Færsluflokkur: Bloggar
4.11.2007 | 06:10
Lýsi eftir 3. nóvember 2007
Ég er kominn heilu og höldnu til Nýja-Sjálands eftir mjög langt flug og er að keppast við það þessa stundina að halda mér vakandi eitthvað fram á kvöldið en tímamismunurinn er +13 tímar m.v. Ísland. Ég varð aldrei var við laugardaginn 3. nóvember 2007.
Ferðalagið snemma morguns í London við það að koma sér út á Heatrow, gekk það ágætlega enda var ég vel haldinn eftir staðgóðan morgunverð þeirra Breta á hótelinu. (Egg, beikon og bakaðar baunir). Þegar ég kom að innritunarborðinu tók afgreiðslukonan voða tíma í að skoða vegabréfið mitt og hleypti mér loksins í gegn en spurði um handfarangur og ég sýndi henni töskuna mína. Hún bað um að ég setti hana á vigtina og sagði svo: This is too much, you can kill someone with this handbag" og ég varð náttúrulega eins og algjör auli en fór þarna á fjórar fætur á miðju gólfinu með langa röð af farþegum á eftir mér í innritun og færði bækur á milli taskna og fékk voða fallegan rauðan miða um yfirvigt á aðaltöskuna mína. En þetta fór í gegn og skipti mestu máli. Þarna skipti Kynbótafræðibókin höfuðmáli en hún er mun þyngri en hún lítur út fyrir að vera. Spurning um að senda hana í pósti heim um miðjan desember svo hún valdi mér ekki erfiðleikum á heimleiðinni líka.
Ég hélt síðan áfram leið minni um borð í flugvélina og fékk gluggasæti í þessu rúmlega 26 tíma maraþonflugi. Ég gat því drepið tímann með því að horfa út um gluggann á leiðinni vestur um haf, sá samt voða lítið fyrr en yfir miðjum Bandaríkjahreppi og þegar fór að styttast í Los Angeles og sá ekkert yfir Kyrrahafinu enda kolniðamyrkur og nótt meðan við ferðuðumst þar yfir. Sá alla ferningana í landslagi hjá kananum mjög vel og þjóðvegina dregna með reglustiku eftir eyðimörkinni ásamt því að sjá eyðilegginguna sem hluti að skógareldunum hafa ollið í Kaliforníu undanfarið.
Innan flugvélarinnar var nóg sem ég gat gert mér til dundurs, ég var með bækur með mér, nennti samt ekki að lesa mikið en byrjaði þó aðeins á nýju bókinni eftir Arnald Indriðason, síðan var í stólbakinu fyrir framan mig þessi fíni tölvuskjár og þar gat ég valið úr fjölda kvikmynda að horfa á (m.a. nýsjálensku stórmyndina Black Sheep), hlustað á tónlist, spilað tölvuleiki eða fræðst um hitt og þetta. Gerið mest af því að hlusta á tónlist og valdi mér yfirleitt mjög svefnvæna tónlist. Ferðin til Los Angeles var fín vorum þá tvö með þrjú sæti en síðan var vélin full þaðan til Auckland og það var aðeins meira en segja það fyrir mig að sitja í þeim þrengslum í tæpa 13 tíma (Stóð tvisvar upp þennan tíma). Á tíma leið mér vægast sagt illa, bæði vegna þess að það var mjög heitt í vélinni sem fylgdi mikil ógleði enda held ég að þjóðarréttur Breta hafi ekki farið neitt allt og vel í maga hjá mér fyrir þetta langt flug í sambland við misgóðan flugvélarmat fyrst í fluginu. Einnig var alltaf öðru hvoru smá ókyrrð í loftinu yfir Kyrrahafi sem bætti ekki ástandið. Reyndi að sofa þetta úr mér og þetta slapp nú allt saman fyrir rest en ég var dauðuppgefinn þegar við lentum í Auckland snemma í morgun og ég fór í gegnum vegabréfseftirlitið og tollinn þar.
Fór síðan að sækja farangurinn minn og var farinn að örvænta um að yfirvigtartaskan mín hefði orðið eftir í London því allir aðrir voru komnir með farangurinn sinn en ekki ég, hún kom svo fyrir rest (örugglega síðust) og ég hafði rétt tíma til þess að bóka mig í flugið hingað yfir á Suðureyjuna til Christchurch. Þangað er ég kominn núna dvel hjá Þorbjörgu, sennilega fram á þriðjudag meðan ég er að leiðrétta tímamismuninn og átta mig á hlutunum. Það besta var samt að konan á innritunarborðinu í Auckland sleppti mér við að borga sekt fyrir yfirvigt þar sem ég var að koma svona langt að og ég var voða kátur með það enda hefðu sennilega fokið nokkrir þúsundkallar þar.
Hér er núna hið ágætasta veður enda er vor og sumarið á næsta leiti, ég fékk mér göngutúr út í einhvern garð hér í nágrenninu í dag og setti inn nokkrar myndir úr honum, takið sérstaklega eftir rafmagnslínunum á einn, veit ekki hvort þessi frágangur myndi viðgangast á Íslandi.
Held áfram að berjast við Óla lokbrá, ætla að halda mér vakandi aðeins lengur fram á kvöld, klukkan rúmlega sjö að kvöldi þess fjórða. Best að hætta þessari þvælu núna enda nóg komið í bili. Læt vita af mér næst þegar ég verð kominn nálægt borginni Gore en myndi áætla að það yrði á miðvikudag/fimmtudag. Get samt sagt eitt að lokum það er ekkert mjög spennandi að fara í svona langt flug, mig langar allavega ekki neitt voðamikið að fara í slíkt flug strax aftur, er búinn að sofa kannski 6-7 tíma við slæmar aðstæður af síðustu 48 klst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.11.2007 | 22:28
Kominn til London
Þá er ég kominn til London, flugið gekk bara ágætlega smá ókyrrð í flugtakinu söku veðurs á Íslandi og síðan öðru hvoru á leiðinni. Var ekkert að láta það trufla mig hafði svo fjári skemmtilegan sessunaut, verkfræðing sem sagði mér ekkert annað en sögur af sjálfum sér og voru þær bara ágætar.
En auðvitað gerið ég mistök á flugvellinum, gleymdi að kaupa mér miða í stærtóinn sem fór á hótelið þannig að ég þurfti að bíðan alveg hálftíma lengur til að ná næsta strætó. En er semsagt kominn á hótelið og ætla fara halla mér fyrir hið gríðarskemmtilega og spennandi flug á morgun sem tekur litla 26 tíma og 20 mínútur með millilendingu í Los Angeles.
Varð bara hugsað til þess á leiðinni á hótelið hvað er asnalegt að vera í vinstri umferð og get nú ekki sagt að mér hlakki beint til að fara keyra þarna á Nýja-Sjálandi. Læt vita af mér næst þar þegar ég kemst í netsamband.
Bloggar | Breytt 2.11.2007 kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.10.2007 | 17:00
Fyrsta færslan
Þessi síða er hugsuð fyrir vini og vandamenn til að fylgjast með dvöl minni á Nýja-Sjálandi næstu þrjá mánuði.
Ég fer út 2. nóvember næstkomandi og kem heim í byrjun febrúar 2008. Flýg héðan til London og þaðan er beint flug til Nýja-Sjálands með millilendingu í Los Angeles. Frá Auckland fer ég með flugi yfir á Suðureyjuna til Christchurch og á þá eftir að aka þaðan til West Otago fyrir norðan borgina Gore.
Þar verð ég á nokkrum sauðfjárbúum við vinnu og almenn störf en í janúar fer ég á kúabú þar sem eru rúmlega 500 kýr.
Ég ætla reyna að skrifa reglulega inná þessa síðu hér og set eitthvað hér inn næst þegar ég er kominn út.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar