Færsluflokkur: Bloggar
11.2.2010 | 20:13
Ísafold, fyrsti hluti af þremur
FRUMVARP til reglugjörðar um að bæta kynferði búpenings í Skagafjarðarsýslu.
Sýslunefndin skal setja þriggja mann nefnd í hverjum hreppi, til þess að hafa nákvæmt eftirlit með bótum á kynferði alls búpenings í Skagafjarðarsýslu og stuðla til þeirra, samkvæmt reglum þeim, er samþykktar verða í því tilliti.
I. Um kynbætur hrossa
1.gr.
Það skulu af nefnd manna í hverjum hreppi árlega á hverju vori valin og merkt með sérstöku brennimarki, hestfolöld til undaneldis, er skulu vera mörg eða fá frá 4-10 eftir stærð hreppsins og hrossafjölda, skal hafa fyrir mark og mið að folöldin séu af sem bestu kynferði ýmist til reiðar eða áburðar, eftir því sem nefndinni er persónulega kunnugt, sem og eftir útliti og afspurn beggja kynferða. Skal við slíkt val taka til greina, lipurð, ganglaf, fjör, hörku, þol, krafta, holdafar, stærð og vaxtarlag m. m. svo sem lit, fríðleika, háralag, háraprýði og hófagjörð o.s.frv.
2.gr.
Þau hestfolöld, sem ekki eru ætluð til undaneldis, skulu geldast svo fljótt sem auðið er, eftir að þau er þriggja nátta. Sleppi hryssa í afrétt annaðhvort áður en hún kastar eða með hestfolaldi, sem á að geldast, svo ekki verði náð til hennar, verður að sæta fyrsta tækifæri til að vana trippið og sjá um að enginn hryssa fái við því, sem getur auðveldlega skeð, ef það verður tvævetur, áður en það er gelt.
3.gr.
Graðfolana skal síðan fara svo með í 3 ár, að ávallt séu þeir í góðum holdum, svo þeir nái sem mestum þroska áður en þeir eru brúkaðir til undaneldis. Þegar folarnir eru þrevetrir, má brúka þá til hryssa, en þó með mestu varkárni hið fyrsta ár, 4-vetra og eldri má árlega ætla þeim að fylja frá 20-30 hryssur, séu þær leiddar til þeirra, en aðeins frá 10-15, ef þeir eru látnir ganga lausir með þeim, sem ekki má eiga sér stað nema eigandi ábyrgist, að þeir gjöri ekki öðrum tjón.
4. gr.
Temja má graðhesta, en brúka gætilega, meðan þeir eru hafðir til undaneldis, og alls ekkert að vorinu meðan leitt er undir þá, eða hryssum hleypt til þeirra.
5. gr.
Graðhestana skal allajafna hafa í gæslu, svo þeir ekki gjöri skaða, hvorki með því að fylja hryssur, er ekki eiga að fá við þeim, né skemma hross, með biti eða höggum. Skal koma þeim á afvikna staði til fjalla til vöktunar yfir sumarið (að sínu leyti eins og nautum), því þeir mega ekki að sumrinu ganga saman við hross í sveit, og ekki heldur sleppa á afrétt.
6.gr.
Hver sá, er á þessa völdu ákveðnu graðhesta, skal hafa rétt til að taka toll eftir þá, svo framarlega sem hann hirðir folana forsvaranlega, er sé frá 1-3 krónur fyrir hverja hryssu, er þeir fylja.
7.gr.
Hryssurnar skulu hafa náð 4 vetra aldri, áður en þeim sé hleypt til graðhesta, svo þær eignist ekki folöld fyrr en 5 vetra, og að því leyti sem folöldunum er ætlað að ganga með hryssunum að vetrinum, sem eflaust er best meðan hvorttveggja er í góðum holdum, þá ætti ekki að hleypa hryssunum til oftar en annaðhvort ár, enda er sú viðkoma nægileg. Þó skal slíkt á ráði kynbótanefndar.
8.gr.
Það skal halda frá öllum ógerðar eða vanmeta hryssum, en ef þær eignast folöld, þá má ekki láta merfolöld lifa undir þeim, því þau geta á sínum tíma spillt kynferðinu.
9.gr.
Svo fóstrið nái sem mestum þroska og verði heilsugott, skal ekki brúka hryssurnar um fengitímann eða þar litlu á eftir, og varast að ofbjóða þeim með brúkun eða öðru hnjaski allan meðgöngutímann. Eins er að forðast að brúka hryssurnar, þegar þær eru með folöldum, í langferðir eða sviptingar.
10. gr.
Það skal hafa sem mestan hemil og yfir höfuð góða hirðing á öllum hrossum og í því skyni gjöra trippi taumvön, þá þau eru 3-4 vetra.
11.gr.
Hver búandi skal eiga rúmgóð hús yfir öll sín hross og hjúa sinna; bresti húsrúm, verður hann að fækka hrossunum.
12.gr.
Hverju hrossi, að undanteknum gjafarhestum, skal að meðaltali ætla 4-5 hestburði af heyi auk moða yfir veturinn, og ver að hagnýta það fóður svo, með góðri hirðingu, að hrossin verði ekki mögur.
13.gr.
Hross skal taka á hús og hey, meðan þau eru í holdum, ef ekki eru líkindi til að þau bjargi sé sjálf yfir veturinn.
14.gr.
Komi lús eða ormar í hross, er einkum á sé stað um ungviði, þegar þau verða mögur, skal tafarlaust fá slíkum óþrifum útrýmt.
Bráðabirgðarákvörðun.
Til þess að reglugjörð þessi komi sem fyrst að tilætluðum notum, skal nú á næsta vori, gelda alla þá fola, er ekki verða valdir sem nauðsynlegir til undaneldis.
Úr tímaritinu Ísafold, september/október 1879. (Annar og þriðji hluti um sauðfé og nautgripi koma seinna)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2010 | 16:05
Blessuð blíðan
Í þessum rituðu orðum eru -7,5°C hér í Ási og hægviðri, 0,3 m/s. Snjódýptin sú sama og undanfarnar vikur eða rétt um 40 cm jafnfallið. Þannig er nú það, ákvað að blogga þar sem ég var að koma úr tíma sem ég græddi lítið á, ljóta tölfræðiforritið þetta R. Græddi lítið á því að mæta þar sem kennarinn var ekki undirbúinn undir að það væri nýrri útgáfa uppsett en leiðbeiningarnar gerðu ráð fyrir og því þarf að gera fullt af nýjum skipunum.
Annars var þorrablót Íslendinganna hér um helgina, tókst það vel, nóg af mat og fullt af fólki. Var ég aðalskotmarkið í annálnum, sem er bara hið besta mál, því fólk sem ekki er gert grín af geri trúlega aldrei neitt. Fór á föstudaginn með Ragnar að sækja Valda sem nemur skógfræði í Svíþjóð til Moss en þangað kom hann með rútu til að komast á þorrablót. Einfaldasta leiðin frá Ås til Moss er eftir hraðbrautinni E6 en á bakleiðinni ákvað Ragnar að fara aðra leið til að sleppa við vegtoll Norðmanna, en þeir eru lunknir við að innheimta slík gjöld.
Þar sem ég rata lítið, treysti ég alfarið á leiðbeiningar Ragnars, þær voru þó ekki betri en svo að honum leist ekkert á blikuna þegar birtist skiltið Hobøl kommune, var okkur þá eitthvað farið að reka af leið og komnir mun austar en við áttum að fara. Við náðum þó að komast á réttu leiðina með því að beygja til Garder og þaðan til Kroer í staðinn fyrir að halda áfram til Elvestad. Var þetta hin besta útsýnisferð um sveitir Noregs, þó aðeins væri farið að skyggja. Eina sem vakti athygli mín var að mæta strætó inní skóg á einbreiðum sveitavegi, átta mig ekki á hvað leið hann var þar.
Annars er bara ósköp lítið að frétta héðan, annað en lærdómur, verð að fara leita að einhverjum skemmtilegum greinum á timarit.is til að setja hér inn. Hef kannski eitthvað betra að segja eftir næstu helgi þegar ég verð búinn að sækja sauðfjárræktarráðstefnuna Avlskonferanse 2010.
Þar til næst, hafið það gott .............
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2010 | 14:49
02-02-10
Það er víst nokkuð um liðið síðan ég ritaði eitthvað hér síðast og ástæðan er ekki sú að ég hafi haft svona mikið að gera heldur þvert á móti ég hef lifað miklu letilífi síðan ég gekk útúr prófinu fyrir rúmri viku. Enda held ég að það sé svolítið dæmigert fyrir þennan skóla að hver önn byrji frekar rólega sem kom sér vel til að geta fylgst almennilega með handboltanum. Tökum bara Frakkana í Malmö eftir tæpt ár og komum með gullpeninginn heim.
En að prófinu sem ég tók, það að taka próf hérna er þó nokkuð meiri vinna en svara bara prófinu, því að skrifa rétt á öll eyðublöðin og raða rétt inní möppu getur nú vafist fyrir manni. Hvíta eintakið fyrir kennara, gula fyrir prófdómara og bleika eintakið fyrir mig sjálfan. Síðan er yfirsetufólkið hér eldri borgarar og þeir eru mjög samviskusamir, passa uppá að öllum reglum sé fylgt í hvívetna. Prófið var gagnapróf og mátti ég vera með allar glósur og verkefni meðferðis, þó svo það stæði skýrt á prófinu spurði allt yfirsetufólkið mitt, Hvað er í möppunni?" og ég svarði gögn sem ég má hafa. Allir spurðu með miklum efasemdartón og þar sem ég var orðinn þreyttur á þessari spurningu sýndi ég þeim póst frá kennaranum sem hann sendi, þar sem stóð svart á hvítu að þetta væri heimilt, þá fyrst hættu þau að spyrja. Meiri tortryggnin þetta alltaf hreint.
Á þriðjudeginum mætti ég í fyrsta tímann minn í fjölbreytugreiningu og líst mér bara bærilega á þann kúrs, þar er margt til umfjöllunar sem gott hefði verið að vera búinn að læra áður en ég tók t.d. BLUP kúrsinn fyrir jól, þó hann hafði svosem gengið ágætlega. Kennarinn þarna nýútskrifaður doktor í tölfræði með gítarmenntun sem aukafag, sagðist þó ekki ætla að nota gítarinn til kennslu í þessu fagi. Nemendurnir mun fleiri en áfanganum sem ég tók í janúar og alls staðar að úr heiminum, held jafnvel að hvíti kynstofninn sé í minnihluta.
Áður en ég mætti í tíma í dreifnigreiningu var ég búinn að móta mér þá skoðun að kennarinn væri eldri maður gráhærður sem talaði frekar rólega af lýsingum annarra að dæma. Annað kom þó á daginn, þvert á móti var hann andstæða lýsingarinnar og nánast ofvirkur, allavega hélt hann athygli manns allan tímann þrátt fyrir að tíminn væri snemma morguns og allir nývaknaðir. Hef allavega skipt um skoðun á tölfræðingum, verst að hann kennir ekki nema í tvær vikur og þá kemur hinn týpíski rólegi kennari sem ég tel alls óvíst að haldi athygli manns svona snemma morguns.
Ég hló innra með mér þegar ég sá frétt þess efnis, að nýlega hefði lokið 22 daga þíðviðriskafla á höfuðborgarsvæðinu í janúar. Hér er enn frost og ég held barasta að það sé ekkert á leiðinni í burtu, allavega hefur hitastigið ekki farið upp fyrir frostmark síðan einhvern tímann fyrir jól. Og vindurinn er ekkert að flýta sé frekar en fyrr daginn, aðeins bæst við af snjó. Hins vegar skilst mér á fréttum að það sé mjög týpískt íslenskt veðurfar víða á vesturströnd Noregs, þar rignir, er rok og jafnvel stórhríð endrum og eins. Ég verð hins vegar voða líði var við slíkt veður hér í Ási.
Best að fara gera eitthvað gáfulegt, til dæmis að læra svona til tilbreytingar þar sem ég hef lítið gert af því nýlega, en ásamt handboltaglápi í síðustu viku, las ég nýjustu bók Arnaldar og horfði á nokkrar klassískar íslenskar bíómyndir eftir Þráinn Bertelsson. Þar til næst hafið það gott .......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2010 | 18:01
Og tíminn flýgur áfram ...
allavega er maður að fara í 60% próf á mánudaginn í Theory and Application of Inbreeding Management sem segir manni að þessi önn sé á enda, eitt verkefni eftir í áfanganum sem á að skilast fyrir 28. febrúar. Á þriðjudaginn byrjar síðan vorönn og það verða nú viðbrigði að sjá fólk á nýjan leik og vera ekki lengur alltaf einn í tíma.
Sennilega myndu samt fæstir velja sér sjálfviljugir þau fög sem ég ætla að fara í, kynbótafræðin verður ábyggilega fín og áhugaverð en ég hef aldrei verið mikið fyrir tölfræði eða tölfræðilega útreikninga. En verður maður ekki að ögra sjálfum sér til að ná settum markmiðum, áskorunin að þessu sinn eru því tveir tölfræðikúrsar, annar í dreifnigreiningu og hinn í fjölbreytugreiningu.
Hugsa að prófið á mánudaginn verði ekki mikið vandamál, þó ég hafi misjafnan áhuga á innihaldi hans, hef takmarkaðan áhuga á erfðatæknilega hlutanum þó hann sé ekki síður mikilvægur. Allavega hef ég lítinn áhuga á markerum og snippum (SNP eða einkirni) og vil eiginlega eftirláta erfðafræðingum að einbeita sér af því. Finnst líka lítið spennandi að hugsa til þess að kynbótastarf framtíðarinnar verði fólgið í því að taka stroksýni með bólmullarpinna og senda það síðan í greiningu hjá rannsóknarstofu. Mun skemmtilegar að skoða, rökræða og hafa smá happdrætti í þessu þegar kynbótagripir eru valdir. Þetta er allavega mín skoðun, það eitt er víst að ég ætla mér ekki að starfa sem hvítsloppungur á rannsóknarstofu í framtíðinni.
Allavega hrósaði kennarinn mér eftir síðasta tímann, eða verður maður ekki að taka því sem hrósi þegar hann segir að vísindin þurfi fleira fólk sem hugsi eins og ég. Spurði mig eftir tímann hvað ég ætlaði að leggja fyrir mig að námi loknu og ég svaraði því til, að ég ætlaði starfa við búskap og væri fyrst og fremst að menntan mig til að hafa meiri þekkingu og þá sagði hann We need more people thinking like you". Burtséð frá því hvort hún muni nokkurn tímann nýtast mér við það sem ég tek mér fyrir hendur.
Annars gengur lífið bara sinn vanagang hér í Noregi, sólin verið heldur feiminn við að sýna sig og því hefur frostið verið ca. 2-5 gráður undanfarna dag og dimmt yfir að líta. Nóg er af snjónum og heldur bæst við hann en vindurinn er ekkert að flýta sér hér frekar en fyrri daginn, spurning hvort maður þurfi að fara í vindaðlögun á einhverjum annesjum þegar maður kemur heim í sumarfrí.
Ætli maður láti þetta ekki gott heita, ætla ekkert að tjá mig um handbolta, tel Íslandi í góðri stöðu enn sem komið er og vona að þeir vinni fyrrum einræðisherra sína á eftir. Best fara leggja til atlögu við eldhúsið og næra sig eitthvað áður en spennan hefst fyrir framan imbann klukkan 20:00 að norskum tíma.
Þar til næst hafið það gott..........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.1.2010 | 16:41
Meira af vexti og vöxtum Norðmanna
Er ekki best að rausa svolítið fyrst er sunnudagur og maður nennir engan veginn að læra. En í framhaldi af vaxtarumræðu í síðustu færslu er rétt að tala aðeins um annarskonar vexti, þ.e. fjármálavexti Norðmanna. Ég hef svosem bloggað um þá áður en þegar ég fór að skoða bankayfirlitið mitt sýnist mér á öllu að Norðmenn séu búnir að nappa af mér hátt í 500 NOK vegna ýmis konar gjalda síðan ég stofnaði bankareikning um miðjan október.
Hér kostar sko allt, færslugjöld þegar borgað er út í búð eru 2,5 NOK, þegar maður millifærir á annan reikning, s.s. húsaleigu kostar það 3 NOK, 2 NOK ef um gíróseðil er að ræða, það eru þó mun manneskjulegri gjöld en að fara í bankann og borga þar, þá er færslugjaldið hátt í 100 NOK. Síðan kostar líka að taka pening út í hraðbanka, ekki nema von að íslenskt bankakerfi hrundi á einni nóttu, þar eru færslugjöld mun minni og að mig minnir ekki í nokkurri líkingu við þessar tölur. Rúsínan í pylsuendanum eru síðan innvextir á bankareikningum, ég fékk heilar 6 NOK í innvexti eða um 120 íslenskar af inneign minni, vaxtaprósetan hér er 0,15%. Allavega fékk ég mun hærri vexti af reikningum mínum á Íslandi.
Það sem þetta segir mér er að Norðmenn reka að öllum líkindum ábyrgt bankakerfi sem er trúlega vel varið fyrir kerfishruni meðan Íslendingar eru enn að læra að reka bankakerfi eftir kerfishrun hins kapítalíska bankakerfis. Hins vegar hlýtur norræna kerfið að vera í anda velferðar, ég ætla þó ekki að mæla með því að Íslendingar api allt upp eftir Norðmönnum, því norska skriffinnskan er alltof mikil. Mælist til þess að menn taki það besta úr báðum kerfum til að byggja upp nýtt íslenskt kerfi.
Annars verð ég voða feginn næsta föstudag þegar síðasti tíminn í HFA304 verður, því það er alveg skelfilegt að vera svona stíft í tímum hjá einum og sama manni, sem í þokkabót er nokkuð mörgum þrepum ofar í þekkingu til að geta miðlað henni almennilega. Við erum allavega mjög oft úti á þekju, ég og Jónatan frá Eþíópíu sem er með mér í tíma. Ég er þó búinn að læra ýmislegt um skyldleikarækt og vona að verkefnið sem verður eftir próf geti orðið hagnýtt.
Talandi um próf þá datt mér í hug að senda tölvupóst í byrjun árs og óska eftir prófdögum fyrir 15 maí í þeim fögum sem tek á vorönninni. Próftaflan kom inn á fimmtudag og vitið menn ég er bara í síðasta prófi 14 maí og næ því sennilega stærri hlutanum af sauðburðinum í vor enda hefði ég orðið vitlaus ef ég hefði þurft að bíða til 26 maí eftir síðasta prófi, maí er nefnilega með of mikið af einskis nýtum frídögum hér í Noregi, uppstigningadagur, hvítasunna og þjóðhátíðadagur. Hvort póstur minn hafði einhver áhrif um dagaval veit ég ekki, veit að verður gott að komast út úr prófunum og heima þar sem þau eru í tölfræði en ég ætla að taka slurk í þeim vísindum í vor enda gengur kynbótafræðin út á að túlka og skilja niðurstöður ýmissa stærð- og tölfræðijafna. Hljómar mjög óspennandi en er í raun mjög skemmtilegt þegar maður skilur hvað maður er að gera.
Ef maður sest fyrir fram sjónvarp núna eru ekkert annað en vetraríþróttir þar á bæ og skíðaganga fremst í flokki, ég vona að Norðmenn breyti aðeins um núna í vikunni og fari að sýna smá handbolta, þó manni verði ekki að ósk sinni um að þeir sýni leiki Íslands, hugsa að ég geti ekki sent póst út af því J, kæri mig ekkert um að horfa bara á leiki norska liðsins, þarf reyna finna út hvernig maður sér leiki Íslands þar sem þeir verða læstir á ruv.is fyrir tölvur utan Íslands.
En þar til næst ... hafið það gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2010 | 10:44
Er ég kannski undarlegur ...
trúlega, enda væri sá maður afskaplega skrýtinn sem hefði ekki sérstök áhugamál. Hef reyndar þó nokkrar áhyggjur af því að skóli og skólakerfi steypi öllum í sama form, þannig að fólk verð einsleitt og þeir sem vilja vera öðruvísi eru strax dæmdir skrýtnir, ofvirkir o.s.frv. Sú var tíðin að hver sveit á Íslandi átti sinn karakter sem hægt var að hafa gaman af vegna hugsanaháttar eða tilsvara, hins vegar hef ég áhyggjur af því að svo verði ekki eftir 2-3 áratugi vegna framangreinds atriðis skólanna að gera alla eins, þeir sem skera sig strax úr hópnum fá lyf eða eru vistaðir á viðeigandi stofnun til að halda einkennum í skefum.
Ástæða þess að ég setti þetta niður á blað er sú að ég fékk orð í eyra frá meðleigjendum mínum í gær þegar ég fann þessa heimasíðu hér með ýmsum veðurfarsupplýsingum um Ás. Spurðu þær hvers vegna ég væri að skoða þetta, veður er sennilega bara eitt af áhugamálum mínum og hefur verið frá æsku enda veðurathugunarstöð verið þar frá því ég var 8 ára. Þó sumir gestkomandi í Ásgarði hafi haldið að veðurstöðin væri fuglahús.
En hvað um það, í gær komst ég líka að því að gönguskíðaiðkun er bara fyrir dverga ekki stóra Íslendinga eins og mig. Fór semsagt á gönguskíðaleigu Siås og ætlaði að leigja mér skíði til að prufa þetta sport en nei þar var stærsta stærð af skóm svona þremur númerum og lítil á mína stóru fætur. Svo ég hugsa að ég láti þetta sport eiga sig, venjuleg ganga með tveimur jafnfljótum verður mitt sport í vetur og er bara fínasta hreyfing. Almennt eru Norðmenn þokkalega stórir og að jafnaði stærri en Nýsjálendingar en ég er sennilega bara of stór fyrir Noreg eins og ég var fyrir Nýja-Sjáland, samanber þessa tæplega tveggja ára gömlu færslu.
Annars hefur heldur dregið úr frostinu hér í Noregi og bara svona þægilega kalt hér núna, á bilinu 5 til 10 stiga frost. Sveiflan frá síðustu viku er samt næstum því eins og á sólarströnd, allavega er svefnherbergisglugginn ekki lengur hélaður að innan á morgnana. En að öðru, hef tvisvar síðustu vikuna farið í kaffiteríuna í Husdyrfag í hádeginu þar sem ég mæti stundum rúmlega 9 og er til 3 á daginn og ekki nennt að taka með mér nesti. Þar er t.d. boðið uppá vinsælt meðlæti Norðmanna, vöfflur sem eru góðar og standa alltaf fyrir sínu með rabbbarasultu og rjóma á Íslandi. Í grandavaraleysi mínu setti ég það sama og flestir Norðmenn á vöfflur í fyrra skiptið sem ég fór í kaffiteríuna og það geri ég ekki aftur, hverjum datt í hug að setja sýrðan rjóma á vöfflur ... ég bara spyr. Enn eitt dæmið um undarlegheit Norðmanna.
Best að fara undirbúa sig undir fyrirlestur dagsins sem mér sýnist á öllu að verði um hvernig lámarka eigi skyldleikarækt með því að velja foreldra saman hjá skoska kennaranum mínum, sem mér þótti heldur betur undarlegur eftir fyrsta tímann minn hjá honum. Hef hins vegar komist af því að það er kækur hjá honum að leggjast fram á borðið og liggja hálfhreyfingarlaus í smá tíma. En þar til næst hafið það gott.................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2010 | 21:29
10-01-10
Ferðin gekk ágætlega hingað út nema árans konan í Leifsstöð lét mig borga yfirvigt á farangurinn minn, ég sætti mig nú við það þar sem hann var að mestu leiti íslenskur matur svona svo maður geti eldað almennilegar máltíðir öðru hvoru fram á vor. Hins vegar er veðrið mjög falllegt hér, þó það sé kalt að labba í skólanna núna. Hér hreifir allavega ekki vind mjög mikið, enda ef það gerðist yrði mikil bylur, þar sem að hér er ≈50 cm jafnfallinn snjór yfir öllu.
Áfangarnir fyrir jól gengu alveg bærilega, hlaut ég B í meðaleinkunn fyrir þessa fyrri önn mína hér í Noregi. Enda stendur B fyrir margt gott í lífinu. Í prófunum tveimur sem voru 5 einingar hvort fékk ég C en í stóra verkefnaáfanganum, 10 einingar, þar sem ég var m.a. að læra BLUP útreikninga hlaut ég A. Þó ég segi sjálfur frá er ég nokkuð ánægður með það, þar sem ég var sá eini sem hlaut þá einkunn.
Núna er ég í einum áfanga í janúarblokk sem fjallar um skyldleikarækt, 10 eininga áfangi þar sem kennsla klárast 22 janúar, próf 25 janúar og þá byrjar ný önn. Það sem mér finnst hins vegar merkilegt við þennan áfanga er að kennarinn kemur frá Skotlandi til að kenna sárafáum einstaklingum, var einn í tíma á fimmtudag. Á föstudaginn vorum við helmingi fleiri, veit ekki hvernig það verður á morgun, erum 5 skráð í þennan áfanga. Í byrjun fimmtudagstímans var ég einn í stofunni, svo kemur kennarinn eftir smá stund, ég hélt áfram að vinna í tölvunni í smá tíma, þegar ég lít síðan upp blasir kennarinn liggjandi fram á kennaraborðið hreyfingarlaus, mér varð nú hálf bilt við þetta og íhugaði augnablik að fara fram og fá hjálp en þá reis hann upp aftur, lét ég þá líða smá tíma og lét vita af mér. Hann sagði þá: Svo þú er einn af þessum fáu nemendum mínum".
Annars leið jólafríið of fljótt, dvaldist ég mestan tíma þess í fjárhúsunum við gjafir og önnur þau verk sem þar þarf að vinna á þessum árstíma. Sæddi frekar fáar ær þetta árið, voru fáar að ganga og stærri hluti þeirra gekk upp enda sæddi ég flestar með dagsgömlu sæði, þar sem fleiri ær voru að ganga þann daginn. Ætti þó að fá lömb undan Hróa í vor, jafnvel Kjark, Karli, At og Raft ef þessi eina kind sem eftir er undan hverjum heldur.
Síðan vona ég að Norðmönnum þóknist að prófa mig tímanlega í maí svo ég komist heim í sauðburð um miðjan mánuð en uppúr þeim tíma ber stærri hlutinn af ánum á vikutíma. Vona innilega að síðasta próf mitt verði 14 maí, kemur í ljós í þessari viku, verst að geta ekki haft eins mikil áhrif á prófdaga hér eins og þegar maður var á Hvanneyri. Verð bara reyna senda þeim hugboð.
En þangað til næst hafið það gott, endilega kvittið .........................
Nokkrar myndir úr vetrarríkinu hér úti: Inngangurinn að íbúðinni minni í vetrarríki. Séð frá einum af gatnamótunum í Ási á leiðinni heim og síðan skilti hlaðið lausamjöll, tel afar ólíklegt að snjór geti stoppað í hálfan mánuð á íslenskum skiltum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2009 | 21:06
Jólafrí
Jæja, þá er þessari fyrstu önn minni lokið hér við UMB. Alltaf gott að þegar eitthvað tekur enda, sérstaklega ný og krefjandi verkefni eins og þetta að nema utan Íslands. Skilaði löngu annarverkefni í HFA301 sem var námsmatið í þeim áfanga, einar 14 blaðsíður, hefði getað verið mun lengri en ekki leggjandi á nokkurn mann að lesa svo mikið um BLUP útreikninga. En ég get þó sagt að þetta var lærdómsríkur áfangi, eftir fyrsta tímann 1. september sl. langaði mig nú bara að skrá mig úr honum, þetta var svoddan latína fyrir mér, en þetta hafðist allt saman og ég mun telja mér trú um þar til annað kemur í ljós að ég fái ágæta einkunn, allavega samanborið við sum önnur verkefni. En þau voru líka um fiskakynbætur, ég er ekkert inní þeirri búgrein.
Það er hins vegar alveg merkilegt hvað maður fær aðra innsýn á suma hluti hér úti, hér er allur búskapur jafn, svín, kjúklingur, mjólk o.s.frv., meðan mér finnst margir Íslendingar tala þeim tóni að aðeins mjólk og kindur séu landbúnaður á Íslandi. Sannar sennilega þá kenningu mína að helsta ógn íslensks landbúnaðar er vanþekking Íslendinga á honum. Ástæðan fyrir þessu jafnræði hér er eflaust sú að Norðmenn er sjálfbærir um alla sína matvælaframleiðslu, það þurfa Íslendingar líka að verða, vonandi verður það eftir 20 ár. Það gerist hins vegar ekki með því andrúmslofti sem er heima og áróðri sem verið hefur undanfarin ár um að leggja íslenskan landbúnað niður vegna þess að hann sé óhagkvæmur, ég held að nær væri að leggja niður alla þá fræðinga sem sífellt eru að blaðra í útvarpið um að svo sé. (Lesist, flest allir hagfræðingar sem veita álit í fréttum og jafnvel sumir ráðherrar)
En nóg um pólitík, á þriðjudaginn mætti ég í mitt fyrsta próf hér úti, 3 ½ tíma próf í línulegri algebru, hér eru prófin í þríritum og verður maður að svar með kúlupenna og skrifa nokkuð fast svo lausnin sjáist á öllum eyðublöðum. Síðan þarf að sortera þetta allt rétt í hverja möppu fyrir sig, prófið gekk ágætlega að mínu mati og var ég fyrstur út, sem ég taldi mjög óeðlilegt þar sem ég var útlendingurinn í hópnum, sennileg skýring er að annað hvort er ég svona gáfaður eða Norðmenn lengi að skrifa.
Í gær mætti ég síðan í síðasta prófið, munnlegt próf í líffræðilegum gildum búfjárkynbóta. Prófið fór þannig fram að ég hafið lista yfir 13 mögulega spurningar sem ég gat dregið og síðan átti ég að tala um þessa spurning í hálftíma. Spurningin sem ég dró var um slátur- og kjötgæði, held ég að mér hafi tekist að svara henni allbærilega á minni fínu jollísku (sambland af ensku, norsku og táknmáli). Í lok prófsins spurði sensorinn mig hvort Magnús Jónsson og Sveinn Hallgrímsson væru ekki enn á Hvanneyri og ég þekkti þá, ég hélt það nú og sagði að það væri mjög gaman að fara í kaffi til Sveins. Urðu þau öll hálfhissa þarna inni og sagði Trygve Gjedrem (sensor) mér þá að hann hefði unnið með báðum á sínum tíma, ég sagði þá sem svo að það væri langur tími síðan þeir hefðu verið hér, eitthvað um 50 ára. Vangan, kennarinn var þá fljótur að leiðrétta og segja að Magnús hefði verið um 1970, hann hefði deilt með honum skrifstofu. Einn sem ekki vildi viðurkenna að hann væri svo gamall.
Hélt síðan uppá próflok í gær með því að skreppa í smá verslunarleiðangur til SKI og fá mér að borða á Kebabstaðnum sem þar er. Ligg síðan afvelta hér í sófanum eftir þríréttað veislumáltíð hjá Ingrid hér á efri hæðinni, en hún bauð okkur þremur hér í kjallaranum í mat.
Síðan er það bara Ísland á morgun og verð á klakanum til 6. janúar en þá byrjar baráttan á nýja leik hér úti. Ætla því að óska öllum lesendum þessarar síðu gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, skrifa hér inn aftur þegar ég mæti til Noregs á nýja leik eftir um fjórar vikur .................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.11.2009 | 14:13
Þetta er einn af þessum dögum
sem maður kemur ekki nokkrum sköpuðum hlut í verk, finnst þeir reyndar vera orðnir full margir hér úti en þetta er kannski svona í mastersnámi, maður kemst ekki heim til sín um helgar og verður því að finna eitthvað annað sér til dundurs. En nú þarf að fara læra, styttist í þessi próf sem ég fer í og það þýðir enn styttri tími í lendingu í Keflavík.
Sit þessa stundina og horfi á sjónvarpið með öðru auganu, þar er (gríðarlega spennandi) heimildarmynd í gangi, búinn að vera síðan 11 í morgun en í tilefni af 100 ára afmæli Bergenlestarinn milli Bergen og Osló var gerð heimildarmynd sem sýnir ferðalagið í rauntíma. Afskaplega sérstakt sjónvarpsefni, ég segi nú ekki meira. Sennilega svipað og ef Íslendingar gerðu heimildarmynd um strandsiglingar Eimskips.
Sem sauðfjárræktaráhugamaður fór ég að skoða heimasíðu Norsk Sau og Geit og fann þar norsku hrútaskránna, hún er mun viðameiri en sú íslenska sem prýðir sennilega náttborðin hjá flestum sauðfjárbændum þessa dagana. Jólabókin í ár. En fyrir þá sem langar að skoða þá norsku þá má finna hana hér http://www.nsgsemin.no/files/katalog_ver/seminkatalog_2009.pdf Norðmenn eru líka mun frumlegri í hrútanöfnum.
Síðan fór ég að spá í einu núna eftir að fréttir að hruni Dubai komu í liðinni viku. Ef manni dytti í hug að taka út alla peninga í heiminum sem taldir eru sem eign, væri það hægt. Hvað ætli sé stór hluti af hagkerfi heimsins það sem ég kalla froðuhagkerfi, uppþembdir peningar sem aðeins eru tölur á blaði? Held það sé mun hærra hlutfall en nokkur maður getur gert sér í hugarlund og þá spyr maður er eðlilegt að hagkerfi séu svona uppbyggð? Ef einhver hefur svör við þessu má hann gjarnan svara þessu ....
Síðan er það þetta blessað íslenska lífeyrissjóðakerfi, þarna eru heilu gullkisturnar sem ekkert má hreyfa við. Ég hef aldrei verið spurður um það hvort megi höndla með mína peninga í einhverjar áhættufjárfestingar til að ávaxta pening með misjöfnum árangri. Af hverju er ekki bara gegnumstreymiskerfi á Íslandi, þar sem þeir sem njóta ellilífeyris fái þann pening frá þeim sem eru vinnandi hverju sinni, í stað þess að leggja þetta í eitthvert gullsjóðakerfi sem fæstir skilja eitthvað í. Hvað er líka málið með að vera með þrjátíu og eitthvað lífeyrissjóð á Íslandi, væri ekki nær að vera bara með einn? Spurning um að stofna sinn eigin lífeyrissjóð til að höndla með þessa peninga sína. Maður væri þó viss um að fá peningana alla til baka í lokin, eða þá að einhver annar nákominn manni fengi þá. Hef aldrei skilið þetta kerfi og mun sennilega seint skilja það.
Best að hætta þessari þvælu og fara gera eitthvað að viti .................... lestin er kominn í Store Haremo göngin ætti að vera kominn til Osló eftir rúman klukkutíma .................... talandi um spennandi sjónvarpsefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.11.2009 | 16:12
Er ég Íslendingur?
já það er ég, þó ég búi um stundar sakir í ríkasta landi heims, með besta velferðarkerfi, að sögn heimamanna.
Ég fór að hugsa um þetta eftir að koma fréttainnskot frá Íslandi hér í norskum fjölmiðlum um helgina. Má nálgast það hér.
Þó alltaf megi vekja málstað á kreppunni þá fannst mér þetta svolítið mikið ýkt og velti því fyrir mér í þágu hverra starfa fjölmiðlar. Svona neikvæðar fréttir eru ekki beint uppörvandi, þær ýta undir neikvæða hugsun sem leiðir bara til meira volæðis. Kannski virkar þetta á útlendinga að þeir finni til með okkur en ég leyfi mér samt að efast um það.
Höldum þeirri staðreynd til haga að sem þjóð fórum við framúr sjálfum okkur og flestir tóku óbeint þátt í því, þó höfuðpaurarnir virðist ætla sleppa létt frá því. Kannski vegna þess að þeir kunnu að fara eins og kettir í kringum heita graut gallaðra tilskipanna frá einka- og sérhagsmunaklúbbnum í Brussel, sem ætlar síðan að þvinga okkur til borga þar sem þeir vilja ekki viðurkenna mistök sín á gölluðum hugmyndum sínum.
Íslendingar sem þjóð eiga nú að hafa þor til að hafna Ísbjörginni og síðan koma sér út úr þeim fíflaskap sem fylgir því, að kanna hvað er í boði hjá spillta klúbbnum í Brussel. Hef aldrei haft trú á svona ríkjabandalögum og velti því fyrir mér hvort þeir sem sækja það stífast að komast í þennan klúbb sé ekki fólkið sem nennir ekki að gera neitt, vilji helst sitja á fínum kaffihúsum alla daga og þamba latte og treysta á að allt sé rétt sem gerist inná kontór ESB handan við hornið. (ESB borga fólki nú þegar fyrir að gera hlutina ekki vegna þessa að það er óhagkvæmt, hversu gáfulegt sem það nú er!) Í þeirri fræðigrein sem ég legg nú stund á væri þetta fólk sennilega kallað úrkynjaði stofninn, allavega væri hann ekki nýttur til frekari kynbóta.
Stöndum því í lappirnar sem þjóð, vinnum saman, tækifærið er núna, fyrsta og langstærsta skrefið í því er jákvæð hugsun og leyfa engri neikvæðri hugsun að komast að. Einnig skora ég á fjölmiðla að hætta þessum volæðisfréttum dag eftir dag, flytja frekar jákvæðar og skemmtilegar fréttir. Það er erfitt ástand núna, en því fylgir sú áskorun að rétta það við og þetta fer allt einhvern veginn fyrir rest, VEL ef við höldum okkur fjarri spillta klúbbnum, ILLA ef við ánetjumst honum og leyfum honum að ráða öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Rafraus Eyjólfs
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar