrgjast skal eigandi, að þeir gjöri hvorki honum eða öðrum skaða.

6. gr.

Svo skal búa um lambhrúta, að ekki komist þeir til gimbra á þeim tíma sem þær beiða.

7. gr.

Það skal fara vel með allt fé, og láta það hafa nákvæma hirðing árið um kring, byrja að gefa því snemma að vetrinum, og láta það aldrei missa kvið; þar sem ekki er því betra til beitar, er einkum nauðsynlegt að ala lömb vel í 3 mánuði, desember, janúar og febrúar, þá má ýmist fara að beita þeim eða draga við þau hey. Ám skal gefa yfir höfuð vel, en sér í lagi hleypa í þær eldi um miðjan veturinn. Sauðum skal gefa vel á annan vetur, en úr því þola þeir jafnaðarlega mikla beit, og lakara fóður, en hagur er að gefa þeim gott hey skurðarárið.

8. gr.

Lambgimbrar mega ekki fá lamb, en óhætt er að hleypa ám til á annan vetur, þó er ráðlegt, til að koma sem mestum kjarki í fárkynið, að sleppa árlega nokkrum hjá, einkum þeim sem væri líklegar til að verða brundhrútsmæður, og láta þær ekki eiga lömb fyrr en þrjevetra; það er nauðsynlegt ef rýrar gimbrar eru settar á vetur, að láta þær vera geldar, en aðalreglan skal vera sú, að skera allan rýrðina úr veturgömlu gimbrunum.

9. gr.

Í gjafasveitum skal ætla hverri á og hverjum lambi 4-5 bagga af vænu bandi hverju fyrir sig, og sauðum ekki minna en 2-3 bagga hverjum; að öðru leiti skulu menn ráðfæra sig við kynbótanefndina um heyásetning eftir því sem hagar til með beit á hverjum stað.

10. gr.

Fjárhúsin skulu vera vönduð, rúmgóð og björt.

11. gr.

Strax að haustinu skal bera ofan í féð, til að verja það óþrifum og heyrir það til góðrar hirðingar, að ekki sjáist sprottin sprunga á nokkurri kind. En komi fram óþrifakláði í einhverri kind seinna á vetrinum, verður að útrýma honum með íburði.

12. gr.

Baða skal lömb eða bera í þau að vorinu, áður en þau eru rekin á fjall, til að drepa í þeim lús og forða þeim við óþrifum yfir sumarið.

13. gr.

Best er að hafa lokið af að rýja ær fyrir fráfærur, því þeim bregður við, þegar þær eru teknar úr ullu, en það hefir ekki eins skaðleg áhrif á mjólkina eða gangsmuni af þeim, meðan þær ganga með lömbunum.

14. gr.

Ef óþrif eru í fé að vorinu, þá skal baða það, eða bera í það, um leið og það er tekið úr ullu; mun það þá taka miklu meiri framförum að sumrinu, en sem nemur þeim kostnaði og fyrirhöfninni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 37427

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband