Umhverfishagfræði

Var að leysa þetta verkefni í umhverfishagfræði:

Veljið umhverfisvandamál að eigin vali.
-    Fjallið um hvers eðlis vandamálið er.
-    Leggið til lausn á vandamálinu. Rökstyðjið vandlega val ykkar á lausn.
-    Fjallið vandlega um þær forsendur sem þurfa að liggja til grundvallar til að fullyrða megi að þín lausn tryggi þjóðhagslega hagkvæmustu niðurstöðu.
-    Fjallið vandlega um helstu kosti og veikleika þeirrar lausnar sem þú hefur stungið uppá.

Og hér er lausn mín á verkefninu:
Umhverfisvandamál það sem ég ætla taka til umfjöllunar í verkefni þessu er fuglategundin álft. Trúlega finnst mörgum það reyndar skrítið að tala um álft sem umhverfisvandamál en sem manni uppöldum í sveit finnst mér það ljóst að af henni stafar mikil mengun. Sem miklum hrokagikk gæti ég sett fram þau rök að forsenda mengunar er aðallega upplifun mín á álftinni, því á mig virkar hún sem stór og ljótur fugl sem framkvæmir mikinn hávaða auk þess sem hún er mjög ógnvekjandi þegar maður mætir henni augliti til auglitis. Ekki taka allir undir þessi sjónarmið enda eru þau ekki vísindalega fram sett né myndu falla í góðan jarðveg þeirra sem ekki líta á álftina sem vandamál.
Vandamálið felst í því að á undanförnum árum hefur orðið sú breyting í íslensku vistkerfi að álftir sækja í stórauknu mæli í ræktunarlönd bænda. Bændur telja að álftum hafi fjölgað gríðarlega en ég hef ekki rekist á neinar rannsóknir sem styðja þær kenningar, en ég held líka að lítið sé gert í slíkum rannsóknum. Sá skaði sem álftir valda í ræktarlöndum er umtalsverður því hún skemmir tún og nýræktir ásamt því að eyðileggja korn- og grænfóðurakra að hausti. Ásamt þessu get ég nefnt tvo galla sem ekki hafa verið sannaðir með vísindalegum aðferðum, annan hef ég heyrt nokkra bændur nefna en það er að álftin getur borið smitsjúkdóma milli svæða, sem er sérstaklega varhugavert fyrir sauðfjárbændur. Heima hjá mér hefur ekki verið hægt að beita lömbum á það hólf sem álftinni finnst best að dvelja í, vegna þess að tíðni lambadauða að hausti vegna garnapestar jókst mikið 3-4 árum eftir að álftin fór að gera sig heimakomna. Hitt atriðið er skíturinn úr álftinni sem vill blandast í það fóður sem seinna er verkað af spildunni sem hún hefur gert ránsferð um fyrr um vorið. Síðasta vetur bar mikið á skitu í ánum heima. Var þá farið að passa uppá að sópa garðann þegar ærnar voru búnar að éta mestallt upp þannig að þær næðu ekki að narta í þá úrvalsfæðu sem skíturinn er en við það hætti skitan með öllu. Hvort samhengi sé þarna á milli er ekki hægt að sanna nema fram fari rannsókn.
En álftin er friðuð og þegar ég kannaði með hvaða rökum það var gert komst ég að athyglisverðri niðurstöðu. Í Alþingistíðindum 1913 segir: „Svanurinn er hin mesta prýði í íslensku fuglalífi, nytjar hans munu mestar í fjaðratöku og þær nytjar vaxa við friðunina, nytjar á drápi fuglsins sjálfs eru svo litlar, að þeirra vegna verður friðunin að teljast fyllilega rjettmæt. Þess ber og að geta, að sje svanurinn friðaður, mun hann verða spakari og algengari, verða víðar til yndis og prýði“. Semsagt hún er ekki friðuð vegna þess að stofninn sé of lítill heldur vegna þess að álftin sé fagur og tignarlegur fugl. Skv. nýlegri fuglahandbók er stofnstærðin 15.000 – 19.000 fuglar og virk varppör á landinu um 2.500.
Úrlausn mín á þessu vandamáli er því sú að aflétta friðun hennar á ákveðnum árstíma og heimila veiðar á henni, sérstaklega geldfugli. Skv. hagfræðinni myndi þessi lausn flokkast sem besta lausn eða hagkvæmasta magn mengunar þar sem hagstaða þolanda og geranda mætast þannig að báðir hagnist á því.
Lausnin felst í því að setja á veiðitoll, þ.e. að leyft verði að veiða X marga fugla á ári. Til að fá veiðirétt þyrfti að borga veiðigjald svipað því sem tíðkast við hreindýraveiðar. Tekjurnar af veiðigjaldinu mætti nota svipað og hjá hreindýrum þar sem það er þrískipt. Hluti þess myndi þá standa undir kostnaði við eftirlit og stjórn álftaveiða, annar hluti vegna vöktunar á álftum til að ákveða veiðiþol og þriðji hlutinn til greiðslu hæfilegs arðs til þeirra sem verða fyrir búsifjum vegna ágangs álfta eða þá til rannsókna á stofninum í heild sinni.
Þessa lausn tel ég vera þjóðhagslega hagkvæma því eins og gefur að skilja finnst mér ekki réttlætanlegt að friða fugl einungis vegna þess að hann sé fríður á að líta. Einnig er ekki réttlátt að veiða fuglinn vegna þess eins að hann veldur tjóni en með þessari lausn er komið til móts við alla aðila, menn fá að veiða fuglinn, hægt verður að stunda rannsóknir sem sanna með óyggjandi hætti kosti og galla þess að veiða fuglinn og þeir sem verða fyrir miklu tjóni vegna ágangs hans fengju bætur greiddar.
Þessa lausn tel ég mjög góða en útfærsla hennar þarf að vera góð til þess að hún verði skilvirk. Einhvern veginn þarf að úthluta veiðikvótanum og teldi ég að allir bændur ættu að hafa aðgang að þeim potti, þeir sem ekki kærðu sig um veiðar gætu þá framselt rétt sinn til þeirra sem áhugann hefðu, svipað og skilvirk kvótakerfi við fiskveiðistjórnun og mjólkurframleiðslu gera. Menn mun síðan alltaf deila um það hvort kerfið sé réttlátt.
Nú kunna margir að spyrja sig þeirrar spurning og hvað á svo að gera við alla fuglana sem verða drepnir? Þá á að nýta til átu því þetta eru stórir fuglar sem gefa af sér mikinn mat, en fróðir menn segja mér að hver fugl skili um 3 kg af kjöti sem er á við vænt lambslæri. Þetta er einnig sáraeinfalt í eldamennsku og herramannsmatur. Heimildamanni mínum þótti ungfuglinn bestur steiktur á pönnu borinn fram með brúnni sósu, kartöflum og rabarbarasultu. Ef maður væri svo óheppinna að lenda á eldri fugli mun vera einfaldast að hakka kjötið og búa til kjötbollur. Sá möguleiki að nýta kjötið opnar á fleiri tækifæri í menningartengdri ferðaþjónustu til sveita, ég sé t.d. fyrir mér að ferðamenn geti komist í veiði og svo fengið steikina framreidda um kvöldið. Góður tekjumöguleiki fyrir íbúa hinna dreifðu byggða en auk þess væri hægt að selja kjötið á veitingahús á góðu verði. Hér er því um algjörlega arðbær viðskipti að ræða því það sem leggja þyrfti til í veiðigjald skilaði sér til baka í verðmæti afurðarinnar. Handverksfólk gæti svo nýtt fjaðrirnar í eitthvað líkt og áður var gert þegar þær voru aðalnytjar fuglsins.
Ég hef hér að framan fjallað um umhverfisvandamálið álft og tel þá úrlausn sem ég kom með fyllilega standast tímans tönn. Ég tel að gaman væri að senda hana til umhverfisráðuneytisins og sjá hvað viðbrögð ég fengi því búnaðarþing bænda hefur ályktað tvisvar um ágang álfta en viðbrögð umhverfisráðuneytisins hafa verið frekar þunglamaleg. Ástæðan er held ég sú að skortur er á rannsóknum, en þessi lausn tryggir fjármagn til þeirra ásamt því að hún felur í sér nýja sjálfbæra aukabúgrein um hinar dreifðu byggðir landsins.

Fyrir þetta verkefni fékk ég einkunnina 9,0.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef heyrt að gamlar álftir séu svo seigar að jafnvel hakkavélar vinni ekki á þeim... en langar hins vegar mjög að smakka ungfugl! Fínasta verkefni hjá þér, ég hafði ekki gert mér grein fyrir að það væru ekki betur rökstuddar ástæður fyrir friðuninnni en að álftin sé falleg. Hins vegar er ég ekki sammála þér um að álftin sé ljótur fugl, mér finnst hún mjög falleg.  

Sigga systir (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 07:00

2 identicon

Skora á þig að senda þetta til umhverfisráðuneytisins. Mér finnst reyndar álftin vera tígnalegur og fallegur fugl en ég skil mjög vel sjónarmið þitt, það er ekki mjög gaman að stand auglitis til auglitis við álft í árásarhug....hehe

Gagga systir (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 17:48

3 identicon

Heyr heyr

Auðvitað á að veiða álftina,þetta er góður og FALLEGUR matur

Ef gamlir fuglar eru of seigir í mannamat þá má búa til dýrafóður úr þeim

Núna eigum við að borða íslenskt,allir  farfuglar sem við ölum upp eru veiddir og étnir útí heimi

Við eigum að fara að nota það sem landið fæðir og gefa íslendingum og túristum að borða

Setja kvóta á og passa vel að einkavinir auðmanna verði ekki ríkir á þessu

Ása (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 18:08

4 identicon

Sæll og gleðilegt árið.

Eitt sinn fékk ég uppskrift að því hvernig ætti að elda gamla seiga álft, hún var svona

Settu álftina í pott ásamt vænu grjóti(steini). Láttu malla í pottinum í c.a. 24 tíma. Að því loknu skaltu henda álftinni óg éta grjótið :)

Vaggi (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 21:39

5 Smámynd: Eyjólfur Sturlaugsson

Áhugaverð lesning og þörf umræða.

kv.

Lói

Eyjólfur Sturlaugsson, 7.1.2009 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Rafraus Eyjólfs

Höfundur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í námi við Universitetet for miljø- og biovitenskap.

E-mail: eyjolfuringvi(hjá)gmail.com

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 37426

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband