Færsluflokkur: Bloggar

Lærdómsríkt að kynnast nýsjálenskum landbúnaði

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður nemendafélags Landbúnaðarháskóla Íslands, stundar nú nám fjórða vetur sinn við skólann. Hann lauk búfræði til tveggja ára en er nú á öðru ári í búvísindadeild. Í vetur tók hann sig til, lagði land undir fót, og fór einn síns liðs til Nýja-Sjálands þar sem hann starfaði í þrjá mánuði á sauðfjárbúi og kynntist hinum ýmsu hliðum nýsjálensks landbúnaðar, sem er um margt ólíkur þeim íslenska.

„Þetta var alfarið mín ákvörðun að fara út því mér fannst ég þurfa að skipta um umhverfi og ég þurfti örlitla áskorun fyrir sjálfan mig. Einnig fléttaðist inn í að ég var kominn með svolítinn námsleiða þannig að þetta var rétti tímapunkturinn. Ég talaði við Valdimar Einarsson, frá Lambeyrum í Laxárdal sem búsettur er á Nýja-Sjálandi, hann var mjög áhugasamur og útvegaði mér vist á sveitabæjum. Síðan keypti ég mér flugmiða og vissi í raun ekkert hvað ég var að fara út í," útskýrir Eyjólfur og brosir að endurminningunni.

Snýst um magn frekar en gæði

Eyjólfur dvaldi í þrjá mánuði á Nýja-Sjálandi, frá nóvember og fram í febrúarbyrjun á suðureynni nálægt bænum Riverton. „Ég var syðst á suðureynni sem er mikið landbúnaðarsvæði og var mestan hluta tímans á sauðfjárbúinu Lawson Lee. Þetta var fimm þúsund kinda bú og einnig voru þau hjónin með 180 nautgripi en þetta er aðeins stærra en meðalbú á Nýja-Sjálandi. Þau keyptu nautgripi, fóðruðu þá upp í sláturstærð og sendu síðan til slátrunar en einnig voru þau með kvíguuppeldi fyrir einn nágranna sinn, auk þess að halda örfá dádýr," útskýrir Eyjólfur sem er frá Ásgarði í Hvammssveit, Dalasýslu. Eyjólfur tók þátt í almennum störfum á bænum og segir hann það hafa verið svolítið sérstakt að upplifa að árstíðirnar þar eru öfugar á við okkar en í nóvember aðstoðaði Eyjólfur við vorverkin á bænum þegar sáð var í flög.  „Það eru allt önnur lögmál sem gilda þarna varðandi búskapinn og allt snýst um beit og að framleiða sem mest á sem stystum tíma. Þetta var kynbótabú þar sem 400 kindur voru skráðar með merkjum í skýrsluhaldi en restin var einungis til að framleiða kjöt og ull. Nýsjálendingar nýta landið á allt annan hátt en hér heima og að mínu mati snýst þetta um magn frekar en gæði hjá þeim," segir Eyjólfur.

Kynbætur sauðfjár fara m.a. eftir ormaeggjum

Eyjólfur segir búskaparháttunum á Nýja-Sjálandi fylgja ýmis vandamál sem bændur hér heima á Íslandi þurfi ekki að glíma við í jafnríkum mæli. „Ormasmit er algengt vandamál þarna vegna álags á beitiland en þessa þrjá mánuði sem ég var úti voru lömbin ormahreinsuð þrisvar sinnum, fyrst átta vikum eftir sauðburð, síðan fjórum vikum seinna og aftur mánuði eftir það. Það var líka sérkennilegt að upplifa það að hluti af kynbótum sauðfjár er að telja ormaegg í skítnum af hrútunum, sé of mikið af þeim, eru þeir ekki æskilegir til kynbóta. Ég hugsa að það verði seint farið að auglýsa ormalyf hér á RÚV milli frétta og Kastljóssins en sú var raunin úti, enda mikil samkeppni milli ormalyfjaframleiðenda," segir hann brosandi. Eyjólfur upplifði að margt var ólíkt með starfsaðferðum nýsjálenskra og íslenskra bænda og einnig hefða í löndunum. „Jörðin sem ég starfaði á var allt í allt rúmir 500 hektarar og dugði vel fyrir bústofninn en þetta var heldur stærri jörð en meðaljörðin úti og þeim fannst því skrýtið að heyra um stærðir íslenskra jarða m.v. þann beitarþunga sem þær bera. Meðalbúið úti er um tvö þúsund kinda bú og að mínu mati er það sambærileg vinna eins og 500 kinda bú hér heima. Skepnurnar eru úti allt árið, einungis skýli til að vinna við flokkun og rúning, einnig þarf að víxla á milli beitarhólfa og það tekur einungis nokkrar mínútur þegar hægt er að kalla á kindurnar og þær koma. Mér er minnisstætt að bændunum úti fundust mjög sérstakar lýsingar mínar á íslenskum göngum og réttum, þeim fannst þetta hálfgerð villimennska og þeir höfðu skýrar hugmyndir um hvaða aðferðum væri sniðugra að beita," segir Eyjólfur.

Mættu temja sér nýsjálenskan hugsunarhátt

Á Nýja-Sjálandi var aðstaða og tækjakostur bænda ekki jafn nútímalegur og hérlendis og segir Eyjólfur að íslenskir bændur megi læra margt af starfsbræðrum sínum á Nýja-Sjálandi hvað þetta varðar.  „Þarna styrktist ég í þeirri trú að við höfum það sennilega of gott hér heima. Hér missa margir sig í vitleysu og hugsa ekki um annað en fjárfestingar og peninga og steypa sér út í það. Á Nýja-Sjálandi er ekki vaðið í að kaupa nýtt tæki þó að hin séu ekki nógu flott. Það er ákveðið stöðutákn í íslenskum landbúnaði að vera á stærsta og flottasta traktornum sem er í raun skrýtinn hugsunarháttur því þetta er allt vinna sem þarf að inna af hendi og ef gömlu og slitnu vélarnar duga þá duga þær," segir Eyjólfur og bætir við; „Þeim fannst mjög sérstakt að kúabóndi hér heima væri með mjaltaþjón fyrir 50-60 kýr og tölvustýrða tækni við fóðrun, einn komst svo að orði að þetta væru „lazy bastards" hér heima eða letingjar. Í mjólkurframleiðslunni úti eiga menn ýmist jarðirnar eða að ábúendur eru ýmist verktakar eða leiguliðar. Hið síðarnefnda er í raun mjög algengt og þá er ákveðið fyrirkomulag milli eiganda og leigutakans en aðeins er gerður samningur til eins árs í senn svo þetta er fremur ótryggur búskapur fyrir þann sem í hlut á."

Úr sauðfjárbúskap í kúabúskap

Það eru ýmsar hræringar í nýsjálenskum landbúnaði sem Eyjólfur varð vel var við, mestar voru umræðurnar um þær breytingar sem eiga sér stað núna, þar sem margir sauðfjárbændur eru að skipta yfir í kúabúskap. „Nú fæst meira fyrir mjólkur- en kjötframleiðslu og því er þetta umhverfi að breytast mikið þarna úti. Ég skynjaði ákveðna depurð út af þessu hjá sauðfjárbændum og viðskipti í kringum sauðfé eru lítil sem stendur. Það er breytilegt eftir því hvar í landinu maður er hvaða sauðfjárkyn menn hafa en ég heyrði af hrútauppboð og þar var hrútur af Perendalekyni sleginn á 650 þúsund krónur íslenskar sem telst nú dágott. Það sama var uppi á teningnum varðandi áburðarverð hjá þeim eins og hér heima, sem fer hækkandi þó ekki eins mikið, en nýsjálenskir bændur nota mikið af honum. Á sauðfjárbúinu sem ég var á fara um 100 tonn af áburði á rúma 500 hektara og hjá kúabændunum er notaður heldur meiri áburður," útskýrir Eyjólfur sem fékk að líta inn í eitt mjólkursamlag og sláturhús á meðan hann dvaldi þar ytra.  „Mjólkursamlagið sem ég kom í framleiðir úr 11 milljónum lítra á dag og þeir reiknuðu með að aukningin yrði upp í 13-14 milljónir lítra á dag eftir fimm ár. Mjólkurbíllinn er því orðinn fullur eftir heimsókn á 2-3 bæi. Nýsjálenski kúabóndinn er að fá um 28 krónur fyrir lítrann en það á sennilega eftir að hækka. Einnig kom ég í sláturhús þar sem 32 þúsund kindum var slátrað á dag í fullum afköstum og er það í gangi nánast allt árið um kring. Í ágúst, september  og október er þó fremur rólegt þar."

Lærdómsríkt og mikill skóli

Eyjólfur er afar ánægður með dvölina og segist hafa lært mikið á stuttum tíma. Hann viðurkennir þó að þetta hafi ekki alltaf verið dans á rósum og heimþráin togaði oft á tíðum sterkt í hann.  „Ég fór hringinn í kringum hnöttinn og sat í 60 tíma í flugvél og þegar ég hugsa það eftir á,  þá er það meira en að segja það að vera aleinn í öðru landi. Ég hélt þó úti bloggsíðu á meðan ég var á Nýja-Sjálandi og það gaf mér aukinn styrk þegar ég fékk skemmtilegar athugasemdir inn á hana. Eitt af markmiðum mínum með því að fara þarna út var að bæta enskukunnáttu mína og það tók mig alveg þrjár vikur að skilja framburðinn hjá þeim. Það var ekki síður skóli að læra nýtt tungumál en það sem hjálpaði mér óneitanlega var hversu vel fólk tók mér þarna úti," segir Eyjólfur.  Eyjólfur vill koma sérstökum þökkum til kennara og kennsluskrifstofu Landbúnaðarháskólans  sem sýndu honum skilning varðandi hlé frá námi og fyrir þann sveigjanleika sem hann fékk frá reglunum.  „Þetta var búið að vera draumur hjá mér í nokkur ár og er ekki sagt að maður eigi að láta drauma sína rætast? Mörgum fannst þetta gott hjá mér að hafa drifið í þessu en ég er á þeirri skoðun að það sé lærdómsríkt fyrir alla að skoða heiminn, kynnast annarri menningu og öðrum starfsháttum. Ég mun búa að þessari reynslu lengi og það er aldrei að vita nema ég taki mér einhverja aðra svona ferð fyrir hendur seinna," segir Eyjólfur og brosir út í annað.

Viðtal við höfund þessarar síðu sem birtist í Bændablaðinu í dag. Smá ruglingur varð þó á myndum þar og hér koma réttar myndir og myndatexti.

Dæmigerður mjaltabás á NZ, 30 tæki og mjólkað til skiptis á vinstri og hægri hlið.
Á myndinni má sjá þá Graeme Black og Tony Anderson vinna við ormahreinsun.

kindur.is

er góð viðskiptahugmynd en ósköp held ég að verði lýjandi að taka á móti fjölda fóstra/eigenda koma og sjá litlu sætu lömbin sín á sauðburði.


559442

Já, ég er enn á lífi hef alveg nóg að gera og afskaplega feginn því að Viskukýrin er frá þetta árið en hún var í gærkveldi. Tókst held ég nokkuð vel þó ég hafi gert ýmis klaufamistök í spurningunum og Logi bjargaði mér nú einu sinni og samdi spurningu á staðnum. En ég geri mistök eins og allir aðrir og viðurkenni þau fúslega, fannst samt nokkuð skondið að liðin vissu ekki svarið þegar ég spurði um sjálfan mig.

Þar sem býður mín afskaplega óspennandi verkefni um helgina, en ég þarf jú víst að fara að sinna náminu, ákvað ég að kíkja á heimabankann minn og taka saman hvað ferðin út kostaði mig, það er ekkert leyndarmál. Hún kostaði mig alls 559.442 kr. Gróflega sundurliðun má finna í þessari töflu:

Flugmiði með sköttum London-Nýja-Sjáland

179.490

Flugmiði Ísland-London

81.464

Ferðatrygging

18.900

Bílakaup, trygging bíls og fl.

 um 48.000

Gisting á ferðalögum á NZ og í London

um 47.000

Rekstur bíls, bensín og fl.

um 32.000

Annar kostnaður

152.588

Eflaust finnst einhverjum þetta fróðlegt, eina sem ég hef út á þetta að segja er flugmiðinn frá Íslandi til London, hann var fjandi dýr og hef ég það eitt að segja að Icelandair er ekki vinsælasta fyrirtæki í mínum augum, ég lenti í því að breyta miða og þurfti að borga offjár fyrir það auk þess sem þeir rukkuðu mig um morðfjár í yfirvigt meðan Air New Zealand datt ekki í hug að rukka yfirvigt. Skoða allavega önnur flugfélög sem fyrsta kost ef ég fer aftur út fyrir landssteinana.

Ef einhverjum langar að vita svarið við hvernig maður borgar svona ferð þá er ég vissulega búinn að safna í nokkur ár því það eru allavega fimm ár síðan ég fékk hugmyndina af því að fara út, þó svo að ég hafa ekki gert alvöru úr því að fara fyrr en um mitt síðasta ár og svo má líka nota námslánin í eitthvað þegar maður nær að nurla saman nokkrum aurum á sumrin.

En ætli sé ekki best að fara líta á verkefni helgarinnar, mín bíður greinin From weeds to crops: genetic analysis of root development in cereals eftir þau Frank Hochholdinger, Woong June Park, Michaela Sauer og Katrin Woll. Á hinu ylhýra myndi greinin heita: Frá illgresi til nytjaplatna: erfðafræðileg athugun á rótarþróun í korni. Ég þarf semsagt að þýða þessa grein og halda skiljanlegan fyrirlestur um hana í Plöntulífeðlisfræði á mánudaginn.

Þangað til þá...............


Heim í heiðardalinn

Ég er núna kominn heim í Ásgarð og það er mjög gott, feginn að þetta ferðalag er búið, hef fengið alveg nóg af því að sitja í flugvél og öryggiseftirliti á flugvöllum, flugið frá Hong Kong til London var í það lengsta, held að það hafi verið komnir hátt í 15 tímar frá því ég fór inní vél og uns ég labbaði út úr henni.

Gerið ekki nema smávægilegar skissur í umferðinni í dag, byrjaði náttúrulega á því að reyna að gefa stefnuljós með rúðuþurrkunni en af augljósum orsökum gekk það ekki, tók síðan eina vinstri beygju og fór náttúrulega inná ranga vegarhelming, fattaði það fljótt því mér fannst þetta eitthvað bogið,  komst alla vega alla leið og fannst bara hressandi að keyra í smá hálku og hríðarveðri yfir Bröttubrekku.

Læt þetta duga í bili, veit ekkert hvort ég á eftir að skrifa meira hér, bíða mín alltof mörg verkefni í skólanum næsta mánuðinn af augljósum orsökum en ég held að ég fari að skella mér í Draumalandið.


Hong Kong

Fyrst ég hef netsamband hér á flugvellinum er best að blogga, ekki allir sem geta státað af bloggi frá suðausturasíu, verð að viðurkenna að ég er ekki viss um hvort þetta er sjálfstætt ríki eður ei, allavega tala þeir eitthvað í áttina að kínversku. Fer aftur í loftið eftir rúman klukkutíma, er orðinn snarrugaður á því hvað snýr fram aftur upp og niður, klukkan er allavega rúmlega sjö að morgni núna að ég held 5. febrúar, sennilega rúmlega ellefu að kvöldi á íslandi þann fjórða og hádegi á nýja-sjálandi, ég á allavega að lenda í london 13:35.

Verð áfram að fljúga í myrkri, myrkur alla leiðina frá Auckland og sýnist að verði svo mesta leiðina til London, svona er þetta að fljúga afturábak í tímann. Þetta hefur bara gengið nokkuð vel, slapp við yfirvikt í fyrstu innritun af því að hún hafði aldrei séð íslenskt vegabréf áður, í Auckland slapp ég líka því sú sem var þar í innritun vann í fiski á Patreksfirði fyrir 20 árum, var samt settur í skannann hér í Hong Kong þar sem ég gleymdi að taka GSM símann úr vasanum og allt pípti og varð vitlaust. Ekki svo gott að ég hafi fundið tóma röð en er þó við neyðarútganginn og get breitt úr löppunum mín að vild, verð þó að taka tillit til beggja sessunauta minna, hverjum datt í hug að setja mig í miðjuna.

Hef þetta ekki lengra að sinni en að hverju þarf að hafa öll leiðbeiningarskilti á kínversku, ég bara spyr, hvernig á maður að finna rétta veginn með einhverjum furðulegum táknum, held ég sé á réttum stað.


49,5

Sit núna á Cookers Backpacker, 52 Manchester stræti í miðborg Kristskirkju í Kívílandi. Það eru um fjórir tímar í að ég gangi um borð í fyrstu flugvélina til Auckland, þar þarf ég að bíða í átta tíma eftir rúmlega 26 klukkustunda flug til London, þar þarf ég síðan að bíða aftur í átta tíma eftir vélinni til Keflavíkur og ætti að öllu óbreyttu að lenda á Íslandi á miðnætti 5. febrúar þannig að í raun tekur 46 klukkustunda ferðalagið ekki nema 33 tíma því nú græði ég tímann sem ég tapaði yfir Kyrrahafinu á leiðinni út.

Hvað um þessar pælingar, ef það bætir eitthvað stolt Akureyringsins Vagns Kristjánssonar að vita fólksfjöldann í þorpinu Greymouth, þá búa þar rúmlega 13.000 manns og því er það réttilega aðeins minna en Akureyri en samt þorp á NZ mælikvarða, núna er ég í borg á NZ mælikvarða en hún telur rúmlega 330.000 íbúa og hefur því fleiri íbúa en allt Ísland.

Frá því ég skrifaði í Greymouth hef ég þvælst aðeins meira, fór þaðan til Nelson og komst næstum því í kynni við lögregluna en tókst að afstýra árekstri við hana í tæka tíð í einu af þeim skógarkjörrum sem ég keyrði um, varð aðeins of hægrisinnaður í umferðinni, í Nelson stoppaði ég síðan í einn dag, skoðaði furðulegt listasafn og reyndi að þvælast um borgina en sá að það gekk ekkert hjá mér að rata og fór því bara á ströndina að sleikja sólina. Frá Nelson keyrði ég síðan hingað til CHCH á einum degi og það get ég sagt að það var einhver heitasti dagur sem ég hef upplifað. Hefði komið sér afskaplega vel að hafa loftkælingu í bílnum en hún er víst ekki fyrir hendi í nærri 23 ára gömlum kagga og skrúfaði ég því niður báðar framsætisrúðurnar til að hafa vindstreng í gegnum bílinn og þrátt fyrir að hann minnti æði oft á íslenska norðanátt var það ekki nóg til að kæla mig niður ég var í algjöru svitabaði og stoppaði því nokkrum sinnum til að finna skugga frá stóra gula helvítinu eins einn ágætur verðandi Héraðsbúi kallar sólina.

Hérna í CHCH hefur mér gengið mun betur að rata og læt flaut og óþolinmæði innfæddra eins vind um eyru þjóta þó ég þurfi aðeins að hugsa mig um hvar ég ætli að beygja næst, ég er búin að fara í suðuheimsskautssetrið til að búa mig undir íslenskt veðurfar en þar var hægt að fara inní herbergi með heimsskautastormi (20 m/s og 25°C frost) og ég get ekki sagt annað að mér er nú bara farið hlakka til að komast í vetur þó ég hafi ekkert saknað hans þegar ég yfirgaf Ísland fyrir þremur mánuðum. Þarna sá ég líka eina af einkennisdýrategundum suðurheimsskautsins þ.e. mörgæsina, reyndar ekki þessar stóru, bara minnstu tegundina og þetta eru einkennileg dýr. Ég fór líka í dýragarðinn hér til að sjá einkennisfugl Kívílands þ.e. kívífuglinn, náði ekki mynd af honum en þetta er einhver fyndnasti og klunnalegasti fugl sem ég hef séð.

Ég keypti mér einnig nýja skó hér, það er þó ekki í frásögur færandi nema fyrir þá hluti að ég þurfti númer 49,5 til að þeir pössuðu á lappirnar á mér, þær hafa greinilega eitthvað stækkað hér og ég þarf sennilega að láta sérsmíða á mig skó næst.

Hvað um það, þegar ég lít til baka þá er þessi tími hér búinn að vera gríðarlegu skóli fyrir mig og góð reynsla til að hafa í farteskinu í framtíðinni, eins og Tony Andersson orðaði það þegar ég kvaddi hann þá kveð ég NZ með söknuði í öðru auganu og gleði í hinu yfir því að vera fara heim og á án efa eftir að koma hingað aftur sem ferðamaður seinna, ég á alveg eftir að skoða Norðureyjuna.

Tilhugsunin við að fá íslenska mat er góð, sérstaklega fisk, það má varla heita að ég hafi bragðað hann hér þessa þrjá mánuði, það sem er hins ekki á óskalistanum þegar ég kem heim er svínakjöt, kjúklingur og bakaðar baunir, alveg búinn að fá nóg af því auk þess sem ég er örugglega búinn að éta þrefaldan árskammt Íslendinga af kartöflum þessa þrjá mánuði, kann sko ýmsa kartöflurétti.

Eins og ég hef áður sagt er ég stundum/oft of stór fyrir Nýja-Sjáland enda held ég að meðalhæð Nýsjálendinga sé 10-15 cm minni en Íslendinga, það hefur því haft ýmsa ókosti fyrir mig þessa þrjá mánuði, ég sé núna t.d. frammá að geta farið í sturtu án þessa að þurfa að beygja mig í hvert skipti undir sturtuhausinn og svo verður afskaplega gott að komast í rúm sem er tveir metrar á lengd og með sæng og kodda, alveg búinn að fá nóg af rúmum sem eru um 1,8 á lengd ásamt umbúnaðinum um rúmin hér, ætla ekki að gera tilraun til að lýsa honum en hann er mun flóknari en sængurver, koddaver og lak ásamt því að hann hefur þann ókost að rúmið er ekki nema 1,8 og ég hef alltaf þurft að gera ráðstafanir til að koma löppunum útfyrir dýnuna áður en ég fer að sofa, ekki svo gott að geta bara stungið löppunum undir borðplötuna eins og ég þurfti að gera fyrsta veturinn á Hvanneyri í hálfkústaskápnum sem ég bjó í þann vetur, hýsir reyndar skrifstofu rektors núna.

En af því að Guðrún Bjarna spurði í síðustu athugasemd þá verður Viskukúin 2008 í matsal LBHÍ, 14. febrúar nk. kl 20:00 og ég á án efa eftir hugsa um einhverjar kvikindislegar spurningar á heimleiðinni, ég get allavega upplýsti að þetta árið verður þemað svona meira nýsjálenskt en samt þó að flestir eiga að geta svarað með því að nota heilbrigða skynsemi.

Bið að heilsa að sinni....................................


Tilraun tvö

Best að reyna aðra tilraun til að setja inn færslu misfórst eitthvað í gær vegna tæknilegra örðuleika í Haast, þannig að þið eigið eiginlega að lesa neðri hlutann af færslunni fyrst áður en þið lesið þennan. Ég er allavega kominn til Greymouth núna, smá þorp, litlu minna en Akureyri og aðeins stærra en Kópasker, eftir frekar tilbreytingalítinn akstur í rúma 300 kílómetra.

Eiginlega hafa síðustu 500 kílómetrar verið hálftilbreytingalitlir, keyra eftir vegi og á hægri hönd er skógur, einnig á þá vinstri og því afskaplega lítið á sjá nema maður líti upp og þá er maður ekki með augun lengur á veginum. Nýsjálenskir vegir eru nokkuð sérstakir, eftirfarandi er lýsing á stuttum vegarkafla sem ég keyrði í dag og má yfirfæra á mestan hluta af þessum 500 km. Keyrir áfram, kröpp beygja til hægri, niður brekku, kröpp beygja til vinstri, einbreið brú, kröpp beygja til hægri, upp brekku, kröpp beygja til vinstri, beinn kafli í 500 metra, kröpp beygja til vinstri, niður brekku, einbreið brú, kröpp beygja til hægri upp brekku, hugsa sé best fyrir ykkur að teikna þetta á blað til að skilja.

Ég leiddi því hugann að ýmis meðan ég mjakaðist áfram þennan vegarspotta í dag því ég hélt mig mestmegnis innandyra í bílnum, því í hvert sinn sem ég steig út varð ég fyrir fólskulegri árás moskítóflugna sem þykir blóð mitt voða bragðgott, eins og þær hafi vaknað úr dvala við regnið í nótt. Af tveimur misgóðum kostum er betra að vera í of miklum hita en innan um helvítans flugurnar. GRRR! En já það sem ég leiddi hugann oft að í dag var að það þarf að varðveita sérstakalega suma vegi á Íslandi eins og Hellisheiði eystri (sérstaklega beygjurnar) og alls ekki reyna að græða upp Mýrdalssand, hvað þá með svínaskít frá Hollandi eins og hugmynd eins af þessum 63 sem stjórna Íslandi hljóðaði þegar ég hitti hann fyrir tæpu ári í Blóðbankanum. Því náttúrufegurð þessara staða er mikil fyrir ferðamenn sem heimsækja Ísland.

En ég skoðaði Fox Glacier skriðjökulinn og Franz Josef jökulinn í dag, dæmigerðir jöklar sem hafa hopaði mikið undanfarin ár líkt og íslenskir jöklar og haldið ekki að ég hafi lent í skoðannakönnun um aðgengi að ferðamannastöðum þegar ég var að fara frá Fox Glacier, aldrei friður, GALLUP allsstaðar. (Reynar GALLUP þeirra Kívíbúa). Best að hætta þessu þvaðri í bili, víst heillangur texti að lesa núna, skemmtir vonandi einhverjum í tilbreytingarlitlum fyrirlestri á Hvanneyri, reyni sennilega að skrifa hér eitthvað áður en ég yfirgef NZ næsta mánudag.

Hér kemur svo færsla sem átti að koma í gær !

Er núna staddur í Haast sem er lítið þorp á vesturströndinni, keyrði hingað í dag frá Queenstown þar sem ég dvaldi um helgina í alltof miklum hita, á flestum skuggsælum stöðum leið mér vel. Hér komst ég í netsamband þar sem ég gat skrifað færslu á mitt íslenska lyklaborð og setti inn nokkrar myndir. Veðrið hér þessa stundina er afskaplega milt og gott, skýjað og lítilsháttar suddi eða svona dæmigert vorveður á Íslandi.

Síðasta deginum hjá þeim Graeme og Raewyn Black rennur mér seint úr minni því hann var nokkuð merkilegur hvað varðar öll tæki sem ég snerti og setningin „Oh dear Jolli" heyrðist nokkuð oft þann daginn. Fyrst var ég sendur til að hreinsa eitt beitarhólf, það gekk ágætlega framanaf, drifskaftið var á sínum stað og því engin vandræði með það, vandræðin hófust þegar ég fór að nálgast vatnsstampinn í hólfinu, þegar ég var að hreinsa í kringum hann vildi ekki betur til en að vélin rann aðeins til og sláttuvélin beint á stampinn. (Hefði alveg mátt koma í veg fyrir þetta með því að vera á minni ferð og stampurinn er úr STEYPU) Það segir sig náttúrulega að sláttuvélin virkaði ekki alveg rétt eftir þennan árekstur en við gátum nú lagað það. Þegar ég hafði klárað umrætt hólf var ég sendur í næsta hólf, þegar ég var hér um bil að verða búinn með það (átti bara helgidagana og úthringinn eftir), hvað haldið þið að hafi komið þá fyrir, nú það sprakk annað framdekkið á dráttarvélinni og því ekki hægt að halda áfram. Var þá haldið í heyskap enda sæmilega þurrt þennan daginn og reynt að ná heyinu sem ekki náðist í 30 stiga hitanum dagana þar á undan, baggarnir voru frekar illa þurrir og þungir eftir því, baggahirðingi var með aðeins öðruvísi hætti en ég er vanur en hana má sjá í myndunum sem ég setti inn. Ég var hafður í rauða trukknum og flutti baggana að skýlinu þar sem þeir eru geymdir, eftir dágóðan tíma eða þegar nokkrir baggar voru eftir var sprungið á trukknum líka og í þokkabót varadekkið loftlaust. Það tókst nú að koma trukknum heim fyrir rest en allt er þegar þrennt er segir máltækið og það held ég að hafi alveg átt við þennan daginn.

Á föstudagsmorgninum lagði ég síðan af stað í ferðalag mitt um suðureyjuna, kom við hjá kúabóndanum Tony og lét hann hafa stígvélin mín, eini nýsjálendingurinn sem hugsanlega getur notað svona bigfoot stígvél. Held meir að segja að Tony og Vicki ætli að koma einhvern tímann til Íslands til að sjá þessa sérstöku kúabændur sem mjólka 50 kýr með róbóta (Lazy Bastard eins og Tony orðaði það) og þessa sérstöku þjóð sem hefur eigið tungumál og gjaldmiðill fyrir 300.000 hræður. Á föstudeginum keyrði ég til Alexandra sem er með heitustu stöðum NZ á sumrin, þó voru ekki nema 25°C þar þegar ég var á ferðinni, daginn eftir keyrði ég til Queenstown, á leiðinni þangað kom ég við í gamalli gullgrafaranámu þar sem ferðamenn geta gerst gullgrafarar og leitað að gulli, ég fann þó ekkert og varð ekki ríkur af þessari heimsókn.

Eins og áður sagði var of gott veður til að gera eitthvað í Queenstown, ég fór þó í bíó þar í litlum sal og var sætanýting eitthvað um 6%, man ekki nafnið á myndinni í svipinn en sætanýtingin var svipuð og þegar ég vildi ólmur fara og sjá stórmyndina Babe þegar hún kom í íslensk kvikmyndahús á uppvaxtarárum mínum, ekki margir í bíó þá. (Reyndar eittbíó eftir hádegi) Einnig fór ég með gondola kálf upp á fjallið fyrir ofan Queenstown og naut útsýnisins í tæplega 800 metra hæð yfir borginni, ekkert svo svakalegt að fara með þessum kálf upp væri mun skemmtilegra í mátulega miklum vindi heima á Íslandi.

Svo ég endi þennan pistil einhvern tímann fór ég líka á veitingahús enda stór og svangur maður sem þarf mikið að borða. Ég skoðaði matseðilinn og leist vel á rétt sem heitir „Beef and vegetables" og bað um stóran skammt. Og svo ég taki það fram þegar ég bið um kjöt þá vil ég fá kjöt en þegar diskurinn var borinn á borð fyrir mig fórnaði ég höndum, það sem ég sá var einn brokkólí haus, einn blómkálshaus, einn laukur, gulrót, slatti af hvítkáli mixað saman við 100 gr. af kjöti. Þetta var því 90% grænmeti, 5% sósa og 5% kjöt, það bjargaði því þó að þetta bragðist ágætlega og ég fór því ekki svangur heim en hugsa að það væri mun nær að kalla þennan rétt „Vegetables with little beef".

Veit ekkert hvenær ég skrifa næst hér inn en þangað til þá ...


Enn af tækniframförum

Ég verð nú að segja að ég er bara farinn að hafa nokkuð gaman af þeim tækjum sem ég vinn með hér dags daglega þó ég geti tekið undir orð Mæju að sumt er betra að gera með þar til gerðum vélum en þær kosta peninga og þetta er allt spurning um þá. Kúabændum hér á Nýja-Sjáland dettur ekki í hug að nota tæki lík þessu enda eru þeir uppteknir mest allan sólahringinn við að mjólka og kaupa því verktaka í flest þau störf sem til falla utan mjalta, s.s. jarðvinnslu og heyskap. Og verktakarnir nota nýjustu tækni, Búvélar og ræktun, Árna Eylands, er ekki bókin sem er á náttborðinu hjá þeim, þó ég hafi ekki gert vísindalega könnun á því.

Eitt get ég þó þakkað fyrir og það er að rúningurinn hér er unninn með þar til gerðum rúningsklippum eins og tíðkast á Íslandi ekki handklippum (þó má eflaust finna sérvitring sem klippir enn með handklippum hér á Nýja-Sjálandi), enda væri það ærið verk að klippa á fimmta þúsund ær með handklippum, hvað þá að kleprahreinsa öll lömbin með slíku verkfæri. Ástæða þess að ég skrifa þetta er sú að ég fór í dag að sjá Jimmy Clark slá heimsmetið í einmenningsrúningi með ær á átta klukkustundum og hann notaði barkaklippur, frá Heiniger svo það komi fram hver kostaði heimsmetið. Og hvað get ég sagt, hann rúði fjandi hratt og fyrir rest fór svo að hann bætti eldra met um 65 ær, rúði 560 ær. Það met hafði staðið óhreyft síðan 1999 og taldi 495 ær. Vísa í fyrri færslu mína um frekari rúningsfróðleik.

Heyskapur gekk ekki sem skildi enda fór að rigna fljótlega eftir að ég skrifaði síðustu færslu og heyið var ekki nógu þurrt til að binda það í litla bagga, ég held nú að það mætti vel þurrka hey í nærri 30 stiga hita í þrjá daga með því að nota t.d. heyþyrlu til að snúa því öðru hvoru ekki bara velta múgunum til. Ég var því settur í ýmis tilfallandi störf í gær, fluttum til kálfa, hreinsaði upp plastúrgang og svo var ég sendur í að slá/hreinsa eitt beitarhólf. Ég lagði af stað og setti sláttuvélina niður, setti aflúrtakið í gang og ætlaði af stað en ekkert gerðist, ég reyndi aftur og ekkert gerðist, hugsaði því með mér hvaða tæknivandamál væri nú á ferðinni. Ég fór því út og var fljótur að sjá hvað var að, það vantaði einfaldlega drifskaftið. Ég rölti því heim í von um að finna skaftið, því ég hélt það hefði einfaldlega dottið af á leiðinni en nei ekki fannst það. En fyrir rest hafði eitthvað þurft að laga skaftið og það var í vélageymslunni og einfaldlega bara gleymst að setja það aftur á vélina. Gott að þetta var ekki meira vandamál en þetta.

Nú fer að styttast í að ég leggi af stað í ferðalagið mitt umhverfis Suðureyna, veit ekkert hvað ég ætla að skoða er bara búinn að bóka gistingu þessa daga sem eftir lifa af dvöl minni sem andfætlingur Íslendinga, vona bara að litli fjallabíllinn haldi út þessa ferð, hefur gert það hingað til þá rúmlega 2000 km sem ég er búinn að keyra hér á vinstri helmingnum og finnst hálf bjánalegt að keyra hægra megin svo það verður skrautlegt að fylgjast með mér þegar ég kem aftur á klakann. Ef ég kemst í tölvusamband á einhverjum náttstaða minna, set ég kannski inn færslu ef eitthvað merkilegt hendir mig í þessu ferðalagi s.s. eins og að starfsbræður Vagga stoppi mig, skilst að þeir séu í sérstöku túristaátaki núna því ferðamenn valda flestum slysum í umferðinni hér í landi


Frá því síðast ...

... hefur ekki mikið gerst. Það hefur verið rjómablíða hér uppá hvern einasta dag með nærri 30 stiga hita, fínn hiti til að stunda letilíf í en við vinnu (garðvinnu) er þetta ekkert æskilegur hiti endaði á því að ég kældi mig niður í dag, í sundlaug svona til að lifa daginn af, þó það verið viðbrigði að koma aftur til Íslands er viss tilhlökkun að komast kuldann og veturinn, ég er svona meira fyrir normalt veðurfar.

Föstudeginum eyddi ég í ullarpressu á næsta bæ þar sem Graeme fór á jarðarför prófessor Coop´s. Þar var síðasti dagur í rúning og ég sá um að þjappa ullinni í pressunni enda þyngsti maðurinn á staðnum, menn voru ákaflega fegnir þegar kind númer fjögurþúsund og eitthvað var rúin þennan föstudagseftirmiðdag. Á laugardeginum fór ég síðan á litla landbúnaðarsýningu í Winton þar krakkarnir komu með gæluhúsdýrin sín og létu þau leika listir sínar, vélasalar reyndu að pranga tækjum á bændur og sitthvað fleira. Ég afþakkaði nú tæki til létta vinnuna við kleprahreinsun enda hef ég ekkert með slíkt að gera á Íslandi.

Keypti tvær litlar bækur í bókabíl á staðnum önnur um sauðfé og hinu um hvernig dæma eigi búfé á velli, báðar frekar gamlar en mikill fróðleikur í þeim. Íslandshjartað í mér var nú frekar kátt þegar ég var búinn að borga bækurnar og fór að tala við fólkið í bílnum, það þekkti nefnilega einn annan Íslending og það var ekki Björk. Þó hann hafi flúið Dalasýslu eftir manndráp vissu þau hver Eiríkur rauði var og vissu einnig að sonur hann „Leif the Lucky" hefði fundið Ameríku á undan Kólumbus.

Í gær fór ég síðan og skoðaði byggðasafn Souhtland´s í Invercargill, lítið safn en merkilegasti gripurinn sem þar má sennilega sjá er eðlutegundin TUATARA sem safnið er ræktunaraðili að. Dýr þessi verða vel yfir 100 ára gömul og þarna mátti sjá eðluna Henry sem er kominn vel yfir 100 ára múrinn og átti það til að ráðast á önnur dýr af sömu tegund, það lagaðist þó eftir að hann fór í krabbameinuppskurð árið 2002.

Eftir skoðunarferð um safnið fór ég í bíltúr og ekki það að ég hafi villst aftur þá keyrði ég veginn á enda. Hér er nefnilega þjóðvegur 1 ekki hringvegur, heldur nær hann frá nyrsta enda norðureyjunnar til syðsta enda þeirra syðri nánar tiltekið Bluff. Þá var ég staddur á 46° 36 mín og 54 sek suðlægrar breiddar og 168° 21 mín og 28 sek austlægrar lengdar. Þarna var ég 7 km frá Hundaeyju, 784 km frá Wellington höfuðborg þeirra kívíbúa, 2000 km frá Sydney, 4810 km frá Suðurpólnum, 5133 km frá miðbaug, 9567 km frá Tókyó, 15008 km frá New York, 18958 km frá London sem segir mér að það séu eitthvað yfir 20000 km til Íslands.

Annars reyna bændur hér núna að nýta þurrkinn til heyskapar og hver segir að heybagginn sé úrelt uppfinning, sá inn sami ætti að koma til Nýja-Sjálands þar sem hann er mjög algengur. Aftur á móti finnst mér aðferðin til að þurrka frekar takmörkuð, garða heyið eftir slátt og velta görðunum til í sólinni í von um að grasið þorni í hitanum, ég myndi nú nota einhverja aðra aðferð eins og til dæmis heyþyrlu auk þess sem ég held að minn besti vinur þistillinn sé ekki góð fóðurjurt, held ég myndi nú frekar velja íslenska snarrót en þistill. Ætla samt ekki að reyna á innflutning þar sem mér yrði örugglega stungið inní fangelsi því innflutningur á landbúnaðarvörum er litinn alvarlegri augum en smygl á fíkniefnum hér í landi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband