Að velja brundhrút

Fyrir 157 árum og einum mánuði betur uppá dag birtist grein í ritinu Bóndi, læt hana fljóta hér.

FÁEINAR RELGUR UM FJÁRHÚSABYGGINU OG SAUÐFJÁRRÆKT

~2. grein um að velja brundhrút~
Hver sá, sem vill koma sér upp vænu og kyngóðu fé, verður með mikilli alúð og nákvæmni að velja sér brundhrút; þarf hann þá að þekkja grant allar ær sínar, svo hann getið valið hrútana undan þeim vænstu; ekki má hrútsmóðir vera eldri en 5 vetra þegar hrút skal velja, nema hún sé afbragð að öllu leiti, og ekki yngri en 3 vetur. Hrútamæður eiga að vera stórar og vel vaxnar, holdsamar og kviðgóðar, vel ullaðar og góðar mjólkurær, af kvillalausu kyni, þær skulu og vera stórspenar. Þegar ær fara að bera á vorin, skal fjármaður skoða nákvæmlega öll hrútlömbin. Þau, sem finnast vera brúnslétt, eða hafa slétta og skarðalausa bringu, þegar þau eru nýborin, munu verða holdsöm við aldurinn, ef þau fá gott uppeldi. Þessi einkenni eiga að vera á fallegum brundhrút; hann á að hafa stórt höfuð, nokkuð langa snoppu, breitt enni, þykkar nasir, stór, svört og fjörleg augu, langan og digran háls, sívalan búk og mikinn kvið, hann skal vera framhár og söðulbakaður, með digrar fætur, stóran, síðan og loðinn pung, ekki hokinn í mjöðmum; hann á eftir útliti að dæma, að vera hraustlegur og svara sér sem best á allan vöxt. Alvarlega skulu menn gæta þess, að brundhrútur sé af kvillalausu kyni í báðar ættir, því það eru ýmsir sjúkleikar, sem leggjast í ættir, t.a.m. höfuðsótt, sem svo er mjög ættgeng, að þótt ekki beri á henni í fyrsta og öðrum lið, þá getur hún komið fram í þriðja og fjórða lið; sama er að segja um bólgusótt (þvagteppu), lungnabólgu, sullaveiki og margar algenga fjárkvilla. Ekki skal heldur velja fjársauð (brundhrút) undan einspena á, eða þeirri, sem undir hefur hlaupið, því júgurmein eða undirhlaup getur orðið ættgengur kvilli. Þegar lömbin fara að stálpast, verða menn oft að skoða þau nákvæmlega, taka á þeim og líta eftir vaxtarlagi þeirra og bringulögun; bringan á að vera næstum jafnbreið fram í gegn, slétt með skarðalausar brúnir, útslegnum geislungum og fremur stutt aftur. Líka eiga menn vandlega að taka eftir ullalaginu; þau lömb, sem hafa stóran hrokkinn lagð, þá þau eru nýborin, verða oftast ullmikil með aldrinum; þegar hrútlömb hafa mjúka og smáflókna ull (er kiðlar) í hnakka og vöngum og sé kviðurinn, allir nárar og pungurinn vel loðinn með þykkri og mjúkri ull þá verða það eflaust ullgóðir sauðir. Vilji menn stuðla til að féð verði hvítt, þá verður brudhrútur að vera hvítur og af hvítu kyni í báðar ættir; má hann hvorki hafa svarta dropa á snoppu eða eyrum, né heldur svarta geira í hornum eða klaufum; því hafi hann eitthvað af þessu þá er hætt við að undan honum komi mislitt. Lömb þau, sem hafa stríhærða og heldur litla ull á mölum, þótt þau séu all ullgóð að framan, verða ekki ullgóð með aldrinum; séu lömb skjallhvít og geithærð í framan, þá mun búkurinn líka verða hríshærður. Það er órækt merki á ullgóðu fé, að þegar það er rúið, hafi það annars gengið vel undan, þá er nýja ullin vel þétt og eintómt þel; en sé mikið af illhærum og löngu ljótu togi, er menn kalla hortog, út úr nýju ullinni á fé því, sem er í góðum holdum og vel fyllt, þá er það merki um vonda ull. Það er gerandi að lára 2 eða 3 afbragðsvænar ær fá svo sem rúmri viku fyrir venjulega fengitíð, en þá þurfa þær að eiga vel gott þegar kemur fram á útmánuði; fái maður nú fallegan hrút undan einhverri þeirra, þá ætti hún að ganga með dilk, ætli maður sér hann fyrir brundhrút; en þó er það varasamt þar sem hrútum og sauðum er hætt við bólgusótt, því dilkum þykir öllu hættara við henni en öðrum lömbum.
 
Úr ritinu Bóndi 1. blað 13. dag febrúarmánaðar 1851
 
Margt af þessu á við enn þann dag í dag þó þetta sé nú kannski ekki sú forgangsröðun sem maður lærir í kynbótafræði í dag. Finnst samt að taka mætti eitthvað þessum lýsingum aftur upp í hrútaskrá því þarna er fjölbreytt úrval góðra lýsingarorða. 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband